Alfreð Jónsson Fljótum

Mbl.is -- 2. apríl 2011 | Minningargreinar

Alfreð Jónsson fæddist að Stóru-Reykjum í Fljótum 5. ágúst 1921. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks 22. mars 2011.

Foreldrar hans voru Jón Guðmundsson, f. 3.9. 1900, d. 30.1. 1988, og Helga Guðrún Jósefsdóttir, f. 12.7. 1901, d. 22.5. 1971.

Alfreð var elstur 13 systkina, en þau voru:

 • Guðmundur Halldór, f. 1923, d. 1999,
 • Aðalbjörg Anna, f. 1926,
 • Ásmundur, f. 1928, d. 1958,
 • Sigríður, f. 1930,
 • Svavar, f. 1931,
 • Kristinn, f. 1932,
 • Baldvin, f. 1934,
 • Halldóra Rannveig Hrefna, f. 1935,
 • Pálmi, f. 1937,
 • Hermann, f. 1938,
 • Lúðvík Ríkharð, f. 1940, og
 • Svala, f. 1945.
Alfreð Jónsson Fljótum

Alfreð Jónsson Fljótum

Alfreð kvæntist 2.1. 1944 Viktoríu Lilju Guðbjörnsdóttur frá Reykjarhóli, f. 20.10. 1924.
Börn þeirra eru:

 • Heiðrún Guðbjörg, f. 10.9. 1946, maki Símon Ingi Gestsson, búsett að Bæ á Höfðaströnd, þau eiga 4 börn, 13 barnabörn og 1 barnabarnabarn.
 • Bryndís, f. 22.10. 1947, maki Sigurbjörn Þorleifsson, búsett á Sauðárkróki, þau eiga 4 börn, 12 barnabörn og 2 barnabarnabörn.
 • Guðmundur, f. 17.6. 1950, d. 15.3. 1981, maki Sólveig Stefanía Benjamínsdóttir, þau eiga 3 börn og 2 barnabörn.
 • Drengur, andvana fæddur 1.12. 1953.
 • Jón, f. 14.2. 1959, maki Guðlaug Guðmundsdóttir, búsett í Hafnarfirði, þau eiga 2 dætur.
 • Hallgrímur Magnús, f. 21.2. 1966, maki Guðrún Ósk Hrafnsdóttir, búsett á Sauðárkróki, þau eiga 2 börn en fyrir á Hallgrímur eina dóttur og barnabarn.

Alfreð ólst upp í foreldrahúsum í Fljótunum. Fyrstu árin í Neðra-Haganesi, þá í Dæli og árið 1929 fluttist fjölskyldan í Móskóga. Vorið 1940 flutti hann með foreldrum sínum í Molastaði.

Alfreð fór ungur að vinna fyrir sér og hjálpaði mikið til á heimili foreldra sinna. Þau Lilja hófu búskap á Reykjarhóli 1944 og bjuggu þar til 1973 en þá tók Guðmundur sonur þeirra við búinu. Með búskapnum stundaði Alfreð ýmis störf til sjós og lands, átti m.a. vörubíl og var mikill frumkvöðull í ræktun og uppbyggingu í sveitinni.

Eftir að þau hættu að búa fluttu Alfreð og Lilja að Nýrækt í Fljótum og þaðan til Siglufjarðar en Alfreð vann hjá Vegagerð ríkisins á sumrin og var til sjós á Siglufirði á veturna. Árið 1979 flytja Alfreð og Lilja til Sauðárkróks þar sem þau hafa búið síðan. Alfreð vann áfram hjá Vegagerðinni eftir að hann flutti á Krókinn og sigldi á millilandaskipum hjá Sambandinu nokkra vetur.

Alfreð átti alltaf trillu og eftir að hann hætti hjá Vegagerðinni sinnti hann útgerðinni á meðan heilsa og þrek leyfðu. Alfreð starfaði einnig að félagsmálum, sat í hreppsnefnd Holtshrepps og var í stjórn Landssambands smábátaeigenda um tíma. Síðustu árin sat Alfreð við skriftir og eftir hann liggja fjölmargir þættir um samtímafólk hans sem birtir hafa verið og eftir er að birta í Skagfirskum æviskrám. Hann skrifaði einnig pistla um sjómennskuna og ritaði æviminningar sínar sem hann gaf út fyrir fjölskylduna.

Útför Alfreðs fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 2. apríl 2011, og hefst athöfnin kl. 11. Jarðsett verður að Barði í Fljótum.

Nú er kallið komið og þú áttir svo mikið eftir að gera. Þú varst búinn að ráðgera að halda upp á 90 ára afmælið í sumar og varst byrjaður að skipuleggja það. Svo áttirðu eftir að fara fleiri sjóferðir með Balda og Svavari. En svona er lífið, það gengur ekki alltaf upp hjá okkur. Nú er orðin breyting og þú ert farinn frá okkur og kominn til Guðmundar og allra hinna sem eru farnir.

Það er margs að minnast, bæði frá barnæskunni og fullorðinsárunum. Vikurnar á sjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn þegar þú hringdir á hverjum degi til að vita hvernig gengi. Allar eru þessar minningar góðar.

Elsku pabbi, ég vona að þér sé farið að líða vel þar sem þú ert núna. Elsku mamma mín, þú ert ótrúleg, svo dugleg, sama hvað bjátar á. Megi góður Guð ávallt vera hjá þér.

Þín dóttir, Heiðrún Guðbjörg.
---------------------------------------

Okkur langar að minnast afa okkar, Alfreðs Jónssonar, sem andaðist á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks 22. mars sl. Afi var afar sterkur persónuleiki, hreinskiptinn og ákveðinn.

Hann ólst upp í Fljótunum við erfið skilyrði þar sem ungur drengur varð fullorðinn alltof snemma og það ásamt mörgum áföllum í lífinu hefur haft sitt að segja við að móta persónu hans. Afi vann alla tíð mikið og höfðum við ekki mikið af honum að segja sem börn heima í sveitinni en Eika og Gugga unnu sína fyrstu launuðu vinnu hjá honum í Vegagerðinni.

Hann hikaði ekki við að taka stelpur með sér á fjöll að leggja vegi og eigum við bara góðar minningar frá þeim tíma. Sjórinn var afa alltaf hugleikinn og sennilega hafa það verið hans bestu ár þegar hann átti bátinn Þyt og gat verið á sjó þegar honum hentaði og veður leyfði. Nú síðustu árin stytti hann sér stundir við að skrifa pistla um samtíðarfólk sitt í Skagfirskar æviskrár og gaf það honum mikið að geta þannig lagt sitt af mörkum til að varðveita sögu sveitunga sinna.

Hann var ótrúlega minnugur á atburði úr fortíðinni og mundi öll nöfn og ártöl og var merkilegt hvað hann náði góðum tökum á tölvutækninni, orðinn svona fullorðinn. Hann skrifaði líka endurminningar sínar sem við eigum eftir að varðveita í fjölskyldunni og hafa gaman af að lesa. Hann ætlaði að halda upp á níræðisafmælið sitt í sumar og var farinn að skipuleggja það.

En örlögin tóku í taumana. Afi, sem var vanur að standa við stýrið, réð nú ekki lengur för. Elli kerling hafði bankað upp á og afi var að verða rúmfastur, skrokkurinn lúinn en minni og meðvitund gaf ekkert eftir. Hann gat ekki hugsað sér að fara í hjúkrunarrými á Heilbrigðisstofnuninni, sagði að sá tími væri einfaldlega ekki kominn í hans lífi. Svona hefði afi ekki viljað staldra lengi við og trúum við því að hann sé nú sáttur við að ýta úr vör í hinsta sinn og róa á himnamiðin. Okkur finnst vel við hæfi að kveðja afa með þessu ljóði Valdimars Lárussonar.

 • Hann stendur í fjörunni, horfir á hafið,
 • himinn tær og fagurblár.
 • Allt er lífskrafti vorsins vafið,
 • vonin í brjóstinu hrein og klár,
 • vetrarins þunglyndi gleymt og
 • grafið,
 • geislandi fegurð um enni og brár.
 • Minningar að honum stöðugt streyma,
 • stormsöm ævi um hugann fer.
 • Um liðna daga hann lætur sig dreyma
 • þó líf'ans hafi nú borist á sker.
 • Hann þráði og elskaði hafsins heima.
 • Í hillingum allt þetta finnur og sér.
 • Hér vildi hann ljúka langri ævi,
 • leggjast til hvílu við sjávarnið.
 • Bað þess hljóður að guð sér gæfi
 • af gæsku sinni eilífan frið.
 • Að mætti hann róa á sólgullnum sævi
 • og sækja á gjöful fiskimið.

(Valdimar Lárusson)

Við biðjum góðan Guð að styrkja ömmu. Hvíl í friði.

Ríkey, Guðbjörg, Birna og Þorlákur frá Langhúsum.
-------------------------------------------------

Eftir rúmlega 20 ára samfylgd er komið að kveðjustund. Kynni mín af Adda og hans fjölskyldu hófust töluvert áður en hann síðar varð „tengdaafi“ minn. Það er til marks um hversu vel fjölskyldan tók á móti mér að ég var búin að mæta á ættarmót í Molastaðaættinni löngu áður en ég tengdist henni í gegnum elsta afastrákinn og nafna hans Adda og bast fjölskyldunni og sveitinni fögru órofa böndum.

Þegar ég byrjaði 16 ára gömul að vinna á Ketilási komu þau Addi og Lilja gjarnan akandi á Volvónum sínum, að heimsækja heimasveitina og dæturnar sem þar bjuggu þá báðar. Ég man að Addi kom mér fyrir sjónir á þann hátt að maður gat ekki annað en borið virðingu fyrir honum, enda hefur mér alltaf fundist titillinn „ættarhöfðingi“ hæfa honum vel.

Ég komst fljótt að því að þarna færi maður að mínu skapi, með mátulega kaldhæðinn húmor og mikið væri nú gaman að eiga hans skemmtilegu tilsvör niðurskrifuð. Addi var hreinskiptinn og ákveðinn og eflaust hefur einhvern tímann sumum þótt nóg um, en ég tel að þeir sem fengu að kynnast honum hafi kunnað að meta þessa eiginleika hans.

Ég sá í hendi mér að þennan mann myndi ég ekki vilja fá upp á móti mér og held að það hafi tekist, enda tókst með okkur mikil og góð vinátta þar sem kynslóðabilið skipti engu máli. Addi var afskaplega ættrækinn og tryggur sínu fólki og ég mun aldrei gleyma öllum símtölunum og tölvupóstunum frá honum. Til að mynda leið ekki sá dagur að hann hefði ekki samband við mig meðan ég sat yfir föður mínum síðustu ævidaga hans.

Þetta var mér algjörlega ómetanlegur stuðningur á erfiðum tíma. Addi treysti mér fyrir því skemmtilega verkefni að búa æviminningar sínar til fjölföldunar. Það vakti aðdáun mína að hann skyldi á gamals aldri leggja það á sig að læra á tölvu og tileinka sér þá kunnáttu það vel að hann gat sjálfur slegið inn allan texta og skannað allar myndir í þessu merkilega riti, alls rúmar 100 blaðsíður.

Þarna er kominn fjársjóður sem verður afkomendum hans og ættingjum ómetanlegur þegar fram líða stundir. Það hefur þó varla verið auðvelt að setja minningarnar á blað, enda hafði hann á sinni löngu ævi mátt reyna ýmislegt, en ef til vill hefur það hjálpað til að geta komið þessu frá sér á þennan hátt. Segja má að fátt lýsi lífshlaupi Adda jafn vel og þessi orð sveitunga hans:

 • Gegnum allt mitt ævislark
 • engu kveið ég grandi.
 • Borið hef í brjósti kjark
 • bæði á sjó og landi.

(Björn Pétursson frá Sléttu)

88 ára ára afmæli Adda er eftirminnilegt, og eins og svo oft áður þá vissi hann alveg hvað hann var að gera þegar hann hélt upp á það til vonar og vara, ef hann skyldi ekki ná því að verða níræður. Við munum hugsa sérstaklega til hans þann 5. ágúst og ef til vill koma saman í tilefni dagsins, þrátt fyrir að mikið vanti þegar hann er farinn. Minningar tengdar Adda, eða afa á Krók eins og hann var gjarnan nefndur á mínu heimili eiga eftir að ylja okkur um ókomna tíð. Ég og afastrákarnir á Hólmavík kveðjum með söknuði og vottum öðrum aðstandendum samúð okkar.

Kristín Sigurrós Einarsdóttir.
------------------------------------------------

Með nokkrum orðum vil ég minnast Alfreðs æskufélaga míns.

Fardagaárið 1929 fluttu búferlum að Móskógum í Fljótum hjónin Jón Guðmundsson og Helga Jósefsdóttir, ásamt fjórum börnum sínum. Elstur þeirra systkina var Alfreð, sem dagsdaglega var kallaður Addi og Guðmundur bróðir hans var litlu yngri. Brátt urðum við Addi, og reyndar Guðmundur líka, nokkuð samrýmdir næstu árin, þó drjúgur spölur væri á milli bæjanna Móskóga og Laugalands þar sem ég ólst upp en hafði þar engan jafnaldra.

Þrátt fyrir nokkurra ára aldursmun okkar Adda náðum við býsna vel saman. Addi var myndarmaður að allri sýn, hafði hann andlitsfall móður sinnar en vaxtarlag föður síns. Hann var hár, herðabreiður og vel hraustur svo að orð fór af, enda sagði Guðmundur afi hans eitt sinn: „Hann Addi minn er engum líkur.“ Addi var þá ungur að árum og hafði hann ýtt bát úr vör áður en afi hans kom honum til aðstoðar.

Ungur að árum fór Addi með byssu og skaut aðallega sel. Hann hæfði það sem á var miðað. Guðmundur bróðir hans var lítill eftirbátur hans og var innan við fermingu er hann dauðskaut sinn fyrsta sel sem lá á steini skammt framan við flæðarmálið. Selurinn valt af steininum og í sjóinn. Það kom svo í hlut Adda að finna selinn í sjónum og koma honum til lands.

Á árunum eftir 1930 voru viðsjárverðir tímar. Sveitin okkar var afskekkt en með tilkomu fyrstu útvarpstækjanna bárust fréttir og talað var um „kreppu“. Þrátt fyrir ungan aldur skynjuðum við alvöruna. Við unnum heimilum okkar eftir því sem getan leyfði og við vorum stundum stórhuga.

Í landi Laugalands er heit uppspretta og volgrur. Okkur datt í hug að útbúa sundlaug, sem við og gerðum, en ekki man ég stærð hennar. Við hófumst handa og stungum hnausa í mýrinni austur af núverandi íbúðarhúsi á Laugalandi og hlóðum síðan veggi utan um eina volgruna. Dýptin var talsverð en laugin stóð ekki lengi því nokkru síðar gaf einn veggurinn sig og sprakk út. Þar með lauk sundlaugaráformunum. Áratugum síðar var grafinn skurður skammt frá framkvæmdastaðnum og núverandi þjóðvegur til Siglufjarðar mun liggja yfir sundlaugarstæðið og því engin ummerki lengur að sjá.

Ég ætla ekki að rekja æviferil Adda. Hann hafði oft mörg járn í eldinum og hamraði þau flest eða öll, en lengstum og sín bestu ár var hann bóndi að Reykjarhóli í Austur-Fljótum, oft með annarri vinnu og hvíldu þá bústörfin í auknum mæli á herðum konu hans. Um árabil rofnuðu tengslin, enda samgöngur á árum áður í dreifbýlinu aðrar en nú til dags.

Alfreð reyndist mér traustur. Hann var handlaginn, greiðvikinn og hjálpsamur en ég held að hann hafi heldur ekki látið neinn eiga hönk upp í bakið á sér. Hann var vinur vina sinna og stóð fastur á sínu. Eftir að ég flutti til Sauðárkróks hef ég haft hægt um mig. Hann sá um að halda tengslunum með heimsóknum sínum. Ég þakka honum æskudagana og þær stundir er við áttum forðum, en ekki síst þakka ég honum trygglyndið er hann sýndi mér nú hin síðari ár.

Fjölskyldu Alfreðs votta ég samúð.

Páll Ragnar.
------------------------------------------------------

Þegar ég minnist kynna minna af Alfreð Jónssyni hvarflar hugurinn aftur um 30-40 ár. Ég var þá ungur maður á jarðýtu í vegavinnu og á þeim árum löngum hjá öðrum hvorum bræðranna Svavari eða Alfreð frá Molastöðum sem stjórnuðu hvor sínum vinnuflokki.

Eiginlega finnst mér að flest hafi gengið slétt og fellt á þessum árum, a.m.k. voru snurðulaus samskiptin við verkstjórana. Í hugann koma tvö atvik þar sem ég var að vinna á ýtunni og bændur komu til mín óðamála því að vélin var farin að raska í landi þar sem hún að þeirra dómi hafði enga heimild.

Og þar sem ég var gjörræðismaðurinn og á þeirri stundu fulltrúi Vegagerðarinnar fékk ég heldur betur orð í eyra. Í bæði skiptin kom Alfreð verkstjóri bráðlega á vettvang og sjatlaði málin fljótt og vel svo að allt féll í ljúfa löð og ég gat haldið ótrauður áfram. Ég var líka á ýtu í flokki Alfreðs við vegalagningu í Hegranesinu þegar mest gekk á í Tröllaskarðinu forðum daga vegna afskipta dulrænna afla í Stigaberginu en vissi ekki fyrr en löngu síðar að Alfreð hafði þá orðið fyrir stífu áreiti í draumum. Um þessi undarlegu atvik var skrifuð grein sem birtist í 27. hefti Skagfirðingabókar árið 2001.

Áratugum síðar endurnýjuðust kynni okkar Alfreðs með öðrum hætti þegar hann fór að fást við ritstörf, minningarþætti og æviskrár fólks frá liðinni öld. Þessi viðfangsefni urðu Alfreð mjög hugleikin eftir að líkamlegt þrek tók að dvína en hugurinn fullur starfslöngunar. Alfreð varð tíður gestur á Héraðsskjalasafninu síðustu árin og varð þar eins konar heimilisvinur, óþreytandi að miðla fróðleik og afla heimilda og sparaði sig hvergi að ná sem réttustum upplýsingum. Nokkrar ferðir fór hann með mér í Fljótin til að fræða mig um mannlíf og staðhætti sem eiga væntanlega eftir að nýtast mér síðar við byggðasöguritun.

Við kona mín eigum margar minningar frá komu okkar til Alfreðs og Lilju, spjallsetur og veitingar við eldhúsborðið á Fornósnum. Við þökkum þær stundir allar og biðjum ástvinum þeirra blessunar með þökk fyrir liðin ár og vináttu alla.

Hjalti Pálsson og Guðrún Rafnsdóttir í Raftahlíð 57.