Tengt Siglufirði
mbl.is 1987
HINN 14. September 1970 andaðist í Landakotsspítalanum hér í Reykjavík, Guðmundur H. L. Hannesson, fyrrverandi bæjarfógeti í Siglufirði.
Hann var á nítugasta aldursári er hann lézt. Jarðarför hans verður gerð í dag kl. 13,30 frá Dómkirkjunni. Guðmundur Hallgrímur Lúther, en svo hét hann fullu nafni, var fæddur 17. maí 1881, að Stað i Aðalvík.
Foreldrar hans voru
Guðmundur Hannesson kvæntist 15. ágúst 1915 Friðgerði Rannveig Guðmundsdóttir, öndvegiskonu, vestfirzkrar ættar og lifir hún mann sinn.
Hann unni konu sinni til hinztu stundar og reyndist henni umhyggjusamur og frábær eiginmaður alla tíð. þau eignuðust fjögur börn:
Guðmundur ólst upp hjá foreldrum sínum og vandist þegar í æsku allri vinnu til sjós og lands eins og títt var um unglinga á síðasta tug 19. aldar. Snemma bar á ríkri löngun hjá honum til að læra meira en almennt tíðkaðist að kenna íslenzkri sveitaæsku á þeim tíma er hann var að alast upp. Þar sem saman fóru hjá þessum unga Vestfirðingi rík mennta þrá og góðar gáfur, tók móðurbróðir hans, séra Páll Sívertsen sóknarprestur að Stað í Aðalvík hann til sin um tíma og kenndi honum undir lærða skólann; það gerði einnig séra Þorvaldur Jónsson prestur á Ísafirði.
Guðmundur Hannesson settist í fyrsta bekk lærða skólans haustið 1897, þá 16 ára gamall. Hann útskrifaðist þaðan vorið 1903 með 1. einkunn. Þegar um haustið sigldi hann til Kaupmannahafnar og lagði stund á lögfræðinám. Próf í forspjallsvísindum tók hann við Hafnarháskóla 1904 og embættispróf í lögfræði við sama skóla 9. janúar 1909. Hvort tveggja með 1. einkunn.
Að afloknu prófi gerðist hann þingskrifari veturinn 1909, en fluttist í maí sama ár til Ísafjarðar þar sem hann stundaði málaflutningsstörf til vorsins 1918. Á þessum árum gegndi hann einnig störfum vararæðismanns fyrir Noreg á Ísafirði og bæjarfulltrúastörfum. 1918 var hann settur sýslumaður Barðastrandarsýslu, en að hálfu ári liðnu flutti hann aftur til Ísafjarðar. 9. maí 1919 var hann skipaður lögreglustjóri í Siglufirði og þann 1. janúar 1920 var hann skipaður bæjarfógeti þar.
Fyrstu bæjarstjórnarlög Siglufjarðar kváðu svo á, að í Siglufjarðarkaupstað skyldi vera lögreglustjóri skipaður af dómsmálaráðherra með kr. 2,000,oo árslaun. Hann skyldi jafnframt vera sjálfkjörinn oddviti bæjar stjórnar og hafa atkvæðisrétt á fundum. Laun fyrir oddvitastarfið skyldu vera kr. 500,oo á ári og greiðast úr bæjarsjóði.
Guðmundur Hannesson kom eins og fyrr segir til Siglufjarðar 27. maí 1919. Hinn 28. maí 1919 var haldinn síðasti hreppsnefndarfundurinn. Á fundi þessum mætti lögreglustjórinn í fyrsta sinn og var það síðasta verk oddvita hreppsnefndar, séra Bjarna Þorsteinssonar að bjóða hann velkominn.
Séra Bjarni mælti m.a. á þessa leið: „Það hefur fallið í minn hlut að vera síðasti oddviti Hvanneyrarhrepps og bjóða velkominn hinn fyrsta, sérstaka valdsmann Siglufjarðarkaupstaðar. Mér er ljúft að leggja niður völd sem oddviti hreppsnefndarinnar. Hitt er mér ekki síður ljúft að bjóða velkominn þann mann, sem forsjónin hefur sent okkur til að vera oddviti okkar á komandi tíð. Þótt Siglufjörður sé ekki stór bær né mannmargur, er þess ekki að dylja, að þessi maður á talsvert vandasamt starf fyrir höndum.
Það er miklu meira verk, erfiðara og vandasamara, að stýra málefnum þessa bæjar, sem er á uppvaxtarárum, sem er á hröðu framfaraskeiði, þar sem margt er hálfgert og enn fleira ógert, heldur en hjá bæjum, þar sem allt er komið í fast form. En því meina verk og vandasamara sem hér liggur fyrir, þess meira ríður á, að hér sé gengið að starfi með framtakssemi og dugnaði samfara hyggindum og ráðdeild. Þessa kosti þarf oddviti okkar að hafa og allir þeir, sem með honum eiga að stýra málefnum bæjarins. —
Bæði fyrir hönd hreppsnefndarinnar og fyrir hönd íbúa kaupstaðarumdæmisins býð ég lögreglustjórann velkominn og óska honum allra heilla og samtímis vona ég, að heill og hamingja hans og bæjarins megi fara saman; að bærinn megi blómgast og blessast undir hans stjórn og að sjálfur megi hann hafa gleði og ánægju af starfi sínu hér og megi koma mörgu þörfu og góðu til leiðar og búa glaður og ánægður okkar á meðal langa stund."
Þessar heillaóskir þakkaði hinn ungi lögreglustjóri og lét í ljósi ánægju sína yfir þeim hlýju móttökum, sem þau hjónin höfðu hlotið við komuna til Siglufjarðar. Fyrstu bæjarstjórnarkosningar í Siglufirði fóru fram 7. júní 1919. Kjörnir voru 6 bæjarfulltrúar. Oddvitinn var sá sjöundi með fullum atkvæðisrétti. Hinn 14. júní 1919 var haldinn fyrsti fundur hinnar nýkjörnu bæjarstjórnar undir forsæti Guðmundar Hannessonar.
Oddvitastörfum í bæjarstjórn Siglufjarðar gegndi hann nákvæmlega í 19 ár eða til 15. júní 1938 er sérstakt bæjarstjórnarembætti var stofnað í Siglufirði. Eins og áður er getið hafði Guðmundur Hannesson á hendi yfirstjórn bæjarmála í 19 ár í Siglufirði og var jafnframt lögreglustjóri og dómari allt til 1948.
Hann var því æðsti embættismaður staðarins þau tæp 30 ár, er hann bjó í Siglufirði og mikill áhrifa- og framkvæmdamaður var hann alla tíð. Hinnar nýju bæjarstjórnar er kjörin var 1919 biðu mörg verkefni. Fyrir samstillt átök bæjarfulltrúa undir forustu oddvita var hverju stórmáli á fætur öðru hrint í framkvæmd. Þau verða ekki talin hér, það yrði of langt mál, en minna má á að á þessum árum breyttist Siglufjörður úr litlu þorpi í menningar- og athafnabæ, sem löngum var í sviðs ljósinu á fyrra helmingi þessarar aldar og jafnvel lengur. Ég kynntist ungur Guðmundi Hannessyni og fjölskyldu hans. í húsum þeirra var ég heimagangur um ánatugi. Guðmundur Hannesson var að mínum dómi mikill eljumaður.
Hann var oftast kominn að vinnuborði sínu í Siglufirði um kl. 8 og vinnudagurinn var a.m.k. þriðjung ársins ætíð 12 klst. á dag og oft lengur. Tímafrek réttarhöld — langir bæjarstjórnarfundir, nefndarfundir og önnur embættisstörf kröfðust mikillar vinnu, mikilla átaka og ónæðis og nú kom sér vel að hafa tamið sér í æsku skyldurækni og árvekni. Guðmundur Hannesson var einstakur heimilisfaðir.
Guðmundur Hannesson lét reisa glæsilegt tveggja hæða steinhús á lóð sinni við Hvanneyrarbraut í Siglufirði árið 1927. Var það þá reisulegaista hús í Siglufirði og er það enn. Ber það vott um þann stórhug er einkenndi bæjarfógeta Siglufjarðar á þessum árum. Fyrirmannlegri embættisbústað á Íslandi hefi ég ekki séð. Á þessu heimili ríkti jafnan gestrisni og glaðværð.
Þar skemmtu sér og nutu gestrisni húsráðenda fólk á öllum aldri, ungir og gamlir, ekki sízt ungir vinir barnanna á heimilinu. Guðmundur Hannesson er látinn og kvaddur í dag. Hann var höfðingi og bar höfuðið jafnan hátt og hafði ráð á því. Siglfirðingar kveðja nú mikilhæfan forustumann, er starfaði þeirra á meðal nær þrjá áratugi og þeir þakka giftudrjúg störf hans í þágu Siglufjarðarkaupstaðar.
Guðmundur Hannesson og fjölskylda fluttust til Reykjavíkur árið 1948 og bjó alla tíð að Blönduhlíð 6 hér í bæ. Þar bjó kona hans og Jórunn dóttir þeirra fjölskyldunni fagurt heimili. Þangað svo og til annarra vandamanna eru nú sendar samúðarkveðjur og þess beðið, að ævikvöld frú Friðgerðar megi verða milt og fagurt eins og maður man fegurstu vorkvöldin í Siglufirði. Frá heimili mínu eru Guðmundi Hannessyni sendar vina og þakkarkveðjur, það er fyrir svo margt að þakka nú en leiðir skiljast. Minningin um mikilhæfan mann mun lifa meðal ástvina hans og þeirra annarra, er þekktu hann bezt.
Jón Kjartansson