Tengt Siglufirði
14. mars 2011 | Minningargreinar
Anna Júlía Magnúsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 7. júlí 1920. Hún lést á dvalarheimilinu Grund 6. mars 2011.
Foreldrar hennar voru Magnús Sigurðsson, sjómaður í Vestmannaeyjum, og Filippía Þóra Þorsteinsdóttir.
Systkini Önnu Júlíu
voru
Anna Júlía giftist 11. febrúar 1940
Guðbrandi Magnússyni, f. 1907 á Hólum í Steingrímsfirði, d. 1994.
Foreldrar hans voru Magnús Steingrímsson og kona hans Kristín Árnadóttir.
Guðbrandur
var lengst af kennari og skólastjóri á Siglufirði og Akranesi, áður kaupfélagsstjóri á Hólmavík. Anna Júlía og Guðbrandur bjuggu nánast alla sína búskapartíð
á Siglufirði.
Börn þeirra hjóna eru:
Afkomendur Önnu Júlíu og Guðbrands eru orðnir 75.
Jafnframt því að vera húsmóðir á stóru heimili tók Anna Júlía að sér ýmis störf, bæði launuð og ólaunuð. Líklega ber hæst söng hennar í mörgum kórum sem starfræktir voru á Siglufirði og einnig í Reykjavík, eftir að hún flutti þangað árið 1996. Hún lærði söng m.a. hjá Silke Óskarsson og Antoniu Hevesi. Söng í kirkjukór Siglufjarðar í áratugi, ásamt því að sinna ýmsum störfum við kirkjuna með Guðbrandi, sem var þar meðhjálpari.
Hún hafði einnig umsjón með safnaðarheimili kirkjunnar. Annað sem stendur upp úr er allt hennar starf með leikfélagi Siglufjarðar. Tók að sér mörg stór hlutverk. Líklega er Halla í Fjalla-Eyvindi hennar minnisstæðasta hlutverk. Hún starfaði lengi á saumastofunni Salínu og var þar meðeigandi. Hún var í kvenfélagi, formaður orlofsnefndar húsmæðra og hafði meðal annars umsjón með Æskulýðsheimili Siglufjarðar, svo fátt eitt sé nefnt. Síðustu æviárin dvaldi Anna Júlía á Grund við Hringbraut í Reykjavík.
Útför Önnu Júlíu fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 14. mars 2011, og hefst athöfnin kl. 13.
Til að mála mynd móður okkar í orðum þarf litrófið allt. Ekki bara hennar mildu og dömulegu tóna heldur einnig þá sterkari sem gefa hinum þann kraft sem situr eftir í endurminningunni og litar tilveru eftirlifenda.
Mamma var dugnaðarforkur, vel gefin og gædd mörgum hæfileikum. Í skjóli og umönnun góðrar móður nutum við listfengis hennar til munns og handa. Öðrum gafst líka tækifæri til að kynnast þeim. Ógleymanlegar persónur sem hún túlkaði í leikhúsi, falleg söngrödd og allt sem hún skapaði með handverki sínu bar henni fagurt vitni. En hún var ekki allra; stundum fámál en stundum hrókur alls fagnaðar.
Henni var ekki tamt að tjá tilfinningar sínar og bar þær ekki á torg. En það var aldrei vafi í hennar huga þegar heimilið og börnin voru annars vegar. Það var henni heilagt og það sem skipti höfuðmáli. Dugnaði hennar var við brugðið og á þeim lífsbrautum voru þau svo sannarlega samferða, hún og pabbi. Það var líka nánast sama hvað móðir okkar tók sér fyrir hendur, allt umbreyttist það, varð fallegt, gott og nytsamlegt.
Í uppvexti hennar var áfallahjálp víðsfjarri hremmingum og hrakförum daglegs lífs sem fólk bjó þá við. Fyrir okkur sem allt höfum getur verið erfitt að gera sér í hugarlund vinnuhörku og vökur fólks sem stóð eitt uppi eftir erfið áföll. Hún var ekki há í loftinu þegar faðir hennar lést og í sömu viku lítil systir. Eflaust hafa þau ár mótað hana fyrir lífstíð. Móðir hennar með tvö ung börn ól tæpast í brjósti stærri vonir um framtíðina en að lifa af og koma þeim systkinum til manns. Tímans elfur skilaði ekkjunni tveimur góðum og mannvænlegum einstaklingum.
Eftir stendur minning um glæsilega og sterka konu, kostum prýdda en umfram allt góða móður.
Við kveðjum með hlýju og þökkum fyrir allt.
Fyrir hönd systkina,
Filippía Þóra Guðbrandsdóttir.
---------------------------------------------------
Tengdamóðir mín, Anna Júlía, átti ættir að rekja til Rangárvallasýslu og Svarfaðardals. Faðir hennar, Magnús, úr Rangárvallasýslu og móðirin, Filippía, frá Upsum í Svarfaðardal. Faðirinn var sjómaður og hafði úthald frá Vestmannaeyjum, móðirin húsmóðir. Magnús fórst í skipsskaða á grynningum undan Eyjafjöllum 30. mars 1927 með vélbátnum Freyju frá Vestmannaeyjum.
Magnús og Filippía eignuðust þrjú börn, yngst þeirra var Þorbjörg Erna. Hún lést á fjórða ári og var jarðsungin sama dag og faðir hennar. Hún í Vestmannaeyjum, hann uppi á landi. Þannig voru samgöngur þá milli lands og Eyja.
Eftir þessar hremmingar flutti Filippía með börnin sín tvö til Akureyrar. Foreldrar hennar, Anna og Þorsteinn, höfðu þá sest að á Akureyri. Anna Júlía átti athvarf hjá móðurafa og ömmu og eins hjá móðursystur sinni Jónu og Kristni manni hennar að Möðrufelli í Eyjafirði.
Lífsbaráttan var hörð á þessum árum, vafalaust kreppa á Íslandi þá, kannski ekki opinber. Anna Júlía sagði mér frá lífshlaupi sínu þannig:
„Ég fór að vinna fyrir mér strax eftir fermingu. Ekki varð skólagangan löng. Þegar ég dvaldi í sveitinni sótti ég farskóla tvo vetrarparta, svo tvo vetur í barnaskóla Akureyrar, var í tíu ára bekk árið sem ég fermdist. Ég missti úr heilan vetur vegna veikinda, fékk líklega berkla, var vistuð á sjúkrahúsinu á Akureyri og síðan á Kristneshæli. Þá gafst tími til að lesa bækur og þarna voru bókasöfn.
Ég kom mér í húsmæðraskóla þegar ég varð átján ára. Sumarið eftir var ég á Möðrufelli en þá bjó í Danmörku Þórunn móðursystir mín og maður hennar. Þau voru barnlaus. Fannst Þórunni tilvalið að ég kæmi og væri henni til skemmtunar og yndisauka. Hún vildi koma mér í söngnám. Þetta fór allt út um þúfur er stríðið braust út og skjólstæðingar mínir fluttu í snatri heim. Í stað þess að fara til Köben fór ég sem ráðskona til kaupfélagstjóra nokkurs á Hólmavík.
Það var vegna þess að góð vinkona mín á húsmæðraskólanum á Laugarlandi, hún Pettý, sagði að bróður sinn vantaði myndarlega ráðskonu. Bróðirinn hét Guðbrandur Magnússon, sem varð svo eiginmaður minn næstu 55 árin. Um þá sögu og afleiðingar þarf ég ekki að fjölyrða við þig. Um störf mín er allt á hreinu; bara húsmóðir.“
Anna Júlía var hinn mesti dugnaðarforkur og stjórnsöm. Heimili hennar var stórt og vinna húsmóðurinnar mikil innan og utan heimilis. Móðir hennar Filippía dvaldi hjá henni síðustu tíu ár ævi sinnar og var dóttur sinni mikill styrkur. Áhugamál Önnu Júlíu snerust um sönglist og leiklist og var þeim sinnt af sama dugnaði. Hún söng í ýmsum kórum og var endalaust á æfingum.
Börnum hennar þótti stundum nóg um og einhverju sinni spurði dóttir hennar Anna Gígja hvort þetta færi nú ekki að verða fullæft. Þá var mamma hennar á níræðisaldri. Heimili Önnu Júlíu og Guðbrands á Siglufirði var sérstaklega glæsilegt og húsmóðirin í sama stíl. Hún hugsaði vel um líkama sinn og útlit, stundaði ýmsar íþróttir og var vel á sig komin nánast alla sína tíð. Á þessari skilnaðarstundu þakka ég samfylgdina.
Friðbjörn Björnsson.
-----------------------------------------------------
Það er komið að kveðjustund, en kynni okkar Önnu Júlíu tengdamóður minnar hófust fyrir 54 árum þegar við Skúli geystumst norður á Siglufjörð á Moskovitsinum hennar Pettý til að heilsa upp á fjölskylduna. Var mér þar tekið opnum örmum.
Árið 1961 dvöldum við hjá þeim Önnu og Guðbrandi á Siglufirði eitt sumar ásamt Gumma syni okkar. Skúli var að þéna peninga í síldinni og ég að greiða hár.
Anna og systurnar pössuðu, en Skúli átti eftir einn vetur í rafmagnsdeild Vélskóla Íslands og allir síldarpeningar voru lagðir fyrir og notaðir um veturinn. Það voru engin námslán á þeim tíma.
Anna var ekki bara falleg kona, hún var skarpgreind, einstaklega barngóð og fjölhæf á svo mörgum sviðum. Á heimilinu féll henni aldrei verk úr hendi enda nóg að gera á stóru heimili. Hún bakaði alltaf einu sinni í viku, saumaði allt á börnin sín og sjálfa sig og fór létt með það. Hún keypti prjónavél og prjónaði peysur á börnin sín eins og hún hefði aldrei gert annað. Fjögur barnanna voru heima, Anna Gígja, Maggi, Stína og Pía. Steini fæddist ári seinna, 1962. Átti ég yngri son minn á sama ári, ég man þegar hún skrifaði mér og sagðist líka eiga von á barni, en henni fannst það ekki sniðugt þá. En þetta þykir bara flott í dag.
Ung að árum missti hún pabba sinn, en bátur hans fórst við Vestmanneyjar í fiskiróðri. Nokkrum dögum seinna dó yngri systir hennar úr sjúkdómi, og voru feðginin jörðuð saman. Eftir þetta áfall fluttu þær mæðgur norður til Akureyrar ásamt Kidda bróður Önnu. Skólagangan var stopul eins og gengur hjá fólki í litlum efnum. 18 ára gömul fór hún í Húsmæðraskólann á Laugalandi. Þar kynntist hún verðandi mágkonum sínum, Pettý og Boggu, en eftir skólaárið bað Pettý hana að gerast ráðskona hjá Guðbrandi bróður þeirra, en hann var kaupfélagsstjóri á Hólmavík. Þau felldu hugi saman og giftust.
Skúli fæddist á Hólmavík en öll hin 7 börnin á Siglufirði. Þar bjuggu þau mestallan sinn búskap utan 2 ár á Akranesi, en Guðbrandur var gagnfræðaskólakennari alla tíð. Hún Anna hafði brennandi áhuga á tónlist og söng í kirkjukór Siglufjarðar í rúmlega 40 ár. Einnig notfærði hún sér alla þá sérkennslu í söng sem henni bauðst. Leikfélag Siglufjarðar var stór hluti af lífi hennar til margra ára. Hún var meðeigandi í „Saumastofunni Salínu“ og vann þar hálfan daginn, einnig sá hún um æskulýðsheimilið (tómstundahús). Þegar Orlofsnefnd húsmæðra á Íslandi var stofnuð var hún kosin formaður á Siglufirði og gegndi hún þessu starfi í mörg ár og var fararstjóri í öllum þeirra orlofsferðum.
Eftir að hún flutti suður hélt hún áfram að syngja með kór eldri borgara, Senjorítunum, og söng stundum einsöng. Hún fór í öll söngferðalög innanlands sem utanlands meðan hún hafði heilsu til. Síðustu ár ævinnar dvaldi hún á hjúkrunarheimilinu Grund við gott atlæti, hlýju og umönnun starfsfólks. Ég á eftir að sakna heimsóknardaganna og kaffisopans okkar saman, en allt hefur sinn endi. Takk fyrir allt sem þú varst okkur. Guð þig geymi.
Þóra Björg Guðmundsdóttir.
-------------------------------------------
Mig langar til að votta öllum ættingjum Önnu Júlíu mína dýpstu samúð. Þegar ég hitti Önnu Júlíu í fyrsta skipti sumarið 2004 var ég svolítið stressuð þar sem ég hafði heyrt að hún gæti verið mjög ákveðin. Hún tók mér afar vel þótt hún væri forvitin um mína hagi en spurningar hennar voru afar elskulegar. Ég var spurð út í menningarlegan bakgrunn minn og menntun og varð mjög hissa þegar ég heyrði hve mikil tungumálamanneskja Anna Júlía var, hún var svo góð í ensku og þýsku. Að sjálfsögðu má ekki gleyma sönghæfileikum hennar sem voru hreint ótrúlegir. Meðan á heimsókn minni stóð var hún syngjandi sí og æ og stundum hélt ég að hún hefði jafnvel frekar kosið að syngja en tala.
Eftir heimsóknina fannst mér sem nú væri ég í hennar augum ein af fjölskyldunni, að hún hefði lagt blessun sína yfir samband mitt og Péturs Haraldssonar – en hann er eitt ömmubarnið. Fjögurra ára dóttir okkar Péturs, Daphne Ylfa, og tveggja ára dóttir okkar, Zoé, hittu langömmu nokkrum sinnum í heimsóknum okkar til Íslands. Sumarið 2010 fóru þær systur með pabba sínum og ömmu Önnu Gígju að heimsækja langömmu á Grund í síðasta skipti.
Það vildi til að á meðan á heimsókninni stóð var boðið upp á harmónikuleik, söng og dans sem Daphne Ylfa og Zoé tóku þátt í með ömmu og langömmu. Daphne var svo hrifin af þessu að hún minnist reglulega á heimsóknina á Grund og lýsir því „þegar við sungum og dönsuðum með langömmu“. Þær systur hafa greinilega erft eitthvað af músík- og söngáhuga langömmu.
Í minningunni lifir vingjarnleg, óvanaleg og háttvís kona.
Hvíldu í friði, elsku amma.
Soo-Kyung Pak-Haraldsson, Frankfurt, Þýskalandi.
--------------------------------------------------------
Mig langar í örfáum orðum að minnast ömmu minnar, Önnu Júlíu Magnúsdóttur, sem lést sunnudaginn 6. mars sl.
Amma Anna Júlía varð næstum 91 árs. Eins og gefur að skilja hefur fólk sem verður þeirrar gæfu aðnjótandi að ná slíkum aldri, upplifað tímana tvenna. Amma var þar engin undantekning. Hún hafði upplifað sögulega atburði, átt sínar sorgarstundir og unnið stóra sigra.
Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi sem ungur drengur að kynnast ömmu nokkuð vel. Á um 10 ára tímabili áranna 1974-1983 dvaldi ég öll sumur hjá ömmu og afa á Sigló. Þetta voru góðir tímar. Frændur átti ég líka á sama aldri á Sigló. Amma kunni vel á gauraganginn sem okkur fylgdi. Taumurinn var slakur, en þó vissum við alltaf nákvæmlega hvar línan lá. Hún vissi líka alveg upp á hár að eftir blóðuga túttubyssubardaga, rassblautar veiðiferðir og krambúleraðar sprönguæfingar þurftum við heimabakað tröllabrauð með miklu smjöri og ekkert grænmetisrugl.
Amma hugsaði vel um bæði líkama og sál. Hún stundaði sund og gönguskíði, náttúruskoðun og fjallgöngur. Hún söng og lék ásamt því að vera virk í hverskyns félagsstarfi sem Sigló bauð upp á. Hún var frábær handavinnukona og nutu margir góðs af því.
Amma var stórglæsileg kona og hugaði vel að útlitinu. Eitt sinn man ég eftir því að hárlitun mistókst hjá henni. Hárið sem átti að verða fallega grátt varð fjólublátt. Ekki lét amma þetta á sig fá, gekk hnarreist um bæinn eins og ekkert hefði ískorist og skeytti engu hvað öðrum fannst.
Fljótlega eftir að afi dó flutti amma suður. Hún hélt reisn sinni og glæsileika allt til síðasta dags. Við áttum gott samtal stuttu áður en hún kvaddi og rifjuðum upp þessi góðu sumur sem við áttum saman á Sigló.
Fas hennar og hæfileikar lifa áfram um ókomna tíð í þeim fjölmörgu afkomendum sem hún og afi hafa eignast.
Minningin um ömmu Önnu Júlíu lifir.
Eiríkur Haraldsson.
----------------------------------------
Hinsta kveðja
Frú Anna Júlía Magnúsdóttir var félagi í kór Félags eldri borgara í Reykjavík um árabil. Hennar fallega sópranrödd gladdi bæði samstarfsfólk og áheyrendur.
Það sópaði að Önnu Júlíu, hvar sem hún fór. Og það var gott að eiga hana sem vin og félaga í hópnum.
Kórfélagar senda börnum Önnu og afkomendum öllum innilegar samúðarkveðjur. Kórfélagar sakna vinar í stað.
Við kveðjum Önnu Júlíu með upphafslínu rússnesks lags sem hún og kórfélagar unnu mjög: „Gengin er sól að grænum viði.“
F.h. kórs FEB í Reykjavík,
Kristín Pjetursdóttir.
----------------------------
Mbl.is - 7. apríl 2011 Anna Júlía Magnúsdóttir
Anna Júlía Magnúsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 7. júlí 1920. Hún lést á dvalarheimilinu Grund 6. mars 2011.
Útför Önnu Júlíu fór fram frá Grafarvogskirkju 14. mars 2011.
Við fráfall Önnu Júlíu Magnúsdóttur frá Siglufirði sem lést 6. mars 2011 hrannast upp góðar minningar um mæta konu og eiginmann hennar, Guðbrand Magnússon.
Anna og Guðbrandur sköpuðu fjölskyldu sinni einstakt menningarheimili því bæði voru þau listfeng og flest sem þau unnu að varð ógleymanlegt.
Fljótlega eftir að þau komu til Siglufjarðar lágu leiðir okkar saman. Guðbrandur kenndi okkur Hannesi í Gagnfræðaskóla Siglufjarðar á kirkjuloftinu og duldist engum að þar var hæfileikamaður á ferð og við nemendurnir nutum góðs af því. Önnu lærðum við að þekkja og meta á öðrum vettvangi, í starfi með leikfélagi Siglufjarðar. Þar starfaði hún af lífi og sál og miklum dugnaði. Bæði lék hún þar stór hlutverk og smá og öll túlkaði hún af alúð og listfengi. Minnisstæðust er hún okkur í hlutverki Guðnýjar í Lénharði fógeta og Höllu í Fjalla-Eyvindi, þeirri túlkun gleymir maður aldrei.
Önnu fylgdi orka, dugnaður og einstök ósérhlífni við allt sem hún tók sér fyrir hendur. Anna söng árum saman í kirkjukór Siglufjarðarkirkju og Guðbrandur var þar meðhjálpari til margra ára. Þetta leystu þau vel af hendi eins og allt annað sem þau tóku að sér. Árið 1968 varð Anna einn af stofnendum kvennakórs Siglufjarðar ásamt fyrsta söngstjóranum okkar, Silke Óskarsson, undirritaðri, Línu Boga, Bínu Þorgeirs, Svövu Bald. og fleiri. Þar störfuðum við Anna saman í stjórn í mörg ár. Minnisstæð er vinna okkar í ferðanefnd sem undirbjó ferð kvennakórsins til Þýskalands 1978 sem og vinna við ýmsa fjáröflun fyrir kórinn.
Leiðir Önnu og Hannesar lágu saman á saumastofunni Salínu. Þar vann hún í mörg ár af miklum dugnaði og var jafnframt meðeigandi. Við erum stolt af því að Anna og Guðbrandur skyldu velja okkur að vinum sínum. Og ekki má gleyma að þakka fyrir yndislegu barnapíurnar sem þau sáu okkur fyrir, Hildi og Önnu Gígju.
Við kveðjum Önnu Júlíu með virðingu og þakklæti fyrir áralanga vináttu og samstarf. Við hefðum svo gjarnan viljað fylgja henni síðasta spölinn en gátum það ekki sökum veikinda. Börnum hennar og fjölskyldum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Halldóra (Hadda) og Hannes, Siglufirði.