Anna Sigmundsdóttir verkakona 1898

Íslendingaþættir Tímans - 29. september 1982

Anna Sigmundsdóttir. Fædd 16. mars 1898 - Dáin 15. ágúst 1982 Það telst varla til stórtíðinda, né að héraðsbrestur verði þótt aldurhniginn einstæðingur falli í valinn.
Þó er það ætíð svo, að hver og einn á sína persónuumgjörð og lætur eftir sig það ívaf sem lífið skóp, í ljósi minninganna.

Mig langar að minnast hér nokkrum orðum gamallar vinkonu minnar Önnu Sigmundsdóttur Hvanneyrarbraut 17, Siglufirði, sem jarðsungin var frá Siglufjarðarkirkju laugardaginn 21. ág. s.l. Þótt nafn hennar verði ekki skráð vegna yfirborðs afreka þessa heims, þá er það víst að það mun skráðgylltu letri í safn þess almættis, sem yfir okkur vakir og sem hún trúði svo staðfastlega á handleiðslu frá.

Anna var fædd að Bjarnastöðum í Unadal Skagafirði 16. mars 1898.
Foreldrar hennar voru Sigmundur Símonarson bóndi þar, fæddur 30. maí 1848, dáinn 4. febr. 1914 og Helga Bjarnadóttir, óljós er fæðingardagur hennar, en hún lést 22. des. 1921.

Anna Sigmundsdóttir - ókunnur lósmyndari

Anna Sigmundsdóttir - ókunnur lósmyndari

Af 20 börnum Sigmundar komust 12 til fullorðinsára og tvö eru enn á lífi,

  • Jóhanna og
  • Bjarni, sem bæði eru búsett í Hofsósi.

Eins og að líkum lætur, munu oft hafa verið kröpp kjör á Bjarnastöðum í uppvexti Önnu, og hver smáhönd þurft að bjargast af eigin rammleik, svo fljótt sem kostur var. í þessum stóra systkinahópi á umhyggjusömu heimili dvelst Anna að mestu til 16 ára aldurs, en þá ræðst hún vinnukona að Á í Unadal til búandi hjóna þar Stefaníu Jóhannesdóttur og Björns Guðmundssonar.

Með þeim flyst hún til Siglufjarðar árið 1915. Hjá þessum hjónum dvelst hún til ársins 1925. Vinnuhjú voru fremur óviljug til vistaskipta á þessum árum, enda atvinnukostir fáir.

Siglufjörður var þó um þetta leyti í örum vexti. Síldveiðar og síldarvinnsla hófst í bænum. Þetta silfur hafsins flæddi um allt. Hraðar hendur karla og kvenna breyttu þessu silfri í gull, sem jafnframt lagði grunninn að vaxandi velmegun Þjóðarbúsins. Anna var snemma lagin við meðhöndlun síldarinnar, og hafði yndi að samskiptum við hana alla tíð.

Þegar Anna fór frá A, réðst hún á heimili til ungra sæmdarhjóna, Þóru Jónsdóttur frá Kirkjubæ í Húna þingi og Jóhanns Guðmundssonar frá Syðsta-Mói Fljótum. Við Kirkjubæjarheimilið og fjölskylduna alla tók Anna slíku ástfóstri, að fátítt mun af vandalausri manneskju að vera. Hjá þessu fólki dvaldi hún um 15 ára skeið.

Hún unni börnunum Brynhildi og Álfþór mjög og vildi veg þeirra  sem mestan, enda sýndu þau þessari vel gjörðamanneskju sinni mikla ræktarsemi og hlýju alla tíð. Árin á Kirkjubæ liðu í starfsgleði í góðum anda, enda voru þeir tímar Önnu ætíð efst í huga, þegar hún rifjaði upp gamlar minningar.

Með þessari fjölskyldu flutti Anna til Seyðisfjarðar, en undi ekki hag sínum þar, og hvarf því aftur heim í fjörðinn kæra. Byggðin milli hárra fjalla og mannlífið þar, hafði mótað líf hennar. Hér vildi hún lifa og deyja. Það var skoðun hennar að engum staður væri fegurri en Siglufjörður á sólríkum sumardögum, þegar voldug fjöllin spegluðust í logntærum firðinum, og kyrrðin var allsráðandi.

Andstaðan við fegurð sumarsins, var vetrarharkan í veldi sínu, þegar stormurinn æddi um gil og fjallaskörð, svo engin miskunn var sýnd mönnum né málleysingjum. Þessar andstæður gátu eins vel átt við sjálfa mannssálina, líf einstaklingsins frá degi til dags. Önnu svipaði í margri gerð til breytileika náttúrunnar.

Hún var vinur vina sinna, hjálpsöm og hjartahlý, en gat verið hörð og ströng þegar hallað var réttu máli, eða einhver borinn rangri sök. Hún fór í mörgu eigin leiðir og gekk ógjarna í spor samferðamanna. Þegar Anna kom aftur frá Seyðisfirði, réðist það svo, að hún flutti aftur inn í „gamla góða Kirkjubæ".

Húsið höfðu þá keypt ung hjón Ragnheiður og Sigurjón Sæmundsson, og reyndust þau Önnu frábærilega vel. Á þessum árum stundaði hún ýmiskonar störf. Síldarvinnu á sumrin, en annað sem til féll að vetrinum.

Þegar rekstur Sjómannaheimilis Siglufjarðar hófst varð hún föst starfsmanneskja þar og sá einkum um böðin, sem þá voru mjög vinsæl meðal sjómanna, enda munu margir baðgesta minnast hennar með þakklátum huga. .

Árið 1946 gerðist Anna sambýliskona Einars Eyjólfssonar. Einar var bróðir Þormóðs Eyjólfssonar, sem var mikill athafnamaður í Siglufirði á sinni tíð. Sambýlið við Einar var afar gott. Þar ríkti góður andi og gagnkvæmur skilningur.

Einar varð fyrir vinnuslysi við Siglufjarðarhöfn, sem leiddi það af sér, að hann var alltaf sjúklingur upp frá því. Anna annaðist hann alla tíð heima af einstakri nærgætni og alúð. Þessa umhyggju og hugulsemi fyrir Einari kunni skyldfólk hans vel að meta, einkum hélt Eyjólfur Konráð bróðursonur Einars góðu sambandi við Önnu alla tíð.

Mörg seinni árin bjó Anna ein í íbúð sinni að Hvanneyrarbraut 17. Hún átti því láni að fagna að vera heilsuhraust langa æfidaga, en 9. des. 1976 varð hún fyrir veikindum, sem leiddu af sér dvöl um tíma á Sjúkrahúsi Siglufjarðar, og síðar á ellideild þess, og þar andaðist hún 15. ágúst s.l.

Trúlega hefir Anna farið með léttan mal af veraldargæðum úr föðurhúsum, en annað hafði hún öðlast þar, sem ætíð fylgdi henni síðar á lífsleiðinni, en það var hin einlæga og sanna trú á sigur hins góða. Að eiga góðvilja og hreina trú í hjarta sínu er góð arfleifð úr fátækum foreldrahúsum.

Anna var Kirkjurækin og hlýddi oft á messur. Hún átti mörg spor um kirkjugarðinn til að hlúa að leiðum horfinna vina sinna, hreinsa þar til og prýða. Eitt var það hugðarefni, sem hún átti öðrum fremur, en það var umsýslan blóma, enda prýddu fögur blóm heimili hennar alla tíð. Hún fann gróandann og lífið endurspeglast í blómunum sínum,  enda talaði hún við þau eins og börn.

Ekki naut Anna skólagöngu umfram venju í sinni barnæsku, en eðlisgreind var hún í betra lagi, og las mikið, einkum á seinni árum. Anna var þétt á velli og þétt í lund, iðin og trúverðug við hvað eina sem henni var falið að gera, enda fordæmdi hún miskunnarlaust þá sem henni þóttu ekki vinna nógu vel.

Með Önnu Sigmundsdóttur er genginn einn okkar sérstöku persónuleika. Hún var vissulega barn síns tíma, sem aldrei mátti vamm sitt vita. Hennar hlutskipti var að vinna öðrum meir, en sjálfri sér, án þess að spyrja fyrst um launin. Anna lætur eftir sig bjartar og góðar minningar til sinna samferðamanna, sem segja að enduðum æfidegi. „Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt".

Siglufirði í ágúst 1982 Hulda Steinsdóttir
______________________________
Ath: sk> Húsið við Hvanneyrarbraut 17, (fyrir vestan gamla malarvöllinn) var tvílyft steinhús, fyrir löngu brotið niður en þar bjó Þorleifur Hólm, með fjölskyldu sinni.