Sigurður Jónsson fyrrverandi bóndi í Skarðdal

Siglfirðingur 16-03-1961

Sigurður Jónsson.  Nokkur minningarorð Hann andaðist að heimili sínu hér, í Hverfisgötu 16, 9. jan. 1961, eftir stutta legu.

Sigurður var fæddur 29. ágúst 1883, að Knappstöðum í Stíflu.
Foreldrar hanns voru: 

  • Jón Sigurðsson fyrrv. oddviti Holtshrepps, bónda að Íllugastöðum í A-Fljótum, og konu hans,
  • Guðfinna Gunnlaugsdóttir.

Jón var Þingeyingur að ætt, náskyldur Jakobi Hálfdánarsyni kaupfélagsfrömuði, fluttist ungur í Fljótin með séra Páli á Knappstöðum og var fóstursonur presthjónanna.

Guðfinna var Ólafsfirðingur að ætt, alsystir Jóns fyrrum bónda á Mjóafelli, og fleiri voru þau systkini þó eigi séu þau hér talin. Guðfinna og Jón voru mestu myndarhjón. Var Jóni falin ýmis trúnaðarstörf í sveitinni. Þótti hann traustur maður. Guðfinna var, sem ættmenni hennar, búkona góð og með afbrigðum dugleg. Sigurður ólst upp á heimili foreldra sinna ásamt systkinum sínum til fullorðins ára.

Árið 1906 gekk Sigurður að eiga heitmey sína,

  • Björnónía Hallgrímsdóttir, Björnssonar frá Vík í Héðinsfirði, mestu ágætis- og myndarkonu.

Þau hófu búskap að Hólum í A.-Mjótum og bjuggu þar í 4 ár. Þá keyptu þau Bjarnargil í sömu sveit, fluttust þangað og bjuggu þar í 11 ár. Svo sem menn muna, urðu árin eftir fyrri heimsstyrjöld mörgum bóndanum all erfið.
Sífelldar verðsveiflur á framleiðsluvörum bóndans, sem urðu þess valdandi að skuldir söfnuðust á búin. Sigurður fór ekki varhluta af þessu ástandi, en með því hann kunni ilia við að eiga miklar skuldir yfir höfði sér, seldi hann Bjarnargil og losaði sig frá öllum skuldakröfum.
Fluttust þau þá að Lambanes-Reykjum og bjuggu þar í 4 ár.

Árið 1927 flytja þau að Skarðdal, en fóru þaðan að Sauðanesi á Upsaströnd og dvöldu þar hjá Gesti og Hallgrími í 3 ár, en fluttu aftur hingað 1944 og hafa verið hér síðan.

Þau Sigurður og Björnónía eignuðust 8 börn, 7 drengi og eina stúlku.

Eru þau börn öll sérlega myndarleg og mannvænleg og dugnaðarfólk hið mesta, eins og þau eiga kyn til. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það, að kostað hefur mikil umsvif og oft hefur verið annríkt hjá húsfreyju að koma þessum barnahópi upp. Efnin voru aldrei mikil, en samhent voru þessi heiðurshjón og bjuggu vel og ánægð að sínu.

Bæði voru þau greiðvikin og hjálpsöm, og munu margir, sem komu illa haldnir af Siglufjarðarskarði minnast gestrisni þeirra og góðrar aðhlynningar meðan þau réðu húsum í Skarðdal. Sigurður var að jafnaði hæglátur maður, yfirlætislaus og prúður í framkomu. Góðmenni var hann, óáleitinn, en ef á hann var leitað, var hann þybbinn fyrir. Hann var mjög vandaður maður, traustur og áreiðanlegur og naut hylli allra, sem kynntust honum.

Við fyrstu kynni var Sigurður frekar fár, eins og hann með varkárni vildi kynnast manni, sem ávarpaði hann, en við frekari kynni breyttist hann og var þá skemmtinn og skrafhreifinn. Sigurður var vel meðalmaður á vöxt, þrekinn og jafnvaxinn. Hann var hraustleika maður og fylginn sér verkmaður ágætur og verklaginn. Mun hann ungur hafa vanist störfum, bæði til sjós og lands, því títt var á ungdómsárum hans, að ungir menn voru látnir fara í hákarlalegur.

Þótti hans rúm við þessi störf vel skipað. Heilsuhraustur var hann fram á síðustu ár, en þá bar á veilu fyrir brjósti, sem mun hafa stafað af langri umgengni í heyjum. Slíkt virtist vera nokkuð algengt. Þessi brjóstveila varð þess valdandi, að hann þoldi ekki líkamlega áreynslu. En hann var andlega hress fram til hinztu stundar. Nú er hann genginn, þessi góði drengur og eftir lifir kona hans, sem var honum traustur lífsförunautur.

Það er margs að minnast eftir 55 ára samstarf og farsælt hjónaband. Það vakti eftirtekt, að sjá þennan myndarlega og mannvænlega barnahóp, ásamt móður sinni, fylgja föður sínum til hinztu hvíldar. Sótti það mjög á hug manns, hvílíku dagsverki þessi heiðurshjón hafa skilað þjóð sinni með því að koma þessum börnum upp sem góðum þjóðfélagsþegnum. Þó við verðum að játa, að Sigurður hafi verið kvaddur héðan á honum hentugri stund, ríkir þó söknuður í huga eiginkonu og barna og þeirra samferðamanna, sem kynntust honum, en slíkt mýkir og mildar sorg, að eiga ljúfar minningar um þennan trausta og góða mann.

Blessuð sé minning hans.