Tengt Siglufirði
11. janúar 2014 | Minningargreinar mbl.is
Ingeborg Lucie Selma Svensson fæddist í Hamburg Altona 6. desember 1934. Hún lést á heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 18. desember 2013.
Foreldrar hennar voru Walter Franz Ludwig Svensson, f. 7. apríl 1897, d. 14. september 1942, og Anna Marie Sazacki Svensson, f. 1. desember 1906 , d. 1988.
Systkini hennar
voru Olaf, f. 4. apríl 1940, d. 2011, og Sven, f. 9. nóvember 1935, d. 1943.
Ingeborg giftist 30. október 1954 Jón Björnssn, f. 15. ágúst 1922, d. 18. nóvember 2006.
Börn þeirra eru
Börn Björns og Helenu eru:
Börn Önnu Marie og Steingríms eru:
Ingeborg ólst upp í Hamborg en fluttist nítján ára að aldri frá Þýskalandi. Hún tók að sér starf sem au pair hjá Edward Behrens, tannlækni sem bjó ásamt konu sinni og þremur börnum þeirra á Siglufirði. Ingeborg kynntist eiginmanni sínum, Jóni, árið 1953. Þau bjuggu í fyrstu á Laugarvegi 30 en fluttust síðan á Laugarveg 28, í húsið sem þau byggðu sjálf.
Ingeborg fór í gagnfræðaskóla, í húsmæðraskóla og síðar í iðnskóla í Þýskalandi, þar sem hún lærði að vinda rafmótora og vann hluta starfsævinnar í verksmiðju í Hamborg.
Síðar, á sínum íslenska vinnuferli, fékkst Ingeborg við síldarsöltun, fiskvinnslu og reri á handfæri með eiginmanni sínum. Ingeborg var heiðruð ásamt Jóni, eiginmanni sínum, á sjómannadaginn á Siglufirði árið 2000.
Ingeborg var jarðsungin frá Siglufjarðarkirkju 3. janúar 2014 í kyrrþey að hennar ósk.
(Valdimar Briem)
Elsku amma mín, það er alltaf erfitt að kveðja og maður er aldrei nægilega undirbúinn þegar kallið kemur.
En þú varst svo oft búin að segja mér hversu þakklát þú værir fyrir þinn tíma, þú varst sátt þrátt fyrir alla þá atburði sem þú hafðir upplifað fyrr á ævinni. Þú bjóst yfir stórbrotnum minningum sem ég hefði svo gjarnan viljað heyra meira af. Saga heimsstyrjaldarinnar síðari er saga sem þú þekktir af eigin raun en þú áttir svo erfitt með að tala um hana, ég skildi það vel og ímyndaði mér oft hversu erfitt það hefur verið fyrir þig að lifa með þessar upplifanir í sálu þinni.
Elsku amma, þú varst svo margbrotin kona; dugleg, opin, hreinskilin og hafðir margt gott að geyma. Aníta og Aron elskuðu ömmumolana sem þið afi gáfuð þeim þegar þau komu í heimsókn.
Við munum geyma minningarnar í hjörtum okkar á meðan við lifum og vonum að afi hafi tekið vel á móti þér.
Guð blessi ykkur. Kveðja,
Erla og fjölskylda.
---------------------------------------
Ég vil í fáeinum orðum minnast hennar ömmu minnar, Ingeborg Svensson, sem nú er látin. Amma mín var alltaf mjög hreinskilin manneskja og móðgaði sennilega fleiri en hún ætlaði sér. Slíkt er nú samt oft háttur Þjóðverja en þeir meina ekkert illt með því. Mér fannst alltaf mjög gott að koma í heimsókn til hennar og samband okkar var einstakt, enda mun hún alltaf skipa ákveðinn sess í mínu hjarta. Amma kallaði mig gjarnan Lilla klifurmús þegar ég var lítill þar sem var ég upp um alla veggi, að því er henni fannst. Eftir að bróðir minn fæddist tók hún það á sig að skakka leikinn þegar á því var þörf og sat hún jafnvel á milli okkar í bílferðum.
Hjá ömmu fékk maður gómsætt hlaup (Götterspeise) við og við, síðan var gjarnan ís í eftirrétt. Í minningunni er eins og það hafi verið eftir hverja einustu máltíð sem ég fékk ís og hvað mér fannst gott að borða hjá henni ömmu minni. Rétt fyrir jólin voru svo þýskar smákökur á borðstólnum ásamt Stollenbrauði sem ég þá fúlsaði við.
Hún sat gjarnan í stól með skammel sér til fóta og las bækur af miklum áhuga. Oft fyllti þýsk tónlist húsið. Ófáar sögurnar heyrði ég hjá henni ömmu minni. Margar þeirra gerðust eftir komu hennar til Íslands, nokkrar voru frá síðari heimsstyrjöldinni og árunum eftir hana í Þýskalandi, en við og við af tíð fjarri þeim hörmungum.
Það var ekki fyrr en ég, ásamt eiginkonu minni og syni okkar, flutti til Þýskalands að ég áttaði mig á því hversu djúpstæð áhrif sögurnar höfðu haft á mig og gerðu það sennilega að verkum að ég dreif mig út til Þýskalands.
Amma sá meira en aðrir og hafði eiginkona mín mjög gaman af því að ræða um ókomna tíð við hana enda reyndist hún oft sannspá. Mér þótti afar vænt um hana ömmu mína en ég gerði mér þó fyllilega grein fyrir því að partur af henni fór með honum afa mínum, sem lést fyrir nokkrum árum, en í dag eru þau loksins sameinuð.
Jón Garðar Steingrímsson.
------------------------------------------------
Kæra Ingeborg!
Ég minnist þess að fyrir allmörgum árum bar ég upp við þig þá spurningu hvort þú hefðir aldrei haft löngun til að flytja heim til Þýskalands, þú þagðir drykklanga stund, svo kom svarið með eilitlum þunga (að mér fannst). „Nei, ég er heima.“ Þú varst byrjuð að gefa mér skýringar á viðbrögðum þínum þegar við vorum afgerandi ónáðuð.
Svar þitt svo ákveðið kallaði fram í hugann ótal spurningar sem hefði verið lærdómsríkt fyrir alla að fá svar við.
Hvað veldur því að ung stúlka tekur þá afdrifaríku ákvörðun að yfirgefa heimaland sitt? Er það af ævintýraþrá? Er hún að leita að betri möguleikum sér til framfærslu? Eða er það þörf fyrir annað umhverfi?
Það mikið varst þú búin að segja, að ég veit að sem barn upplifðir þú sorg og hörmungar heimsstyrjaldarinnar, þunga þeirrar byrðar þekkja þeir einir sem hafa upplifað þær og aðrir geta ekki þar um dæmt.
Hingað ert þú komin árið 1953 frá einni af stórborgum Evrópu til staðar sem í þínu fyrrverandi heimalandi kallaðist lítið þorp. Hver voru þín fyrstu viðbrögð? Í hvaða ljósi leist þú þennan stað? Þú sagðir að nær strax hefðirðu verið sátt við umhverfið og staðinn þegar fram liðu stundir.
Hvernig brást samfélagið við komu þinni? Því er ekki svarað.
Á þessum tímamótum hófst nýr kafli í lífi þínu, þú eignast nokkrar vinkonur og ert farin að takast á við að læra íslensku, jafnframt gefur þú auga þínum næstu nágrönnum. Í þeirra hópi lítur þú ungan mann sem þú sérð eitthvað við og sagt er að þú hafir strax sagt vinkonum þínum að hann yrði eiginmaður þinn. Hér erum við að sjálfsögðu að tala um Jón Björnsson.
Hér þarf kjark til. Þú upplifir vantrú og hleypidóma, þjóðerni þitt er gert tortryggilegt, hann er ómenntaður, þið talið ekki sama tungumál, hafið ólíka lífsreynslu, mikill aldursmunur og margt fleira tínt til.
Þetta er áskorun. Þið náið saman; ryðjið öllum hleypidómum og hindrunum úr vegi, vandamálin ef einhver eru ekki borin á torg heldur leyst á heimavettvangi.
Ingeborg, skipulagsgáfa þín, sem orð fer af, nýtist ykkur báðum. Þú hvetur mann þinn til dáða og þrátt fyrir takmarkaða bóklega menntun fá vanmetnir hæfileikar hans að njóta sín. Verkin hans tala og segja meir en mikill orðaflaumur.
Húsbyggingar, skipa- og bátasmíðar, sjómennska, veiðar og verkun afla. Allt lék þetta í höndum hans og virtist honum meðfætt, í mörgum tilvikum var þetta vettvangur ykkar beggja og fór vel.
Erla og Jón Dýrfjörð,
Hlíð, Siglufirði.
----------------------------------------------
28. janúar 2014 | Ingeborg Svensson
Ingeborg Lucie Selma Svensson fæddist 6. desember 1934. Hún lést 18. desember 2013. Ingeborg var jarðsungin 3. janúar 2014.
,Nú er hún amma mín, Ingeborg Svensson látin og ég mun sakna hennar mikið.
Ég eyddi miklum tíma hjá afa og ömmu þegar ég var yngri. Það var nánast öruggt að þegar ég borðaði þar, þá fékk ég soðningu eða smurt brauð. Þar sem afi var fiskimaður, þá lá það beinast við að borða fisk. Amma var þó ekki mikið fyrir það að reiða hann fallega fram. Hún skellti fisknum bara í pott, hann var soðinn og svo skellt á disk. Það getur svo sem verið að ástæðan eigi rætur sínar að rekja til Þýskalands, til einfaldleika, hagkvæmni og nákvæmni.
Annað dæmi um slíkt var þegar hún amma mín smurði brauð. Þá tók hún skurðarbrettið sitt og vel beittan hníf, sem hann afi hafði brýnt. Valdi svo endalaust og vel útlítandi franskbrauð og sneiddi. Hún tók sér smjörklípu á hníf og smurði hvern krók og kima brauðsneiðarinnar. Álegginu sjálfu fylgdi sama natni og var það skorið til að passaði nákvæmlega á brauðsneiðina. Það var aldrei misþykkt, með misfellum eða götótt heldur fullkomnun á milli kanta sneiðarinnar.
Amma mín fæddist í Þýskalandi en kom á síðari unglingsárum sínum til Íslands. Hún var einstaklega hrífandi og ég hafði mjög gaman af því að spjalla við hana um Þýskaland og æsku hennar þar. Það var einnig áhugavert að vita hversu mikla menntun amma hafði í samanburði við íslenskar samtímakonur hennar. Til dæmis var amma nokkuð góð í ensku og átti ekki í miklum vandræðum með að tala við konuna mína, sem er bandarísk.
Þessa enskukunnáttu hafði hún einungis frá því að hún var ung í skóla í Þýskalandi. Hún hafði einnig lokið námi í iðnskóla og vann við að vefja mótora áður en hún fluttist til Íslands. Hún var kjarnakona sem ég mun aldrei gleyma – blessuð sé minning hennar.
Árni Teitur Steingrímsson.