Steingrímur Eyfjörð Einarsson sjúkrahúslæknir

Mjölnir

Steingrímur Eyfjörð Einarsson sjúkrahúslæknir

ÞANN 29. júlí lézt Steingrímur Einarsson læknir hér á sjúkrahúsinu og 9. ágúst var hann borinn til grafar.

Sjaldan hefur jarðarför verið svo fjölmenn hér á Siglufirði, enda sjá allir Siglfirðingar eftir Steingrími, svo voru vinsældir hans almennar. Bæjarstjórn og sjúkrasamlagið sáu um útför hans í viðurkenningarskyni fyrri hin miklu og vel unnu störf hans í þágu bæjarbúa og fór athöfnin mjög virðulega og hátíðlega fram. Sóknarpresturinn flutti húskveðju á heimili hins látna, en nðkkrir heimilisvinir báru kistuna út úr húsinu, bæjarfulltrúar og bæjarstjóri báru hana í kirkju.

Meðlimir »Rótaryklúbbsins  stóðu heiðursvörð við kistuna í kirkjunni og báru hana út, síðasta spölinn til grafar báru kistuna nokkrir læknar og stúdentar. Í kirkjunni söng Aage Schiöth einsöng, en Ole Hertervig flutti kveðjuorð f.h. bæjarstjórnar. Steingrímur er fæddur að Hamri i Eyjafirði 19. maí 1893. Foreldrar hans voru þau hjónin Rósa Loftsdóttir og Einar Jónssðn vel látin heiðurshjón en efnalitil.

Steingrímur Einarsson læknir -- ókunnur ljósmyndari

Steingrímur Einarsson læknir -- ókunnur ljósmyndari

Snemma bar á afburðagáfum hjá Steingrími og hneigðist hugur hans til náms. 19 ára gamall fór hann í Gagnfræðaskólann á Akureyri og útskrifaðist tíu árum síðar úr Háskólanum, sem sjúkrahúslæknir. Læknir með hárri 1. einkunn. Öll þessi skólaár vann Steingrímur fyrir sér á sumrin og var þá oftast til sjós og þótti bráðduglegur og efnilegur sjómaður.

Á handfærafiskiríinu var hann jafnan með þeim hæstu í drætti og þar að auki handlaginn og duglegur til allrar vinnu, enda sérstaklega ósérhlífnin. Á síldveiðunum var metingur um það, hverjum -ætti að hlotnast að vera á vakt með Steingrími, svo þótti hann skemmtilegur og góður félagi.

Skipstjórar sóttust mjög eftir honum í skiprúm og Iagði sá skipstjórinn, sem Steingrímur var lengst með, mjög mikið að honum að hætta við læknisnámið og verða heldur skipstjóri, en sem betur fór varð þó Steingrímur ekki við þessum vel meintu ráðleggingum vinar síns. Að loknu læknisprófi gerðist Steingrímur aðstoðarlæknir hjá Steingrími Matthíassyni á Akureyri en dvaldi um skeið í Ameríku við framhaldsnám í læknisfræði.

1928, þegar sjúkrahúsið hér var tilbúið, réðst Steingrímur hingað, sem læknir þess og því starfi gegndi hann til dauðadags. Steingrímur ávann sér strax það álit hér, að hann væri afburða læknir, enda hefur það tvímælalaust verið svo. Um mál sjúkrahússins var hann mjög áhugasamur og Iagði sig fram um að búa sem beztum tækjum og rak þannig, að það naut trausts virðingar eins og læknirinn sjálfur.

Það var ekki aðeins, að Steingrímur væri gáfumaður, afburðalæknir og mjög vinsæll, heldur var hann einn af þessum mönnum, sem virtist öllum kostum búinn og sögðu það margir, sem lengi höfðu þekkt hann, að eftir margra ára viðkynningu hefðu þeir verið að kynnast nýjum og nýjum mannkostum hjá honum. Ævinlega var Steingrímur kátur og með spaugs yrði á vörum, hagyrðingur var hann ágætur og eru margar vísur landskunnar.

Síðustu árin átti Steingrimur við megna vanheilsu að stríða, en alltaf vonuðu menn, að hann myndi yfirstíga hana, enda tók hann veikindunum með eindæma karlmennsku og þreki. En vonir þessar brugðust og nú er hann dáinn, svo allt of snemma.

Steingrímur var giftur Þorbjörg Ásmundsdóttir og lifir hún mann sinn ásamt tveimur dætrum 10 og 12 ára gömlum.

Þorbjörg reyndist manni sínum hin bezta kona og reyndist honum þó langbezt, þegar hann mest þurfti þess við, en það var í hinum hörðu veikindum, sem að síðustu drógu hann til dauða.

Sár er harmur eiginkonunnar og hinna ungu dætra og fjölmörgu vina, mikill er missir allra Siglfirðinga, en um slíkt tjáir ekki að ræða og skulu þessi fáu minningarorð um þennan ágætismann enduð með þeirri ósk, að Siglufjörður eignist sem flesta menn honum líka.