Guðmunda Guðmundsdóttir í Bakka

mbl.is 8. júní 2007 | Minningargreinar 

Guðmunda Guðmundsdóttir fæddist í Vågi í Suðurey í Færeyjum 28. apríl 1939. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Víðihlíð í Grindavík 1. júní síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru

  • Guðmundur Bjarnason, f. 25.10. 1916, d. 5.4. 1987, og
  • Maja Bjarnason, f. 3.9. 1916, d. 25.4. 2004.

Systkini Guðmundu eru:

  • Jón Guðmundsson, f. 26.12. 1942,
  • Halldór Guðmundsson, f. 21.9. 1944,
  • Ólöf Guðmundsdóttir, f. 26.9. 1946, og
  • Guðrún Guðmundsdóttir, f. 29.7. 1949.

Guðmunda giftist 29.9. 1959 eftirlifandi eiginmanni sínum, Björn Þórðarson, f. 25.3. 1939. Börn þeirra eru: 

Guðmunda Guðmundsdóttir  - ókunnur ljósmyndari

Guðmunda Guðmundsdóttir - ókunnur ljósmyndari

  • 1) Þórður, f. 9.5. 1957. Maki Signý Jóhannesdóttir, f. 3.8. 1957. Börn þeirra: Björn, f. 14.9. 1975, Börkur, f. 21.7. 1978, Guðrún, f. 23.7. 1980, og Logi, f. 20.7. 1984.
  • 2) María, f. 15.3. 1961. Maki Birgir Kristinsson, f. 31.5. 1955. Börn þeirra: Steinar Örn, f. 8.7. 1981, og Óttar Guðbjörn, f. 15.8. 1984.
  • 3) Guðný Sigríður, f. 4.8. 1967. Maki Ólafur Örn Haraldsson, f. 14.7. 1957. Börn þeirra: Gunnlaugur, f. 11.3. 1984, og Lind, f. 9.4. 1998.

Guðmunda og Björn eiga einnig þrjú barnabarnabörn, þau Telmu Dögg, Jökul Mána og Birtu Dís.

Guðmunda fluttist til Siglufjarðar aðeins nokkurra mánaða gömul og ólst þar upp. Hún lauk hefðbundinni skólagöngu og fór þá út á hinn almenna vinnumarkað ung að aldri.

Hún starfaði m.a. á Sjúkrahúsi Siglufjarðar og við síldarsöltun. Fjölskyldan flutti í Sandgerði 1983 og bjó Guðmunda þar þangað til hún fór á Hjúkrunarheimilið Víðihlíð.

Útför Guðmundu verður gerð frá Safnaðarheimilinu í Sandgerði í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Það var í ágúst 1992 sem ég kynntist Mundu. Ég var farin að slá mér upp með Siggu dóttur hennar sem bjó þá í Ósló í Noregi. Munda og Böddi komu í heimsókn og dvöldu hjá Siggu í nokkra daga. Þessa daga notuðum við til þess að skoða Ósló og ferðast um næsta nágrenni borgarinnar. Mér er það ákaflega minnisstætt er við gengum frá heimili okkar í Ósló upp meðfram Akerselven.

Sigga hafði sagt mér að mamma hennar væri mikill sjúklingur og yrði að fara afar varlega en í þessari gönguferð þurfti því sem næst að halda aftur af henni þar sem hún strunsaði eins og jarðýta af stað og hætti ekki fyrr en við komumst ekki lengra. Ég spurði hana af og til hvort ekki væri ráð að fara rólega en hún tók frekar fálega í það. Sagðist vera hress og ekkert væri að. Hún hefði það svo gott.

Ég taldi víst að þessar veikindasögur væru einhverjar ýkjur en komst að því síðar að svo var nú ekki. Munda veiktist fyrir tæplega 40 árum er þau Böddi bjuggu ásamt fjölskyldunni á Siglufirði. Lengi vel var ekki vitað hvað hrjáði hana en síðar var hún greind með Lupus, þ.e. rauða úlfa. Sjúkdómurinn olli því að ekki endurnýjuðust hvít blóðkorn hjá henni og var hún því oft veik. Böddi stóð eins og stoð og stytta við hlið hennar allan þennan tíma og keyrði suður til Reykjavíkur ófáar ferðirnar þegar hún þurfti að fara á sjúkrahús.

Eftir greiningu þurfti hún að fara á u.þ.b. 5 vikan fresti á sjúkrahús í plasmagjöf. Á þessum árum gekk á ýmsu þar sem blóð var lítið sem ekkert skimað, auk þess sem blóðgjöfunum fylgdu stundum sýkingar. En það var sama á hverju gekk hjá Mundu. Aldrei kvartaði hún og þegar maður heimsótti hana á sjúkrahúsið fékk maður alltaf að vita að allt gengi svo vel, hún hefði það svo fínt, allir væru svo almennilegir og góðir. Það eina neikvæða við Mundu var að hún vildi helst fara allt of snemma heim af sjúkrahúsinu. Hún hafði einhverju sinni orð á því að þó maður væri veikur þá þyrfti maður ekki að líta þannig út.

Hún naut þess að ferðast og skoða sig um og ferðaðist reglulega með Bödda til Spánar. Árið 2005 greindist Munda með Alzheimers (heilabilun) og ágerðist sá sjúkdómur hratt og í apríl 2006 lagðist hún á Hjúkrunarheimilið Víðihlíð í Grindavík. Þar naut hún frábærrar umönnunar starfsfólks auk þess sem Böddi heimsótti hana því sem næst daglega þetta rúma ár sem hún dvaldi þar. Í huga mínum minnist ég yndislegrar tengdamóður sem geislaði af lífsgleði og þakklæti fyrir allt sem fyrir hana var gert hversu lítið sem það var. Ég kveð með þakklæti fyrir gjöful og góð kynni og bið góðan guð að styrkja Bödda í hans sorg.

Ólafur Örn Haraldsson.
---------------------------------------

Með hlýhug og vináttu langar mig að minnast Mundu frænku minnar og æskuvinkonu, sem er látin eftir erfið veikindi til margra ára. Það sem bjargaði þér var hvað þú varst jákvæð, skapgóð og æðrulaus og ekki hafðir þú mörg orð um veikindi þín að fyrra bragði, þú svaraði því gjarnan til að heilsan mætti vera betri. Þú átt góðan og tryggan lífsförunaut sem stóð eins og klettur við hlið þér, eins og fjölskyldan öll.

Það er margs að minnast frá uppvexti okkar á Siglufirði, við áttum báðar heima út í Bakka, þú hjá foreldrum þínum, þar áttu einnig heima Halldóra langamma og Guðmundur langafi og ég bjó í næsta húsi og var mikill samgangur þar á milli. Alltaf vorum við saman að fara í berjamó, að veiða á græna árabátnum, allar fjöruferðirnar, stundir með langömmu þegar við vorum að pússa koparinn og fengum að launum besta te í heimi.

Gaman var hjá okkur þegar Færeyingarnir komu í sín föstu kaffiboð í Bakka, þá var sko fjör hjá okkur. Það voru forréttindi að alast upp eins og við fengum að gera, leikvöllurinn var stóra túnið hans langafa, og stutt var að fara í eldhúsið til langömmu þar sem alltaf var nóg til af öllu.

Það er sárt að kveðja þig, góða vinkonu, en það verður alltaf huggun harmi gegn að geta yljað sér við fallegar minningar, góðar og skemmtilegar stundir með þér og þínum. Með þakklæti fyrir ánægjulega samveru öll árin okkar á Siglufirði og einnig fyrir sunnan.

Elsku Munda frænka, hvíl þú í friði, minning þín lifir. Ég kveð þig með eftirfarandi ljóðlínum sem eru svo lýsandi fyrir þig.

  • Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,
  • hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
  • Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,
  • og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir.)

Við Sveinn og fjölskylda okkar sendum innilegar samúðarkveðjur og biðjum góðan Guð að styrkja Bödda og fjölskyldu hans.

Björg Friðriksdóttir.