Anna Konráðsdóttir

Mjölnir - 13. mars 1964 Minningargrein

Hinn 29. febrúar 1964. var frú Anna Konráðsdóttir, Laugaveg 5 hér í bæ, til grafar borin, að viðstöddu óvenjulega miklu fjölmenni. Anna var fædd að Tjörnum í Sléttuhlíð hinn 3. marz 1903, foreldrar hennar voru sómahjónin Anna Pétursdóttir og Konráð Kristinsson.

Hún dvaldist í foreldrahúsum til 12 ára aldurs en fór þá til Guðmundar Sigurðssonar bónda í Höfn og Guðfinnu konu hans, og var hjá þeim að nokkru næstu tvö árin, eða til 14 ára aldurs. Þar á eftir dvaldist hún í Sléttuhlíð og á Hofsósi, eitt ár í Höfn og síðar eitt ár á Kópaskeri.

Árið 1924 fluttist hún hingað til Siglufjarðar og dvaldist hér síðan til dauðadags. Um vorið 1925 giftist Anna eftirlifandi manni sínum, Vernharð Karlsson, og bjuggu þau hér alla sína búskapartíð.

Þau hjónin eignuðust fjórar dætur, vel gerðar, góðar og fallegar stúlkur, sem allar eru giftar.

Anna Konráðsdóttir -- Ljósmynd Kristfinnur

Anna Konráðsdóttir -- Ljósmynd Kristfinnur

  • Anna í Keflavík, en hinar,
  • Margrét,
  • Fanney og
  • Jóhanna, allar búsettar hér í Siglufirði.

Alla ævi var Anna mjög heilsu hraust, allt þar til hún í fyrra kenndi þess voðalega sjúkdóms, sem dró hana til dauða og síðustu mánuðir ævi hennar voru mjög erfiðir og þjáningafullir, þó sérstaklega síðustu vikurnar, er enginn vafi á því, að þessar vikur urðu þó ekki eins þungbærar og annars hefði orðið, ef ekki hefði notið við hins eindæma ástríkis og fórnfýsi eins og hún varð aðnjótandi hjá manni sínum og dætrum eins og raun varð á.

Síðustu vikurnar, sem Anna Iifði, þjáningafullar og erfiðar, reyndist eiginmaður hennar, valmennið Vernharð Karlsson, henni dásamlega vel og þá ekki síður dætur hennar þrjár, sem hér eru búsettar. Nætur og daga voru þær hjá henni til skiptis, hverja einustu stund, þessi fádæma nærgætni og fórnfýsi léttu hinni sjúku konu mjög þessar þjáningafullu og erfiðu stundir.

En það sýnir betur en margt annað innræti og skapgerð dætranna, að þær litu ekki á þetta sem fórn, heldur sjálfsagðan hlut, þær sýndu þá að þeim „kippti í kynið", þær voru dætur pabba síns og mömmu sinnar.

Árin 1926 til 1936 voru erfið ár fyrir norðlenzka alþýðu, landlægt atvinnuleysi og vandræði, en Vernharð Karlsson var ekki einn þeirra manna, sem gefast upp strax fyrir örðugleikunum. Marga sjóferðina fór hann þó ekki væri von mikilla fanga og hvort það var fiskur eða fugl, sem hann reri til, þegar enga vinnu var að fá, þá var sótt af frábærri elju og dugnaði og komið með í heimilið margan málsverðinn af nýrri, hollri og ljúffengri fæðu, þegar aðrir höfðust ekki að.

Ekki er mér grunlaust um, að stundum hafi tímakaupið verið heldur lágt í þessum ferðum, um það spurði Vernharð aldrei, hitt var honum gleðiefni og aðalatriði, að hans heimili leið aldrei skort eða nein vandræði, þrátt fyrir að slíkt átt sér stað á mörgum verkamannaheimilum í þá daga. En þegar húsbóndinn kom heim með harðsóttan feng eftir mikið erfiði, þá tók við honum hin hyggna og ráðdeildarsama húsfreyja, sem nýtti hann eins og mögulegt var.

Í raun og veru var Anna ákaflega hamingjusöm kona, henni þótti vænt um mann sinn og heimili, sama var að segja um mann hennar, þessi hjón bjuggu saman í eindrægni, ástríki og gagnkvæmu trausti og virðingu, þegar manni verður hugsað til ýmsra annarra, þá kemur upp sú spurning: Er annað betra til?

Árið 1927, eða þremur árum eftir að þau hjónin Anna og Vernharður giftu sig, kom upp það vandamál, að systir Önnu, Margrét Konráðsdóttir, lá á sjúkrahúsi lömuð og sjúk og vænti ekki bata. Þá verður það, að þau hjónin, Anna og Vernharður, taka Margréti til sín og hjá þeim er hún alla jafna síðan. Hjá hjónunum hefur aldrei verið talið neitt eftir systurinni og mágkonunni, meira að segja henni oft þökkuð góð ráð.

Eitt sinn minnist ég þess, að Anna vinkona mín var stödd á mínu heimili og ég hafði orð á því, hve mikið hún hefði nú reynzt systur sinni vel. Þá sagði Anna: „Ég veit það ekki, en hún hefur reynzt mér vel, og ég hefði varla verið eins hamingjusöm í mínu lífi án þess að hafa Möggu systur."

Á fyrstu hjúskaparárum Önnu var verkalýðshreyfingin hér að vaxa úr grasi og láta til sín taka. Strax varð þessari greindu alþýðukonu ljóst, hvers virði verkalýðssamtökin voru og um margra áratuga skeið var hún áhugasamur og virkur þátttakandi í samtökum verkakvenna. Þar, eins og allsstaðar, var hún heilsteypt og óeigingjörn og allar samstarfskonur hennar báru til hennar fyllsta traust.

Þegar Anna hverfur héðan, þá er svo margs að minnast hjá nánustu vinum og nágrönnum, þegar hún kom snemma að morgni þegar maður gekk fram hjá húsi hennar og hún kom í dyrnar og sagði, broshýr og létt: „Ég var að hella á könnuna, viltu ekki sopa?"

Slíkar stundir í rabbi yfir kaffibolla eru mér ógleymanlegar, enda ætíð lærdómsríkt að tala við þessa góðu konu, með alla hennar góðvild og mannvit. Síðasta gamlaárskvöld sátum við hjónin heima og þegar klukkan sló tólf, risum við úr sætum og óskuðum hvort öðru gleðilegs árs og þökkuðum fyrir gamla árið. Þar á eftir litum við þegjandi hvort á annað, en bæði hugsuðu það sama.

Mörg undanfarin gamlaárskvöld kom Anna rétt eftir klukkan tólf, brosandi og glöð, vel búin og myndarleg, vafði okkur örmum, eins og systkini sín og óskaði okkur gleðilegs árs. En nú gat hún ekki komið og við vissum, að hún myndi aldrei koma aftur til okkar og söknuður okkar var sár og setti sitt djúpa mark á þetta kvöld.

Um slíka hluti þýðir ekki að tala, þannig er gangur lífsins, en ég held, að hvert sinn sem ég og kona mín heyrum góðrar konu getið, muni okkur detta í hug Anna Konráðsdóttir. Vertu sæl, kæra vinkona, og þakka þér fyrir allt og allt.

Þ.G.
------------------------------- 

Mjölnir - 24. maí 1950

Silfurbrúðkaup. — 1 gær, þriðjudaginn 23. maí 1950, áttu hjónin Anna Konráðsdóttir og Vernharð Karlsson, Laugarveg 5 hér í bæ silfurbrúðkaup.

Mjölnir færir þeim hamingjuóskir fyrir hönd fjölmargra vina og kunningja í hópi sósíalista, og óskar þeim langrar sambúðar enn og farsælla daga.