William Th Möller kennari

ÞJÖÐVILJINN — 25. ágúst 1965

William Th. Möller Fæddur 12/3 1914 — Dáinn 19/7 1965
MINNING: William Möller var fæddur á Akureyri, sonur hjónanna Christians Möller og Jónu Rögnvaldsdóttur.

Hann fluttist ungur með foreldrum sínum til Siglufjarðar og ólst þar upp í stórum systkinahópi. Faðir hans varð heilsulaus á miðjum aldri og andaðist áður en hann náði gamals aldri. Það varð hlutskipti Williams að verða stoð og stytta móður sinnar, og einnig hygg ég að yngri systkini hans hafi átt hauk í horni þar sem hann var, enda munu þau öll hafa metið hann að verðleikum.

Hann lauk stúdentsprófi frá M. A. 1934 og kennaraprófi 1937. Þá hafði hann innritazt í Háskóla Íslands og lokið prófi í forspjallsvísindum, en, sennilega hefur fjárhagurinn ekki leyft lengra háskólanám. Það hefur því sennilega ekki verið upphaflegur ásetningur hans að gerast kennari, en fáa þekki ég, sem betur voru til þess starfa fallnir.

William Möller - Ljósmynd Kristfinnur

William Möller - Ljósmynd Kristfinnur

Hann var í stuttu máli sagt frábær kennari, og kom þar margt til. Hann var ágætum gáfum gæddur, en þó bar af, hve mikill stærðfræðingur hann var. Og hann átti þann eiginleika, sem ekki er öllum miklum stærðfræðingum gefinn, að vera framúrskarandi reikningskennari. einnig þeirra nemenda, sem ekki lá stæðfræðin í augum uppi.

Hjá honum gátu allir lært að reikna. En þó voru það öllu fremur mannkostir hans, sem ollu því, hve mikill . og vinsæll kennari hann var. Samvizkusemi í starfi var eins og bezt verður á kosið, góðvild hans og umhyggja fyrir nemendum var einstök.

Það mun líka leitun á kennara, sem var jafn vinsæll jafnt af nemendum sínum og samstarfsmönnum. Við William störfuðum saman við Barnaskóla Siglufjarðar í sex ár, og betri samstarfsmann hef ég engan fengið. Ævinlega var hann reiðubúinn að vinna, hvað sem var, í þágu skólans, enda fær um að kenna allar bóklegar greinar, ef því var að skipta. Hann bar jafnan hag skólans fyrir brjósti og var réttsýnn og tillögugóður, en reyndi aldrei að trana sér fram fyrir aðra, enda fremur hlédrægur að eðlisfari.

Þótt William væri, sem kallað er vinsæll af alþýðu, hygg ég, að aðeins þeir, sem þekktu hann bezt, hafi gert sér fulla grein fyrir því, hvílíkur mannkostamaður hann var, því olli meðfædd hlédrægni hans. Tryggð hans og nærgætni við móður sína var svo frábær að slíks munu fá dæmi, og umhyggja hans fyrir vandafólki sínu var óvenju mikil.

Mér reyndist hann ekki aðeins traustur samstarfsmaður, heldur og sannur vinur, sem ég gat alltaf leitað til, og það var enginn ber að baki, sem átti hann að vin. Ég efa ekki, að margir nemenda hans bera söknuð í brjósti við fráfall hans, en þó er það spá mín, að eftir því, sem árin líða, verði þeim ljósara, hve mikið þeir eiga honum að þakka.

Ég vil að lokum votta vandamönnum hans einlæga samúð mína, og þá fyrst og fremst aldraðri móður hans og eftirlifandi ekkju og ungum börnum þeirra hjóna. Hinn mikla missi þeirra getur enginn bætt, en minningin um góðan dreng og vissan um hans gifturíka starf, er fjársjóður, sem ekki verður frá þeim tekinn

Hlöðver Sigurðsson.