Jóhanna Kristinsdóttir

mbl.is 12. maí 2020 | Minningargreinar

Jóhanna Kristinsdóttir fæddist 10. apríl 1937 á Siglufirði. Hún lést á Landspítalanum 24. apríl 2020. 

Foreldrar hennar voru Valborg Steingrímsdóttir og Kristinn Guðmundsson. Systkini Jóhönnu eru Hulda Guðbjörg og Steingrímur. 

Jóhanna giftist Birgir Gestsson en hann lést 1977.
Dóttir þeirra er

Valborg Bigisdóttir, gift Árna Halldórssyni. Börn þeirra eru Anna Soffía, Birgitta og Árni Jóhann. Maki Önnu Soffíu er
Jóhanna Kristinsdóttir

Jóhanna Kristinsdóttir

Steinþór J. Sigurðsson og eiga þau saman tvær dætur,
  • Jenný og
  • Valborgu.
Maki Birgittu er
Gunnar Sigvaldason og eiga þau saman tvö börn,
  • Júlíu og
  • Kára.

Seinni maður Jóhönnu var Guðmundur Gunnarsson, þau skildu. 

Útför Jóhönnu fór fram í kyrrþey. 

Amma Jonna mín. Þú varst einstök, fórst alltaf eigin leiðir og lést engan segja þér fyrir verkum. Það eru forréttindi að hafa fengið að alast upp með þér og sjá þig alltaf halda áfram sama hvað á móti blés. Þetta gaf mér styrk til að standa með sjálfri mér í einu og öllu og ég mun alltaf búa að þeim styrk.

Þú varst alltaf stolt af mér og ánægð með allt sem ég gerði, ég var stjarna í þínum augum og það var ómetanlegt að eiga þig að og ég veit að minn styrkur og sjálfstraust er að miklu leyti ef ekki öllu kominn frá þér. Hver einasta teikning sem ég teiknaði átti heima á safni og þú varst viss um að ég yrði heimsfræg fyrir það eitt að vera ég. 

Ég trúi ekki enn að þú sért farin, skil það í rauninni ekki því þetta gerðist svo hratt. Mér finnst eins og ég hafi verið hjá þér í gær að tala um blóm og þú að gefa dætrum mínum málningu og pensla. En það eru þrír mánuðir síðan og ég hitti þig aldrei aftur. Þessir síðustu mánuðir í þínu lífi voru erfiðir og baráttan hörð, þú stálhraust og líkami þinn vildi ekki gefast upp.

Mamma sagði mér að þú hefðir bölvað öllum göngutúrunum sem hefðu gert þig svona hrausta. Þú varst alltaf að, gekkst um allt og gerðir upp húsgögn, boraðir upp hillur, málaðir málverk og prjónaðir og heklaðir af krafti. Langflottasta amma sem ég veit um, listamaður fram í fingurgóma. Hafðu engar áhyggjur af blómunum, ég tek þau öll heim til mín og passa eins og gull. 

Þú munt alltaf eiga stað í mínu hjarta og ég mun alltaf sakna þín elsku amma mín. 

Anna Soffía Árnadóttir. 
---------------------------------------------------

Með sorg og söknuði kveðjum við elsku Jonnu frænku okkar í hinsta sinn í dag. Við minnumst með þakklæti allra góðu stundanna sem við höfum fengið að njóta í samveru hennar. Þótt hægt sé að minnast hennar sem þess dugnaðarforks sem hún var verður sennilega minningin um hennar stóra hjarta sú sem mun lifa með okkur. 

Þótt Jonna frænka hafi ekki átt auðvelt líf, unnið hörðum höndum allt frá barnsárunum á Sigló og fram til þess síðasta, var henni alltaf umhugað um að gleðja aðra. Enn þann dag í dag getum við systkinin rifjað upp allar fallegu gjafirnar sem hún og Valbý dóttir hennar hafa gefið okkur í gegnum árin, þótt liðin séu næstum 50 ár frá sumum þeirra. Fyrstu persónulegu handklæðin, fuglakertastjakarnir eða eitthvað í smádótshilluna, listinn er endalaus. 

Þegar Jonna frænka kom í barnaafmæli, hvort sem það var hjá okkur, börnunum okkar eða barnabörnum, hafði hún ekki bara með gjöf handa afmælisbarninu. Öll börnin í afmælinu fengu gjöf. Stundum virtist taskan hennar vera botnlaus þegar hún dró upp hvert smádótið á eftir öðru. 

Þegar við heimsóttum hana fórum við aldrei út án þess að hafa með litla mynd sem hún hafði málað, afleggjara í potti eða bara eitthvað sem hún hafði fundið í Kolaportinu. 

Svo virtist sem Jonna frænka væri alltaf á ferðinni. Hún veigraði sér ekki við að taka strætó lengri leiðir eða ganga bæinn þveran og endilangan. Við hittum hana á ótrúlegustu stöðum! Og ef börnin okkar voru með í ferð skimaði hún alltaf eftir næstu dótabúð svo hún gæti keypt eitthvað til að gleðja þau. 

Jonna frænka var glæsileg kona. Hún bar höfuðið hátt og var óhrædd við að fara sínar eigin leiðir. Hún var frænkan sem var með aflitað hár og ósjaldan glitti í bláan blúndubrjóstahaldarann undir flegnum V-hálsmálsbolnum. Okkur fannst hún algjör skvísa! 

Hún var óhrædd við að segja sína skoðun og hafði enga þörf fyrir að vera sammála fólki. Í fjölmenni kom hún sér oftast fyrir í eldhúsinu þar sem hún naut sín best í tveggja manna tali. Þegar hún eltist og það varð fastur liður að spyrja hvernig hún hefði það var hún alltaf hreinskilin í svörum en spurði svo strax: „Hvernig hefur þú það?“ eða „hvernig gengur hjá þér?“ 

Þannig var Jonna frænka, alltaf að hugsa um aðra. 

Elsku Valbý, Árni, Anna Soffía, Birgitta og Árni Jóhann, makar og börn. Okkar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra. 

Fyrir hönd mömmu, maka okkar, barna, tengdabarna og barnabarna: Elsku Jonna frænka, þín verður sárt saknað. Takk fyrir allt! 

Jóhanna (Jonna), Linda, Herdís, Sigríður (Sirrý) og Stefán Birgir. 
___________________________________

Gömul og góð vinkona hefur kvatt. Við Jonna kynntumst í smábarnaskóla hjá Láru á Siglufirði. Við vorum minnstar og sátum því á fremsta bekk, Jonna með slöngulokkana sína og ég með ljósa fléttinga. 

Í minningunni var alltaf sól og gott veður á sumrin á Sigló. Við Jonna vorum í stutterma kjólum og hvítum leistum og sandölum. Við lékum okkur í parís á stéttinni hjá Guðbjörgu ljósmóður, sem átti bestu stéttina í bænum. Svo var farið í landaparís og ekki má gleyma boltaleikjunum, einbolt, tvíbolt og þríbolt.

Á kvöldin var farið í fallin spýta og feluleik og á sunnudögum fórum við á stúkufundi og í þrjúbíó. Við fórum á skíði og skauta á veturna og stukkum af húsþökum og komum oft rennandi blautar heim. Ég var oft lasin á þessum árum og þá kom Jonna í heimsókn og teiknaði fyrir mig falleg föt á dúkkulísurnar. 

Ein eftirminnilegasta minningin er af fermingardeginum. Jonna var svo falleg í síðum hvítum kjól með hvíta blúnduhanska. Ég á enn næluna sem Jonna gaf mér í fermingargjöf. Þegar við komumst á unglingsárin tók við skemmtilegur tími. Við fórum á böll í Alþýðuhúsinu og þótt við værum um margt ólíkar höfðum við báðar gaman af því að dansa. Jonna var einnig afar listræn, teikning lék í höndum hennar og hún gat spilað öll vinsælustu lögin á píanó eftir eyranu. 

Þegar Jonna kynntist Birgi sínum bjuggu þau fyrst á efstu hæðinni í Útvegsbankanum. Þau voru afar hamingjusöm og svo kom Valborg og litla fjölskyldan flutti suður. Það var mikill missir fyrir Jonnu þegar Birgi féll frá. Við héldum alltaf sambandi í gegnum árin og heimsóttum hvor aðra og fylgdumst með börnum og barnabörnum vaxa úr grasi. 

Takk fyrir fallega vinskapinn í gegnum árin, kæra vinkona. 

Hekla Ragnarsdóttir. 

Vinkonurnar Jonna og Hekla, ný fermdar -- Ljósmynd Kristfinnur

Vinkonurnar Jonna og Hekla, ný fermdar -- Ljósmynd Kristfinnur