Tengt Siglufirði
Mbl.is 2019
Stella Eyrún Clausen fæddist á Ísafirði 9. janúar 1934. Hún lést á Sjúkrahúsi Akraness 4. nóvember 2019.
Hún var dóttir hjónanna Guðfinna Ingibjörg Guðjónsdóttir Clausen og Arinbjörn Viggó Clausen.
Alsystkini Stellu voru
Stella kynntist eiginmanni sínum, Kristni Sigurvini Karlssyni, á Ísafirði 1953, þá 19 ára. Þaðan fluttu þau til Reykjavíkur árið 1955 og gengu í hjónaband hinn 1. júlí 1958. Árið 1961 fluttust þau á Akranes og bjuggu lengst af á Vesturgötu 137, síðar á Lerkigrund 3. Kristinn eiginmaður hennar lést árið 2004.
Þau eignuðust fjögur börn, þau eru:
1) Arinbjörg, f. 1954, d. 2015. Hún var gift Röðli Bragasyni sem gekk Stellu Maríu Arinbjargardóttur, f. 1970, í föðurstað 1972 en saman áttu þau tvo syni,Röðul Kolbein, f. 1978, giftan Ingibjörgu Elínu Jóhannsdóttir, þau eiga tvö fósturbörn, Maríu Ósk, f. 2013, og Bradley Glenn, f. 2011. Kristin Darra, f. 1986, í sambúð með Dagrúnu Davíðsdóttur. Þau eiga þrjú börn, Emelíu Evu, f. 2011, Arinbjörgu Eddu, f. 2016, og Andreu, f. 2018. Stella María er gift Ólafi Páli Gunnarssyni. Þau eiga þrjú börn. Tinnu Maríu, f. 1992, í sambúð með Valentin Fells Camileri, dóttir hennar er Stella María, f. 2015, Ólaf Alexander, f. 1994, í sambúð með Karítas Lottu Thulinius, og Sturlaug Hrafn, f. 2009.
2) Sigurbaldur, f. 1958, giftur Halldóru Höllu Jónsdóttur, saman eiga þau tvö börn, Stellu Eyrúnu, f. 1995, í sambúð með Arnari Þór Ólasyni, þau eiga Baltasar Emil, f. 2018. Sindra Má, f. 1996. Halldóra Halla á fjögur börn frá fyrra hjónabandi og heita þau Guðný Elíasdóttir, f. 1975, Jón Hartmann Elíasson, f. 1977, Hreinn Elíasson, f. 1982, og Marín Rut Elíasdóttir, f. 1983.
3) María, f. 1960, í sambúð með Jóni Bjarna Gíslasyni, saman eiga þau fjögur börn: Sylvíu Björk, f. 1995, í sambúð með Arnari Frey Antonssyni, þau eiga Heklu Björk, f. 2016. Allan Bjarka, f. 1997, Daníel Aron, f. 1999, og Evu Maríu, f. 2001.
4) Kolbrún Belinda, f. 1974. Börn hennar eru Kristinn Máni Svavarsson, f. 1996, og Karítas Eva Svavarsdóttir, f. 1998, í sambúð með Sigurjóni Guðmundssyni, saman eiga þau Hafrúnu Belindu, f. 2018. Róbert Kári Óskarsson, f. 2003, og Rúnar Breki Óskarsson, f. 2006. Kolbrún Belinda er í sambúð með Sigurði Oddssyni.
Stella var listasauma- og handverkskona og saumaði og prjónaði á allt sitt fólk á meðan hún hafði sjón til. Lengst af starfsævi sinni vann hún við fiskverkun.
Stella bjó á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Höfða síðastliðin þrjú ár.
Útför Stellu verður gerð frá Akraneskirkju í dag, 15. nóvember 2019, og hefst athöfnin klukkan 13.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Það eru eflaust fagnaðarfundir á himnum, amma Stella og afi Dúddi sameinuð á ný.
Takk fyrir allt elsku amma mín. Ég er þakklát fyrir að hafa átt þig sem ömmu og allar minningarnar. Takk fyrir að vera líka svona góð langamma. Við mæðgur eigum eftir að sakna þess að koma upp á Höfða til þín og sjá fiskana hjá langömmu Sellu eins og Hekla mín kallaði þig. Guð geymi þig. Ég bið að heilsa afa! Við sjáumst síðar.
Sylvía Björk Jónsdóttir.
--------------------
Elskuleg amma mín sem ég heiti eftir átti ótakmarkað af ást og umhyggju að gefa. Amma var þannig og af þeirri kynslóð að hún lét alltaf aðra ganga fyrir og vildi aldrei láta hafa neitt fyrir sér og gekk oft ansi langt í þeim efnum.
Hún bjó yfir mikilli hlýju og gerði allt sem í hennar valdi stóð alla tíð fyrir sig og sína, hún og afi saman, en afi dó 2004.
Ég á ömmu ævintýralega margt að þakka. T.d. þau fallegu orð sem Belinda sagði við mig í faðmlagi nokkrum andartökum eftir að amma dó: „Hugsaðu þér, Stella, hvað mamma var góð móðir, sem gerði það svo að verkum að mamma þín var góð mamma, þú líka og nú Tinna.“ Allt helst þetta í hendur.
Amma var einungis 36 ára þegar ég fæddist.
Ég á þeim ömmu og afa mikið að þakka og endalaust af kærleika, kærum og dýrmætum minningum. Ég bjó við mikið og ástríkt umhverfi þegar ég var að alast upp. Hún gaf mér mikla ást og umhyggju í veganesti, sem er dýrmætasta gjöfin.
Ég var mikið í ömmu og afa húsi eftir að ég flutti þaðan fjögurra ára. Þá fluttum við mamma að heiman og þá eignaðist amma líka sjálf barn, hana Belindu. Mamma mín, Arinbjörg, var þá tvítug, Baldur 12 ára og María 10 ára og amma 40 ára.
Amma var mikil og hæfileikarík handverkskona og var einstaklega fær að sauma og prjóna, en saumakunnáttu sína lærði hún af móður sinni sem var lærð saumakona á Ísafirði og ég var framan af aldri mikið til í heimasaumuðum fötum.
Yndislegar æskuminningar innihalda margar minningar af mömmu, ömmu og langömmu í eldhúsinu hjá ömmu Stellu á Vesturgötu 137 þar sem oft var líf og fjör, saumavél, sníðablöð, snið, krítar og efni fylltu eldhúsborðið og orðið nýmóðins var mikið notað en móðurlangamma kom oft frá Reykjavík og dvaldi á Vesturgötunni nokkra daga.
Allar þessar minningar eru dýrmætar og afar kærar.
Nú er lífsbókin hennar elsku ömmu Stellu minnar búin. Síðustu blaðsíðu lauk mánudagskvöldið 4. október.
Ég heimsótti ömmu alltof sjaldan síðustu mánuði, því fylgir nú sviði og eftirsjá.
Minning þín elsku hjartans besta amma mín varðveitist áfram hjá mér og okkur öllum sem þekktu þig. Þú varst mér alla tíð afar kær og mikilvæg kona. Ég elskaði ömmu og hún mig.
Nú verð ég að vona og óska þess að það sé þannig að þú sért með afa og mömmu í annarri veröld og vídd, sameinuð og að ég hitti ykkur öll síðar.
Megi ljós og friður og allar góðir vættir og himnaherskarar fylgja þér elsku vina.
Ég kveð þig með hlýju í hjarta,
Stella María Arinbjargardóttir.
---------------------------------------------
Elsku amma Stella. Þó svo að ég geti ekki hitt þig lengur þá muntu alltaf vera í hjartanu mínu því mér þótti svo vænt um þig og ég á svo góðar og dýrmætar minningar um okkur saman. Nú ertu komin til afa Dúdda og mér þykir svo vænt um það vegna þess að þið hafið saknað hvort annars lengi og er hann örugglega yfir sig glaður að fá að hitta þig.
Á þessari stundu eru minningarnar það dýrmætasta sem maður á og gleður það mig að ég á þær margar. Ég man svo vel eftir því og mun alltaf muna hvað það var gaman að koma til þín og gista hjá þér, koma eftir skóla að fá súkkulaðibrauð og capri-sun eða hvað sem ég vildi, horfa á Mr. Bean og Tomma og Jenna með þér.
Þú hafðir alltaf svo gaman af því að vera með og horfa og fannst mér það líka virkilega skemmtileg stund, guð hvað það var gaman hjá okkur. Man líka svo eftir því þegar við spiluðum við eldhúsborðið heima hjá þér og einn daginn kenndirðu mér kóngakapal og gekk hann þá upp hjá mér en hann hefur aldrei gengið upp síðan þá. Er farin að sakna þess og mun sakna þess virkilega mikið að koma og heimsækja þig á Höfða og spjalla við þig um fótboltann, hvernig mér gengi í honum og varst þú alltaf svo ánægð með mig og hældir mér alltaf fyrir það hvað mér gekk vel í honum.
Mér þótti alltaf svo vænt um það að koma til þín, þú varst alltaf svo glöð þegar ég kom í heimsókn og alltaf tilbúin með knús og koss þegar ég labbaði inn og þú sast í stólnum þínum. Mun alltaf muna eftir því þegar ég kom eitt skipti til þín með Viktori og þá varstu að hitta hann í fyrsta skiptið og vorum við þá nýbyrjuð að hittast. Í hvert skipti sem ég kom til þín eftir það sagðirðu mér hvað þér litist vel á hann og ég væri heppin með hann, mér þótti svo vænt um það í hvert skipti sem þú sagðir það og þykir svo vænt um að hugsa um það.
Þú varst einstök kona sem var alltaf jafn gaman að hlæja með og mun ég sakna þess að heyra þann hlátur. Ég er heppin að hafa fengið að eiga þig sem ömmu. Mikið er erfitt að kveðja, elsku amma, mikið á ég eftir að sakna þín. Mér líður vel að hugsa til þess að þið afi eruð saman á ný.
Elska þig og sakna þín, elsku amma Stella mín.
Eva María Jónsdóttir.