Kristján Sturlaugsson kennari

NEISTI í desember 1974  MINNING

Kristján Sturlaugsson fæddur 3. jan. 1912 Dáinn 16. júní 1974 

Ekki datt mér í hug er ég kvaddi Kristján fyrir framan Aðalbúðina, í sumar að þetta væri síðasta handtak okkar í þessum heimi. Enda þótt ég vissi að hann færi til lækninga og undir alvarlegan upp skurð út í London, gaf ekkert til kynna í viðbrögðum hans, að hann óttaðist uppskurðinn, heldur þvert á móti, sagðist hann koma fljótlega heim aftur.

Að heilsast og kveðjast er lífsins saga. Við fráfall Kristjáns Sturlaugssonar, er mér mikill söknuður í huga og ég hef beðið óþreyjufullur eftir því að geta minnst hans, því ég tel mig hafa verið honum kunnugastur allra óvenslaðra manna. Öll mín kynni af Kristjáni frá því að hann fluttist til Siglufjarðar og þar til við kvöddumst í síðasta skipti í þessum jarðneska heimi, voru aðeins á einn veg, heilshugar og betri manni hefi ég varla kynnst á lífsleiðinni. Við vorum báðir jafnaðarmenn.

Takmark jafnaðarstefnunnar um jafnrétti frelsi og bræðralag var okkur heilagt baráttumál. Fyrir þennan málstað barðist Kristján hér heima og það mátti greina í fórnfúsum störfum hans fyrir bæinn okkar og Alþýðuflokkinn. Við Kristján Sturlaugsson vorum frá fyrstu kynnum ákaflega samrýmdir í skoðunum og margar stundir var spjallað um sameiginleg áhugamál okkar. Ég sakna trausts vinar, er ég minnist hans.

Kristján Sturlaugsson - ókunnur ljórmyndari

Kristján Sturlaugsson - ókunnur ljórmyndari

Hann var fæddur hinn 3. jan. árið 1912 á Saurum í Laxárdal í Dalasýslu.
Foreldrar hans voru

  • Sturlaugur Jóhannesson og
  • Ásta Lilja Kristmannsdóttir, bæði af góðu bændafólki komin.

Kristján ólst upp við ýmis sveitastörf til sextán ára aldurs og fluttist þá til Búðardals og stundaði þar ýmis störf og var til sjós um nokkurt skeið.

Hugur Kristjáns stefndi til menntunar. Hann fór í Reykholtsskóla og síðan í Kennaraskóla Íslands og lauk þaðan kennaraprófi 1938. Stuttu eftir að Kristján lauk kennaraprófi réðist hann sem kennari til Súðavíkur. Hann tók fljótlega þátt í sveitastjórnarstörfum þar og var oddviti hreppsins um tíma.

Hingað til Siglufjarðar flytur Kristján með fjölskyldu sína 1944 og er kennari hér við barnaskólann í þrjátíu ár.

Árið 1940 kvæntist Kristján eftirlifandi konu sinni
Elísabet Guðmundsdóttir frá Litlu-Borg í Húnavatnssýslu.

Þau hjónin eignuðust sjö börn, sem öll eru á lífi.
Hjónaband þeirra Kristjáns og Elísabetar var farsælt og hamingjusamt og barnalánið mikið. Elísabet bjó manni sín um hlýlegt heimili, og þangað var gott að koma.
Kristján var mikill heimilisfaðir og hugsaði vel um heimið og börnin, og voru þau hjónin sem einn maður. Strax eftir að Kristján fluttist hingað gerðist hann virkur félagi í verkamannafélaginu og í Alþýðuflokknum.

Vegna hins mikla dugnaðar hans og greindar hlóðust brátt á hann ýmis trúnaðarstörf fyrir sveitarf élagið. Hann sat fjölda bæjarstjórnarfunda fyrir Alþýðuflokkinn. Hann átti sæti í rafveitunefnd í nokkur ár. Hann var fyrsti formaður stjórnar Sjúkrahúss Siglufjarðar og formaður fulltrúaráðs Alþýðuflokksfélaganna í mörg ár.

Fleira mætti nefna. Öll störf sín leysti Kristján af hendi með slíkum dugnaði og eldmóði að sérstaka eftirtekt vakti, jafnt samherja sem andstæðinga. Kristján þótti ágætur kennari og í því starfi var hann alltaf jafn áhugasamur jafnframt, sem hann reyndist börnunum, sem hann kenndi, sem vinur Hann var mikill skólamaður og hugsaði mikið um þau mál. Kristján kunni vel að meta góðar bækur og kvæði, og var vel að sér í þeim efnum.

Síðustu árin mun Kristján hafa kennt nokkurra veikinda, sem hann hafði ekki mikið orð á. Svo fór að lokum að rétt þótti að læknisráði að hann færi utan til lækninga. Í byrjun júnímánaðar í sumar fór hann til London, lagðist þar inn á sjúkrahús til uppskurðar. Í fyrstu leit út sem allt myndi ganga vel en skyndilega varð breyting á og hann lést á sjúkrahúsinu 16. júní síðastliðinn. Elsta dóttir hans, Sigurlaug tók sig upp frá heimi sínu, sem þá var í Bandaríkjunum, kom heim og fór með föður sínum út og var hjá honum uns yfir lauk.

Það hefur án efa létt Kristjáni mikið síðustu stundirnar, að þessi elskulega dóttir hans var hjá honum. Slíkur gæfumaður var Kristján. Siglufjörður er fátækari í dag, ekki einungis einum manni fátækari, heldur atorkusömum og góðum manni sem gerði æskuhugsjónir sínar að lífstakmarki og brást þeim aldrei. Eftirlifandi eiginkonu hans börnum og öðru venslafólki, hefur sorgin verið þung, en vissan um guðlega forsjón, mun aldrei bregðast þeim sem á hana trúir. Blessuð sé minning Kristjáns Sturlaugssonar.

Jóhann G. Möller
------------------------------------------ 

Mbl.is 12.07.1974

Kristján Sturlaugsson -Nokkur kveðjuorð Hinn 22. júní síðastliðinn var Kristján Sturlaugsson jarðsettur frá Siglufjarðarkirkju, en hann lést 16. júní á sjúkrahúsi í London rúmlega viku eftir að hann hafði gengið undir uppskurð. Það hefur dregist úr hófi, að ég skrifaði nokkur kveðju- og þakkarorð, en nú læt ég loks verða af því.

Við Kristján kynntumst ekki fyrr en við báðir vorum orðnir fullorðnir. Ég var þá að hefja kennslustörf við Gagnfræðaskóla Siglufjarðar, en hann hafði kennt allmörg ár við barnaskólann þar. Þetta var haustið 1952. Áður en ég vík nánar að kynnum okkar Kristjáns á Siglufirði, vil ég geta nokkurra æviatriða hans. Eins og fleiri íslenskir alþýðumenn varð hann að þola bæði súrt og sætt í uppvextinum, en það er einmitt það, sem hefur mótað persónuleika þeirra og skoðanir og gert þá að sönnum mönnum. Kristján Sturlaugsson var einn þeirra.

Hann fæddist hinn 3. jan. árið 1912 á Saurum í Laxárdal í Dalasýslu. Foreldrar hans voru Sturlaugur Jóhannesson og Ásta Lilja Kristmannsdóttir, bæði af bændafólki komin. Kristján var yngstur níu systkina, en tvö þeirra dóu ung, og tvístraðist systkinahópurinn nokkuð snemma vegna veikinda móður þeirra. Kristján ólst að mestu leyti upp í sveitinni til sextán ára aldurs, en var nokkur ár í Búðardal. Hann lagði gjörva hönd á fleira en sveitastörf, meðal annars stundaði hann sjó um skeið.

En Kristján langaði til að afla sér menntunar, enda alinn upp við lestur góðra bóka, og ljóðaunnandi var hann einlægur. Hann fór f Reykholtsskóla og síðan í Kennaraskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 1938. Hann var einn vetur farkennari í Húnavatnssýslu, en réðst síðan sem kennari til Súðavíkur og kenndi þar i fimm ár. Auk þess gegndi hann þar ýmsum opinberum störf um, var meðal annars oddviti Súðavíkurhrepps.

Árið 1940 steig Kristján mikið gæfuspor, er hann kvæntist Elísabet Guðmundsdóttir frá Litlu Borg í Húnavatnssýslu, en hún lifir mann sinn. Þau hjónin eignuðust sjö mannvænleg börn, sem öll eru á lífi.

Árið. 1944 fluttist Kristján ásamt fjölskyldu sinni til Siglufjarðar og kenndi þar við barnaskólann i þrjátíu ár. Kristján var með afbrigðum starfsamur maður, svo að hann unni sér lítillar hvíldar, hvort sem var á vetri eða sumri. Enda er það svo, að venjuleg kennaralaun hrökkva skammt, þegar börnin eru mörg. Þar fyrir utan hlóðust á hann ýmiss konar opinber störf, eftir að hann kom til Siglufjarðar, störf, sem oft eru lítið eða ekkert launuð.

Meðal annars sat hann oft í bæjarstjórn fyrir Alþýðuflokkinn og var ábyrgðarmaður blaðs hans, Neista. Kristján komst í kynni við og tók þátt í baráttu verkalýðsins fyrir rétti sínum og bættum kjörum, þegar hann var í Búðardal. í þeirri baráttu tók hann þátt af eldmóði æskumannsins, en þessi eldmóður yfirgaf hann aldrei, hann missti aldrei sjónar á hugsjón jafnaðarstefnunnar, eins og marga vill henda, er árin færast yfir þá.

Hann var einhver sannasti jafnaðarmaður, sem ég nokkru sinni hef kynnst. Það kom fram í öllum störfum hans og alls staðar, ekki síst í hinni frábæru og íslensku gestrisni hans og hinnar ágætu konu hans. í því efni voru þau sem einn maður. Eins og áður getur hófust kynni okkar skömmu eftir að ég fluttist með fjölskyldu minni til Siglufjarðar, og þau hafa aldrei rofnað, þótt leiðir skildu, er ég fluttist frá Siglufirði 1963.

Heimili þeirra hjóna stóð mér og fjölskyldu minni alltaf opið, og ég hef á fá heimili komið, þar sem mér hefur fundist ég vera eins heima hjá mér. Við þökkum honum og fjölskyldu hans hjartanlega fyrir ógleymanlegar samverustundir á liðnum árum. Mér hefur jafnan fundist, að . viðhorf manna til barna og hvernig þeir umgangast þau, segi allvel til um það, hvern mann þeir hafa að geyma. Þessu til áréttingar ætla ég að vitna í meistarann mikla, sem bað um að leyfa börnunum að koma til sín.
Sé þessi skoðun mín rétt, þarf Kristján ekki að kviða neinum dómi neins staðar. Slíkur var hann við börn.

Enda ætti enginn að taka að sér að kenna börnum, nema hann hafi yndi af þeim, vilji skilja þau og vera félagi þeirra og leiðbeinandi I senn. Kristján mun hafa kennt hjartasjúkdóms í nokkur ár, þótt hann bæri hann karlmannlega og léti lítið á bera. Hann fór til rannsóknar seinni hluta liðins vetrar, og þá hittum við hjónin hann síðast.

Þá hvarflaði ekki að okkur, að hverju dró. Hann fór síðan til London í byrjun júnímánaðar, þar sem hann var lagður inn á sjúkrahús og skorinn upp, eins og ég gat um áður. Sigurlaug, elsta dóttir hans, kom frá Bandaríkjunum og fylgdi honum út og var hjá honum, uns yfir lauk. Einhver síðustu orð hans voru: „Nú er ég kominn til Siglufjarðar." Þessi orð hans sýna vel, hvar hugur hans dvaldi jafnan. Ég og fjölskylda mín vottum eiginkonu hans, börnum og öðrum ástvinum dýpstu samúð.

Flosi Sigurbjörnsson.