Baldvina J Brynjólfsdóttir (Badda Brynjólfs)

 Minning, mb.is - 1988

Baldvina J Brynjólfsdóttir  (Badda Brynjólfs) – Fædd 13. janúar 1930- Dáin 24. september 1988

Mágkona mín Baldvina Brynjólfsdóttir varð bráðkvödd á heimili sínu 24. september sl. Fréttin kom eins og reiðarslag yfir fjölskyldu og vini. Ég kynntist henni fyrst fyrir rúmum þrjátíu árum þegar ég kvæntist Þorgerði systur hennar. Hún bjó þá á Akranesi ásamt eiginmanni sínum og Lindu dóttur þeirra, lítil hnáta hoppaði þar um gólf. Þar var gott að koma, hlýhugur og gestrisni.

Baldvina fæddist 13. janúar 1930 á Siglufirði, dóttir hjónanna

  • Guðrúnar Vilmundardóttur, sem varð níræð í sumar og dvelur á Hrafnistu, og Brynjólfs Jóhannssonar verkstjóra, sem lést árið 1962.
  • Dætur þeirra hjóna voru þrjár:
  • Þorgerður Brynjólfsdóttir,
  • BaldvinaBrynjólfsdóttir og
  • Sigríður Brynjólfsdóttir.
Baldvina Brynjólfsdóttir - Ljósmyndari, ókunnur

Baldvina Brynjólfsdóttir - Ljósmyndari, ókunnur

Badda eins og hún var jafnan kölluð ólst upp á Siglufirði en giftist ung Hreggviði Sigríkssyni frá Akranesi.

Þau bjuggu þar lengi en síðari árin í Njörvasundi í Reykjavík. Þau slitu samvistum. Hreggviður lést 31. ágúst síðastliðinn.
Einkadóttirin, Guðrún Linda tónlistarkennari gift Sævari Hallgrímssyni bifvélavirkja og eiga þau þrjú mannvænleg börn, Inga Þór, Hallgrím og Guðrúnu Baldvinu. Badda var vönduð kona sem öllum vildi gott gera, hlý og trygglynd. Hún reyndist móður sinni einstaklega vel og heimsótti hana nær daglega á Hrafnistu, Guðrún hefur því misst mikið, en við sem þekkjum hana vitum hve sterk hún er og að þakklæti fyrir alla umhyggjuna er henni efst í huga.

Náið og innilegt samband var alla tíð milli Böddu og Lindu dóttur hennar. Það er þung raun fyrir Lindu að sjá á bak foreldrum sínum með mánaðarmillibili. Þá er gott að eiga traustan maka, dugmikil börn og góða vini. Við söknum Böddu og þökkum henni af alhug alla góðvildina og tryggðina. Hörður Jónsson Hver fugí skal þreyta flugið nvóti sól að fótskör guðs, að lambsins dýrðarstól og setjast loks á silftirbláa tjörn og syngja fyrir lítil englabörn. D. Stefánsson

Þó oft sé erfitt að gefa minningunum mál langar mig með nokkrum orðum að minnast vinkonu minnar og frænku Böddu. Baldvina J. Brynjólfsdóttir fæddist á Siglufirði 13. janúar 1930, hún var önnur dóttir hjónanna Guðrúnar Vilmundardóttir og Brynjólfs Jóhannssonar, Þorgerður er eldri en Sigríður yngri.

Við Badda fæddumst og ólumst upp saman á Grandanum og núna síðast á föstudagskvöldið 23. sept. vorum við flissandi yfir rjúkandi sláturkeppunum að minnast æskuáranna á Grandanum þegar við í sameiningu vorum að læðast inn til afa og stelast til að drekka kaffi, bryðja kandís og kremkex. Öll okkar æskuár lágu leiðir okkar saman um Grandann, Eyrina og bryggjurnar þar sem við byrjuðum ungar að salta síldina og stóðum hlið við hlið við síldarkassana. Saman lögðum við ungar land undir fót og fórum suður til að freista gæfunnar. Við leigðum saman, unnum saman og skemmtum okkur saman, Badda með gítarinn því hún spilaði mikið og söng og hafði svo fallega söngrðdd að mér laglausri var oft sagt að þegja.

Báðar stofnuðum við heimili, Badda giftist Hreggviði Sigrikssyni sem nýlega er látinn, þau eignuðust eina dóttir, Guðrúnu Lindu, gifta Sævari Hallgrímssyni. Eftir nokkurra ára búskap hér í borg fluttust þau upp á Akranes og þó heimsóknum okkar hvorrar til annarrar hafi fækkað á þessum árum hélst þráðurinn sem aftur var tekinn upp eftir að þau hjón fluttu hingað til Reykjavíkur 1968 og ef við vorum fjarri hvor annarri flugu bréfin og kortin milli landa því frá mörgu þurfti að segja og vinátta okkar varð jafnvel traustari með árunum því núna síðustu vikur og mánuði hefur varla liðið dagur án þess að við töluðumst við og á fimmtudaginn þegar ég hringdi og sagði: Komdu nú í slátur á morgun, var svarið: Já, ástar þökk, ég kem beint úr vinnunni.

Voru það því nokkur undur þó ég áttaði mig ekki þegar Linda hringdi í mig daginn eftir og sagði að mamma sín væri dáin. Badda sem í gærkvöldi var hjá mér hress og kát, dáin í dag. Nei, það var eitthvað sem ég þurfti að afneita og eigingirnin náði tökum á mér, í hvern átti ég þá að hringja á morgun og rabba við um þetta allt sem enginn skilur? En þó ég sakni Böddu og eigi eftir að sakna um ókomin ár eru það svo margir aðrir sem eiga um sárt að binda og þess vegna votta ég Iindu, Sævari, börnum þeirra, systrunum tveim, barnabörnum og aldraðri móður mína dýpstu samúð. Frá móður minni, Jóhönnu Vilmundardóttur, fylgir innileg kveðja með þakklæti fyrir margar ánægjustundir á liðnum árum. En þó komin sé sú kveðjustund sem aldrei snýr til baka, mun mynd af þinni léttu lund enginn frá mér taka.

Ragna