Gísli Sigurðsson bókavörður

Mbl.is 16. desember 1986 

Kveðjuorð:  Það er lögmál lífsins að kveðja þetta

Gísli Sigurðsson bókavörður Það er lögmál lífsins að kveðja þetta tilverustig og leita hafnar á ókunnri strönd handan þessa jarðlífs, þá staðreynd fær enginn umflúið. Þeir týna óðum tölunni, sem lifðu mestu umbrotatíma íslensks þjóðlífs til þessa. Mestu erfiðleikaár og jafnframt bestu framfaraár íslenskuþjóðarinnar.

Ár eftirvæntingar - ár vonbrigða og fátæktar, en einnig tími mikilla framfara og mikilla möguleika, er dugandi menn nýttu sér til að skapa skilyrði til betri efnahags alls almennings. Hver man ekki síldarævintýrið og síldarverksmiðjurnar, togaraútgerðina, nýbreytnina í fiskiflotanum, svo eitthvað sé nefnt.

Það var einmitt á ungdóms- og manndómsárum þessara manna, sem þessi undur gerðust. Þeir voru margir hverjir í fylkingarbrjósti at vinnulega og menningarlega séð.

Við Siglfirðingar vorum þann 21. nóvember sl. að kveðja einn þessara manna, sem upplifði þessa byltingu íslensks þjóðfélags úr bændaþjóðfélagi í iðnaðarþjóðfélag, Gísla Sigurðsson, fyrrverandi bókavörð, þó hann væri ekki í fylkingarbrjósti í þessari umsköpun lagði hann sitt af mörkum í þessu ölduróti, að réttur lítilmagnans yrði ekki fyrir borð borinn, bæði í ræðu og riti.

Gísli Sigurðsson - ljósm. Kristfinnur

Gísli Sigurðsson - ljósm. Kristfinnur

Uppvaxtarár Gísla og systkina hans, en þau voru átta að tölu, voru örugglega enginn dans á rósum. Eilíf barátta fyrir fæði og klæði þessum stóra hópi til handa. Menntun var hreinn munaður á þessum árum og ekki tiltæk, í fáum undantekningartilfellum, nema efnuðu fólki, að kosta börnin sín til lang skólanáms.

Gísli lauk prófi í Gagnfræðaskóla Akureyrar en ekki var kleift að halda áfram námi sökum fjárskorts og hefir það trúlega ekki verið sársaukalaust fyrir vel gefið ungmenni að þurfa að horfast i augu við þá staðreynd að þarna réði peningasjónarmið ferðinni. Slík voru viðhorfin fyrstu áratugi þessarar aldar vaðandi menntunarmöguleika.

Gísli átti ættir að rekja til Skagafjarðar og Ólafsfjarðar. Hann fæddist 20. maí 1905 að Hugljóts stöðum á Höfðaströnd.
Foreldrar hans voru

  • Sigurður Ólafsson bóndi þar og á Spáná í Unadal og kona hans,
  • Margrét Jakobína Baldvinsdóttir.

Gísli flutti til Siglufjarðar 1924 og gerðist strax talsmaður þeirra, er minna máttu sín í þjóðfélaginu, trúlega minnugur æskuára sinna. Hann varð ötull félagi í Verkamannafélaginu Þrótti og barðist mjög fyrir bættum kjörum þeirra lægst launuðu.

Hann var einnig virkur félagi í Alþýðuflokknum, sem þá barðist fyrir alheimsbræðralagi, þar sem allir áttu að sitja við sama borð. Gísli var góður bridgemaður og keppti oft fyrir Bridgefélags Siglufjarðar. Hann var um skeið í Lions klúbbi Siglufjarðar og kom þar fram með hugmynd um stofnun æskulýðsheimilis í samvinnu við starfandi félög hér í bæ. Varð þessi hugmynd hans síðar að veruleika. Ekki verður minnst á Gísla svo manni komi ekki í hug Bókasafn Siglufjarðar, svo nátengdur var hann því, enda hans aðalstarfsvettvangur í 36 ár, eða frá árinu 1939-1975.

Þegar ég læt hugann reika, sitjandi við skrifborð fyrirrennara míns hér í bókasafninu, kemur mér í hug hvað þessi stofnun var heppin að svo samhentir menn þeir Gísli og Pétur Björnsson kaupmaður, sem kosinn var formaður bókasafnsnefndar 1938 og var það í 28 ár, skyldu veljast til starfa við safnið. Þeir höfðu sama hugðarefnið að leiðarljósi, að safna öllum tiltækum heimildum um sögu Siglufjarðar og íbúa hans svo og önnur gögn vaðandi nágrannabyggðir.

Þá kappkostuðu þeir að fullkomna blaða- og tímaritaeign safnsins og er það nú talið að dómi fróðra manna mjög gott. Safn eins og Bókasafn Siglufjarðar verður ekki til nema með mikilli eljusemi og ást á verkefninu, en það áttu báðir þessir menn í ríkum mæli. Trúmennska og vinnusemi voru Gísla í blóð borin. Hann vann sín störf í kyrrþey án alls fyrirgangs. Hann hataði alla yfirborðsmennsku og valdapot.

Enginn fjölmiðlamaður var Gísli þótt hann kynni ágætlega vel að koma fyrir sig orði. Hann var og ritfær í besta lagi og skrifaði ýmislegt varðandi málefni verkalýðsbaráttunnar svo og málefni byggðarlagsins okkar og Skagafjarðar, sem hann var tengdur sterkum böndum. Minni Gísla var trútt allt til hins síðasta.

Leiðir okkar Gísla lágu ekki saman að ráði fyrr en hin síðari ár, en þó vissum við hvor af öðrum og vel málkunnugir, enda sitt hvoru megin við Aðalgötuna, ég í verslun minni, Aðalbúðinni, og hann í bókasafninu en töluverð viðskipti voru þar á milli.

Gísli kvæntist árið 1934 mikilli mannkostakonu
Ásta Kristinsdóttir, en hún var fædd 12. desember 1905.

Þau eignuðust 5 mannvænleg börn en eftir aðeins 9 ára sambúð andaðist Ásta af barnsfararsótt.
Má geta nærri hvílíkt áfall þessi missir hefir verið Gísla og börnunum. Hann varð að taka þá þungbæru ákvörðun að koma börnum sínum fyrir hjá vinum og vandamönnum.
Gísli var ekki allra, alvarlegur maður en átti til að bregða fyrir sig kímni á góðri stundu.

Fyrir nokkrum árum fór Gísli á Sjúkrahús Siglufjarðar, þá orðinn heilsuveill og þar dvaldi hann þar til hann var fluttur í Fjórðungssjúkrahús Akureyrar í byrjun nóvember sl. og þar andaðist hann eftir stutta legu þann 10. nóvember. Þegar hann var í sjúkrahúsinu hér kom ég stundum til hans en dvaldi aldrei það lengi að við gætum rætt út um mörg mál, sem okkur voru hugleikin - ég hugsaði sem svo - ég ræði betur við hann í næstu viku.

En af því varð aldrei. Maður hugsar oft sem svo - seinna, seinna, nægur er tíminn - en allt í einu er væntanlegur viðmælandi manns horfinn af sjónarsviðinu. Ég fann til gremju innra með mér að hafa ekki haft döngun i mér til að láta verða af slíkri viðræðu, en ímyndað tímaleysi veldur oft þar um.

Það má segja að hvíldin sé orðin kærkomin þegar svo mörg ár eru að baki og heilsan farin að bila og mér er nær að halda að Gísli hafi þráð að skilja við þetta jarðlíf saddur lífdaga. Vitandi börnin sín uppkomin og dugandi fólk og barnabörnin fjölmörg svo og hitt, vissuna um að ástvinur hans beið hans á ströndinni hinumegin.

Sigurlína dóttir hans og hennar maður, Valur, sem eru hér búsett, reyndu ávallt að létta honum lífsbaráttuna. Á heimili þeirra átti hann öruggt skjól, umvafinn hlýju dóttur sinnar og tengdasonar og barna þeirra.

Gísli er ekki horfinn sporlaust. Börnin hans og banabörn minna okkur á hann og konu hans í hvert sinn þau bregða fyrir augu okkar. Bækur voru Gísla allt - heilög vé, sem ekki mátti vanhelga. Trúlega hefði hann tekið undir orð Davíðs Stefánssonar er orti:

  • En bráðum skil ég við borg og strendur
  • og bækurnar mínar allar.
  • Ég vona, að þær komist í vinahendur
  • er vörðurinn til mín kallar.
  • Sé fjara handan við feigðarpollinn
  • og ferjan mín nær þar að landi
  • bíður Pétur með prótókollinn
  • í prupurarauðu bandi.

Blessuð sé minning Gísla Sigurðssonar.

Óli. J. Blöndal