Gunnlaugur Þorfinnsson Jónsson rafvirki

20. október 2003 | Minningargreinar mbl.is

Gunnlaugur Jónsson fæddist á Siglufirði 22. október 1922. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 15. október síðastliðinn.
Foreldrar hans voru

 • Jón Gunnlaugsson, f. 7. febrúar 1894, d. 28. febrúar 1961, og
 • Sigurjóna G. Einarsdóttir, f. 22. ágúst 1900, d. 11. janúar 1991.

Systir Gunnlaugs var

 • Anna Jónsdóttir, f. 21. apríl 1920, d. 21. september 2002,
 • og hálfbróðir samfeðra
 • Agnar B. Jónsson, f. 12. febrúar 1937.
 • Uppeldissystir hans er 
 • Guðbjörg Sigríður Samúelsdóttir, f. 26. janúar 1932.
Gunnlaugur Jónsson - Ljósm. Kristfinnur

Gunnlaugur Jónsson - Ljósm. Kristfinnur

Gunnlaugur kvæntist 2. júní 1945 Þuríður Andrésdóttur frá Eyrarbakka, f. 8. mars 1924, d. 6. ágúst 2002.

Þau eignuðust 13 börn, þau eru:

 • 1) Kristrún Þóra, f. 28. mars 1945. Maki Páll Birgisson, d. 1969,
  þau eiga tvo syni. 
  Sambýlismaður Karl Valgarðsson, d. 1999, þau eiga tvö börn.
 • 2) Jón, f. 29. apríl 1946. Maki Helga Guðrún Guðmundsdóttir. 
  Þau eiga þrjú börn, tvö eru á lífi. 
 • 3) Andrés, f. 20. nóvember 1947. Maki Guðný Einarsdóttir. Þau eiga tvö börn.

 • 4) Sverrir, f. 18. desember 1948. Maki Kolbrún Þorsteinsdóttir. Þau eiga tvo syni.

 • 5) Birna Hafdís, f. 28. desember 1950. Fyrrverandi maki Stefán Benediktsson, þau eiga tvö börn.
  Áður eignaðist Birna dreng sem dó ársgamall.


 • 6) Anna Kristín, f. 21. desember 1952. Maki Helgi Hrafnkelsson. Þau eiga þrjú börn.

 • 7) Hjördís, f. 18. október 1954. Maki Sigurður Júníus Sigurðsson. Þau eiga þrjú börn.

 • 8) Sigurjón, f. 9. ágúst 1956. Maki Ingunn Stefánsdóttir. Þau eiga tvö börn.

 • 9) Gunnlaugur Úlfar, f. 5. apríl 1958. Maki Kristín Gísladóttir. Þau eiga fjögur börn.

 • 10) Erla Gunnlaugsdóttir, f. 26. júlí 1959. Maki Ásgeir Sölvason. Þau eiga fjögur börn.

 • 11) Þorfinnur, f. 15. október, d. 13. maí 1979.

 • 12) Elva, f. 29. febrúar 1964. Maki Ásmundur Sigurðsson. Þau eiga þrjár dætur.

 • 13) Óttar, f. 20. mars 1965. Maki Nanna Dröfn Sigurfinnsdóttir. Þau eiga tvær dætur. Barnabarnabörnin eru 22.

  Þuríður og Gunnlaugur skildu.

Gunnlaugur bjó og starfaði sem rafvirki á Siglufirði til ársins 1965, er hann flutti í Skagafjörð og bjó á Felli í Sléttuhlíð næstu 8 ár. Þaðan flutti hann til Sauðárkróks þar sem hann starfaði til ársins 1989, en þá flutti hann aftur heim á Siglufjörð og bjó þar til dauðadags, lengst af á Skálarhlíð.

Útför Gunnlaugs verður gerð frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.
---------------------------------------

 • Vaktu, minn Jesús, vaktu' í mér,
 • vaka láttu mig eins í þér.
 • Sálin vaki þá sofnar líf,
 • sé hún ætíð í þinni hlíf.

(Hallgrímur Pétursson.)

Í dag, þegar við kveðjum föður okkar hinstu kveðju, langar okkur að líta yfir farinn veg og skoða lífshlaup hans.

Hann fæddist og ólst upp í Lækjargötu 6 á Siglufirði, bjó þar eftir að hann giftist og eignaðist börnin sín 13.

Það þurfti talsvert til að fæða og klæða þennan stóra hóp og var þá gripið til ýmissa ráða, því auk starfa sinna hjá Jóa raf, var unnin aukavinna og veitt í soðið. Þar naut hann sín best, hvort sem var til fjalla, við veiðivatn eða á sjó, með byssu, stöng eða krók í hönd. Ég var svo lánsamur að fá að fylgja honum frá barnsaldri í veiðiferðir og lærði hjá honum þau fræði, sem ég bý að enn. Það má segja að þetta hafi verið einu ferðalögin sem hann fór í um ævina svo og heimsóknir til barnanna eftir að þau stofnuðu heimili. Hann varð nefnilega að hafa eitthvað fyrir stafni, hvar sem hann var.

Faðir okkar hafði yndi af tónlist, einkum karlakóra, og söng sjálfur í kórum bæði á Siglufirði og Skagafirði og seinni ár eftir að hreyfigetan minnkaði var það tónlist af geisladiskum sem stytti honum stundir.

Mörgum sumarfríum eyddi hann austur á Eskifirði þar sem bátur beið í vör, hann naut þess að skrapa, mála og ditta að, til að geta komist, þó ekki væri nema einu sinni, á sjó áður en fríinu lauk.

Gjarnan hefði samfylgdin mátt vera meiri, einkum hjá yngri systkinunum sem fóru á mis við hana vegna skilnaðar foreldra okkar. En úr rættist seinni árin og fyrir einu ári, þegar hann varð áttræður, hittist allur hópurinn, að einum undanskyldum, ásamt mökum á Siglufirði til að samfagna honum á þessum tímamótum.

Heilsufarið var bágborið síðustu árin og dvaldi hann á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar þar sem hann naut frábærrar umönnunnar starfsfólks og viljum við þakka fyrir það. Hvíldin er því kærkomin og viljum við í lokin þakka þér samfylgdina.

Hvíldu í friði, elsku pabbi.

Fyrir hönd systkinanna. Andrés Gunnlaugsson.
---------------------------------------------------

Jæja, pabbi minn, þá er kallið komið. Sjálfsagt þér kærkomið eftir erfið veikindi síðustu tíu ár. Bundinn hjólastól og sjúkrarúmi og algerlega undir umsjá annarra kominn. Þegar kemur að kveðjustund fer maður ósjálfrátt yfir farinn veg og hugsar hvað margt hefði orðið öðruvísi ef hlutirnir hefðu ekki æxlast eins og þeir gerðu 1965. Og alla þá byrði sem þú burðaðist með árin eftir.

Já, það er dapurt til þess að hugsa eins og þetta var bjart frá byrjun. Við systkinin birtumst eitt af öðru heilsuhraust og hress og var ekki hætt fyrr en við vorum orðin þrettán. Dágóður hópur það. Nóg var að gera hjá þér og mömmu að brauðfæða allan hópinn. En það var vinna og aftur vinna sem aldrei sást framúr og kannski ýtti undir það sem á eftir kom. Ég veit ekki. En það veit ég að eftir á var hjá þér harmur er þú barst í hljóði það sem eftir var. Þú varst ekki vanur að bera tilfinningar þínar á torg og höfum við sum systkinin fengið það í vöggugjöf frá þér, pabbi minn.

Þegar maður minnist æskuáranna á Siglufirði er efst í minningunni sól og gott veður á sumrin og snjór á veturna. Ekkert hálfkák þar á milli. Þú sást til þess þegar fór að vora að aldrei sæist í auðan díl í garðinum með því að láta okkur strákana moka snjónum til. ,,Sumarið kemur fyrr í garðinn", sagðir þú. Við guttarnir vorum vissir um að enginn annar maður byggi yfir annarri eins visku.

Þær eru ofarlega í minningunni sumarferðirnar þegar Skarðið opnaðist og þú fékkst lánað rúgbrauðið hjá Johansen og stúaðir öllum krakkahópnum inn svo allir kæmust með. Það voru sannkallaðar ævintýraferðir að komast inn í Skagafjörð eða út í Ólafsfjörð einn dag á ári. Þetta var á við ferð til Hawaii í nokkra daga í okkar huga þá. Það fannst okkur alveg nóg, árinu "reddað" og allir ánægðir. Þú sást svo listilega um að við kæmust fram og tilbaka áfallalaust á bílnum. Undir stýri varst þú í essinu þínu og tjónlaus alla þína tíð, að ég veit best.

Ánægjulegt var að vera með hópnum fyrir ári síðan heima á Sigló og halda upp á 80 ára afmæli þitt, sem tókst svo vel. Þar vorum við öll nema Sigurjón sem var á sjó og Þorfinnur heitinn sem kippt var úr hópnum aðeins 16 ára gömlum. Þú barst höfuðið hátt þegar þú komst í salinn í hjólastólnum og horfðir yfir hópinn þinn sem er nokkuð stór og þú gast verið stoltur af.

Nú ári síðar er sami hópur mættur til að fylgja þér til grafar heima á Siglufirði. Firðinum sem þú varst alltaf svo stoltur af og vildir hvergi annars staðar vera. Þú valdir afmælisdaginn hans Þorfinns til að yfirgefa jarðvistina. Viss er ég um að móðir mín elskuleg með Þorfinn sér við hlið hefur verið með hlaðborð eins og henni var einni lagið og þeir nánustu mætt í móttökuna.

Fjölskylda mín þakkar þér samfylgdina, pabbi minn, sem að ósekju hefði mátt vera meiri.

Guð geymi þig.  Þinn sonur Sverrir.
----------------------------------------------

 • Þegar nóttin kemur
 • taktu henni feginshugar.
 • Hún mun loka hurðinni
 • að baki deginum
 • og lyfta byrði hans
 • af herðum þínum.
 • Hún sem geymir fortíðina
 • og safnar óskunum,
 • mun vita
 • hvert skal leiða þig
 • og vídd hennar er önnur.

(Þóra Jónsdóttir.)

Já, pabbi minn þú ert eflaust feginn því að vera kominn á annað tilverustig, feginn því að vera laus úr veikindaviðjum, feginn því að geta gengið um á þínum fótum og vera kominn í faðm þeirra sem farnir voru á undan þér, eins og t.d. Þorfinnur bróðir sem hefði átt afmæli þennan sama dag er þú kvaddir þetta líf. Þetta hefur þú verið búin að ákveða fyrirfram í þína lífsbók, þú sem varst búinn að hafa fyrir því að draga andann síðustu daga en ætlaðir greinilega ekki láta undan fyrr enn á þessum degi, 15. október. Ég er svo fegin því að ég gat verið hjá þér og haldið í höndina þína á meðan líf þitt fjaraði út. Það er þó alltaf viss söknuður sem fylgir því að missa ástvin og það fengum við að finna fyrir ári þegar að mamma dó í bílslysi. Það er skrítið að hugsa til þess að á aðeins einu ári eruð þið bæði farin frá okkur systkinunum.

Pabbi minn, það var sárt að horfa á svona háan og glæsilegan mann sem þú varst þurfa að setjast í hjólastól vegna heilablóðfalls sem þú fékkst fyrir rúmum sex árum og það varð þér líka erfitt, manni sem hafði gaman af að ferðast um sveitina í Skagafirði og Fljótum, enda komstu víða við þar á bæjum og vannst við rafvirkjun þar og einnig á Sauðárkróki. Það var sárt að svona mikill tenór söngmaður eins og þú þyrftir að þagna, þú hafðir svo gaman af allskyns söng, þó aðallega karlakórssöng. En nú stendur þú uppi og syngur með hárri raust í himnakórnum, sem eflaust er sá besti.

Elsku pabbi, þá er komið að kveðjustund, við munum hittast síðar við himnahliðið, hvíldu í friði, Guð blessi þig og geymi, hafðu þakkir fyrir allt og allt.

Þín dóttir Elva.
------------------------------------------------

Gunnlaugur Jónsson eða Gulli afi, eins og ég kallaði hann alltaf, dó 15. október síðastliðinn eftir löng og erfið veikindi. Þá höfðum við ekki hist síðan sumarið 2002 þar sem ég er búsettur erlendis. Ekki bjóst ég við að það yrði í síðasta skiptið sem við myndum spjalla saman, en svona er lífið.

Ég á margar minningar með Gulla afa frá því ég var krakki. Á hverju sumri kom hann til Eskifjarðar að heimsækja okkur. Þetta voru skemmtilegir tímar, þá var sumarfrí í skólanum og ég það ungur að ég var ekki byrjaður að vinna. Á þessum tíma átti pabbi lítinn trébát sem ansi oft þurfti að skafa og mála. Afi vann oft þetta verk og tók mig svo iðulega með sér hvort sem mér líkaði betur eða verr. Eins og þeir sem til þekkja var Gulli afi ákaflega vandvirkur við iðju sína og það var enginn undantekning með máleríið á þessari trillu. Ég hafði ekki alltaf sömu þolinmæðina við verkið og Gulli afi. Það kom fyrir að ég flýtti mér eins mikið og hægt var til þess að geta farið að hitta félagana en þegar afi kom og tók út verkið varð hann heldur betur undrandi á svipinn, horfði í augun á mér og sagði að verkið þyrfti að vinna betur.

Mér fannst þetta auðvitað vera mesta vitleysa en hlýddi þó með hálfan hugann annars staðar. En alltaf urðum við sáttir og eftir á að hyggja hefur maður sjálfsagt lært ýmislegt af vinnubrögðum hans. Skyndilega breyttust tímarnir þegar afi veiktist. Veikindin höfðu mikil áhrif á hann og hann varð ekki sá sami aftur en alltaf mun ég minnast hans eins og ég man eftir honum frá bernsku minni.

Hvíl í friði. Þinn sonarsonur Einar Andresson.