Hafliði Helgason bankastjóri

mbl.s Minningarorð 1980

Í dag fer fram á Siglufirði útför Hafliða Helgasonar fyrrverandi bankaútibússtjóra þar í bæ. Hann andaðist í Borgarspítalanum í Reykjavík 8. júlí síðastliðinn.

Hann fæddist á Siglufirði 31. ágúst 1907. 
Foreldrar hans voru 

 • Sigríður Jónsdóttir og
 • Helgi Hafliðason kaupmaður þar í bæ.

Hafliði Helgason lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1928. Réðist hann síðar skrifstofumaður hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, er hófu starfsemi á Siglufirði 1930. Áður en hann var ráðinn útibússtjóri Útvegsbanka Íslands á Siglufirði 1. janúar 1939, hafði hann um skeið starfað í Íslandsbanka á Akureyri og í skrifstofu bankans á Siglufirði.

Hafliði Helgason bankastjóri

Hafliði Helgason bankastjóri

Hafliði lét af störfum í Útvegsbanka Íslands 1. október 1977 fyrir aldurs sakir. Hann var á Siglufirði umboðsmaður fyrir Sameinaða gufuskipafélagið, Vátryggingastofu Sigfúsar Sighvatssonar og um skeið fyrir Tryggingamiðstöðina. Endurskoðandi var hann hjá Síldarútvegsnefnd og Tunnuverksmiðju ríkisins. Prófdómari var Hafliði í mörg ár við Gagnfræðaskóla Siglufjarðar.

Hann var einn af stofnendum Stúdentafélags Siglufjarðar, og virkur þátttakandi í Rótaryhreyfingunni. Hugðarefni hans í tómstundum hneigðust einkum að tónlist og leiklist en einnig naut hann ánægju við bridgespil og golfleik.

Hafliði Helgason kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni 

 • Jóna Sigurveig Einarsdóttir, kolakaupmanns Tómassonar í Reykjavík og konu hans
 • Ragnhildur Jónsdóttir.

Heimili Jónu og Hafliða var öll starfsár Hafliða á Siglufirði, en síðustu æviárin að nokkru í Reykjavík. 
Þau eignuðust fimm syni, sem hér eru taldir í aldursröð. 

 • Helgi Hafliðason arkitekt, kvæntur Margrétu Erlendsdóttur,
 • Einar Hafliðason verkfræðingur kvæntur Sigrúnu Magnúsdóttur,
 • Sigurður Hafliðason útibússtjóri Útvegsbankans á Siglufirði, kvæntur Kristrún Halldórsdóttir,
 • Ragnar Hafliðason viðskiptafræðingur í Seðlabanka Íslands ókvæntur og
 • Hafliði Hafliðason, sem stundar nám í jarðeðlisfræði í Skotlandi. Hann er heitbundinn Eddu Ólafsdóttur, læknanema.

Sem fyrr segir var Hafliði fastráðinn starfsmaður Útvegsbanka Íslands í 38 ár og 9 mánuði. Hann leysti öll störf sín af hendi af árvekni, áhuga og stakri samviskusemi. Hann var að verðleikum vel metinn af viðskiptamönnum bankans og Siglfirðingum öllum. Starfsfólk bankans átti alltaf vingjarnlegt og einlægt samstarf við hann.

Hafliði var bankanum trúr þjónn. Ég átti um áratuga skeið náið samstarf við Hafliða Helgason á sviði félagsmála bankamanna. Var hann á þeim vettvangi vakandi og árvakur áhugamaður um málefni félagsmanna, um velferð og hagsæld þeim til handa. Minnist ég hans nú og mun ævinlega fyrir vináttu og ljúfa samfylgd um langan veg. Eiginkonu, sonum, öðrum ættingjum og vinum votta ég innilega samúð í nafni starfsfólks Útvegsbankans.

Adolf Björnsson.
------------------------------------

Hafliði Helgason, frændi minn, lézt á Borgarspítalanum hér í Reykjavík hinn 8. Júlí 1980.

Hann fæddist á Siglufirði þann 31. ágúst árið 1907, fyrsta barnabarn afa okkar og ömmu.

 • Hafliða Guðmundssonar og
 • Sigríðar Pálsdóttur.

Hafliði Helgason var einkabarn foreldra sinna,

 • Helga Hafliðasonar kaupmanns og útgerðarmanns á Siglufirði og konu hans
 • Sigríðar Jónsdóttur, ættaðri úr Fljótum í Skagafirði.

Helgi móðurbróðir minn var mikill atorku- og dugnaðarmaður og komst því fljótt í góð efni á þeirra tíma mælikvarða. Sigríður var mikil fríðleikskona og orðlögð fyrir reisn sína og myndarskap og var heimili þeirra eitt hið glæsilegasta á Siglufirði. Þegar ég man fyrst eftir mér, var það mikil tilhlökkun og viðburður að fara í heimsókn í „Helgahús". Hafliði ólst upp við ást og umhyggju foreldra sinna.

Ungur fór hann að heiman í skóla, fyrst í Gagnfræðaskóla Akureyrar, síðan í Menntaskólann í Reykjavík, og lauk þaðan stúdentsprófi vorið 1928. Um það leyti urðu miklar breytingar á högum Hafliða. Foreldrar hans höfðu slitið sambúð og eftir það hélt hann heimili með móður sinni og fór strax að vinna, svo ekki varð úr frekara framhaldsnámi. Alltaf var mjög kært með þeim feðgum unz Helgi andaðist árið 1938. Ég var stödd í Svíþjóð hjá systur minni þegar Hafliði frændi okkar lézt.

Við systurnar fórum að rifja upp minningar frá æsku okkar á Siglufirði. Það voru mjög náin tengsl og samgangur á milli allra ættingjanna, því öll börn Hafliða hreppstjóra voru búsett á Siglufirði, nema fóstursystirin, sem giftist til Noregs. Einkum er okkur minnisstætt, að Hafliði reyndist okkur eins og bezti bróðir, er við misstum föður okkar ungar að aldri. Sumarið 1937 kom til Siglufjarðar ung og falleg stúlka úr Reykjavík, Jóna Sigurveig Einarsdóttir.

Eins og ungt fólk á þeim árum, þurfti hún að leita sér atvinnu, þar sem hana var helzt að fá, og lá þá leið margra til Siglufjarðar. Móðir mín seldi fæði eftir að hún varð ekkja og var því oft margt ungt fólk saman komið í gamla „Hafliðahúsinu". Þar bar fundum þeirra Hafliða og Jónu fyrst saman, því hann var daglegur gestur hjá okkur og hún vinkona mín og kostgangari. Hinn 28. apríl árið 1940 gengu þau í hjónaband og lifðu í ástríkri sambúð í rúm 40 ár.

Á hinu fallega heimili þeirra við Lindargötu á Siglufirði var oft mjög gestkvæmt, ekki sízt á sumrin þegar ættingjar og vinir komu til Siglufjarðar og það var tekið á móti öllum af gestrisni og hlýju. Sigríður, móðir Hafliða, bjó hjá þeim þar til hún lézt árið 1960. Hafliði og Jóna eignuðust fimm syni, sem allir eru vel gerðir og vel gefnir eins  og foreldrar þeirra, og barnabörnin eru orðin tíu.

Hafliði var mjög greindur maður og afar listhneigður. Hann var vel drátthagur, hafði leiklistarhæfileika og lék oft með Leikfélagi Siglufjarðar á yngri árum. En fyrst og fremst átti tónlistin hug hans og sjaldan held ég að hann hafi notið sín betur en þegar hann settist að píanóinu í góðra vina hópi og lék allt, sem viðstaddir óskuðu að heyra. Starfsferil Hafliða rek ég ekki hér, það hafa aðrir gert.

Eftir að hann lét af störfum sem útibússtjóri Útvegsbankans á Siglufirði dvöldu þau hjónin oft hér fyrir sunnan, enda fjórir synirnir, og fjölskyldur þeirra, búsettir hér í Reykjavík. Hafliði unni heimabæ sínum Siglufirði og helgaði honum alla starfskrafta sína. Ég sendi Jónu, sonum hennar, tengdadætrum og barnabörnum samúðarkveðjur okkar systranna, og óskum þeim alls góðs í framtíðinni.

Blessuð sé minning Hafliða Helgasonar. Þessi fáu kveðjuorð frá okkur systrunum, vil ég enda með síðasta erindi úr kvæði, sem ort var til ömmu okkar og ég fann í fórum móður minnar eftir lát hennar:
„Vér felum guði þig og börnin þín og þökkum alla manndáð fyrr og síðar þín verður minnst á meðan röðull skín á morgunprúðar Siglufjarðarhlíðar." (G.G.)

Sveinbjörg Kjaran
-------------------------------

Minning: Hafliði Helgason, fyrrverandi útbússtjóri Útvegsbanka Íslands á Siglufirði, andaðist hér í Reykjavík hinn 8. júlí sl., og fer útför hans fram á Siglufirði í dag.

Hafliði var fæddur á Siglufirði 31. ágúst 1907, sonur

 • Helga Hafliðasonar, Guðmundssonar hreppstjóra á Siglufirði, og konu hans
 • Sigríðar Jónsdóttur.

Hafliði varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1928. Hann gerðist útibússtjóri Útvegsbankans á Siglufirði 1938 og gegndi því starfi til 1. október 1977. Þegar Hafliði tók við stjórn bankans á Siglufirði var mikil síldveiði fyrir öllu Norðurlandi og Siglufjörður var miðstöð síldarvinnslunnar.

Langflestir síldarsaltendur voru í viðskiptum við Útvegsbankann á Siglufirði, og hafði Hafliði því í mörg horn að líta á þessum árum, enda um áhættusaman atvinnurekstur að ræða. Hann var gjör kunnugur síldveiðum og síldarverkun enda alinn upp við slíka starfsemi frá barnsárum. Á miðjum sjöunda áratugnum hverfur síldin með öllu af miðunum fyrir Norðurlandi og var þar með raunverulega kippt fótunum undan atvinnulífi Siglfirðinga.

Það er til marks um þekkingu og samviskusemi Hafliða að þrátt fyrir þetta snögga hrun varð Útvegsbankinn ekki fyrir neinu fjárhagslegu tjóni. Þótt Útvegsbankinn tæki mestan tíma Hafliða átti hann sér önnur hugðarefni. Hann var mjög gefinn fyrir' tónlist, einnig tók hann á yngri árum virkan þátt í leiklistarstarfi á Siglufirði.

Hafliði var kvæntur Jóna S Einarsdóttir frá Reykjavík og eignuðust þau fimm mannvænlega syni, sem allir er á lífi.
Einn þeirra,
Sigurður Hafliðason er nú útibússtjóri Útvegsbankans á Siglufirði. Bankastjórn og bankaráð Útvegsbankans hafa falið mér að flytja Hafliða þakkir fyrir frábær störf í þágu bankans, og konu hans, sonum og öðrum vandamönnum, samúðarkveðjur.
Jónas G. Rafnar.
____________________________________