Tengt Siglufirði
14. nóvember 2018 | Minningargreinar mbl.is
Aðalbjörn Heiðar Þorsteinsson, alltaf kallaður Heiðar, fæddist á Siglufirði 15. apríl 1935. Hann lést á heilsugæslu Suðurnesja 24. október 2018.
Foreldrar hans voru Guðbjörg Valdadóttir, f. 1914, d. 2007, og Þorsteinn Z. Aðalbjörnsson, f. 1912, d. 1981.
Systkini hans eru:
Eftirlifandi eiginkona Heiðars er Ingibjörg Anna Gísladóttir, f. 15. júní 1935, frá Miðhúsum í Garði. Foreldrar Ingibjargar voru Ingibjörg Þorgerður Guðmundsdóttir, f. 1898, d. 1936, og Gísli Matthías Sigurðsson, f. 1895, d. 1982.
Ingibjörg Anna fór ung í fóstur í Nýjabæ í Garði. Fósturforeldrar hennar voru Dagbjört Jónsdóttir, f. 1894, d. 1964, og Einar Helgason, f. 1894, d. 1982. Fósturbróðir hennar var Þorsteinn Ingi, f. 1926, d. 1992.
Synir Heiðars og Ingibjargar eru:
Heiðar ólst upp á Siglufirði, gekk þar í skóla og stundaði íþróttir. Í ársbyrjun 1954 fór hann á vertíð suður í Garði. Þar lágu leiðir þeirra Ingibjargar Önnu og hans saman. Aðaláhugamálið hans Heiðars var knattspyrnufélagið Víðir, hann fór fljótt í stjórn og var gjaldkeri fyrir félagið í 17 ár. Hann var mikill safnari og safnaði meðal annars frímerkjum, umslögum og myndum. En hann hafði mikinn áhuga á fuglum frá barnsaldri.
Útför hans fór
fram í kyrrþey frá Útskálakirkju 2. nóvember 2018.
---------------------------------------------------
Kveðja frá Knattspyrnufélaginu Víði
Heiðar Þorsteinsson heiðursfélagi Víðis er látinn og stórt skarð er höggvið í hóp félagsmanna.
Heiðar var gjaldkeri Víðis hátt í tvo áratugi, nánar tiltekið 16 ár, eða frá 1978-1994 og hefur verið stór partur af félaginu alla tíð síðan. Þau ár sem Heiðar var gjaldkeri félagsins var ekki skortur á að reikningar væru greiddir, þrátt fyrir að oft væri hart í ári. Var það þekkt meðal þjálfara að það væri hægt að treysta því ef samið væri við Víði, allt væri greitt á réttum tíma og jafnvel greitt fyrir fram.
Margir hafa nú sagt að eflaust hafi einhverjir reikningar bara verið greiddir af Heiðari sjálfum án þess að hann hafi nokkurn tímann óskað eftir því að fá endurgreitt! Það kæmi ekki á óvart að satt væri, Heiðar hugsaði um félagið eins og sinn eigin rekstur þar sem allt stóðst eins og stafur á bók. Ófáar stundirnar hefur hann lagt félaginu lið á margvíslegan hátt sem aldrei verður fullþakkað. Heiðar kom í Víðishúsið allt árið þar sem hann og nokkrir félagar spiluðu á spil og ræddu fótboltann. Hann var fastur gestur á leikjum félagsins alla tíð og þau 16 ár sem hann var gjaldkeri félagsins missti hann ekki úr heimaleik, tók aldrei sumarfrí þessi ár.
Heiðar var sæmdur gullmerki Víðis á 60 ára afmæli félagsins 1996 og gullmerki KSÍ á 70 ára afmæli Víðis 2006. Heiðar var gerður að heiðursfélaga Víðis 2012.
Nú er komið að kveðjustund og þökkum við Víðisfélagar allt hið mikla og óeigingjarna starf sem Heiðar vann fyrir félagið. Ljúfar minningar um góðan og traustan félaga munu verða okkur að leiðarljósi til öflugra starfs og betra félags.
Víðisfélagar votta eiginkonu og öðrum aðstandendum sína dýpstu samúð með virðingu og þakklæti.
Guð blessi minningu Heiðars Þorsteinssonar.
Fyrir hönd Víðis,
Einar
Jón Pálsson, Guðlaug Sigurðardóttir.
---------------------------------------
Það síðasta sem ég sagði við Heiðar á sjúkrahúsinu í Keflavík var að vinátta hans væri mér mikið verðmæti. Af hverju segi ég þessi orð við mann sem ég kynntist fyrir níu árum? Jú, vegna þess að sumir menn, sumt fólk, er þannig gert að það er eins og maður hafi þekkt það alla ævi þegar þú tekur í hönd þess í fyrsta skipti. Þannig maður var Heiðar Þorsteinsson og reyndar fjölskyldan öll, Ingibjörg og synirnir.
Þegar ég lít til baka og hugsa um samskipti okkar og stundirnar sem við áttum saman á lokasprettinum á efri hæðinni í Varmahlíð rifjast margt upp. Það var gott að sitja með honum og ræða þjóðmálin um leið og ég gat gleymt mér að horfa út um gluggana yfir Út-Garðinn, varirnar og strandlengjuna þar sem fræknir sjómenn höfðu oft við erfiðar aðstæður sótt sjóinn. Það hafði Heiðar gert og þeir Þorsteinn í Nýjabæ, uppeldisbróðir Ingibjargar, gerðu út Vonina GK-113.
Það var góð útgerð og farsæl, þeir gengu í takt í sinni útgerð og vinnslu sem Heiðar stjórnaði að mestu. Fjölskyldan öll, Inga og strákarnir tóku þátt útgerðinni, skáru af netum og gerðu að í landi.
Það var sama hvað Þorsteinn kom með mikinn afla að landi alltaf var búið
að gera að afla gærdagsins þegar nýr fiskur lá inni á gólfi og beið þess að verða flattur og saltaður. Út um suður
gluggann blöstu Útskálar við, prestsetrið
og kirkjan, höfuðból Suðurnesja tengist fjölskyldunni eilífðarböndum trúar og kærleika. Heiðar hvorki flíkaði trú sinni né öðrum persónulegum málum. Hann
var maður orða sinna og verka og frekar gefin fyrir að láta verkin tala. Hann gekk til verka sinna af virðingu við verkefnið, samstarfsfólkið og samfélagið. Það var enginn svikinn af samstarfinu
við hann.
Það er stundum sagt í gamni að vitinn á Garðskaga sé byggðinni í Garðinum skjól í kaldri norðanáttinni sem tekur land á Garðskaga oft í mikilli sveiflu og kulda. Heiðar var eins og Garðskagavitinn, traustur og gegnheill sjálfstæðismaður, skjól fjölskyldunnar og þeirra mörgu sem nutu góðverka hans en fóru ekki hátt. Hann var Víðismaður fram í fingurgóma og mætti á alla leiki og fylgdi sínu liði af ástríðu. Það var ekki aðalmálið í hvaða deild liðið hans var, það var bara eitt lið, Víðir í Garði.
Þannig eru alvöru Víðismenn og þeir gömlu spiluðu brids í Víðishúsinu á föstudagskvöldum, héldu þannig líflínu milli sín og félagsins meðan stætt var. Þeim var ekið á leiki og fengu að sitja í bílum sínum á hliðarlínunni til að fylgjast með, upplifa kraftinn í boltanum, fagna mörkum og dýrmætum sigrum. Þeir þeyttu bílflauturnar af gleði, voru reyndar sigurvegarar allra tíma. Gáfu allt sem þeir áttu af styrk til félagsins og skilja eftir sig skarð sem aldrei verður fyllt.
Ég er þakklátur fyrir dýrmæta vináttu okkar Heiðars sem var reist af trausti, trúnaði og umhyggju fyrir velferð hvor annars. Leikvöllur lífsins verður áfram við gluggana í Varmahlíð og öryggið sem hann skapaði sér og fjölskyldunni verður skjól þeirra meðan minning Heiðars lifir. Á kveðjustundu vottum við Sigga, Ingibjörgu og fjölskyldunni samúð.
Sigríður og Ásmundur Friðriksson.