Páll Jónsson í Lindarbrekku

Siglfirðingur 1954

Páll Jónsson í Lindarbrekku Fæddur 16. júlí 1881 — Dáinn 29. marz 1954.

Það má kallast langur æviferill manns, sem kominn er á áttræðisaldur, en aldrei fannst mér Páll í Lindarbrekku gamall maður. — Kynni okkar eru orðin hartnær fjörutíu ára gömul, og þrátt fyrir þann þroska og lífsreynslu, sem hann hafði fram yfir mig og marga aðra, virtist mér hann alltaf jafnoki þeirra, sem yngri voru, hvað þrek  og vinnuafköst snerti og stundum vel það.

Páll í Lindarbrekku var hversdagslega fámáll og hæglátur maður og virtist stundum dálítið hrjúfur í lund. Svo var þó ekki, því varla mun nokkur maður þarf a sýnt meira ástríki og blíðu, en hann sýndi dóttur sinni og dóttur syni, slíkt var unun að sjá. Vinátta hams brást aldrei, trúmennska hans í öllum störfum var svo mikil, að allir þeir, er hennar nutu, luku á hann lofsorði. 

Mörg störf vann Páll á sinni löngu ævi og kann ég fæst af þeim upp að telja, en sjómaður var hann framan af ævi sinni- og) var á síldveiðiskipum, bæði utanlands og innan; beykir var hann og verkstjóri svo fátt eitt sé nefnt. Eftirsóttur var hann til allrar vinnu, vegna mikilla afkasta, verklægni og trúmennsku við störf; hann gaf sér tíma til þess að athuga, hvernig verki ætti að vinnast og réðist svo að því með ósérhlífni og dugnaði. Það var gott að vinna með Páli og eiga hann fyrir félaga.

Þess naut ég um nokkurra ára bil, og síðan vorum við Páll vinir. Félagsleg störf voru honum ekki meira en svo að skapi, og tók hann lítinn þátt í þeim, þó minnist ég þess, að hann var með að stofna Verkamannafélag Siglufjarðar og nokkur ár sat hann í stjórn þess sem gjaldkeri. Ekki hélt hann þar eða annarsstaðar langar ræður um málin, en hann gerði sér glögga grein fyrir því, sem við var fengist hverju sinni Eina og kannski einustu ræðu hans frá þeim tíma, man ég, og varpar hún nokkru ljósi yfir hvað skarpur hann var í ályktunum stoðum.

Á fundi, sem haldinn var í Verkamannafélaginu var samþykkt að gefa út skrifað blað um málefni félagsins, en menn voru ósammála um hvað blaðið skyldi heita. Páli sagði þá: ,,Við skulum láta blaðið heita Vögg, því ekki er okkur öllum svo tamt að skrifa að vera má, að stundum verði Vöggur litlu feginn." Umræðurnar urðu ekki lengri og Vöggu nafnið var samþykkt einróma. Þannig voru tillögur Páls, grundaðar og öruggar, eins og maðurinn sjálfur var í öllu dagfari sínu.

Ég sakna þess, að sjá ekki lengur þennan gamla vin minn og vinnufélaga, skálma til og frá vinnu, og svo mun vera um alla hans vini og vinnufélaga að fornu og nýju. Að sjálfsögðu er mestur harmur kveðinn eiginkonu hans og öðrum ástvinum, en það hefði ekki verið ólíkt Páli að benda þeim á, að jarðlífið er stutt en eilífðin löng og þar mætast allir unnendur, eftir stutta stund. Hafðu þökk, kæri vinur, fyrir störf þín, trúmennsku og vináttu.

Pétur Björnsson
-------------------------------------------------

Kveðjuorð: Páll Jónsson, Lindarbrekku, lézt að heimili sínu hér á Siglufirði 29. f.m., 72 ára að aldri. — Ekki mun ég rekja ættir Páls, það munu aðrir mér kunnugri gjöra, en ég tel að hann hafi verið einn af traustustu borgurum bæjarins, og enn af góðkunningjum mínum, og langar mig því að kveðja hann með fáeinum línum, fyrst ég gat eigi fylgt honum síðasta spölinn, vegna veikinda minna.

Því miður, kynntist ég Páli litið persónulega fyrr en síðustu árin, en löngu fyrr vissi ég þó deili á Páli í Lindarbrekku, því þannig mun hann oftast hafa verið nefndur af samborgurum mínum, og flestir Siglfirðingar munu hafa þekkt hann. Páll var meðalmaður á hæð, þrekinn um herðar, fríður sýnum og allur hinn vörpulegasti. —

Hann var hægur og stillilegur i framgöngu og virtist mér hann vera sextekinn, sem kallað er, en því viðkynningar betri og traustari, er menn höfðu öðlast trúnað hans eða þannig, reyndist hann mér. Páll var greindur maður, víðlesinn, fróður, minnugur og skemmtilegur í viðræðum- Hann var fljótur að átta sig á mönnum og málefnum og virtist mér hann oftast koma auga á betri og bjartari hliðar mannlífsins.

Hann var orðheppinn og stundum svo fyndinn, að áður en maður vissi af, hafði hann komið manni til að skelli hlæja með einhverri stuttri Og smelli setningu. Á ég Páli að þakka margan góðan og hollan hláturs sprett og ævinlega fór ég glaðari af hans fundi. Eigi svo að skilja, að Páll væri neinn ærinigi, síður en svo, mér virtist hann vera þroskaður gáfumaður, sem hefði ráðið það við sig, að láta enga erfiðleika buga sig.

Með slíkum mönnum þykir mér gott að vera og stundum virtist mér Páll vera bæði karlmannlegur og barnslegur í senn og þá ann ég honum e.t.v. mest. Páll mun hafa verið ágætlega hagortur, þótt litt héldi hann því á lofti. Á yngri árum mun Páll hafa stundað sjó, bæði hér á land og erlendis, en síðari árin stundaði hann aðallega landvinnu og þótti góður og ábyggilegur verkmaður við allt, sem hann tók að sér. Páll mun hafa verið ágætur heimilisfaðir.

Heimili hans var að vísu ekki stórhýsi, en mjög snyrtilegt, bæði utan húss og innan og móttökurnar ævinlega svo vinalegar, þegar inn var komið, að manni fannst maður vera kominn heim til sín. Hef ég, sem línur þessar rita, átt þar marga hlýlega ánægjustund.

Vitanlega hefur hin ágæta kona Páls, frú Hólmfríður Sigurgeirsdóttir, átt sinn þátt í að skapa heimilið í Lindarbrekku og þann anda, sem þar hefur ríkt. En nú, þegar fyrirvinnan og hinn trausti förunautur er horfinn, tel ég mikinn harm kveðinn að frú Hólmfríði, dóttur þeirra, tengdasyni og Páli yngra, og sendi ég þeim öllum mínar beztu samúðarkveðjur. Að lokum þakka ég svo Páli heitnum fyrir samfylgdina og allar ánægjustundirnar, sem hann veitti mér og bið honum blessunar.

H Kristinsson
---------------------------------------------    

Morgunblaðið - 11. apríl 1954

Páll Jónsson Lindarbrekku verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju miðvikudaginn 14. apríl. Athöfnin hefst með bæn frá heimili hennar, Barma- hlíð 51 kl. 1,30 e. h. — Blóm eru afþökkuð. Vandamenn. Innilegt þakklæti færum við öllum þeim, er sýndu okkur samúð og vinarhug við andlát og jarðarför PÁLS JÓNSSONAR Lindarbrekku, Siglufirði. — Guð blessi ykkur öll. Hólmfríður Sigurgeirsdóttir, Alfa Pálsdóttir, Páll Helgason, Helgi Ásgrímsson.

--------------------------------------- 

mbl.is 7. október 1958

ÞAKKARAVARP Innilegustu hjartans þakkir færum við öllum þeim nær og fjær, sem á svo margan hátt sýndu okkur samúð og mikla vinsemd við andlát og jarðarför móður minnar, ömmu og tengdamóður Hólmfríður Sigurgeirsdóttir Lindarbrekku, og þeim sem minntust hennar með hlýhug og virðingu. Guð blessi ykkur öll. Alfa Pálsdóttir, Páll Helgason, Helgi Ásgrímsson