Kristín Hólmfríður Halla Magnúsdóttir

18. ágúst 2008 | Minningargrein mbl.is

Kristín Hólmfríður Halla Magnúsdóttir fæddist á Siglufirði 1. maí 1924.
Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut hinn 1. ágúst 2008.

 • Foreldrar hennar voru Salbjörg Jónsdóttir, f. 16. september 1897, d. 18.október 1966 og
 • Magnús Magnússon, f. 24. september 1894, d. 25. október 1967.
 • Systkini Kristínar voru Jóhann Magnús, f. 21. mars 1926, d. 18. ágúst 1993 og
 • Vigdís, f. 23. ágúst 1927.

Kristín giftist 22. júní 1943 Magnúsi Hirti Stefánssyni, f. 28. janúar 1916, d. 16. apríl 1984.

Foreldrar hans voru Ragnheiður Jónasdóttir, f. 25. júní 1887, d. 9. júní 1951 ogBörn Kristínar og Magnúsar eru fimm:
Kristín Magnúsdóttir - Ljósm. ókunnur

Kristín Magnúsdóttir - Ljósm. ókunnur

1) Arndís,
f. 1944, gift Gunnari Geir Kristjánssyni, börn þeirra eru:
 • a) Þóra, f. 1968, í sambúð með Jóni Karlssyni, og
 • b) Kristján, f. 1970, í sambúð með Ragnhildi Gunnlaugsdóttur.
2) Magnús Ágúst
börn þeirra eru:
, f. 1949, kvæntur Hrafnhildi Ingólfsdóttur,
 • a) Ingólfur, f. 1972, maki Guðrún Katrín Gunnarsdóttir, og
 • b) Kristín, f. 1976, maki Andri Jón Heide.
3) Sverrir Salberg
börn þeirra eru:
, f. 1958, kvæntur Svölu Hrönn Jónsdóttur,
 • a) Jón Svan, f. 1981, í sambúð með Sigurbjörgu Magnúsdóttur,
 • b) Þuríður, f. 1984, í sambúð með Einari Margeiri Kristinssyni og
 • c) Salbjörg Kristín, f. 1994.
4) Sævar
, f. 1959, kvæntur Höllu Þ. Stephensen,
börn þeirra eru
 • Magnús Dagur, f. 1987, Ísak Óli, f. 1989, og Una Sóley, f. 1995.
5. Halla Björk,
f. 1965 gift Þorsteini Gísla Ólasyni,
börn þeirra eru:
 • a) Steinunn, f. 1984,
 • b) Ari Sæberg, f. 1991.

Kristín ólst upp á Siglufirði en þar kynntist hún eiginmanni sínum og fluttu þau til Reykjavíkur árið 1943 þar sem þau hófu búskap á Bræðraborgarstíg 37. Árið 1957 fluttust þau að Sogavegi 222. Eftir lát Magnúsar kynntist Kristín Jóni Arnórssyni og bjuggu þau saman í Hafnarfirði þar til Jón lést árið 2000. Frá þeim tíma bjó Kristín að Laufvangi 7 í Hafnarfirði.

Með húsmóðurstarfinu starfaði Kristín sjálfstætt sem saumakona og eftir hana liggja m.a. mjög eftirtektarverðir brúðarkjólar og mikill fjöldi annarra handverka. Yfir sumartímann vann hún við síldarsöltun á Siglufirði. Upp úr 1971 hóf hún störf hjá Brauðbæ sem smurbrauðsdama en eftir það starfaði hún í eldhúsi Landspítalans. Á efri árum var Kristín einstaklega virk í starfi eldri borgara að Hjallabraut í Hafnarfirði.

Útför Kristínar fer fram frá Bústaðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Minningarnar um mömmu eru svo ótalmargar og dýrmætar.

Alltaf var hún jákvæð, kát og svo einstaklega lagin að gera gott úr öllu. Mamma saumaði ótal brúðarkjóla þegar ég var lítill. Oft var saumað og sniðið langt fram á nótt og tíminn stundum naumur að koma öllu nú saman á réttum tíma. Þá kom sér vel að vera úrræðagóð þegar kannski ekki endilega allt var við hendina. Stundum lenti maður í því að þurfa að máta fyrir hana og það gat tekið svolítið á þolinmæðina að vera strákur og standa uppi á stól í brúðarkjól öllum úti í títuprjónum. Vona heitt og innilega að vinirnir kæmu ekki að biðja mann um að koma út í fótbolta.

En alltaf tókst henni að koma þessu heim og saman þannig að allir væru nú ánægðir. Svona var mamma – flink, dugleg og umfram allt bjartsýn og sá það góða í öllum. Vinir okkar systkinanna voru líka vinir hennar. Þegar þeir komu í heimsókn vildu þeir ekkert endilega vera bara inni í herbergi heldur var alveg jafn gaman að vera þar sem hún var. Líklega hefur þeim þótt hún alveg jafn skemmtileg og við systkinin eða kannski bara skemmtilegri.

Ég man að hún lagði töluverða áherslu á að öll fjölskyldan væri saman við kvöldmatarborðið. Oft var líka setið í eldhúsinu löngu eftir að maturinn var búinn og margt spjallað eða teflt við pabba. Þennan sið hef ég líka tekið upp frá mömmu minni því samveran við fjölskyldu er hverjum manni mikilvæg.

Ég kveð mömmu mína með söknuði og varðveiti minningu hennar í hjarta mér.

Sævar Magnússon.
----------------------------------------------

Mig langar að minnast Kristínar tengdamóður minnar með nokkrum orðum.

Stína var einstaklega geðgóð og jákvæð kona sem var gædd listrænum hæfileikum í ríkum mæli. Hún var afbragðs saumakona, prjónaði, heklaði og nú síðari ár lagði hún einnig stund á mynd- og glerlist. Allt sem hún tók sér fyrir hendur var gert af sérstakri vandvirkni og natni enda var það ekki að hennar skapi að láta frá sér verk sem hún ekki var sátt við.

Í apríl 1984 lést Magnús tengdafaðir minn en um það leyti vorum við fjölskyldan að flytjast búferlum til Bretlands. Ákveðið var að Stína færi með og myndi dvelja hjá okkur fyrst um sinn. Það var nú ekki ónýtt að hafa hana á meðan við vorum að koma okkur fyrir á ókunnugum slóðum. Stuttu eftir komuna til Bretlands fagnaði Stína 60 ára afmæli sínu og talaði hún oft um það hversu eftirminnilegur sá dagur hefði verið. Það var ekki síður ánægjulegt fyrir okkur að fá að deila þessum merkisdegi með henni.

Stína var mikill náttúruunnandi og hafði hún mikla ánægju af því að ferðast um Ísland. Síðustu árin var hún einnig sérlega dugleg við að ferðast til útlanda og var hún yfirleitt með nýja ferð á prjónunum þrátt fyrir að vera nýkomin heim úr þeirri síðustu. Stundirnar sem við áttum saman voru ávallt ljúfar og góðar en nú er komið að kveðjustund.

Hvíl í friði, elsku tengdamamma.

Hrafnhildur.
------------------------------------------------

Elskuleg amma okkar hefur nú fengið sína hinstu hvíld.

Það sem einna helst einkenndi Stínu ömmu var hversu listræn, glöð og jákvæð hún var. Við systkinin áttum með henni góðar samverustundir og þá sérstaklega þegar hún dvaldi hjá okkur er við vorum búsett í Bretlandi. Sá tími með henni mun seint líða úr minni og erum við einstaklega þakklát fyrir hann.

Eftirfarandi orð koma upp í hugann á kveðjustund.

 • Margs er að minnast.
 • margt er hér að þakka.
 • Guði sé lof fyrir liðna tíð.
 • Margs er að minnast,
 • margs er að sakna.
 • Guð þerri tregatárin stríð.
 • Far þú í friði,
 • friður Guðs þig blessi,
 • hafðu þökk fyrir allt og allt.
 • Gekkst þú með Guði,
 • Guð þér nú fylgi,
 • hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Valdimar Briem.)

Ingólfur og Kristín.
-------------------------------------------

Elsku amma Stína.

Kveðjustundir eru alltaf erfiðar. Mig langar alltaf að geta sagt sjáumst, eða heyrumst bráðlega, en núna ertu farin. Minningin lifir áfram sterkt um ömmu Stínu, konuna sem sá jákvæðu hliðarnar á öllu. Sama hversu svart ástandið var orðið, þá gast þú alltaf séð ljós í myrkrinu. „Smælaðu framan í heiminn, þá smælar heimurinn framan í þig“ eru svo sannarlega orð að sönnu þegar ég hugsa um þig, amma mín. Þegar þú hringdir í mig daginn eftir heimkomuna úr Mexíkóferðinni minni til að fá ævintýrin mín beint í æð, þá fannst mér þú alveg luma á jafnmiklum ævintýrum og ég. Það er ekki hægt að segja annað en að þú hafir notið síðustu áranna þinna til hins ýtrasta.

Elsku amma, þín er sárt saknað en núna ertu farin á annan stað þar sem ríkir ró og friður.

Megi guð geyma þig að eilífu,  Þín ömmustelpa, Þuríður (Dússý.)
------------------------------------------------

Nú er Stína frænka farin í síðustu ferðina sína, ferð sem búin er að vera í undirbúningi í rúmt ár eða frá því að hún veiktist alvarlega. Stína frænka var móðursystir mín en að mörgu leyti miklu nánari mér en það. Þegar ég var vikugömul kom hún til Siglufjarðar, hún hafði áhyggjur af því að 17 ára unglingurinn hún móðir mín og amma, sem þá var rétt innan við fimmtugt, myndu ekki ráða við að hugsa um ungabarnið.

Með henni í för var Adda, frumburðurinn sem var þá níu mánaða. Stína frænka kom oft norður á næstu árum og var mikil tilhlökkun hjá mér þegar von var á henni. Ég ólst upp hjá ömmu og afa og það lifnaði heldur betur yfir heimilinu þegar börnin hennar voru með, fyrst Adda og Maddi, síðan komu Sverrir og Sævar. Mikið var gaman að spóka sig með þessum fallegu frændum, því margir héldu að þeir væru bræður mínir. Að síðustu kom Halla en þá var ég komin með mína fjölskyldu.

Stínu frænku var margt til lista lagt og var hún fyrirmynd mín í mörgu. Fallegt handbragð var á allri handavinnu og saumaði hún föt í nokkur ár fyrir fólk víða um land. Hún sagði mér til við saumaskap þannig að ég gat síðar saumað allt á mína fjölskyldu. Þegar við Adda vorum litlar, saumaði hún marga kjóla í tveimur stærðum og sendi þann minni norður. Hún hannaði og saumaði fermingarkjólinn minn og þótti leitt að geta ekki komið því við að sauma brúðarkjólinn minn líka.

Síðustu árin lærði hún að mála og veitti það henni mikla ánægju. Allt föndur lék í höndunum á henni, skartgripagerð, kortagerð, postulínsmálun, perlusaumur og margt fleira. Í einni ferðinni norður til mín fékk hún tilsögn í bútasaumi og fyrir nokkrum árum sóttum við námskeið í refilsaumi á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði.

Ferðalög voru hennar líf og yndi. Með Magnúsi eiginmanni sínum var farið í ferðir erlendis og einnig voru þau dugleg að ferðast innanlands þó að engin bifreið væri á heimilinu. Eftir andlát Magnúsar kynntist Stína sambýlismanni sínum, honum Jóni. Þau áttu góða daga saman og ferðuðust um landið vítt og breitt í bifreið hans. Hann átti sumarbústað sem þau dvöldu í vikum saman á sumrin.

Eftir andlát Jóns, hélt hún áfram að ferðast og lét það ekki stoppa sig að vera orðin ein. Margar ferðir fór hún til Höllu dóttur sinnar í Noregi og einnig fór hún í nokkrar ferðir með Dóru mágkonu sinni. Þá fór hún í skipulagðar ferðir og eignaðist þar vinkonur sem ferðuðust með henni víða. Ferðir til Skotlands og á frönsku Rivíeruna voru fyrirhugaðar þegar að Stína veiktist.

Þegar ég var lítil var gott að koma til Stínu og Magnúsar í litla húsið á Bræðraborgarstíg. Þar bjuggu þau fyrstu árin eða þar til þau höfðu byggt reisulegt hús við Sogaveg. Oft var gestkvæmt hjá þeim og voru frændfólk og vinir utan af landi ávallt velkomnir.

Ég og fjölskylda mín sendum börnum Stínu frænku og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Einnig vil ég þakka sérstaklega fyrir væntumþykju og hlýju sem frænka mín sýndi mér alla tíð.

Magna Sigbjörnsdóttir.