Hannes Árdal

Morgunblaðið - 05. mars 1972

ENGINN má sköpum renna. Andlátsfregn Hannesar Árdal kom óvænt — okkur setti hljóða, vini hans og kunningja. Það var erfitt að átta sig á því, að þessi fjörmikli og gáskafulli maður væri, af svo mikilli skyndingu, fallinn á bezta aldri, frá komu og mörgum börnum. Okkur varð hugsað til þess, hversu óvænt tjaldið getur fallið — enginn veit hvar punkturinn verður settur í ævisögu hvers eins.

Það er því óvarlegt að ætla, að ætíð sé nægur tími. Ég ætla mér ekki hér að skrifa æviminningu um vin minn, Hannes Árdal, heldur nokkur, því miður fátækleg, orð um hann sem mann — og finnst mér að lýsa megi honum þannig í fáum orðum: Greindur vel, drengur góður, næmur og listrænn, tryggðatröll vinum sinum, en var ekki allra — og fór ekki í felur með það. Hann var fegurðarunnandi fíngerður í lund og viðkvæmur. Þótt líkamsatgervi hafi verið gott frá náttúrunnar hendi, má búast við að lífsbaráttan hafi stundum gengið honum nærri.

Hannes Árdal - Ljósmynd Kristfinnur

Hannes Árdal - Ljósmynd Kristfinnur

Hann  var kappsmaður og ósérhlífinn og fann mjög til ábyrgðar gagnvart sinu barnmarga heimili. Umhyggjan fyrir heimilinu og daglegri björg þess, ásamt framtíðargengi barnanna, var honum ætíð efst í huga. Þótt honum viðkvæma og tilfinninganæma manni hafi kannski oftar en einu sinni verið misboðið, var honum ekki i hug að gefast upp. Jafnan var hann hress og reifur, hvar og hvenær sem maður rakst á hann.

Á gleðifundum var hann hrókur alls fagnaðar. Þrátt fyrir það, að Hannes gleddist allra manna bezt með glöðum, var hann fyrst og fremst umhyggjusamur heimilis faðir. Gestrisni var honum í blóð borin. Vinir hans og kunningjar minnast samverustunda við hann og ánægjustunda á heimili hans, þar sem andrúms loftið var mettað alúð og einlægni. Ég held að Hannes hafi eignazt meiri ítök i þeim, er honum kynntust, en algengt er. Og nú, þegar hann er horfinn, finnst manni að daglegt amstur og annríki hafi um of staðið í vegi fyrir því að rækja vináttu góðs drengs sem skyldi. Engan grunaði að tíminn væri svona naumur. . . .

 

Það er mikið áfall að missa heimilisföður í miðri uppbyggingu frá mörgum börnum. Þó skiptir öllu, að þá bili ekki kjarkur, trú og von. Við hjónin þökkum Hannesi vináttu hans og tryggð — um tuttugu ára skeið — og felum börn hans og eftirlifandi eiginkonu handleiðslu Guðs.

Vigfús Björnsson.