Hjörtur Gunnar Karlsson loftskeytamaður

6. maí 2000 | Minningargreinar mbl.

Hjörtur Gunnar Karlsson fæddist á Siglufirði 13. apríl 1926. Hann lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 25. apríl síðastliðinn.

Foreldrar hans voru hjónin

  • Karl Sturlaugsson húsasmíðameistari, f. 27.4. 1886 í Ytri-Fagradal á Skarðströnd í Dalasýslu, d. 8.2. 1948, og
  • Herdís Hjartardóttir, f. 15.8. 1894 í Langhúsum í Fljótum í Skagafjarðarsýslu, d. 26.12. 1987.

Systkini Hjartar eru:

  • 1) Herdís Kristín Karldóttir, f. 30.10. 1927, og
  • 2) Guðlaugur Helgi Karlsson, f. 25.12. 1928.

Hjörtur kvæntist 16.11. 1973 eftirlifandi eiginkonu sinni
Margrét Björnsdóttir, fv. talsíma- og póstafgreiðslukonu, f. 16.4. 1933 á Siglufirði.
Foreldrar hennar voru

Hjörtur Karlsson - Ljósmynd: Sveinn Hjartarson (?)

Hjörtur Karlsson - Ljósmynd: Sveinn Hjartarson (?)

  • Björn Olsen, f. 11.9. 1903 á Akureyri, d. 27.5. 1976, og
  • Konkordía Ingimarsdóttir, f. 14.6. 1905 á Ólafsfirði, d. 6.8. 1987.

Börn Hjartar og Margrétar eru:

  • 1) Sveinn Hjararson, f. 18.7. 1972, ljósmyndanemi, og
  • 2) Íris Eva Gunnarsdóttir (stjúpdóttir), f. 7.1. 1965.

Hjörtur lauk loftskeytaprófi 1946 og yfirsímritaraprófi 1969. Hann vann ýmis störf á unglingsárum, m.a. við síldarsöltun og í síldarverksmiðju.

Hjörtur starfaði sem loftskeytamaður á Siglufjararðarradíó frá 1946 þar til hann lét af störfum árið 1994.      

Útför Hjartar fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Far þú í friði, friður guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. (V. Briem.)

Hjörtur bróðir minn er farinn á undan okkur systkinunum. Það er svo margs að minnast frá bernsku og mig langar að rifja upp fáeinar minningar. Siglufjörður var lokaður landleiðina meirihluta ársins. Því var fátt en gott við að vera, eins og t.d. skíðaferðir, berjatínsla og lautaferðir. Vilhjálmur móðurbróðir okkar átti þá bíl og tók okkur systkinin með í ýmsar ferðir ásamt dætrum sínum.

Eins voru jólaboðin hjá Villa frænda og Auði ógleymanlegar stundir fyrir okkur systkinin. Við áttum líka margar ágætar stundir saman í barnastúkunni Eyrarrós 68. Þá var líka farið í sunnudagaskóla sem Hjálpræðisherinn stóð fyrir. Þegar ég stóð á gati í gagnfræðaskólanum fékk ég að heyra það hjá Hirti bróður þegar heim var komið, en það var samt aldrei með hávaða eða látum.

Hjörtur var aðeins um 12 ára gamall þegar hann fór að sendast fyrir loftskeytastöðina. Fljótlega fór maður að vakna við það að hann var að morsa á náttkoppinn og var þá orðið nokkuð ljóst hvert hugur hans stefndi. Enda fór hann í Loftskeytaskólann veturinn 1945 - '46 og vann alla tíð síðan á loftskeytastöðinni.

Eftir að pabbi féll frá árið 1948 má segja að Hjörtur hafi verið höfuðið á heimilinu fyrir mömmu og okkur systkinin. Hann sá um jeppann sem pabbi eignaðist árið 1947 af mikilli natni og eins húsið okkar að Hvanneyrarbraut 40, sem var heimili hans alla tíð síðan. Hjálpsemi og óeigingirni voru hans förunautar.

Guð blessi þig, Gréta mín, Sveinn og Íris, og einnig þig, Gulli minn og fjölskylda.

Kær kveðja, Herdís (Dísa systir).
----------------------------------------------------

Mágur minn, Hjörtur, er búinn að fá hvíld frá langvinnum og erfiðum sjúkdómi. Fyrstu kynni mín af honum voru sumarið 1952, en þá settum við Dísa upp hringana á Siglufirði. Af því tilefni stóðu þeir bræður, Hjörtur og Gulli, fyrir því að tendrað var trúlofunarbál hinum megin við fjörðinn, að ógleymdri kaffiveislu hjá Herdísi tengdamömmu. Slíkar móttökur líða manni aldrei úr minni.

Við Dísa stofnuðum okkar heimili í Reykjavík 1953. Fyrstu árin vorum við bíllaus og þá var leitað til Hjartar ef okkur langaði að komast út fyrir borgarmörkin. Þá stóð ekki á því hjá þeim bræðrum að aka jeppanum "Kalla" til Reykjavíkur og lána okkur hann í lengri og skemmri tíma, svo við gætum ferðast um með fjölskylduna út fyrir borgina. Það var gert með miklum góðfúsleik. Hjörtur fylgdist alltaf vel með því þegar það skip sem ég var vélstjóri á kom að landi á Siglufirði og þá var gjarnan skroppið upp í Siglufjarðarskarð á góðviðrisdögum til að njóta útsýnisins, sem þótti góð skemmtun í þá daga. Svo var alltaf veisla hjá tengdamömmu á eftir.

Enn nánar kynntumst við Hjörtur eftir að hann veiktist. Hann var þá oft hjá okkur þegar hann kom í bæinn til læknisskoðunar. Þótt ferðirnar til Reykjavíkur væru ekki neinar skemmtiferðir fyrir hann, voru þær stundir sem við áttum þá saman okkur öllum til mikillar ánægju og urðu til þess að dýpka vináttu okkar enn frekar.

Blessuð sé minning hins góða drengs.

Guð gefi þér, Gréta mín, Sveinn og Íris, andlegan styrk og þér, Gulli minn og fjölskyldu þinni.

Kær kveðja,

Gunnar.
------------------------------------------------------

Elsku besti uppáhaldsfrændinn minn, hann Hjörtur, er farinn til nýrra heimkynna. Hann var minn besti vinur og sem annar faðir. Hann var lærður loftskeytamaður og vann vaktavinnu alla sína ævi hjá Siglufjararðarradíó-TFX.

Þó að ég hafi sýnt þeim, sem eru mér næstir, óánægju mína þegar þeir unnu vaktavinnu held ég að það hafi verið mín gæfa að Hjörtur vann vaktavinnu. Mér fannst hann hafa allan tímann í heiminum til að eyða stundum með mér þegar allir aðrir voru að vinna. Ég eyddi því mörgum stundum með honum á Hvanneyrarbrautinni og þar fékk ég ómetanlega kennslu í flestu því sem ég hef þurft að nota beint og óbeint í daglegu lífi.

Hjörtur hafði þann einstaka eiginleika að kenna á uppbyggjandi og natinn hátt af ótrúlegri þolinmæði og nákvæmni. Þannig skammaði hann mig aldrei ef ég gerði hlutina ekki rétt heldur sýndi mér vingjarnlega aftur hvernig ætti að gera og síðan komu hlutirnir hægt og rólega. Hann var svo einstaklega nákvæmur að það kom ósjálfrátt af kynnum við hann að allt átti að vera unnið af mikilli vandvirkni og með handbragði meistara.

Elsku Hjörtur, þú kenndir mér svo margt. Þegar ég eignaðist hjól var ekki nóg að læra að gera við sprungið dekk. Seinna sinntir þú í legunum í afturhjólinu, settir koppafeiti á þær þó allt væri í lagi og sýndir mér hvernig fótstignar bremsur virka. Þú kenndir mér mannganginn og aldrei skyldi leika næsta leik fyrr en búið væri að hugsa fyrir völduninni og hverjar afleiðingar næsta leiks yrðu. Þú kenndir mér að smyrja vel út í kantana þegar við fengum okkur saman brauð með hunangi og kalda mjólk.

Þú kenndir mér að keyra bíl og halda mig vel úti í kantinum. Ég fékk bíladelluna frá þér og þú kenndir mér margt um vélar, m.a. Halla Þór aðferðina við að koma Willisnum í gang. Þú kenndir mér að tvíkúpla og skilja af hverju var betra að keyra í öðrum í lága drifinu við ákveðnar aðstæður en fyrsta í háadrifinu. Þú kenndir mér að veiða án flotholts og sökku rétt, en okkur var báðum illa við að nota "skosku" ánamaðkana úr garðinum þínum.

Þú kenndir mér að strauja bleiur og brjóta rétt saman þegar Sveinn var nýfæddur. Þú kenndir mér framkomu með því að segja mér hvernig ég ætti að tala í talstöðina við sjómennina sem þú barst svo djúpa virðingu fyrir. Þú varst einstaklega lítillátur þegar talað var um mannslífin sem þú hafðir tekið þátt í að bjarga við starf þitt.

Enginn var músíkalskari í morsinu en þú. Stundirnar sem við áttum saman á Siglufjararradíói -TFX eftir að ég varð eldri voru ekki síðri lærdómsstundir fyrir lífið. Þeir dýrmætu tímar sem ég átti með þér þar, til að ræða um lífið og tilveruna, eru efni í heila bók.

Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég var fluttur úr heimahögunum að allt þetta sem þú hafðir kennt mér var ómissandi veganesti þegar ég þurfti að standa á eigin fótum langt frá ykkur.

Elsku Gréta, Íris og Sveinn, við munum öll standa saman í djúpri samhygð og virðingu fyrir þessum einstaka manni sem Hjörtur var.

Karl Guðlaugsson.
-------------------------------------------------

Allt frá fæðingu okkar systra á Siglufirði höfum við átt sameiginlega verndarengla í öllu okkar lífi. Fyrir utan ástkæra foreldra var Hirti frænda umhugað um uppvöxt okkar, líf og framtíð. Hjörtur var enginn venjulegur frændi. Sá tími sem hann veitti okkur í barnæsku og á unglingsárum í fræðslu um uppruna okkar, Siglufjörð, lífið og tilveruna hefur haft djúpstæð áhrif á líf okkar.

Hann var lifandi, skemmtilegur, hafði áhuga á ótrúlegustu hlutum og sjaldnast gat hann setið auðum höndum. Aldrei munum við gleyma myndatökunum, ,,slæds"-myndasýningunum, lummubakstrinum, sultugerðinni, ,,Ölveri", heimsóknum á loftskeytastöðina, ferðalögunum (sérstaklega í Saurbæ) og ökutímunum sem hófust á kennslu í dekkjaskiptingum á jeppanum. Samverustundirnar með Hirti enduðu oft í ógleymanlegum ævintýrum vegna uppátækja hans.

Þegar við uxum úr grasi og fluttum að heiman var Hjörtur alltaf nálægur. Við vorum í reglulegu símasambandi og hittumst alltaf þegar hann kom suður. Ekki var síðra að heimsækja hann norður og hans yndislegu konu, Grétu, þar sem hann bauð stoltur til borðs ,,kræsingar Margrétar minnar". Velferð Grétu og barnanna var það sem skipti Hjört öllu og er missir þeirra mikill.

Á brúðkaupsdegi okkar systra keyrði Hjörtur okkur frá æskuheimili til Siglufjarðarkirkju á jeppanum ,,Kalla", stoltur og glaður yfir þessu hlutverki. Þannig leiddi hann okkur allar frá barnæsku til brúðkaupsdags. Makar okkar og börn eiga einnig sínar minningar um þennan einstaka frænda og vin. Þeim tók hann fagnandi sem nýjum meðlimum í fjölskyldunni. Við erum sannfærðar um að orðtakið ,,Hjörtur frændi" muni lifa áfram meðal barna okkar um ókomna tíð.

Líf foreldra okkar var samofið lífi Hjartar og Grétu. Þau horfa á eftir sínum ástkæra bróður, mági og vini með þakklæti fyrir allt það sem hann var þeim.

Við þökkum Guði fyrir þennan yndislega frænda og vin sem ævinlega hafði ánægju og gleði af lífinu. Hjörtur frændi mun lifa í hjarta okkar allra. Blessuð sé minning hans.

Guðný, Guðrún og Guðbjörg.
---------------------------------------------------------

Ég get ekki látið hjá líða að minnast frænda míns Hjartar Karlssonar þegar leiðir skilur. Hjörtur frændi var hluti af tilveru minni frá því að ég man eftir mér. Með honum er farinn einn hlekkurinn enn sem tengdi saman mín bernsku- og unglingsár á Siglufirði.

Við vorum systkinabörn og var ætíð mikill samgangur á milli heimila okkar. Faðir minn hafði ríka ábyrgðarkennd gagnvart systur sinni og börnum hennar, sem voru þrjú og öll miklu eldri en ég. Þær voru margar gleðistundirnar sem ég minnist sem barn þegar Dísa frænka föðursystir mín kom í heimsókn ásamt Dísu litlu (til aðgreiningar frá þeirri stóru) og "strákunum", en það voru bræðurnir Gulli og Hjörtur ávallt kallaðir.

Hjörtur var mjög heiðarlegur maður, tilfinninganæmur, skemmtilegur og með skopskynið í lagi. Blaður og allt tal um náungann var honum víðs fjarri. Það þýddi ekki að spyrja Hjört frétta af náunganum því svarið var alltaf það sama: "Ég veit það ekki." Ég man eftir að mamma mín sagði oft: "Það þýðir ekkert að spyrja Hjört, hann þykist aldrei vita neitt."

Það var aldrei lognmolla þar sem þessi frændsystkini fóru, heldur glaðværð og hlátur. Þeir voru ekki fáir brandararnir sem fuku á þessum stundum en aðalsmiður þeirra var Gulli frændi.

Hjörtur var lengi ókvæntur og bjó með móður sinni. Hann var feiminn að eðlisfari og það var ekki fyrr en stuttu eftir mína eigin giftingu að hann kom með Grétu sína upp á arminn, fósturdótturina Írisi og soninn Svein, sem hann bar mikla umhyggju fyrir alla tíð.

Hjörtur hafði mörg áhugamál og meðal þeirra var ljósmyndun og stangveiði. Mína fyrstu alvöru veiðiferð fór ég með Hirti frænda í Fljótaá og kenndi hann mér handtökin. Eftir að ég fluttist frá Siglufirði bjuggu foreldrar mínir þar ennþá. Það var ekki ró í mínum beinum á vorin fyrr en ég var komin norður með fjölskylduna og síðan var dvalið þar þangað til skólinn byrjaði að nýju. Þær voru ófáar veiðiferðirnar sem Hjörtur bauð okkur í og eigum við fjölskyldan dýrmætar minningar frá þessum tíma við norðlenskar veiðiár.

Það var alltaf opið hús hjá Hirti og Grétu og eftir að foreldra minna naut ekki lengur við bjuggum við hjá þeim á ferðum okkar til Siglufjarðar, ávallt við sömu góðvild og gestrisni. Það var sama hvenær mann bar að garði, Grétu tókst alltaf að galdra fram veisluborð með sömu rólegheitunum og hlýjunni.

Með þessar og fleiri góðar minningar í huga kveð ég vin minn og frænda með söknuði en í þeirri vissu að ég er mun ríkari fyrir að hafa átt hann að frænda. Grétu, Sveini, Írisi, Gulla og Dísu, svo og allri fjölskyldunni, sendum við Tony og strákarnir okkar innilegustu samúðarkveðjur og óskum þess að góður guð styrki þau á þessum erfiðu tímamótum.

Far þú í friði, friður guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem.)

Sveinbjörg.
-----------------------------------------------------

Að hafa fengið tækifæri til að kynnast Hirti Karlssyni, bróður tengdaföður okkar, með þeim hætti sem okkur auðnaðist í allt að 25 ár var mikil og góð lífsreynsla. Umhyggja hans fyrir hjónaböndum okkar og bróðurbarna hans var aðdáunarverð og fyllti ungt fólk lotningu fyrir eldri kynslóðinni. Áhugi Hjartar og gleði yfir börnum okkar, lífi þeirra og framgöngu, var með þeim hætti að hann heillaði þau öll og varð hluti af lífi þeirra og minningum um Siglufjörð.

Og síðast en ekki síst, góðvild hans og ást til maka okkar var með þeim hætti að augljós var einlægur vilji hans að vaka yfir velferð þeirra alla tíð. Minningar okkar um Hjört Karlsson og allar þær stundir sem við og fjölskyldur okkar áttum með honum og fjölskyldu hans á Siglufirði og víðar munu aldrei gleymast.

Fyrir allt þetta viljum við fá að þakka nú að leiðarlokum. Grétu, Írisi og Sveini sendum við samúðarkveðjur fyrir okkar hönd og barna okkar.

"Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði hjarta síns," mælti Jesús Kristur.

Hjörtur Karlsson var góður maður.

Ómar, Kristján, Kristjana og Nils.
-------------------------------------------------------

Kær æskuvinur er látinn. Ég sit í bílnum á sunnudagsmorgni á leið frá Akureyri til Ólafsfjarðar. Spegilsléttur sjórinn, fjöllin, lognið og sólskinið minna óneitanlega á æskustöðvarnar heima á Siglufirði. Þar sem við Hjörtur ólumst upp á þeim tíma sem allir minnast sem skemmtilegustu stunda lífs síns. Alltaf logn og sólskin, skipin siglandi inn fjörðinn fleytifull af síld, plönin full af vinnandi fólki, hróp og köll, ys og þys. Þvílíkt ævintýri.

Vinátta okkar Hjartar, Gulla og Dísu systur þeirra og mín og Óla heitins bróður míns byrjaði þegar Auður móðursystir mín og Vilhjálmur móðurbróðir þeirra giftust og gáfu okkur fjórar litlar frænkur sem okkur öllum þótti óskaplega vænt um og við umgengumst mikið þó þær væru yngri en við.

Fyrstu minningarnar um okkur öll saman eru aðfangadagskvöldin heima hjá Villa og Auði, dansandi kringum jólatréð sem náði upp í loft í holinu, prýtt allavega litum kertum, kúlum, fuglum og íslenskum fánum. Við öll í okkar fínustu fötum og svo hátíðleg, syngjandi jólalög og sálma. Auður frammi í eldhúsi að hita súkkulaði. Síðan var sest til borðs í borðstofunni og drukkið súkkulaði og borðaðar fínar smákökur með. Á eftir fengum við svo sitthvern kertapakkann og fullan poka af eplum í jólagjöf.

Þessi vinátta sem byrjaði þegar við vorum börn helst enn. Það er alltaf eitthvað sérstakt við vináttu sem byrjar í barnæsku. Ég hefi alltaf litið á Hjört sem einskonar bróður minn. Hann lánaði mér skautana sína þegar hann fór inn á kvöldin, á sumrin hjólið sitt. Allt sem hann átti var okkur systkinunum falt. Hann var alltaf kallaður til þegar eitthvað þurfti að gera, eins og á haustin að moka kolum inn í kolastíuna, sem var ekkert skemmtiverk.

Ég minnist gönguferða okkar systkinanna á vorin um bryggjurnar, þegar allsstaðar var snjór nema á þeim, þær urðu fyrst auðar, siglinganna um fjörðinn á trillunni Vilhjálms, sem Óli bróðir hafði á sunnudögum, og á kvöldin gegn því að passa vélina, útileganna í Kambaláum og Skátaskála, sjóferðar sem við Hjörtur fórum á árabát út að bauju til að fiska í soðið en hann varð svo sjóveikur að ég varð að fara með hann í land, við Dísa að kenna bræðrum okkar að dansa í suðurstofunni heima hjá þeim. Ekki varð nú lífið leiðinlegra eftir að F 103 kom til sögunnar. Margar ferðirnar voru farnar á honum og alltaf var Hjörtur boðinn og búinn til að keyra mann hvert sem maður þurfti að fara.

Að lokum, kæri vinur, þakka ég þér fyrir að líta alltaf til mömmu og hjálpa henni eftir að við systkinin vorum farin að heiman og aldrei gleymi ég því þegar þið bræður komuð að jarðarför Óla og með ykkur var Gerhard Schmidt, sem lék á trompetið "Blessuð sértu sveitin mín". Það lýsti best væntumþykju ykkar til hans.

Elsku Greta, Sveinn, Íris Eva, Dísa, Gulli, ættingjar og vinir. Ég og fjölskylda mín sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi minningin um góðan dreng lifa.

Þín vinkona, Helga Torfadóttir.
----------------------------------------------

Fregnin um andlát Hjartar, fyrrverandi vinnufélaga okkar, kom ekki alveg á óvart, við vissum að hann var búinn að vera mikið veikur um tíma og að við öllu mátti búast, en einhvern veginn er það nú alltaf svo að við slíkar fregnir setur okkur hljóð og minningarnar sem tengjast hinum látna streyma fram í hugskotið.

Hjörtur var búinn að vinna hjá Landssíma Íslands á Loftskeytastöðinni í Siglufirði í um 50 ár þegar hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Við félagarnir urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að lúta handleiðslu hans þegar við hófum störf á sama stað upp úr 1970. Að njóta tilsagnar hans á þessum tíma var okkar lán því hann hafði alla tíð tamið sér mjög nákvæm og örugg vinnubrögð við fjarskiptastörfin og höfum við notið góðs af leiðsögn hans æ síðan við okkar störf.

Þegar við lítum til baka koma upp minningar bæði í starfi og leik, minningar um ferðalögin um landið með starfsfélögunum á símstöðinni sem áður var frekar stór vinnustaður á mælikvarða bæjarins þá. Þá var oft glatt á hjalla og símasögurnar og brandararnir fengu líf í frásögn á milli vinnufélaganna. Hjörtur var afskaplega dagfarsprúður og rólegur maður í öllu fasi en gat verið hrókur alls fagnaðar ef svo stóð á, og í þessum ferðum okkar starfsfélaganna kom sú hliðin gjarnan upp.

Hjörtur var mjög víðlesinn maður og fróður um sögu okkar bæði til sjávar og sveita, hann gjörþekkti útgerðarsögu Norðlendinga og kom það okkur hinum mjög oft til góða við störf okkar á loftskeytastöðinni. Það gefur augaleið að á svo löngum starfsferli sem Hjartar hafa komið upp margskonar tilvik, gleðileg sem raunaleg, og kom þá oft berlega í ljós að hann var tilfinningaríkur maður, þó að hann bæri það ekki á torg. Þegar á þurfti að halda var alltaf hægt að reiða sig á að Hjörtur var til staðar til halds og trausts, til að miðla til okkar úr sínum mikla reynslubanka.

Við leiðarlok er okkur efst í huga þakklæti fyrir stuðning, leiðsögn og samveru á liðnum árum. Við biðjum algóðan Guð að blessa minningu góðs drengs og kærs vinar og sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til Margrétar, Sveins og Írisar.

Bjarni, Þórhallur og Bergþór. Herdís (Dísa systir).