Guðmundur Jónsson frá Helgastöðum

(minning, mbl)

Guðmundur Jónsson frá Helgastöðum  f. 14 júlí 1877 – d. 5. ágúst 1953

VIÐ sáumst fyrst að kvöldlagi fyrir allmörgum árum. Báturinn hans lá ferðbúinn við bryggjuna, þar sem nokkrir menn höfðu hópast saman.
Maðurinn vakti strax athygli, bæði vegna þess hve karlmannlegur hann var, og eigi síður sökum hins, að enda þótt hann væri. ekki sparibúinn, þá var fyrirmennskan augljós í fasi hans, og af tilsvörunum og látbragði öllu varð ljóst, að hann var höfðingi mestur sveitarinnar allrar. Svo vatt hann sér fimlega um borð, hagræddi byssum sínum og öðrum veiðarfærum, og innan stundar var hann horfinn, einn á báti, eitthvað út í kvöldhúmið.

„Hvaða herramaður var þetta?" „Guðmundur frá Helgastöðum", var svarað og spurt: „Þekkirðu hann ekki?" Jú, auðvitað. Hver vissi ekki öll deili á Guðmundi.. Svo að þetta hafði þá verið hann.

Myndin, sem ýmsir höfðu með frásögnum af Guðmundi mótað í huga mér, var eflaust mjög svipuð þeirri, er flestir sjá nú, þegar hans er minnzt. Ég hélt, að hann væri barn fremur frumstæðrar náttúru, gáfaður, slyngur og áræðinn veiðimaður, sérkennilegastur vegna smellinna tilsvara og ævintýra, sem stundum voru talin eiga veikar stoðir í veruleikanum, kvennamaður ágætur, ölkær nokkuð, hrekklaus um allt það, er einhverju varðaði en þó brellinn stundum. Hann var því í mínum augum svo fágætt afbrigði veiði- og ævintýramennsku, að mér lék mikil forvitni á að kynnast honum nánar.

Guðmundur Jónsson Helgastöðum - ókunnur ljósmyndari

Guðmundur Jónsson Helgastöðum - ókunnur ljósmyndari

Sú viðkynning olli mér til að byrja með nokkrum vonbrigðum, því að þess varð fljótlega vart, að Guðmundur var ekki eins sérstæður inn við beinið og ég hafði gert ráð fyrir. Hann var að vísu orðin mjög fastmótaður veiðimaður, því að önnur störf taldi hann sér ósamboðin, enda naumast nokkur til þeirra hæfari honum, sem kunni engu verr skil á hverjum boða Faxaflóans en bóndinn á mishæðunum í túni sínu, vissi meira mörgum náttúrufræðingi um eðliseinkenni dýranna, sem hann felldi sér til framfærzlu.

Hann var veðurglöggur eins og gamall skarfur, þrekmikill, djarfur og kunnáttusamur sjómaður og ein bezta skytta, sem vopni hefir valdið á Íslandi, en þó að hann væri einkum í essinu sínu þegar setið var við að segja veiðisögur, þá átti hann einnig önnur áhugamál, var margsvís og óljúgfróður um allt, er máli skipti, en ýkti það allt, er verða mátti til saklauss gamans eða dýpkunar og skýrleiks þeirra mynda, er hann dró.

Aldrei reyndi hann að berja í bresti sína, lét miklu fremur í það skína að þeir hefðu verið stórfelldari en trúlegt má telja, því að enda þótt honum hafi e. t. v. einhvern tíma þótt sopinn fullgóður, þá var hann oftast hinn mesti hófsmaður við drykk og bragðaði ekki vín á síðari árum og kvenhylli hans var sízt meiri en við mátti búast af svo afburða gjörvulegum manni, sem hann var á yngri árum, og breyskleiki hans í þeim sökum ekki meiri en svo, að eftir tæprarar hálfrar aldar sambúð myndi kona hans ekki hafa kosið sér ágætari eiginmann eða heimilisföður en Guðmundur var henni.!  

Vera má, að pústrar Guðmundar hafi einhvern tíma verð hressilega úti látnir, en aldrei í munu þeir hafa komið ómannlega niður, því að alkunna er, að lítilmagnar allir áttu hvergi betra skjól en undir skildi hans.
Eftir að mig fór að gruna, myndina, sem Guðmundur vildi sjálfur helzt gefa þeim, er þekktu hann lítt, var allt önnur en sú, sem innra bjó, þá sannfærðist ég smám saman um, að hann átti mjög viðkvæma lund, var góður og traustur félagi, hjálpfús og veitull, trúhneigður, skyldurækinn, ljúfur þeim, sem hann vildi blanda geði við, að þóttinn var ranghverfa höfðingslundar, ýkjurnar rík skáldskaparhneigð, að bak við tvíræð og oft kuldaleg tilsvör bjó mikil og rökvís eðlisgreind, að skrápurinn á hinum sæbarða hjarðjaxli og slóttugu veiðikló, er sóttri jafnt afla til yztu miða og innstu stranda, var álagahamur, er fallrið hafði yfir mildan og góðviljaðan mann, er í engu mátti vamm sitt vita og engum vildi annað gera en það, sem gott eitt var.

Þegar um það er spurt, hvers vegna hann kaus fremur að vera oftast einn á báti, fjarri alfaraleiðum, en að fara kunnari slóðir. þá veit ég engin örugg svör, en grunur minn er þó sá, að þar hafi mestu valdið þau vonbrigði, er hann varð fyrir í æsku, þegar auðsætt varð, að önnur efni stóðu ekki til þess bóknáms, er freistaði hans, en þeir hæfileikar, sem honum voru af náttúrunnar hendi til þess búnir. Þá ætla ég að hann hafi fyrst brynjað sig tvíræðu glotti, gerzt hamrammur sjóari, slunginn veiðimaður, snjall sögusmiður efniviður þeirra þjóðsagna, sannra og ýktra er lengi munu í minnum hafðar og við hann kenndar.

Guðmundur fæddist 14. júlí 1877 að Hækingsdal í Kjós en fluttist sjö ára gamall hingað til Reykjavíkur með foreldrum sínum,

  • Jóni Jörundssyni og
  • Gunnhildi Sigurðardóttur.

Þau reistu bú að Helgastöðum í Reykjavík, þar sem Guðmundur ólst síðan upp og var hann jafnan kenndur við þær æskustöðvar sínar. Framan af æfi var atvinna hans margbreytileg. Hann var sjómaður, skipstjóri, lögregluþjónn, verkamaður, fór víða en leitaði aftur heim á æskustöðvarnar, þar sem hann tók að stunda veiði skap ýmislegan, er síðar varð hvort tveggja í senn íþrótt hans og atvinna.

Hann sótti jafnan til fanga út á Faxaflóa, varð jafnan afladrjúgt, sigldi þar mikinn þótt aðrir hefðu eigi byr. Guðmundur varð aldrei ríkur að fé, en sjálfbjarga alla tíð, þótt örlátur væri jafnan og höfðingi heim að sækja.

6. október 1903 kvæntist hann ágætri eftirlifandi konu sinni, Jóhanna Guðrúnu Gísladóttir.

Þau eignuðust einn son,

  • Jónas Thorvald Guðmundsson, er býr hér í bænum.
  • Aðrir synir Guðmundar eru:
  • Kristmann Guðmundsson skáld í Hveragerði,
  • Jón Guðmundsson, búsettur í Reykjavík og
  • Kristinn Guðmundsson útvarpsvirki til heimilis á Siglufirði.

Enda þótt Guðmundi væri ekki fisjað saman, þá fór þó svo að lokum, að þrotlaust erfiði og elli unnu bug á heilsunni, svo að sjóferðum. hans fór mjög fækkandi á síðari árum, og í sumar kenndi hann lasleika, er skyndilega dró til dauða aðfaranótt 8. f. m. Hann var jarðsettur hér í Reykjavík 20. ágúst sl. (1953)

Við hittumst síðast sunnudagsmorgun einn í sumar, en þá komu nokkrir góðvinir til þess að heilsa upp á gömlu hjónin. Guðmundur var þá hress og hlýr að vanda, húsfreyjan glöð gestakomunni. Þótt enn blikaði stundum á sævíkinginn mikla í svip og tilsvörum húsbóndans, þá var þó meira að finna en nokkurn tíma fyrr af því, sem einkennt hefir í öndverðu lítinn, ljúfan dreng frá Helgastöðum í Reykjavík, góðleikanum, mildinni, ást til söngva og sögu, trú á hið góða frá guði og mönnum.

Svona man ég hann, — fyrst er hann hvarf mér út í kvöldhúmið, einn á báti sérstæður sæúlfur, alkunn aflakló, smiður smellinnar sögu, — síðast, þar sem hann stóð í varpanum heima, ljúfur og lífsreyndur, gamall og góðviljaður, og ég sá er hann minntist við son sinn í sólskini sunnudagsmorgunsins og heyrði hann árna okkur allra heilla. Þannig hefir hann nú lokið síðustu siglingunni gegn um húmið dökka inn í sólskin hins mikla dags.

Sigurður Magnússon.

--------------------------------------------------

Mánudaginn hinn 6. Aprílmánaðar árið 2013. Nr. 8/1908:

Valdstjórnin gegn Guðmundi Jónssyni Dómur: Með lögregluréttardómi Reykjavíkurkaupstaðar, gengum 16. jan. þ. á., var hinn kærði, Guðmundur Jónsson frá Helgastöðum í Reykjavík, dæmdur fyrir brot gegn 43. gr. í lögreglusamþykt Reykjavíkur 15. nóv. 1890, sbr. viðauka við samþykkt þessa 20. nóv. 1898, í 20 kr. sekt til bæjarsjóðs Reykjavíkur og til að greiða in solidum með öðrum manni, er kærður var í sama máli, allan af málinu leiðandi kostnað.

En þessum dómi hefir eftir ósk hins kærða, að því er hann einan snertir, verið skotið til yfirdómsins. Það er sannað, sumpart með játningu kærða og sumpart með vitnaskýrslum, að kvöldið 27. des. f. á. fór hann inn í forstofuna við samkomuhús Hjálpræðishersins í Reykjavík í forboði dyravarðarins og gerði síðan ítrekaðar tilraunir til þess að brjótast með ofbeldi, þrátt fyrir mótspyrnu liðsmanna Hjálpræðishersins, inn í samkomusal hersins, en með þessu atferli sínu raskaði hann friði á samkomu hersins, sem þá stóð yfir, og verður því að álítast hafa orðið brotlegur gegn ofannefndri grein lögreglusamþyktarinnar.

Kærði hefir áður fleirsinnis verið sektaður fyrir lögreglubrot, síðast með lögregluréttardómi Reykjavikur 12. sept. f. á. um 10 kr., og með því að sekt sú, sem ákveðin er í hinum áfrýjaða dómi, þykir hæfilega ákveðin 20 kr., og yfirdómurinn einnig felst á málskostnaðarákvæði dómsins, ber að staðfesta lögregluréttardóminn að því er kærða áhrærir.

Kærða ber og að greiða allan af áfrýjun málsins leiðandi kostnað, þar með talin málflutningslaun sækjanda og verjanda fyrir yfirdóminum, er ákveðast 10 kr. til hvors þeirra. Það vottast, að rekstur málsins í héraði hefir verið vítalaus og málsfærslan fyrir yfirdómi hefir verið lögmæt.

Því dæmist rétt vera : Lögregluréttardómurinn á að vera óriskaður.

Kærði Guðmundur Jónsson greiði og allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málflutningslaun til sækjanda og verjanda við yfirdóminn, yfirréttarmálaflutningsmannanna Odds Gíslasonar og Eggerts Claessen, 10 kr. til hvors þeirra. Í dæmd sekt greiðist innan 8 vikna frá lögbirtingu dóms þessa og ber honum yfirleitt að fullnægja með aðför að lögum.
-------------------------------------------------------


??????????????????????????????????????????????  Ekki viss 1953

----------------------------------------------------------

Dálkurinn: Vettvangur dagsins – Alþýðublaðið 2. september 1953

Labbað um hafnarbakkann á sunnudagsmorgni. — Ummæli sjómannsins um Guðmund frá Helgastöðum og bátinn hans.

SUNNUDAGURINN var ákaflega fagur, en svona  hafa margir dagar verið í sumar sem ég man eftir, sagði maður við mig í gær. Það kemur manni líka á óvart, hvað manni finnst borgin vera hrein, jafnvel hafnarbakkinn var hreinn á sunnudagsmorguninn. Þar labbaði prúðbúið fólk og allmikið var af smáfólki í fylgd með því. 

ÉG STAÐNÆMDIST hjá sjómanni, sem stóð rétt hjá verbúðunum. Hann horfði á smábáta, sem vögguðu hóglátir á smásævinu. Það var eins og það væri hryggð í svip hans. Hann leit við mér og sagði svo: ,,Og þá er Helgastaða-Hanna horfin." Ég vissi ekki hvað hann átti við. En brátt fékk ég skýringuna. HELGASTAÐA-GVENDUR, sá lífsins fiðlari, var horfinn og báturinn hans, litur eins og sjórinn, sem allir hafnarbakka menn þekktu, var líka horfinn og enginn vissi hvað orðið hafði af honum. „Það hefði átt að heygja Guðmund Jónsson í bát sínum og bera riffil hans og aðrar tilfæringar í hauginn til hans." sagði sjómaðurinn. Og ég var á sömu skoðun.

GUÐMUNDUR Á HELGASTÖÐUM hafði verið þara í flæðarmálinu í áratugi. Það var ævinlega alveg sama hvenær maður kom þarna á bakkann, alltaf sá maður Guðmund, annaðhvort á strjáli eða í bátnum, annaðhvort að tygja sig af stað eða að koma að landi Hann var veiðimaður, veiðin var hans ævintýr. Og þó að hver dagur væri öðrum líkur ef til vill og ekkert gerðist, þá fannst Guðmundi alltaf eitthvað hafa gerzt, hann lét sig að eins dreyma, það, sem á vantaði. Það varð allt að ævintýrum.

HANN HAFÐI marga hildi háð við dætur Ægis og lét sér fátt fyrir brjósti brenna. Hann þekkti sjólagið og hann þekkti á skýin betur en flestir aðrir. Hann þekkti á fuglana og selina — og hann gældi við byssur sínar. Ég reyndi eitt sinn að fá viðtal við hann í bók mína „Fólkið í landinu" , hann dróst á að láta það í té, en hann var orðinn miður sín af sjúkleika svo að hann hummaði það fram af sér.

Hann leysti aldrei alveg frá skjóðunni. En hann bjó yfir mörgu, enda var hann mjög sér stæður persónuleiki.

ÞAÐ ER EINKENNILEGT hvað margt getur breytt um svip þegar maður hverfur. Sjómaðurinn saknaði Helgastaða Gvendar af hafnarbakkanum og hann saknaði líka bátsins hans. Það vantar nú svipdrátt, sem höfnin hafði áður. Það vantar þann drátt í svip hennar, sem veiðimaðurinn og sögu maðurinn Guðmundur Jónsson gaf henni.

SUÐUR Í TJARNARENDA, rétt hjá Þorfinni Karlsefni, lá maður í grasinu. Hann kom hingað 1912. „Það er einkennilegt," sagði hann, „Mér finnst að ég hafi týnt einhverju af sjálfum mér við allar þær breytingar, sem yfir Reykjavík hafa gengið á síðastliðnum 15 árum.
Hannes á horninu.
----------------------------------

Tekið frá grein í Tímanum, í tilefni af 50 ára afmæli Kristmanns Guðmundssonar, sonar Guðmundar Jónssonar. Þann 23. október 1951.
………………………….   Af Guðmundi, föður sínum, hafði Kristmann lengi vel engin kynni, en sitthvað er það um Guðmund, sem vert er að minnast, þegar hugað er að syni hans, skáldinu. Eins og fjölmargir Reykvíkingar sinnar samtíðar var Guðmundur á yngri árum skútumaður, og farmaður var hann um nokkurt árabil, en það voru aðeins fáir Íslendingar í þann tíð.

Hann mun svo í fjöldamörg ár hafa haft lífsuppeldi sitt af því að fara hér um Sundin og grunnmið Flóans einn á báti með byssu sína og skjóta fugla og seli. Hann er sagður afbrigðas skytta, athugull mjög og sérlega veðurglöggur, næstum eins og hann hafi sagnaranda um veðrabrigði. Hann kvað vera hressilegur í tali, hafa gaman af að segja frá og ýkja nokkuð, sér og öðrum til skemmtunar, eða hagræða atburðum þannig að þeir verði sem sögulegastir, og hefi ég heyrt eftir honum sögur sem eru mjög snjallar.

Honum virðist í brjóst borin rík ævintýraþrá, löngun til frjálsræðis, hneigð til einveru í skauti íslenzkrar náttúru, ágæt athyglisgáfa, allmikið hugmyndaflug og rík frásagnargleði. Allir þessir eiginleikar eru skáldum yfirleitt vöggu gjöf — og Kristmann á þá í ríkum mæli. Þá er Guðmundur frá Helgastöðum karlmannlegur og höfðinglegur yfirlitum, og mun Kristmann hafa erft ekki lítið af yfirbragði sínu frá honum……………………………
(Guðmundur Gíslason Hagalín)

Afmælisfregn: Morgunblaðið 13. Júlí 1952: 75 ára verður á morgun, mánudag, Guðmundur Jónsson frá Helgastöðum, nú til heimilis að Ananaust A, Reykjavík.

Morgunblaðið 11. ágúst 1953

======================================================================

Meira um Guðmund Jónsson hér> http://www.sk2102.com/436950928

Guðmundur Jónsson; hrókur alls fagnaðar - ljósmyndari ókunnur