Kristján Ásgrímsson, skipstjóri

Mjölnir 3/4/1974 

Hinn 7. marrs 1974, lést Kristján Ásgrímsson, skipstjóri, Suðurgötu 49, Siglufirði, tæp lega áttræður að aldri.
Útför hans fór fram 16: mars, að viðstöddu fjölmenni.

Kristján var fæddur 4. júní 1894, sonur hjónanna

  • Guðrúnar Pálsdóttur og
  • Ásgríms Þorsteinssonar á Kambi í Siglufirði.

Hann var elstur sex albræðra, en átti tvo hálfbræður, sammæðra, sem voru eldri en hann. Albræður hans voru,

  • Ólafur Ásgrímsson
  • Helgi Ásgrímsson
  • Jóhann Ásgrímsson
  • Jón Ásgrímsson og
  • Angantýr Ásgrímsson
  • en hálfbræður hans voru
  • Guðmundur Guðmundsson, fluttist ungur til Færeyja og staðfestist þar, og
  • Ásmundur Sigfússon.
Kristján Ásgrímsson

Kristján Ásgrímsson

Allir þessir bræður eru nú látnir, og lifði Kristján þeirra lengst.

Kristján ólst upp við sjósókn og verkun sjávarafla, og stundaði þá atvinnugrein alla ævi. Hann hóf ungur formensku á bátum héðan, fyrst á bátum, sem aðrir áttu, en síðan á eigin útgerð.

Árið 1923 fór hann til Noregs að sækja bát fyrir Lúðvík Sigurjónsson, útgerðarmann.
Afhending bátsins dróst fram á næsta vor, og réðist Kristján þá á norskan fiskibát og var á honum um veturinn.

Varð þessi Noregsdvöl honum minnisstæð, og hafði hann gaman af að rifja upp ýmislegt frá þessum vetri.
Um vorið kom hann heim með bátinn, sem hét Sigurjón, og var síðan skipstjóri á honum nokkur misseri, en keypti þá sjálfur bát, sem hét Hektor, og var með hann í flutningum.

Síðar keypti hann í Noregi bát, sem hann nefndi Ásgrím, og stundaði á honum bæði þorsk veiðar og síldveiðar í reknet. Verkun aflans hafði hann oftast eða alltaf sjálfur með höndum og byrjaði fljótlega á að kaupa afla af öðrum, til þess að hafa nóg handa sér og sínu starfsliði að vinna. Varð þessi rekstur smám saman það umfangsmikill, að hann útheimtri alla starfskrafta Kristjáns, og hætti hann þá skipstjórn og útgerð.

Eftir það fékkst hann mest við síldarsöltun, fyrst einn, en stofnaði síðan ásamt fleirum söltunarfélagið Dröfn h. f., og hafði rekstur þess með höndum að mestu, uns honum lauk, en þá keypti nýr aðili söltunarstöðina, sem Dröfn hafði haft til umráða, og hugðist reka þar síldarsöltun. Réðist Kristján þar verkstjóri. Úr þeim atvinnurekstri varð þó lítið, því um þetta leyti lagðist síldveiði fyrir Norðurlandi alveg niður.

Kristján kvæntist 19. ágúst 1916  Guðrúnu Sigurðardóttur frá Ytri A í Ólafsfirði. Lifir hún mann sinn, eftir nærri 58 ára sambúð. Guðrún er þrem árum yngri en Kristján, fædd 28 júlí 1897.

Þau eignuðust 9 börn,

  • Bára Kristjánsdóttir,
  • Ásgrímur Kristjánsson,
  • Ólöf Kristjánsdóttir,
  • Ólafur Kristjánsson,
  • Sigurður Kristjánsson,
  • Ægir Kristjánsson,
  • Haukur Kristjánsson,
  • Guðrún Kristjánsdóttir og
  • Guðbjörg Kristjánsdóttir.

Bára og Ólafur eru látin.

Auk hafa þau Guðrún og Kristján eignast nærri 50 afkomendur, þar af 14 barnabarnabörmum.

Kristján kenndi fyrst verkja frá kransæðaþrengslum er hann lá 4 sjúkrahúsi vegna augnuppskurðar fyrir 3-4 árum. Ágerðist sá sjúkleiki smám saman, uns yfir lauk.

Líðan hans var þó oftast sæmileg og hann hafði fótavist til síðasta dags. Kristján frá Kambi, eins og hann var oftast nefndur, var mikill fjör- og atorkumaður, léttur í fasi, kvikur á fæti og sístarfandi meðan hann gat, enda þurfti hann lengi mikils með, því að f fjölskyldan var stór. Þegar hlé varð á sjósókn, síldarsöltun eða öðru, sem hann hafði að aðalstarfi, fyllti hann upp í eyðurnar með því að kaupa afla af öðrum til verkunar, róa með kolanet á fjörðinn, sólþurrka saltfisk o.fl.

Á kreppuárunum fékkst hann m.a. við að kaupa og þurrka þorskhausa og koma þeim á markað. Bæði upplag og lífsreynsla Kristjáns stuðlaði að því viðhorfi hans að meta jafnan meira athafnir en orð, manndóm og dugnað meira en stefnur og skoðanir. Hann tók því stjórnmálastefnur jafnan með nokkrum fyrirvara, og starfaði lítt í félögum, nema hvað hann tók þátt í starfsemi skipstjórafélagsins og félags síldarsaltenda.

Um málefni bæjarins hafði hann ákveðnar og að sumu leyti mjög sérstæðar skoðanir, t.d. leit hann veldi Síldarverksmiðja ríkisins í bænum alltaf með mikilli tortryggni. Með Kristjáni er horfinn af sviðinu einn þeirra manna, sem lifðu mesta framfaratímabil og einnig mesta hrörnunartímabil þessa bæjar; ævi hans var einn af þeim þráðum, sem saga bæjarins á þessu tímabil er snúin úr.

Hann var lífsglaður maður og æðrulaus til hins síðasta, enda gæfumaður á marga lund, oftast sinn eigin húsbóndi, hafði ánægju af störfum sínum og átti gott og hlýlegt heimili, þar sem kona hans og Guðrún dóttir hans bjuggu honum notalega hvíld seinustu árin, eftir að starfsgetan var þorrin. Ég kynntist Kristjáni fyrst þegar ég vann sumartíma hjá honum á söltunarstöðinni Dröfn fyrir rúmum 20 árum.

Sá kunningsskapur hélst eftir það, enda hittumst við oft, þar sem við bjuggum við sömu götuna. Hann var einn þeirra manna, sem alltaf anda frá sér lífsgleði og bjartsýni. Þess vegna var alltaf gott að hitta hann, og þess vegna mun fylgja honum yfir landamærin vinsemd og hlýhugur samferðamannanna. B.S.

(Sennilega Benedikt Sigurðsson)