Jónas Kristinn Tryggvason

25. júní 1994 | Minningargrein mbl.is

Jónas Tryggvason var fæddur á Víkurbakka á Árskógsströnd 28. ágúst 1911. Hann lést í Sjúkrahúsi Siglufjarðar 10. júní síðastliðinn og fór útför hans fram frá Siglufjarðarkirkju 18. júní.

Mig langar í fáum orðum að minnast afa míns Jónasar Kristins Tryggvasonar.

Eftir að afi missti seinni konu sína Halldóra Þorvaldsdóttir, kom hann í heimsókn til okkar og stoppaði kannski í hálfan mánuð í einu. Það má eiginlega segja að við Daði Þór höfum fyrst kynnst afa þá. Við vorum svo ung þegar við fluttum frá Siglufirði.

Mér fannst mjög gaman að hafa afa í heimsókn og var hann alveg eins og afinn í sögunum. Hann las fyrir okkur, söng fyrir okkur, spilaði við okkur og sagði okkur sögur.

Þegar afi varð 75 ára, fór hann með okkur til Rhodos og vorum við þar í góðu yfirlæti í þrjár vikur. Við fórum á bíl um eyjuna og með bát að heimsækja næstu eyjar og var alveg yndislegt að hafa afa með í ferðinni, því hann hafði augu á öllu og gat alltaf bent okkur á eitthvað sem annars hefði sjálfsagt farið framhjá okkur.

Jónas Tryggvason

Jónas Tryggvason

Á einni eyjunni fórum við að skoða eina af hinum frægu rústum á hæð einni. Þeir sem vildu gátu fengið leigðan asna til að ríða á niður hæðina til baka og gerðum við afi það og líkaði vel. Afi var til í flest, en ekki þó að fara á bak á úlfalda. Hann tók samt ekki annað í mál en ég prófaði það.

Það var sárt að sjá afa eftir að hann veiktist og mér fannst það eitthvað svo óréttlátt að þessi glaði og skemmtilegi afi sem ég þekkti skyldi þurfa að þola þessar þjáningar og þetta erfiða tímabil sem tók við. Afi sagði alltaf að hann vildi að guð gæfi sér það að fá bara að sofna. Nú er afi sofnaður og er hans sárt saknað. Góður guð geymi hann ásamt ömmu og öðrum ættingjum okkar á himnum.

Vertu sæll, elsku afi minn.

Þín Gyða Sigurbjörg.