Jónmundur Hilmarsson trésmiður

Mbl.is 22. apríl 2016  

Jónmundur Hilmarsson fæddist að bænum Tungu í Fljótum 17. janúar 1942. Hann lést á heimili sínu 14. apríl 2016.

Foreldrar hans voru hjónin

  • Magnea Þorláksdóttir, f. 12. apríl 1913, d. 14. maí 1975, og
  • Hilmar Jónsson, f. 8. október 1915, d. 16. ágúst 1954.

Systkini Jónmundar eru:

  • Guðný Ásdís Hilmarsdóttir, d. 2004,
  • Magnús Þormar Himarsson,
  • Hilmar Hilmarsson og
  • Sigurlína Hilmarsdóttir.

Eiginkona Jónmundar er
Guðný Jónasdóttir, f. 30. apríl 1945. Þau gengu í hjónaband 19. janúar 1964.
Foreldrar henna r eru 

Jónmundur Hilmarsson - ókunnur ljósmyndari

Jónmundur Hilmarsson - ókunnur ljósmyndari

  • Kristínar Steingrímsdóttir, f. 23. september 1909, d. 11. október 1985, og
  • Jónasar G. Halldórsson, f. 9. janúar 1910, d. 26. maí 1995.

Börn þeirra eru:

  • 1) Ingunn, f. 1963, maður hennar er Jón Pétursson, f. 1959. Börn þeirra eru: Lára Sif, f. 1996, og Írena Sóley, f. 2001. Ingunn á Margréti, f. 1986. Faðir hennar er Kristján Kristmundsson, f. 1963. Börn Jóns eru Arnar Snorri, f. 1981, og Sandra Dögg, f. 1986.
  • 2) Magna, f. 1964. Maður hennar er Pétur Ingason, f. 1964. Börn þeirra eru: Jón Ingi, f. 1991, Kári Steinar, f. 1993, og Katrín Hrund, f. 1998. Dóttir Péturs er Sigríður Þyrí, f. 1983.
  • 3) Jónas, f. 1966. Kona hans er Ingibjörg María Guðmundsdóttir, f. 1967. Börn Jónasar eru: Guðný, f. 1986, Magnús Heimir, f. 1990, og Ásdís Birna, f. 1996. Móðir þeirra er Erla Stefanía Magnúsdóttir, f. 1968. Börn Ingibjargar eru Matthildur María, f. 1990, Guðrún, f. 1995, og Dýrfinna, f. 1998.

Langafabörn Jónmundar eru þrjú, börn Margrétar, þau Ingunn Birta, f. 2007, Mikael Máni, f. 2009, og Daníel Darri, f. 2015.

Jónmundur fluttist með foreldrum sínum á öðru ári til Siglufjarðar, þar sem hann ólst upp. Eftir almenna skólagöngu nam hann húsasmíði og varð meistari í þeirri iðn. Við það starfaði hann lengst af.
Jónmundur á langan tónlistarferil að baki sem hann starfaði einnig við í þrjá áratugi. Árið 1972 fluttist Jónmundur með fjölskyldu sína til höfuðborgarsvæðisins og bjó þar til æviloka.

Útför Jónmundar verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag, 22. apríl 2016, og hefst athöfnin kl. 13.

Tengdafjölskyldan mín var samankomin á heimili þeirra Jónmundar og Guðnýjar fimmtudaginn 14. apríl er Jónbi tengdapabbi lést. Að hans ósk lá hann banaleguna heima og var umkringdur fjölskyldu sinni. Dagurinn var erfiður en hlýlegur þar sem fjölskyldan eyddi honum saman. Jónbi, eins og hann var alltaf kallaður, hafði ákveðnar skoðanir og stórar hugmyndir. Fram á síðasta dag var hann á leið í framkvæmdir og ferðalög þrátt fyrir veikindi sín.

Hann hafði unun af því að fylgjast með framkvæmdum hjá börnum og barnabörnum og bauð iðulega fram aðstoð. Einkenni Jónba var einmitt greiðasemi. Fyrir eitt orð var hann hlaupinn undir bagga, að skutla og sækja og redda því sem þurfti vegna anna hjá okkur hinum. Og ef hann gat hjálpað á einhvern hátt, farið í búð, látið laga bíl eða skutlast eftir hlutum sem þurfti að hafa fyrir að finna, þá var hann mættur.

Eitt sem mér þótti sérstaklega vænt um hjá Jónba var að hann deildi með mér einlægum áhuga á þorramat, súrum og kæstum. Þá áttum við góða stund saman. Það var alltaf gaman að borða með honum heima og heiman. Kvöldmatartíma hans fylgdu alltaf fréttir. Hann missti ekki af fréttatíma. Síðasta dag sinn heima fylgdist hann með fréttum áður en hann lagðist til hinstu hvíldar í rúmi í eigin svefnherbergi við hlið eiginkonu sinnar.

Hún stóð þétt við hlið hans alla leið enda hjón sem nánast aldrei voru aðskilin. Ég sem kom inn í fjölskylduna hin síðari ár dáist að samheldni og kærleika þeirra í milli. Sá kærleikur beindist líka að öllum öðrum í fjölskyldunni hvort sem þar voru blóðbönd eða ekki. Það var heppni mín að tengjast Jónba og fjölskyldu hans. Vertu sæll, elsku Jónbi, og hafðu það gott í blómabrekkunni þinni.

Ingibjörg María Guðmundsdóttir.
-----------------------------------------------------------

Elsku afi.

Það er ótrúlega skrýtið að setjast niður og skrifa um þig minningargrein. Þó við vissum í hvað stefndi þá er maður einhvern veginn aldrei tilbúinn þegar kallið kemur. Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að vera með þér daginn sem þú kvaddir í faðmi ömmu, þeim degi gleymum við aldrei. Við eigum fjöldann allan af góðum minningum um þig, svo margar að erfitt er að velja úr.

Afahlutverkið var þér afar mikilvægt og hafðir þú alltaf áhuga á og hvattir okkur áfram í öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur. Fram til síðasta dags vorum við spurð hvernig okkur gengi, hvort sem var í námi, leik eða starfi.

Ýmislegt hefur verið brallað með þér gegnum árin. Þar eru okkur efst í huga ferðir í sumarbústaðinn ykkar á Laugarvatni, þar sem ýmislegt var brallað, smíðað í smíðakofanum, dormað í heita pottinum á milli þess sem ísbíllinn brunaði upp brekkuna og hringdi bjöllunni.

Það var alltaf gaman að koma til ykkar í næturgistingu, því þá var sko dekrað við okkur, morgunverður í rúmið klikkaði aldrei, það verður lengi í minnum haft.

Ferðalög erlendis og ótal ferðir hérlendis. Skemmtilegast fannst þér að fara með okkur um heimaslóðir þínar í Fljótunum og inn að Tungu þar sem þú sýndir okkur gamla bæinn þinn og inn á Siglufjörð þar sem þú ólst upp.

Alltaf var gaman að ferðast með ykkur ömmu um landið því ekki var til það samkomuhús á landinu þar sem þú hafðir ekki spilað og þreyttist þú aldrei á því að segja okkur skemmtilegar sögur á meðan við nöguðum kótelettur eða borðuðum harðfisk í aftursætinu.

Það fór ekki fram hjá neinum að þú varst Siglfirðingur í húð og hár því ófáar sögur voru sagðar frá gömlum tímum á Siglufirði þegar þið amma voruð ung, hvort sem þær snérust um hljómsveitarárin, gamla vörubílinn, F-121, eða síldarárin, endalaus Siglfirsk ævintýri.

Síðasta ferðin var farin nú um páskana til Akureyrar og áttum við þar saman nokkra góða daga þrátt fyrir veikindin og þú náðir að komast einu sinni enn í fjörðinn þinn góða, Siglufjörð.

Öll jólin með ykkur ömmu eru okkur einnig mjög minnisstæð en það verður tómlegt að heyra þig ekki spila Heims um ból á píanóið næstu jól.

Söknuðurinn er sár en við eigum góðar minningar sem munu ylja okkur og fyrir það erum við þakklát. Við skulum passa vel upp á ömmu. Elsku afi, takk fyrir allt.

Kári Steinar, Katrín Hrund og Jón Ingi. Lára Sif og Írena Sóley.

Þegar ég hugsa um afa Jómba, þá hugsa ég fyrst og fremst um hversu hjartahlýr hann var. Það fór ekki á milli mála hjá okkur barnabörnunum hvað honum þótti vænt um okkur. Það sást alltaf að hann naut þess að eyða tíma með okkur. Hann gaf mikið af sér og vildi alltaf vita hvað væri að gerast í lífi okkar. Minningarnar eru endalausar, bíóferðirnar í Laugarásbíó sem barn, hlustandi á Eric Clapton saman þegar ég var unglingur eða spjall um málefni líðandi stundar þegar ég varð eldri.

Hann var allur af vilja gerður að aðstoða okkur í einu og öllu. Þó að ég þakkaði honum alltaf fyrir vona ég bara að hann viti hversu ótrúlega þakklátur ég var. Til dæmis öll þau skipti sem honum tókst að gera við gamla bílinn minn. Hugur minn reikar alltaf til hans um stund í hvert skipti sem kerran hrekkur í gang á morgnana.

Því þó að borgarbarnið ég viti lítið um vélar veit ég að það er afa að þakka að þessi virkar. Ég naut hverrar stundar með honum og mun minnast hans með hlýju í hjarta. Því orti ég minningarkvæði um ævi hans afa míns. Til að heiðra minningu hans og í þakklætisskyni fyrir allt. Hvíldu í friði, elsku afi.

  • Traustur og taktfastur
  • trommarinn úr Fljótunum
  • með kjuðana fræknastur
  • fyrir tónlistina í fingrunum.
  • Bítlagreiðslur og bindin mjó
  • bárujárnsböll í Fljótum
  • taktfast tréð í skinnið hjó
  • í firði undir fjallsrótum.
  • Siglt var út frá Siglufirði
  • þó menn væru veðurbarðir.
  • Hann skautaði síðan með þau byrði
  • í slyddu og snjó yfir Skarðið.
  • Frá Sigló farið suður í Fellin
  • og Ásar komu í stað Gauta
  • tromman hvarf, með tímanum,
  • kom ellin
  • en aldrei ég heyrði hann tauta.
  • Ástin aðeins ein
  • í allan þennan tíma
  • og hamingjan af honum skein
  • í kringum fjölskylduna sína.
  • Í okkar hinsta hjali, hann vildi
  • heyra um framtíð mína
  • því honum þótti það gulls ígildi
  • að það yrði í lagi með sína.
  • Fögur orð um fagra sál
  • sem er á öðru ferðalagi.
  • Brennur í hjarta mínu bál
  • að búinn sé þinn bardagi.
  • Og þegar ég sjálfur eignast börn
  • þá tek ég þau með mér
  • í fjörðinn fagra, að Siglufjarðarhöfn
  • og segi þeim frá þér.

(M.H.J.)

Magnús H. Jónasson.
----------------------------------------------------

Það er komið að kveðjustund. Við fráfall Jónmundar mágs míns eru mér efst í huga þakkir fyrir vináttu hans og umhyggju liðinna ára.

  • Við sjáumst ekki í sumar –
  • og þó sé ég þig:
  • er blómin horfa himins til
  • og hneigja sig
  • þá yfir í þinn huliðsheim
  • þú heillar mig.
  • Því vetrarstríð á enda er
  • nú undrumst við
  • hve dauðinn veitir dýra hvíld
  • og djúpan frið
  • og heyrum lífið líða hjá
  • sem lækjarnið.
  • Og allt það sem var auður þinn
  • og yndi þitt
  • það leitar eins og lóukvak
  • í ljóðið mitt
  • er signir þig hin breiða byggð
  • við brjóstið sitt.
  • Og allir þeir sem unnir þú
  • og unnu þér
  • þeir sjá hvar logi lífs þíns rís
  • og lyftir sér
  • í þessa lygnu líknarnótt
  • sem ljómar hér.
  • Er birtan sendir bláan draum
  • í bæinn inn
  • og geislaflugið fellur létt
  • á fagurkinn
  • það vermir litlar ljúfur þrjár
  • sem lófi þinn.

(Jóhannes úr Kötlum)

Guðnýju systur minni, börnum hennar og fjölskyldum fylgja innilegar samúðar- og friðarkveðjur mínar.

Hermína.

-------------------------------------------------

Gamalt máltæki segir að enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Alltof oft erum við minnt á þá staðreynd. Ég kynntist þeim hjónum Guðnýju og Jónba, eins og hann var kallaður, fyrir nokkrum árum þegar Inga Maja, dóttir mín, og Jónas, sonur þeirra, hófu sambúð. Með okkur þróaðist hlý vinátta. Jónbi virkaði á mig sem dagfarsprúður maður, hæglátur og skemmtilegur í spjalli um menn og málefni líðandi stundar.

Kannski áttum við margt sameiginlegt í upprunanum. Hann frá Siglufirði, ég frá Ísafirði, ekki ósvipaðir staðir. Við þekktum snjóþunga vetur, ferðalög við erfið skilyrði, vonda vegi, að kunna að bjarga sér og gefast aldrei upp. Hann var sannur landsbyggðarmaður, hafði enda ferðast mikið um landið, m.a. við að spila á dansleikjum á yngri árum. Og við höfðum bæði áhuga á þjóðmálunum og hagsmunamálum eldri borgara og gátum endalaust rætt það fram og til baka.

Veikindi sem hann greindist með ágerðust fljótlega eftir síðustu áramót. Við mennirnir höldum alltaf að við höfum nógan tíma. Í hjónabandi lifum við í þeirri trú að með aldrinum getum við farið að gera ýmislegt skemmtilegt saman, ferðast, taka lífinu með ró, eða bara vera saman í daglegum verkum og laus við stressið sem fylgir vinnunni oft og tíðum. En tíminn hleypur frá okkur og fyrr en varir er öllu lokið.

Þegar kallið kemur þá erum við aldrei viðbúin. Ég hefði viljað kveðja Jónba og þakka honum fyrir samverustundirnar og góða viðkynningu. Einhvern veginn dróst það að heimsækja hann síðustu vikurnar, enda þoldi hann ekki of mikið af slíku. Það veit enginn fyrr en á reynir hvernig það er að missa maka sinn og besta vin. Allt breytist og verkefni sem áður voru leyst sameiginlega verða vandamál fyrir þann sem eftir situr. Það er gott að eiga góða fjölskyldu þegar áföll verða, þá standa allir saman.

En svo tekur hversdagsleikinn og tómleikinn við. Þá reynum við að finna okkur ný viðfangsefni, gleðjast yfir góðum minningum og halda áfram að lifa lífinu. Ég votta Guðnýju og fjölskyldunni allri innilega samúð mína. Ég þakka Jónba fyrir vináttu hans, hlýju og umhyggju gagnvart mér og mínum.

Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.
----------------------------------------------------

Elsku Jómbi frændi.

Að leiðarlokum viljum við systkinin minnast þín með nokkrum orðum.

Í okkar huga varst þú yndislegur og hæfileikaríkur bróðir mömmu okkar. Trommuleikari í Gautunum. Já, við vorum svo stolt af því að þið systkinin og móðurbræður, frændur og frænkur, væruð saman í hljómsveitinni Gautum, blönduðum kvartett og Karlakórnum Vísi frá Siglufirði. Við erum mjög þakklát fyrir að þú giftist Guðnýju þinni og eignaðist með henni yndislegu frændsystkin okkar: Ingu, Mögnu og Jónas.

Guðný og börn eru með ljúfustu manneskjum sem við þekkjum í dag. Elsku frændi, þú veist að þú getur verið stoltur af yndislegu konu þinni og öllu afkomendum. Kæra fjölskylda, ykkar missir er mikill. Minning um góðan og hæfileikaríkan frænda lifir með okkur.

Kær kveðja,

Hilmar, Sirrý og Þórður Gunnarsbörn.

Við komum hér á kveðjustund

að kistu þinni, bróðir,

að hafa við þig hinzta fund

og horfa á gengnar slóðir.

Og ógn oss vekja örlög hörð,

er ennþá koma í hópinn skörð,

og barn sitt faðmi byrgir jörð,

vor bleika, trygga móðir.

En minning þín er mjúk og hlý

og mun oss standa nærri.

Með hverju vori hún vex á ný

og verður ávallt kærri.

Ef lífsins gáta á lausnir til,

þær ljóma bak við dauðans þil.

Og því er gröfin þeim í vil,

sem þráðu útsýn stærri.

(Magnús Ásgeirsson)

Með kærri þökk fyrir áratuga vináttu og hlýju. Við sendum Guðnýju og fjölskyldunni allri samúðarkveðjur.

Hulda og Viggó.

  • Bráðum anda vorsins dísir djúpt og rótt
  • dagarnir þeir lengjast nóttin flýr
  • lofgjörð syngja fuglarnir af ljóðagnótt
  • loftsins ilmur seiðir hreinn og nýr.
  • Höfuð hneigja blómin móti blíðri sól
  • blundar silfur dögg á gleym mér ei
  • tilfinningar allar þær sem ástin ól
  • eiga griðastað hjá sumarþey.

(Bjarki Árnason)

Ef einhver á skilið titilinn „vinur ársins“ þá er það Siglfirðingurinn Jónmundur Hilmarsson. Hann gæti þó þurft að keppa um titilinn við hana Guðnýju. Þessir yndislegu vinir okkar, Guðný og Jónbi, reyndust okkur ómetanlegur stuðningur á erfiðum tímum í okkar lífi. Vinátta Jónba og Guðnýjar og foreldra Rakelar var einstök og bar þar aldrei skugga á. Nærandi vinasamband sem tengist Siglufirði og uppvaxtarárunum þar en Siglufjörður tengdi þau saman og var þeim afar kær. Inga, Magna og Jónas erfðu þessa góðu eiginleika foreldra sinna og fyrir vináttu þeirra allra erum við endalaust þakklát.

Jónbi var sannkallaður bjargvættur á okkar heimili. Thomas nýfluttur til Íslands frá Þýskalandi, búinn að kaupa hús í Garðabænum og við tók endalaus vinna og viðhald hússins við íslenskar aðstæður. Alltaf var hægt að hóa í Jónba og fá góð ráð, þolinmæði og hlýju, enda maðurinn með eindæmum fær smiður. „Thomas minn, við bara reddum þessu. Við græjum þessa glugga hérna og þennan dyrakarm hér og leysum þetta og leysum hitt.“

Thomas fann í Jónba hinn handlagna tengdaföður Íslands. Endalaus þolinmæði og greiðasemi einkenndu Jónba þegar Björn faðir minn og tengdafaðir bjó hér í borginni og sótti reglulega lyfjameðferðir og þarfnaðist aðstoðar. Jónbi gerðist einkabílstjóri og selskapsdama og var alltaf reiðubúinn að aðstoða vin sinn. Þegar þeir svo sneru heim þáði hann einn kaffibolla eða tvo og stundum þrjá. Honum líkaði kaffið vel í Garðabænum. Hann átti inni kaffiboð þegar hann kvaddi þennan heim. Þann bolla og marga fleiri munum við, afkomendur þessara fallegu vina, drekka saman.

Elsku Guðný, Inga, Magna, Jónas og fjölskyldur. Hún er falleg minningin um einstakan vin, sem er án efa búinn að finna hinn í blómabrekkunni. Það er gott að ylja sér við fallegar minningar. Það er gott að ylja sér við fallegar minningar um Jónba.

Rakel og Thomas.