Anna S Karlsdóttir

mbl.is --- 2. desember 2010 | Minningargreinar 

Anna S. Karlsdóttir fæddist á Siglufirði 11. desember 1936.  Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 14. nóvember 2010.

Anna var dóttir hjónanna Karls Vilhelms Stefánssonar, f. 10. apríl 1910, d. 26. mars 1955, og Hedvigar Huldu Andersen, f. 9. maí 1914, d. 29. desember 1991.

Bræður hennar eru

 • Hersteinn Þráinn Karlsson, f. 29. maí 1948, og
 • Haukur Georg Karlsson, f. 26. mars 1954.

Anna giftist hinn 4. mars 1956 Kristjáni Sigurvinssyni vélsmiði, f. 23. ágúst 1929, d. 27. apríl 1998.

Dóttir þeirra er

Anna Karlsdóttir -- ókunnur ljósmyndari

Anna Karlsdóttir -- ókunnur ljósmyndari

 • Guðrún Helga Kristjánsdóttir, f. 10. september 1955, gift Tryggva Erni Björnssyni, f. 16. desember 1949.

Börn þeirra eru

 • 1) Anna Kristín Tryggvadóttir, f. 1. maí 1973, gift Jóni Þórðarsyni, f. 13. maí 1966.
 • Börn þeirra eru Íris Heiða Jónsdóttir, f. 14. mars 1995, og Þórður Örn Jónsson, f. 1. ágúst 2000. Fyrir átti Anna Tinnu Rut Einarsdóttur, f. 12. apríl 1990, með Einari Hauki Eiríkssyni, f. 22. janúar 1973.
 • 2) Lóa Birna Tryggvadóttir, f. 17. desember 1974, synir hennar og Hermanns A. Kristjánssonar, f. 11. ágúst 1966, eru Kristján Helgi Hermannsson, f. 31. maí 1996, og Tryggvi Elías Hermannsson, f. 11. nóvember 2002. Sambýlismaður Lóu er Jónþór Þórisson, f. 6. nóvember 1968, dóttir þeirra er Sonja Rut Jónþórsdóttir, f. 15. desember 2005.
 • 3) Kristján Björn Tryggvason, f. 6. júní 1981, kvæntur Kristínu Þórsdóttur, f. 5. júlí 1984. Börn þeirra eru Ísak Þór Kristjánsson, f. 10. september 2003, og Agla Björk Kristjánsdóttir, f. 22. október 2008.

Útför Önnu fór fram í kyrrþey.
-----------------------------------------------------

„Sá sem stöðugur stendur allt til enda hann mun hólpin verða.“

(Matt 24:13)

Þessi orð eiga alltaf eftir að minna mig á móður mína Önnu Karlsdóttur.

Mamma lést hinn 14. nóvember eftir átta mánaða baráttu við þann sjúkdóm sem hafði þrisvar áður bankað upp á hjá henni á lífsleiðinni, fyrst þegar hún var 22 ára gömul og síðan með reglulegu millibili.

Engum datt í hug að þar færi sjúk kona, ætíð vel tilhöfð og falleg. Uppvöxturinn mótar okkur öll og svo var líka með mömmu. Hún ólst upp á Siglufirði en í þá daga var efnahagurinn oft bágborinn og brauðstritið oft á tíðum erfitt og það hafði sín áhrif á barnssálina og gerði mömmu að því sem hún var. Hún varð fagurkeri sem elskaði að búa sér og sínum fallegt heimili. Allt sem hún eignaðist á lífsleiðinni fór hún svo vel með að það var ætíð sem nýtt, sama hvort það voru föt eða annað.

Gestrisni mömmu var mjög mikil og þó að veitingarnar væru bara kex, ostur og sulta var það borið svo smekklega á borð að það leit út sem veisla. Kristín móðuramma mömmu hafði í uppvextinum kennt henni að bera mikla virðingu fyrir orði guðs Biblíunni og var mamma ætíð mjög andlega sinnuð og leitandi.

Árið 1966 urðu mikil straumhvörf í lífi hennar en þá fann hún sannleikann og hann var einmitt í þeirri bók. Hún fór að lesa hana daglega og láta hana hafa áhrif á líf sitt og ekki bara sitt líf heldur einnig annarra, þar á meðal mitt sem ég verð ævinlega þakklát fyrir.

Samband okkar mömmu var mjög sérstakt enda ég eina barnið hennar. Ekki bara að við hefðum sömu trú og lífsgildi heldur höfðum við sama smekk og er mér alltaf ofarlega í huga er við fórum hvor í sínu lagi í bæinn að kaupa okkur skó fyrir brúðkaup og komum báðar heim með samskonar skó.

Tónlistarsmekkur okkar var líka sá sami og nutum við þess að fara saman á tónleika og njóta góðrar tónlistar. Svona gæti ég lengi upp talið. Nú verð ég að læra að lifa upp á nýtt án mömmu, en ég má vera þakklát fyrir að sjúkdómurinn tók hana ekki frá mér þegar ég var fjögurra ára. Við áttum saman 55 ár og fyrir þau vil ég þakka.

Minningarnar streyma fram, allar samverustundirnar með okkur Tryggva, börnunum okkar og barnabörnum sem hún elskaði svo mikið. Öll fríin okkar saman út um allan heim og ekki síst stundirnar á mánudögum þegar við hittum sameiginlegar vinkonur og trúsystur okkar og lásum saman, nú verður hennar sárt saknað.

Ég vil að lokum þakka öllum þeim sem glöddu hana með heimsóknum og símhringingum þegar hún var orðin rúmföst, hún fann svo sannarlega styrk í þeim.

Að lokum vil ég kveðja elskulega móður mína sem var svo stór partur af mér sjálfri með orðunum í Opinberunarbókinni 21. kafla:

„Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til, hið fyrra er farið.“

Hafðu þakkir fyrir allt elsku mamma mín, við sjáumst á ný í Paradís.

Þín dóttir, Helga.
--------------------------------------------

Elsku besta fallega amma mín er dáin. Ég á engin orð til að lýsa þeim gríðarlega missi og söknuði sem ég ber í hjartanu mínu. Amma var einstök kona, falleg að innan sem utan. Ég var svo lánsöm að fá að alast upp að stórum hluta á heimili hennar og afa Kidda og í minningunni var ekkert notalegra en að kúra í afaholu við hlið ömmu þegar afi var farinn til vinnu.

Heimili ömmu var svo fallegt og var manni kennt frá blautu barnsbeini hvernig umgangast átti hlutina og þegar önnur börn komu í heimsókn tók maður sér ósjálfrátt það hlutverk að vernda fallega puntið í stofunni.

Ferðalögin með ömmu innanlands sem erlendis og öll skemmtilegu matarboðin þar sem hún var ávallt hrókur alls fagnaðar jafnt hjá fullorðnum sem börnum gleymast aldrei og munu skemmtilegu tilsvörin og frasarnir hennar eflaust poppa oft upp hjá fjölskyldunni. Í seinni tíð varð amma annað og meira en amma mín, hún varð ein mín besta vinkona og alltaf gat ég leitað til hennar með það sem mér lá á hjarta, hluti sem ég treysti mér ekki til að ræða við aðra. Hjá ömmu gat ég grátið og hlegið og alltaf munu óma orðin sem hún sagði alltaf við mig „Svona, svona elskan mín, þetta verður allt í lagi“.

Síðasta samtal okkar ömmu var tveimur dögum áður en hún fór á spítalann og á sinn einstaka hátt tókst henni að veita mér sálarró og fullvissu um að allt færi vel bæði hjá mér og henni.

Börnin mín hafa líka misst mikið þar sem amma var amma þeirra líka en aldrei langamma, í henni fundu dætur mínar trúnaðarvinkonu sem tók þeim opnum örmum og hlustaði af athygli hvort sem um var að ræða alvarleg málefni eða bara spjall um daginn og veginn og enduðu þeir fundir iðulega með miklum hlátri og léttari lund. Sonur minn gat setið og sagt ömmu brandara tímunum saman og alltaf hló hún innilega þó að brandararnir væru alltaf þeir sömu og hjá ömmu á Þrastó fékk hann alltaf að heyra hvað hann væri nú góður og fallegur drengur.

Elsku amma, nú ertu laus undan þjáningum af völdum krabbameinsins sem þú fyrst barðist við aðeins 22 ára gömul. Ég er svo stolt af því að hafa átt svo glæsilega, skemmtilega og hlýja ömmu sem þú svo sannarlega varst og þó ég komist ekki með tærnar þar sem þú varst með hælana þegar kemur að manngæðum þá mun ég reyna mitt besta. Við erum öll ófullkomin og okkur verður öllum fótaskortur einhverntímann á lífsleiðinni en þá er bara að standa upp og halda áfram að gera betur.

Sofðu rótt, elsku amma mín, þú lifir alltaf í hjartanu mínu.

Ástarkveðja, þín nafna, Anna Kristín.
--------------------------------

Elsku hjartans Anna frænka mín. Það er frekar sárt að skrifa þessi orð en því miður verð ég að kveðja þig í hinsta sinn. Þú fórst svo snöggt og með svo litlum fyrirvara að það er erfitt að skilja að þú sért farin í síðasta ferðalagið og að þú komir ekki aftur heim til okkar sem elskuðum þig.

Eina huggunin er sú að á þínum áfangastað bíður hann Kiddi þinn með bros á vör og með opna arma, hann hefur örugglega verið einmana án þín í 12 ár eins og þú án hans. Þú giftist Kidda móðurbróður mínum ung, 19 ára eignaðist þú hana elsku Helgu mína, ég hef alltaf talið Helgu meira sem systur en frænku, hún er mér svo kær og mikilvæg.

Heimilið ykkar í Kópavoginum var mjög fallegt, þú elskaðir mikið fegurð, blóm, listir og músík, ég á fjölmargar minningar um þig, alltaf að syngja, þú varst mjög lagvís. Þú elskaðir sérstaklega óperur og þekktir þær reiprennandi. Ég á margar fallegar minningar úr Holtagerðinu í Kópavogi hjá ykkur, þér og Kidda frænda, heimilið var glæsilegt og þegar við í fjölskyldunni vorum boðin í mat hjá ykkur fór maður fús og með gleði vegna þess að þú varst frábær kokkur og hafðir mikið gaman af að elda, borðið alltaf skreytt og frábær matur borinn fram, allt eldað af þér.

Hún elsku Helga mín, einkadóttir ykkar, giftist kornung og gerði þig að ömmu þegar þú varst bara 36 ára, þá fæddist Anna Kristín, kölluð eftir þér og Kidda frænda, Svo fæddust Lóa og Kiddi litli. Þú og Helga dóttir þín áttuð svo einstaklega fallegt samband, þið elskuðuð hvor aðra svo mikið, þið voruð móðir og dóttir en líka systur. Svo varstu svo heppin í þínu lífi að öll barnabörnin þín gáfu þér samtals átta barnabarnabörn.

Þú komst í heimsókn til mín hér á Ítalíu með Önnu, Jónda, Tinnu og Írisi, það var yndislega gaman að hafa þig hér og að spjalla saman og hlæja, oft langt fram á nótt, man svo vel eftir okkar hlátri og kátínu. Ég vil líka segja að þegar ég var bara 9 ára var ég hjá þér og Kidda frænda um tíma þegar mamma lá milli heims og helju eftir mjög alvarlegt bílslys, oft átti ég erfitt með að sofna og grét, þá faðmaðir þú mig og kysstir, hjálpaðir mér að líða betur og að sofa, þessu mun ég aldrei gleyma.

Elsku Anna frænka mín, núna ertu lögð af stað í síðasta ferðalagið þitt, ég kveð þig með brosi og gullfallegum minningum, ég er viss um að ef ég horfi á stjörnurnar í þögn og hlusta vel mun ég heyra þig og Kidda tala saman, heyra þig syngja Maríu Callas og líka heyra þinn smitandi, skemmtilega hlátur. Þú elskaðir sólina, núna ertu þar sem sólin skín alltaf, góða ferð, elsku frænka, einn góðan veðurdag hittumst við öll á ný, þá verður kátt í himnaríki. Kysstu Kidda, Össur, ömmu, afa og pabba frá mér, þú munt alltaf lifa í hjarta mínu og líka í hjarta þinnar stóru, fallegu fjölskyldu. Alltaf þín,

Sigrún.
----------------------------------------------

Óraunveruleiki. Það er eitt sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa til þess að amma sé dáin. Þó svo að ég hafi verið undir þetta búin að vissu leyti, er maður aldrei tilbúinn að kveðja þá sem maður elskar, svona fljótt og endanlega eins og við þurfum nú að gera.

Við amma á Kópó vorum góðar vinkonur og eyddum miklum tíma saman og núna er ég svo óendanlega þakklát fyrir það að hafa fengið að eyða þessum góðu stundum með henni. Í sumar var oft svo gaman hjá okkur og þrátt fyrir veikindin var alltaf stutt í brosið, hláturinn og grínið þó svo að ömmu liði ekki vel.

Anna amma mín var, er og mun alltaf verða í mínum huga ein fallegasta og tignarlegasta kona sem ég hef þekkt og hún kenndi mér margt sem mun fylgja mér í gegnum lífið. Hún sagði mér oft hvað henni þótti vænt um mig og hvatti áfram í öllu sem ég tókst á við. Hún var alltaf hlý og vildi öllum vel.

Núna þegar hún er farin er það næsta markmið að læra að lifa án hennar, við töluðum oft saman löngum stundum um allt og ekkert og bara það að horfa á skemmtilegan sjónvarpsþátt með henni var svo gaman, minningarnar eru óteljandi og ég gæti örugglega skrifað þykka bók um allar góðu og skemmtilegu minningarnar sem ég á um þessa yndislegu konu sem ég sakna nú sárt og erfitt er að geta ekki tekið upp símann og heyrt í ömmu en ég mun alltaf eiga minningarnar sem hún gaf mér til að gleðja mig.

Við töluðum um þessa stund sem myndi koma fyrr en seinna og amma hughreysti mig og faðmaði og sagði mér að vera ekki leið og þó ég viti að henni líður betur núna, og hún sé hætt að finna til, þá er söknuðurinn svo mikill og það að geta ekki tekið upp símann og heyrt í ömmu svo sárt að það mun taka tíma að finna leið til að sætta sig við það. En amma vissi líka að sá dagur kæmi þegar við myndum hittast á ný án þess að hafa áhyggjur og ég hef vonina um að einhverntíma munum við sjást á ný og halda áfram að búa til góðar minningar og hlæja saman en þangað til sá dagur kemur, þá er komið að leiðarlokum og þú átt alltaf stóran stað í hjarta mínu sem verður ekki fylltur nema þá með minningunum um þig sem eru svo margar.

Elsku fallega og góða amma mín, hvíldu í friði og minning þín mun lifa um ókomin ár í hjörtum okkar allra sem þekktum þig best og elskuðum þig svo mikið. Bless, elsku amma, þangað til við hittumst aftur.

Þín Tinna Rut.
--------------------------------------

Hinsta kveðja

Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um ömmu mína er hvað hún var alltaf góð og skemmtileg. Ég á svo margar minningar með þessari yndislegu konu að ég gæti örugglega skrifað heila bók. Ég man sérstaklega eftir því þegar við sátum og spjölluðum, grettum okkur og hlógum. Hún mun alltaf eiga stað í hjartanu mínum og ég sakna hennar meira en orð geta lýst.

Hvíldu í friði, elsku amma mín.

Þín Íris Heiða.

----------------------------- 

Anna S. Karlsdóttir fæddist á Siglufirði 11. desember 1936. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 14. nóvember 2010.

Útför Önnu fór fram í kyrrþey.

Þegar ég hugsa til baka þá hrynja yfir mig minningar um Önnu mágkonu mína, sem nú hefur kvatt okkur og skilur eftir sig stórt skarð. En er nokkuð betra en að eiga góðar minningar til að orna sér við, þegar ástvinir kveðja. Ég var ekki nema níu ára þegar Anna trúlofaðist Kidda bróður mínum og flutti inn hjá okkur í Skerjafirðinum. Fyrst af öllu sem ég man, var hvað mér fannst hún glæsileg og sá glæsileiki entist henni fram á síðustu stundu.

Þótt níu ár skildu okkur að urðum við fljótt góðar vinkonur, og þær voru margar stundirnar sem ég eyddi með Önnu í kjallaranum og þar var mikið hlegið, enda stutt í hláturinn hjá Önnu. Hún hafði afskaplega smitandi hlátur og var ekki annað hægt en að hlæja með. Vináttan hélst fram á síðustu stundu, þótt oft væru lönd á milli.

Þau Anna og Kiddi heimsóttu mig bæði í London og til Kaupmannahafnar og þá ríkti alltaf gleði og gaman. Ég veit að ég á eftir að sakna þín lengi, elsku mág- og vinkona, en ég get þó huggað mig við þann fjársjóð sem þið Kiddi skilduð eftir, þ.e.a.s. hana Helgu dóttur ykkar. Ég votta henni og fjölskyldu hennar samúð mína.

Kær kveðja, Lóa Sigurvins.
--------------------------------------------

Elskuleg skólasystir okkar, Anna Stefanía frá Siglufirði, er látin. Sannkölluð hversdagshetja, var falleg kona, vel klædd og yfirleitt alltaf glöð, okkur fannst stundum að hún væri ekki veik.  Við áttum margar ánægjulegar stundir frá skólaárunum á Sigló.  Við stelpurnar vorum saman í saumaklúbb eftir að við fluttum allar suður, oft var glatt á hjalla.

Ekki má gleyma Heiðari sem var vinur okkar stelpnanna og var alltaf með okkur. Við minnumst þín með miklum söknuði, nú vantar einn hlekk í hópinn okkar, sem vorum að hittast mánaðarlega. Þökkum góða nærveru og blíða brosið þitt.

Blessuð sé minning þín.

 • Hann Guð mun þess gæta
 • þú getur sofið rótt
 • hann lætur ljóssins engla
 • lýsa þér um nótt

(Kristján Hreinsson.)

Við vottum dóttur þinni, fjölskyldu, öðrum ættingjum og vinum samúðarkveðjur.

Guð geymi þig kæra vinkona. Geirlaug, Erla, Núra og Heiðar.