Tengt Siglufirði
mbl.is--10. júlí 2020 | Minningargreinar
Bragi Björnsson fæddist á Siglufirði 19. júní 1931. Hann lést 25. júní 2020.
Foreldrar hans voru Anna Friðleifsdóttir húsmóðir með meiru, fædd 1901, og Björn Björnsson, skipstjóri, útgerðarmaður og síðar yfirfiskmatsmaður, fæddur 1903.
Systir Braga var Alma Björnsdóttir, fædd 1926, gift Stefáni Ólafi Stefánssyni. Þau eru öll látin.
Bragi Björnsson
kvæntist Sólveigu Sveinsdóttur frá Ólafsvík árið 1958.
Börn þeirra eru þrjú:
Bragi ólst upp á Siglufirði og bjó þar til ársins 1955. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Siglufirði og stýrimannaprófi frá Sjómannaskólanum í Reykjavík auk ýmissa námskeiða í tengslum við fiskvinnslu og verkstjórn. Hann var frá unga aldri vinnusamur, stundaði ýmis störf á Siglufirði, starfaði sem stýrimaður á fiskiskipum en lengst af var hann yfirverkstjóri í Reykjavík við fiskvinnslu Júpiters og Mars, síðar Sambandsins, á Kirkjusandi.
Bragi og Sólveig hófu búskap í Eskihlíð 14a í Reykjavík, fluttu síðan á Kirkjuteig 27 og árið 1974 flutti fjölskyldan í Vogatungu 12 í Kópavogi. Sólveig lést árið 2010 og hélt Bragi einn heimili í Vogatungu til 2018 þegar hann flutti á hjúkrunarheimilið Ísafold í Garðabæ.
Útför Braga fór fram í kyrrþey 8. júlí 2020.
-----------------------------------------------------
Tengdafaðir minn Bragi Björnsson er fallinn frá.
Bragi var fæddur og uppalinn á Siglufirði, hann var alltaf stoltur af því að vera Siglfirðingur.
Það sem einkenndi Braga var mikil vinnusemi, ósérhlífni
og dugnaður.
Bragi kláraði nám í Stýrimannaskólanum, náði sér í skipstjórnarréttindi og var nokkur ár á sjó eftir það. Eftir sjómennsku var hann yfirverkstjóri hjá Júpiter og Mars og síðan Kirkjusandi hf.
Ég kynntist þeim hjónum Braga og Sólveigu fyrir um fjórum áratugum, en þá bjuggu þau í Vogatungu í Kópavogi, þar sem þau áttu fallegt heimili. Þaðan eiga ég og fjölskyldan góðar minningar. Þau hjón áttu líka fallegan sumarbústað í Borgarfirði, þar sem við áttum skemmtilegar samverustundir í fjölda ára. Bragi var harðduglegur og lagði mikinn metnað í að hugsa um sumarbústaðinn og þau Sólveig ræktuðu upp fallegt svæði í kringum hann, þar sem þau undu sér afar vel.
Einnig ferðuðust þau erlendis og fóru saman á hverjum vetri yfir 20 ár til Kanaríeyja.
Bragi var mjög barngóður og fannst gaman að fá barnabörnin í heimsókn, hann dekraði oft við þau og færði þeim ýmislegt góðgæti, grjónagrauturinn hans var líka frægur, og stundum sendi hann grjónagraut heim til barnabarnanna.
Bragi missti eiginkonu sína og lífsförunaut fyrr tíu árum, það var honum erfitt en Bragi bar harm sinn í hljóði og kvartaði aldrei, hann hélt áfram að búa í Vogatungunni þar til fyrir tæpum tveimur árum þegar hann flutti á Ísafold í Garðabæ.
Eftir að Sólveig féll frá kom ég stundum í Vogatunguna og „mallaði“ eins og Bragi orðaði það.
Þetta voru gæðastundir þar sem við spjölluðum mikið saman meðan á eldamennskunni stóð, mér fannst gaman að spjalla við Braga og fékk stundum góðar ráðleggingar.
Eftir að Bragi flutti á Ísafold fór heilsu hans hrakandi, en það sem vakti aðdáun mína var að aldrei heyrði ég Braga kvarta yfir neinu, hann hrósaði alltaf fólkinu sem annaðist hann og maturinn var alltaf góður. Að lokum vitna ég í orð Braga: „Ég hef átt gott líf og hef ekki yfir neinu að kvarta.“
Takk fyrir samfylgdina elsku Bragi.
Elín H. Kristjánsdóttir.
-------------------------------------------
Kallið er komið og kveðjustundin runnin upp, núna sameinast þú ástinni þinni henni Sólveigu eftir 10 ára aðskilnað. Elsku tengdapabbi, margs er að minnast eftir 26 ára tíma í ykkar fjölskyldu. Ég gleymi því aldrei þegar ég hitti ykkur hjónin í fyrsta skiptið, en mér var boðið í mat til ykkar á fyrsta vetrardag árið 1994. Þvílíkar móttökur sem ég fékk þegar ég kom inn í fjölskylduna. Svona hafði ég aldrei kynnst.
Við Bragi náðum strax vel saman og leið mér stundum eins og prinsessu þegar ég var með þeim hjónum. Við gátum talað saman um allt milli himins og jarðar. Bragi hafði skemmtilegan húmor og oft var mikið hlegið. Það voru ekki ófá matarboðin sem okkur var boðið í Vogatungu og oftar en ekki þá var heimatilbúin Toblerone ís í eftirrétt sem Bragi hafi búið til en það var uppskrift sem kom frá honum. Fljótlega fékk ég þessa uppskrift hjá honum og er þessi ís ómissandi á jólunum á mínu heimili, afa ís er bestur eins og dætur mínar segja.
Sólveig og Bragi áttu sumarbústað við Langá á Mýrum og voru ekki ófáar helgarferðir farnar í bústaðinn með þeim hjónum. Alltaf var sama fjörið, og þegar dætur okkar hjóna voru fæddar þá kom galsinn upp í afa Braga sem hafði gaman af því að espa stelpurnar upp og fá þær með í alls konar fjör, keyra yfir ánna og fleira. Þær dýrkuðu afa sinn enda var hann mikill barnakall sem gerði allt fyrir barnabörnin sín.
Takk fyrir allt elsku tengdapabbi Bragi Björnsson, minningarnar um þig munu hlýja mér og fjölskyldu minni um aldur og ævi.
Svandís.
-----------------------------------------
Bragi Björnsson fæddist á Siglufirði 19. júní 1931. Áratugina þar á eftir voru miklir uppgangstímar á Siglufirði, eins og flestum er kunnugt. Hver einasta útrétta hönd í bænum fékk vinnu við hæfi. Bragi fór ekki varhluta af þessu og byrjaði kornungur að vinna. Hann var barn að aldri kominn í fulla vinnu. Bragi var með eindæmum duglegur og smitaði gjarnan samferðamenn sína með vinnusemi sinni og dugnaði. Vinnan var hans vegakort og flaggskip í öldusjó lífsins.
Rúmlega tvítugur fór Bragi til Reykjavíkur og lauk prófi frá Stýrimannaskólanum. Hann var nokkur ár til sjós áður en hann gerðist yfirverkstjóri hjá Júpíter og Marz sem síðar, með sameiningu við Sambandið varð fiskverkunin Kirkjusandur. Það var á þeim tíma sem Bragi kom inn í líf mitt. Hann varð nefnilega tengdafaðir minn. Föðurbróðir minn, Jón Hjaltalín Gunnlaugsson hafði verið læknir Braga og fjölskyldu á Siglufirði og svo aftur síðar þegar Jón gerðist heimilislæknir í Reykjavík. Bragi hafði miklar mætur á Jóni frænda mínum og tók mér strax fagnandi.
Eitt sinn átti ég erindi við Braga og lagði leið mína á Kirkjusand. Hann var vant við látinn, hafði verið í frystiklefanum frá því snemma um morguninn. Þegar kom í frystiklefann var Bragi í bláa sloppnum sínum, berhentur að stemma af. Vettlinga notaði hann aldrei, hvorki til sjós né lands.
Síðar á ævinni, þegar mesti hasarinn í fiskvinnslunni á Kirkjusandi var yfirstaðinn, reisti Bragi sér og sínum sumarbústað í Borgarnesi. Þar fékk hann útrás fyrir iðjusemi sína og þörf fyrir uppbyggingu. Hvert einasta tré sem hann gróðursetti fékk væna skóflu af hrossataði, svo það braggaðist betur. Taðið sótti hann langar leiðir með mikilli fyrirhöfn. Honum fannst mikilvægt að tréð fengi langtímanæringu og trjávöxturinn, eftir honum var tekið. Við sem að honum stóðum grínuðumst stundum með það þegar við vorum að fara í sumarbústaðinn, að við værum að fara í vinnubúðirnar í Borgarnesi.
Undir lokin dvaldi Bragi á Hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ. Minnið lét undan síga í takt við hækkandi aldur. En æskuslóðirnar voru honum tamar. Þegar minnst var á Gústa guðsmann eða dregnar fram minningar frá æskuárunum á Siglufirði, mátti sjá gamalkunnan glampa í augum hans. Þessum glampa mun ég aldrei gleyma.
Ægir Magnússon.
----------------------------------------------------
Það var virkilega erfitt að þurfa kveðja Braga afa, hann var mér mjög kær og á ég eftir að sakna hans mikið. Það var alltaf gott að koma í heimsókn til afa í Tunguna, hann tók alltaf vel á móti manni og ekki skemmdi fyrir að yfirleitt var til suðusúkkulaði eða mjólkurgrautur. Það var líka gaman að spjalla við afa, hann hafði oft skemmtilega öðruvísi sýn á hlutina og gat verið mjög fyndinn. Það sem mér finnst þó eftirminnilegast við afa, er hvað hann var duglegur og kraftmikill maður, enda var hann Siglfirðingur, en afi sagði alltaf að þeir væru kraftmiklir sem kæmu frá Siglufirði.
Það þurfti sko ekki að segja afa tvisvar að gera hlutina, hann var yfirleitt búinn að öllu áður en maður náði að snúa sér við. Það var margt sem ég lærði af afa, þá sérstaklega jákvæða lífsviðhorfið sem hann hafði, sem mér fannst alltaf aðdáunarvert og ég hef reynt að tileinka mér. Ég trúi því að Bragi afi sé kominn á góðan stað núna og er vonandi búinn að hitta Sólveigu ömmu aftur.
Valdís Birna.
---------------------------------------------
Elsku afi, nú er komið að kveðjustund. Á þessari stundu fara minningar um einstaklega góðan afa í gegnum huga okkar systra. Það fyrsta sem kemur upp í huga okkar er hversu einstaklega duglegur og jákvæður þú varst, alveg fram á síðasta dag. Við fengum ávallt góðar móttökur þegar við komum að heimsækja þig og gátum við alltaf verið vissar um að þú ættir alla vega suðusúkkulaði fyrir okkur.
Þú varst líka alltaf til í að aðstoða okkur barnabörnin, hjálpaðir við flutninga, skutl og margt fleira. Þá eru okkur minnisstæðar allar ferðirnar í sumarbústaðinn við Langá, en þar elskuðum við að vera með ykkur ömmu og aðstoða ykkur við garðrækt. Við eigum eftir að sakna þín mikið, elsku afi, en það er gott að hugsa til þess að amma tekur vel á móti þér.
Jóhanna og Sólveig.
----------------------------------
(Katrín Ruth)
Með þessi ljóði eftir Katrínu Ruth sendum við systkinin afa Braga okkar hinstu kveðju og rifjum upp góðar minningar úr Vogatungu og Háagerði. Minning afa okkar lifir.
Þín barnabörn,
Valur, Bragi
og Alda.
-----------------------------------------
Ég eyddi miklum tíma hjá afa og ömmu í Vogatungu þegar ég var yngri og á ótrúlega góðar minningar þaðan sem ég verð alltaf þakklát fyrir.
Ofarlega í huga mér er veturinn þegar afi sótti mig í skólann á hverjum degi, kom við í bakaríinu og keypti snúð og við fórum svo heim að spila áður en hann keyrði mig á sundæfingu. Þetta vildi hann gera með mér á hverjum degi og er ég ótrúlega þakklát fyrir þennan góða tíma sem við áttum saman. Á seinni árum snerist þetta svo við, og var það ég sem kom með snúð í heimsókn til hans og átti hann svo sannarlega nokkra snúða inni hjá mér.
Einnig voru ófáar ferðirnar upp í sumarbústað, ýmist vinnuhelgar í beðunum, kartöflur teknar upp á haustin eða afslöppun.
Það voru alltaf hlýjar móttökur hjá afa og ömmu í Vogatungu og öll barnabörnin velkomin í mat, og þá helst í „hringinn“ sem var þeirra réttur og aðeins barnabörnin höfðu lyst á, enda alin upp við þennan heimilismat og fátt þótti betra þá. Ef maður var heppinn var heimagerður afaís í eftirrétt og er það uppskrift sem mun erfast með börnum og barnabörnum, enda langbesti ísinn.
Afi var einn duglegasti og vinnusamasti maður sem ég þekki, og ótrúlega skemmtilegur og gaman að tala við hann um allt á milli himins og jarðar. Mikið á ég eftir að sakna hans en ég veit að hann er ánægður að komast til ömmu Dísu.
Sólveig Huld.
-------------------------------------------
Við nafnar höfum alltaf þótt líkir að mörgu leyti og vorum jafnvel nánari en við áttuðum okkur á, sérstaklega eftir samveruna í Vogatungu. Þér tókst að smita mig og Hrefnu með ýmsum frösum og töktum sem við munum halda á lífi. Við munum sakna þess að stilla sjónvarpið, bulla um „Stóra dóm“, tala um að „það megi nú ekki opna dós“, er eitthvað fram undan?
Maður tók þessu sem sjálfsögðu á sínum tíma en saknar og kann enn meira að meta þessa litlu hluti og minningar í dag. Við munum allar góðu minningarnar og sjáum þig fyrir okkur svakalega sólbrúnan með Seattle derhúfuna að spjalla meðan við grilluðum þó þú „hafir aldrei verið mikið fyrir grill“.
Sjáumst nafni, nágranni og elsku afi.
Bragi og Hrefna.