Tengt Siglufirði
19. september 1998 | Minningargreinar mbl.is
Sigfúsína Sigurlaug Sveinsdóttir fæddist á Steinaflötum í Siglufirði 18. ágúst 1910. Hún lést á Heilbrigðisstofnuninni Siglufirði 9. september síðastliðinn.
Foreldrar hennar voru hjónin
Eignuðust þau sjö börn, tvö
þeirra dóu í æsku.
Systkini Sigurlaugar voru:
Sigurlaug Sveinsdóttir
(Silla) giftist Páll Sigurvin Jónsson frá Dalvík, f. 21.6. 1911, d. 18.2. 1982. (Páll Jónsson)
Einkadóttir þeirra er Rannveig Pálsdóttir, f. 29.10. 1942. Hún giftist Sigurði Fanndal, en þau slitu samvistum.
Börn hennar eru:
Útför Sigurlaugar verður gerð frá Siglufjarðarkirkju í dag
og hefst athöfnin klukkan 14.
---------------------------------------------------------
9. september 1998 | Minningargreinar
Sigurlaug Sveinsdóttir
Sigurlaug Sveinsdóttir Mér er enn minnisstæð fyrsta heimsókn okkar hjóna til Siglufjarðar fyrir einhverjum 40 árum.
Það leyndi sér ekki að Steinaflatir, æskuheimili
konu minnar, var einskonar miðpunktur bæjarins, svo mikið var um innlit heimamanna þangað, enda vel tekið á móti gestum og gangandi af þeirri einskærri hjartahlýju sem þar mátti finna.
Athygliverð fannst mér húsmóðirin Geirlaug Sigfúsdóttir, hún var mikil á velli, það gustaði af henni og hún var öguð í fasi og yfirveguð .Ég trúi
því að enginn sem leitaði ráða hjá henni, hafi farið bónleiður til búðar, það er óhætt að segja að Geirlaug hafi verið prímus mótor heimilisins.
Á Steinaflötum var hátt til lofts og vítt til veggja, í mínum augum var þetta sannkallað höfðingjaheimili þar sem greiðasemi en ekki auðurinn var í fyrirrúmi.
Skugga bar þó á í þessari fyrstu heimsókn okkar hjóna, þar sem eiginmaður Geirlaugar, Sveinn, kenndur við hús sitt lá þá banaleguna. Sveinn Jónsson var landsþekktur
bryggju- og þúsundþjalasmiður þar nyrðra. Hann var allra hugljúfi og eftirminnilegur persónuleiki, enda hefur verið um hann fjallað víða, m.a. í Lesbók Morgunblaðsins.
Þau hjón eignuðust sjö mannvænleg börn, tvö þeirra dóu í æsku, en þau sem lifðu voru: Sigurlaug, Rannveig, Óskar og tvíburarnir Sigurjón og Helgi, að
auki ólst Septína Einarsdóttir upp meðal frændsystkina sinna eftir að móðir hennar, systir Geirlaugar, lést. Ég hefi þennan formála, því að með Sigurlaugu, sem við
kveðjum í dag, er hið upprunalega Steinaflatafólk allt gengið til feðra sinna.
Það er eflaust engin lognmolla kringum hana Sillu mína nú á hinum himnesku Steinaflötum, því
Septína uppeldissystir og vinkona hennar heldur upp á áttatíu og fimm ára afmæli sitt í dag þar efra og sjálfur Sveinn faðir þeirra systkina 115. ártíð sína 12.
september. Því tek ég svo til orða að Silla bar aldrei kvíðboða fyrir dauðanum, enda er mér illa brugðið hafi hún ekki sjálf verið búin að ganga frá reytum sínum,
sem og öllu því er tilheyrir hennar hinstu ferð á jörðu hér.
Silla, ein systkinanna, fluttist í raun aldrei úr föðurhúsum, en eftir að hún giftist Páli
Jónssyni frá Dalvík, hinum mesta heiðursmanni, eignuðust þau hjón hlýlegt hús nánast við túnfótinn á Steinaflötum , þau voru því ófá
sporin sem hún átti daglega inn á æskuheimilið meðan gömlu hjónin lifðu.
Þau hjónin eignuðust eina dóttir, Rannveigu, sem lifir móður sína og býr
á Siglufirði. Henni vottum við okkar dýpstu samúð við fráfall móður sinnar.
Í mínum augum var Silla einstök kona, fínlega vaxin og frá á fæti,
allt fram í andlátið. Hún var listamaður í útsaumi og öðrum hannyrðum, eins og allt það handbragð sem hún skilur eftir ber vitni um. Mér er sagt af eldra fólki að
enginn hafi haft undan Sillu við síldarsöltun en það ber saman við annað, henni féll aldrei verk úr hendi, og sporlöt var hún ekki í orðsins fyllstu merkingu.
Oftsinnis röbbuðum
við Silla saman um heima og geima við eldhúsbekkinn á Þinghólsbrautinni, en ekki minnist ég þess að hún nokkru sinni legði frá sér hannyrðirnar meðan á samræðum
stóð.
Það var með ólíkindum hvað þessar litlu sinaberu hendur skiluðu fínasta Harðangursmunstri og öðrum listahannyrðum, fram á síðustu stund. Greiðvikin
og hjálpsöm var Sigurlaug með afbrigðum, kunni vel að meta fyndist henni eitthvað fyrir sig gert, þó svo að oftar trúi ég að það hafi verið á hinn veginn, hún vildi
ekki skulda neinum neitt.
Í mínum huga og hennar Millu þinnar, eins og þú nefndir hana jafnan, sem og barnanna okkar, lifir þakklæti í hjörtum, þakklæti fyrir samfylgdina og
vinarhug þinn í okkar garð.
Silla mín, þú kemur ekki með Jóni á Sleitustöðum á Þinghólsbrautina þetta haustið eins og til stóð, og þú
gerðir jafnan áður, en við Milla finnum nærveru þína um ókomin ár.
Með þessum orðum kveðjum við þig og Steinaflatafólkið sem gengið er, guð blessi
minningu ykkar allra.
Einar Olgeirsson.
------------------------------------------
19. september 1998 | Minningargreinar
Sigurlaug S. Sveinsdóttir
Sigurlaug S. Sveinsdóttir Í dag er Silla frænka mín frá Steinaflötum til moldar borin frá Siglufjarðarkirkju, síðust fjögurra systkina. Þar sem Rannveig amma, systir Sillu, dó
ung komu amma mömmu og afi, Geirlaug og Sveinn, henni í foreldra stað og ömmusystkini mín, Silla, og tvíburarnir Helgi og Sigurjón, henni ávallt í systkina stað. Þess nutum við systkinin
í formi hlýju og umhyggju sem ætíð stafaði frá þeim öllum. Mér eru enn í fersku minni sumrin á Sigló, þar sem ég sem barn eyddi áhyggjulausu lífi ýmist
hjá Sillu og Palla heitnum manni hennar, Septínu heitinni frænku, sem að mestu leyti ólst upp á Steinaflötum, eða hjá Helga heitnum og Steinunni konu hans. Þau sumur voru full lífsgleði
og athafna í hópi hressilegs hóps annarra barna og fullorðinna, sannkallaður draumur hvers ungs barns.
Silla hafði alla tíð mikið dálæti á systkinum sínum og foreldrum,
enda mikil samstaða þeirra á milli meðan allir lifðu. Þegar þau eitt af öðru yfirgáfu hana og fóru á vit himnaföðurins saknaði hún þeirra því sárt.
Hún talaði í seinni tíð oft um, hve tilbúin hún væri að hverfa til þeirra. Þrátt fyrir það var hún mikil félagsvera og þótti gaman að ferðast.
Besta dæmið er kannski þegar hún lét sig hafa það að heimsækja mig og fjölskyldu mína til Gautaborgar ásamt foreldrum mínum í tilefni áttræði afmælis
síns.
Silla mín, það verður ekkert úr fundum okkar í haust eins og við töluðum um hér um daginn, en nú eruð þið vonandi öll samankomin á ný og njótið
verunnar þar sem við að lokum öll hittumst. Þakka þér fyrir allar samverustundirnar, ég mun lengi minnast sumranna með ykkur Palla og kvistherbergisins góða uppi á lofti á Hverfisgötunni.
Þinn frændi
Sveinn Geir Einarsson og fjölskylda.