Jón Engilbert Sigurðsson bifreiðastjóri

23. desember 1993 | Minningargreinar mbl.is

Jón Engilbert Sigurðsson ­ Fæddur 15. febrúar 1920 - Dáinn 15. desember 1993

Þó að ein staðreynd sé öllum öðrum ljósari, þá kemur hún manni alltaf á óvart, þegar góður drengur fellur frá. Ég vissi að Jón átti við veikindi að stríða, en samt kom mér það á óvart er hann varð bráðkvaddur 15. desember sl.

Ég veit lítið um ætt Jóns og uppruna annað en að hann var fæddur á Akranesi 15. febrúar 1920. Hann kom hingað til Siglufjarðar 1945. Þá kynntist ég Jóni, sem í daglegu tali var kallaður Berti, þó að ég kæmist aldrei upp á lag með annað en að kalla hann Jón. Ég var þá á kafi í starfsemi Knattspyrnufélags Siglfirðinga. Okkur vantaði markvörð og við fréttum að Jón væri liðtækur á þeim vettvangi. Hann gekk til liðs við okkur og brátt kom í ljós að hann var dálítið meira en liðtækur, svo að vægt sé til orða tekið.

Jón Engilbert Sigurðsson

Jón Engilbert Sigurðsson

Við áttum marga góða stund saman, m.a. vegna þessa sameiginlega áhugamáls okkar, knattspyrnunnar, og ég komst fljótt að því, að það, sem Jón vissi ekki um leikinn, var ekki þessi virði að hugleiða. Ég lék þá hægri bakvörð með KS og samskipti okkar á vellinum urðu því mikil. Þessi hægláti og dagfarsprúði maður "átti" markteiginn með snöggum og öruggum viðbrögðum, og manni leið bókstaflega vel að vita hann að baki sér, því þó að maður missti bolta fram hjá sér, var öruggt að Jón hirti hann.

Ég hef aldrei séð önnur eins tilþrif hjá neinum markverði öðrum, og þó er ég alger fíkill í fótbolta og horfi á hvern leik sem ég get bæði á velli og í sjónvarpi.

Mér er minnisstæðastur leikur okkar við KA á Akureyri 1945, og ég hefi áður skrifað um. Þetta var á Knattspyrnumóti Norðurlands, sem var í þá daga eina stórmótið norðanlands. Við gerðum eitt mark í fyrri hálfleik undan hægri golu, og það reyndi ekki svo mjög á vörnina. Svo hvessti hann heldur betur í hálfleik og allir spáðu markasúpu á okkur í seinni hálfleik. En þeir reiknuðu ekki með Jóni. Þvílík veisla.

Þrátt fyrir tilburði varnarinnar við að koma tuðrunni burt frá markinu annað hvort út af eða í horn (fram þýddi lítið að spyrna, því að boltinn fauk hreinlega til baka), varð ekki komist hjá stöðugri skothríð á markið. En Jón varði allt.

Þetta var þung sókn í 45 mínútur og ég man ekki betur en markvörður KA væri kominn fram í sóknina líka. Þarna sá ég leiftursnöggt skot af stuttu færi stefna í efra markhornið vinstra megin og það brá fyrir í huga mér: "Þarna fór það." En Jón greip þennan bolta við öxl. Hann bókstaflega flaug milli stanganna og hélt markinu hreinu. Ég endurtek, að ég hefi aldrei séð önnur eins tilþrif hjá neinum markverði, nema þá kannski hjá Jashin hinum sovéska.

Jón fékk þjálfun sína á Akranesi og stóð þar í markinu uns hann fluttist til Siglufjarðar. Haraldur Sigurðsson bankamaður á Akureyri, sem veit nefi sínu lengra um þessa hluti, sagði eitt sinn við mig: "Hefði hann verið í KR væri hann í landsliðinu." Hann átti heima þar. Í fundargerð stjórnar KS eftir að við unnum Norðurlandsmótið er bókað að þennan sigur ættum við einum manni öðrum fremur að þakka, þ.e. Jóni Engilbert Sigurðssyni markverði. Svo þegar Jón hætti í markinu, atvinnu sinnar vegna, varð heldur dauflegt innan teigsins.

Jón kvæntist Sigurlínu Jóhannsdóttur, ættaðri frá Ólafsfirði, 1945 og settu þau bú sitt hér. Þau eignuðust þrjú börn, Hauk, Sigurð og Guðrúnu, sem dó ung, en Haukur og Sigurður eru kvæntir og búsettir hér í bæ.

Jón lagði gjörva hönd á margt: Daglaunavinnu, sjómennsku, bifreiðaakstur og bifreiðaviðgerðir, og seinustu árin útgerð og fiskverkun með sonum sínum. Hann átti við heilsubrest að stríða, en starfaði til síðasta dags.

Sigurlínu, sonum hans, barnabörnum, tengdafólki og öðrum aðstandendum, sem öll unnu þessum góða dreng og virtu hann, votta ég mína dýpstu samúð.

Siglufirði í desember 1993.

Bragi Magnússon.