Anna Snorradóttir

Morgunblaðið 6. júní 2020 | Minningargreinar

Anna Snorradóttir fæddist á Siglufirði 15. júní 1926. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands í Fjallabyggð 15. maí 2020.

Foreldrar Önnu voru Snorri Stefánsson, f. 1895, d. 1987, og Sigríður Jónsdóttir f. 1889, d. 1972. Anna var einkabarn.

Anna giftist Knúti Jónssyni, f. 1929, d. 1992, 17. október 1953.

Fósturbörn Önnu og Knúts eru:

  1. Hafdís Fjóla Bjarnadóttir, f. 1967, maki Jóhann Þór Ragnarson, f. 1965, dætur þeirra eru a) Anna Þóra, f. 1987, í sambúð með Davíð Minnar Péturssyni, f. 1983, þeirra dóttir er Fjóla Minney, f. 2017, og b) Sandra Ósk, f. 2000.
  2. Óskar Einarsson, f. 1970, maki María Ben Ólafsdóttir, f. 1974. Þeirra börn eru Anna Metta, f. 2010, og Andri, Már f. 2013. Sonur Óskars af fyrra sambandi er Snorri Már, f. 1998.
Anna Snorradóttir 2017

Anna Snorradóttir 2017

Anna ólst upp í Hlíðarhúsi á Siglufirði. Anna lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1947. Hún stundaði nám í Húsmæðraskóla Reykjavíkur frá 1952 til 1953 og sótti ýmis kennaranámskeið á árunum 1971 til 1976.
Anna var ritari hjá Sparisjóði Siglufjarðar frá 1947 til 1952, hjá Áfengisvarnarráði Reykjavíkur 1954 til 1957 og nokkur sumur hjá Síldarverksmiðjum Rauðku á Siglufirði. Hún var stundakennari í Gagnfræðaskóla Siglufjarðar á árunum 1961 til 1968.

Anna hafði mikla ánægju af félagsstörfum og var í stjórn kvenfélags Sjúkrahúss Siglufjarðar frá 1961 til 1980 og formaður frá 1977. Hún var í stjórn kvenfélagsins Vonar frá 1974 og formaður frá 1986. Anna var í Barnaheimilisnefnd frá 1972 til 1978 og í Lionessuklúbbi Siglufjarðar frá 1979 og formaður frá 1985. Anna var meðlimur í kirkjukór Siglufjarðar frá 1946 og í stjórn hans í 20 ár og í Kvennakór Siglufjarðar frá stofnun 1968 og formaður frá 1970.

Anna verður jarðsungin frá Siglufjarðarkirkju í dag, 6. júní 2020, klukkan 11.
--------------------------------------

Elsku mamma.

Á einum af þessum vordögum í maí kvaddir þú okkur í hinsta sinn. Undanfarin 47, ár eða síðan ég kom til ykkar Knúts á Siglufjörð árið 1973, hefur þú verið stoð mín og stytta. Það var sannkallaður lottóvinningur að fá að alast upp hjá ykkur og það segir mikið að þegar ég kom til ykkar þriggja ára gamall var ég ekki farinn að tala. En eftir að hafa upplifað kærleikann og hlýjuna sem tók á móti mér á heimili ykkar var ég orðinn altalandi eftir tvær vikur. Það sýnir manni hversu mikilvægt það er að barn upplifi ást og umhyggju.

Uppeldisárin hjá ykkur á Siglufirði voru yndisleg og þú gafst mér frelsi til að prófa ýmis ævintýri og bralla margt, eins og að veiða á bryggjunni, skíða um fjöllin og hjóla um allan bæ. Stundum gátu þessi ævintýri þó farið úr böndunum en þá varst þú yfirleitt sú sem kom til bjargar.

Eitt af þeim skiptum var þegar ég var sex ára og komst í flugeldapakka sem pabbi hafði geymt uppi á lofti á Háveginum og átti að skjóta upp á gamlárskvöld nokkrum dögum seinna. Á einhvern hátt tókst mér með rokeldspýtum að kveikja í öllum pakkanum, sem skaust eftir ganginum á Háveginum.

En þú komst til bjargar og náðir að taka gólfdregil og henda yfir eldinn sem var orðinn ansi mikill og slökktir hann þannig. Þú tókst þessu öllu með jafnaðargeði, fórst með mig á sjúkrahúsið og lést gera að sárunum. Eftir stóðu hins vegar ör á höndum og gólfi sem áminning um að fara varlega með hættulega hluti.

Á þessum tímapunkti rifjast upp margar yndislegar minningar með þér eins og ferðir til útlanda, heimsóknir til Fjólu og fjölskyldu á Grundarfjörð, ferðalög til Reykjavíkur og margt fleira. Á meðan þú bjóst ein í stóra húsinu á Háveginum var ég vanur að koma í nokkrar vikur á hverju sumri og sinna viðhaldi á húsinu fyrir þig.

Því hafði ég lofað þér þegar pabbi dó 1992 og gerði það alltaf, alveg þangað til þú seldir húsið og fluttir á Skálahlíð. Á þessum vikum var dyttað að húsinu en á kvöldin eldaðir þú góðan mat og við sátum og spjölluðum fram eftir. Þessar vikur voru því eins og sumarfrí fyrir mig og eru einar þær dýrmætustu í lífi mínu.

Nokkrum sinnum um ævina hef ég þurft að ganga í gegnum erfið veikindi og stórar skurðaðgerðir. Alltaf varst það þú sem komst með mér og studdir mig og varst til staðar fyrir mig og er ég ævinlega þakklátur fyrir það. Ég er líka mjög þakklátur fyrir hvað þú varst dugleg að koma til okkar Maríu og krakkanna á Selfoss eftir að ég flutti þangað. Þökk fyrir allt sem þú gafst mér og fjölskyldu minni um ævina.

  • Ég sendi þér kæra kveðju
  • nú komin er lífsins nótt,
  • þig umvefji blessun og bænir
  • ég bið að þú sofir rótt.
  • Þó svíði sorg mitt hjarta
  • þá sælt er að vita af því,
  • þú laus ert úr veikinda viðjum
  • þín veröld er björt á ný.
  • Ég þakka þau ár sem ég átti
  • þá auðnu að hafa þig hér,
  • og það er svo margs að minnast
  • svo margt sem um hug minn fer,
  • þó þú sért horfin úr heimi
  • ég hitti þig ekki um hríð,
  • þín minning er ljós sem lifir
  • og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Þinn fóstursonur Óskar Einarsson.
----------------------------------------------------------

Það er sorg í hjarta mínu þegar ég kveð hana móður mína og aldrei á málshátturinn „enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“ betur við en hér. Hef alltaf sagt að ég hafi unnið minn happdrættisvinning þegar hún og pabbi komu inn í líf mitt þegar ég var rúmlega 6 ára gömul og veittu okkur Óskari bróður skjól og það skjól höfðum við í 47 ár.

Ég man það svo ljóslifandi þegar þau komu og sóttu okkur systkinin á barnaheimilið sem við vorum á, og okkur sagt að við værum að fara til Siglufjarðar, pabbi og mamma komu á Range Rover-jeppa og hafði ég aldrei sest upp í eins stóran bíl, þau sögðu okkur að við myndum keyra í gegnum göng á leiðinni og held ég að ég hafi byrjað að spyrja þegar við vorum komin upp í Mosfellssveit hvort göngin færu nú ekki að koma.

Mamma var einstök kona, alltaf hlý og góð sem elskaði okkur systkinin skilyrðislaust.

Það var ekki fyrr en ég komst til vits og ára að ég gerði mér grein fyrir hversu stórt verkefni þau tóku að sér og leystu með glæsibrag og fyrir það er ég svo innilega þakklát.

Hvíl í friði í faðmi ásvina þinna, veit að þau taka þér opnum örmum.

  • Blessuð vertu baugalín.
  • Blíður Jesú gæti þín,
  • elskulega móðir mín;
  • mælir það hún dóttir þín.

(Ágústína J. Eyjólfsdóttir)

Dóttir þín að eilífu, Fjóla.
-----------------------------------------------------

Elsku amma.

Takk fyrir að vera alltaf svo góð við mig og Önnu Mettu. Það var gaman að koma til þín á Siglufjörð og líka þegar þú komst til okkar í heimsókn. Það var líka skemmtilegt að spila við þig eins og við gerðum oft. Þú varst dugleg að lesa fyrir mig og að hjálpa mér að læra að lesa. Það var svo gott að knúsa þig, amma, og ég sakna þín mikið. Ég veit að þér líður þér vel á himnum hjá Knúti afa og skilaðu ástarkveðjum til hans.

  • Amma kær, ert horfin okkur hér,
  • en hlýjar bjartar minningar streyma
  • um hjörtu þau er heitast unnu þér,
  • og hafa mest að þakka, muna og geyma.
  • Þú varst amma yndisleg og góð,
  • og allt hið besta gafst þú hverju sinni,
  • þinn trausti faðmur okkur opinn stóð,
  • og ungar sálir vafðir elsku þinni.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Þinn ömmustrákur Andri Már.
--------------------------------------------------

Elsku amma.

Það hefur verið dásamlegt að hafa þig hjá mér og ég mun sakna þín, Siglóamma. Ég vona að þér líði vel með Knúti afa, hann beið svo lengi eftir þér. Þú varst góð kona og þú hjálpaðir mér þegar ég fékk hlaupabóluna og passaðir mig þegar mamma og pabbi fóru út. Þú varst alltaf til staðar fyrir mig og þú varst yndisleg amma og þessi tíu ár voru dásamleg með þér. Það var alltaf svo gaman þegar þú komst til okkar á Selfoss. Ég mun sakna þín mikið. Besta amma í heimi, hvíl í friði.

Þín ömmustelpa Anna Metta.
-------------------------------------------------

Hún Anna hefur kvatt okkur í hinsta sinn og er farin í ferðina löngu til fundar við Knút sinn. Það er svo erfitt að trúa því að við eigum aldrei eftir að hitta þig aftur og knúsa. Á þessari stundu rifjast upp allar yndislegu minningarnar sem ég á um þig allt frá því að ég heimsótti þig á Háveginn á Siglufirði í fyrsta sinn, nokkrum mánuðum eftir að við Óskar hófum okkar samband í ágúst 2007.

Eins og ávallt eftir það voru móttökurnar alltaf indælar og ljúfar. Þú töfraðir fram dýrindis máltíðir, spjallað var um heima og geima, farið í ökuferð um fjörðinn, sólað sig í garðinum og margt fleira. Það var alltaf svo gaman að koma á Siglufjörð og hitta þig og eiga með þér góðar stundir. Þú varst líka svo dugleg að koma til okkar á Akureyri og síðan á Selfoss eftir að við fluttum þangað. Það var alltaf tilhlökkun að fá þig um jólin og þau voru fyrst komin þegar þú varst komin til okkar. Og þrátt fyrir að aldurinn færðist yfir komstu alltaf til okkar.

Ein dýrmætasta minningin sem ég á um þig er fæðingin hans Andra Más. Seint um kvöld i september fyrir tæpum sjö árum, þá 87 ára, léstu þig ekki muna um að koma til Akureyrar frá Siglufirði til að vera viðstödd fæðinguna, sem var sú fyrsta og eina sem þú upplifðir. Og þrátt fyrir hraðar hríðir og frekar stutta fæðingu beið Andri eftir því að amma væri komin og þá kom hann í heiminn.

Amma átti að fá að vera viðstödd. Og þegar Anna Metta fékk hlaupabóluna komstu með rútunni 91 árs á Selfoss til að hjálpa okkur og vera heima með henni á meðan ég var að vinna og Óskar að byggja húsið okkar. Mér þótti líka mjög vænt um þegar þú komst frá Siglufirði og varst hjá okkur þegar pabbi dó og við fylgdum honum til grafar.

Þú vildir alltaf aðstoða og hjálpa okkur á meðan þú gast. Þú varst einstök og ég er mjög þakklát fyrir allan tímann sem ég fékk með þér og að Anna Metta og Andri Már eigi fallegar minningar um bestu ömmu sem til var. Þú gafst okkur mikið með nærveru þinni og kærleika og við munum sakna allra stundanna með þér en við munum alltaf geyma þig í hjarta okkar og eftir standa dýrmætar minningar um yndislega konu,

Takk fyrir allt, Anna, og vonandi líður þér vel núna í faðmi Knúts sem var búinn að bíða svo lengi eftir þér. Og skilaðu kveðju til mömmu og pabba.

Þín tengdadóttir María Ben Ólafsdóttir.
-----------------------------------------------------

Stella frænka fæddist og ólst upp í Hlíðarhúsi. Hún var augasteinn foreldra sinna, Snorra Stefánssonar, framkvæmdastjóra Rauðku, og Sigríðar Jónsdóttur húsfreyju. Í minningunni var Hlíðarhús öðruvísi veröld en ég sá annars staðar. Að koma þar var eins og að stíga inn í ævintýri. Í Hlíðarhúsi var ekki bara borðstofa heldur líka betristofa og allt svo fínt, fágað og framandi. Þarna ólst Stella frænka upp eina barn foreldra sinna.

Ein af fyrstu minningum mínum um Stellu frænku var þegar sá hana leika í Ævintýri á Gönguför með Leikfélagi Siglufjarðar. Hún var svo flott og glæsileg á sviðinu með ljósu lokkana sína og söng svo vel. Ég, stelpuskottan, var upp með mér af frænku minni.

Svo man ég hana keyrandi flotta jeppann hans Snorra. Það var ekki algengt þá að konur keyrðu bíla. Það var líka töff. Stella var glæsileg kona og ávallt einstaklega falleg til fara. Sannkölluð dama. Hún hafði unun af listum, einkum tónlist og myndlist en líka ljóðlist.

Stella talaði fallega íslensku og var oft afskaplega skemmtilega hnyttin. Stuttu efir að ég varð sjötug kom ég til hennar og við vorum að ræða saman og ég segi eitthvað á þá leið að ég skilji þetta bara ekki, mér finnist ég ekkert orðin sjötug og þá segir Stella það er nú bara ekkert skrítið, mér finnst ég ekki einu sinni vera orðin níræð.

Hún söng í kirkjukór Siglufjarðar áratugum saman og líka í blönduðum kórum. Stella var félagslynd og virk í kvenfélagi Slysavarnafélags Íslands, kvenfélaginu Von og formaður þess lengi. Svo verður að geta þess að hún var félagi í Sjálfstæðisfélagi Siglufjarðar alla tíð. Hún lét víða gott af sér leiða, ekki bara með sjálfboðastarfi víða heldur sýndi hún hug sinn til samfélagsins á Siglufirði þegar hún gaf æskuheimili sitt, Hlíðarhús, til Síldarminjasafnsins þar.

Það varð þeim hjónum, Knúti og Stellu, mikil gæfa að fá á sitt heimili systkinin Fjólu og Óskar. Talaði Stella oft um það hve mikið gæfuspor það var. Hún elskaði þau eins og þau væru hennar eigin. Gleðin og hamingjan við að eignast barnabörnin var mikil. Fjóla og Óskar sýndu mömmu sinni einstakan stuðning, ást og kærleika. Stella var afar sæl að sjá fjölskylduna sína dafna og farnast vel.

Stella frænka var einstaklega sjálfstæð kona. Hún hafði líka mikla þörf fyrir að bjarga sér sjálf. Hún var og höfðingi heim að sækja. Stella bjó í húsinu sínu fram á tíræðisaldurinn og keyrði sinn bíl. Fyrir um það bil tveimur árum ákvað hún að nú væri nóg komið, seldi húsið og bílinn og flutti út í Skálahlíð. Svona gat hún haft þetta vegna stuðnings sinna nánustu, barna sinna og góðra granna.

Stella frænka var sátt við guð og men og tilbúin að kveðja. Hún var mér fyrirmynd í mörgu og ég er þakklát henni fyrir það og okkar vináttu. Ég á eftir að sakna þess að geta ekki hringt, spjallað og litið til hennar. Hún var eldklár í kollinum, fylgdist vel með og var nútímaleg. Ég og fjölskylda mín vottum börnunum hennar og fjölskyldum samúð við fráfall þessarar góðu konu, móður, ömmu og langömmu.

Guð blessi minningu Önnu Snorradóttur.
------------------------------------------------

Árdís Þórðardóttir.

Við systkinin kölluðum hana alltaf Stellu frænku. Frá barnæsku hefur hún átt sérstakan sess í lífi mínu. Mamma og hún voru systradætur og bernskuheimili beggja var í Hlíðarhúsi á Siglufirði. Þar bjuggu systurnar amma Ólöf og Sigríður frænka alla tíð ásamt fjölskyldum sínum. Heimilis- og fjölskyldulíf í Hlíðarhúsi byggðist á hefðum fyrri tíma. Samvinna og verkaskipting var um matseld, heimilishald og húsþrif.

Við íbúðarhúsið var fallegur vel hirtur garður með rifsberjarunnum og blómaskrúði. Tvær kýr, Grána og Rauðka, voru í útihúsi, mannýgur hani og hænur á vappi í túninu og nokkrar kindur í fjárhúsi. Þessar aðstæður eru greyptar inn í mitt barnsminni. Hlíðarhús var og er minnismerki um liðinn tíma hvað varðar húsaskipan og innanstokksmuni. Það var því viðeigandi þegar Stella ánafnaði Síldarminjasafninu húsið til varðveislu.

Stella var tveimur árum yngri en mamma en strax frá barnsaldri var samband þeirra mjög náið. Síðar æxlaðist það svo að þær bjuggu lengst af í sama húsinu á Háveginum, Stella og Knútur á efri hæðinni, eftir að Sína, Lalli og fjölskylda fluttu suður, og mamma og pabbi á þeirri neðri. Í barnæsku minnist ég margra ánægjustunda með Stellu. Hún söng í kirkjukórnum og tók mig með á söngæfingar og í messur.

Ég fékk að sitja uppi á kirkjuloftinu hjá kórnum og lærði ógrynnin öll af sálmum sem ég kann enn í dag. Þá eru mér minnisstæðar allar berjaferðirnar sem við fórum á Willysjeppanum hans Snorra yfir Skarðið inn í Fljót og Flókadal eða inn í Stíflu. Stundum fórum við í styttri ferðir yfir á Ásinn og inn í Hólsdal, þá oft með mömmu, ömmu og frænku. Í mínum huga var Stella frænka nánast fullkomin og gat allt. Hún keyrði bíl, söng í kirkjukórnum, var falleg, glaðvær og alltaf glæsileg.

Eftir að ég flutti að heiman var alltaf mitt fyrsta verk að koma við hjá Stellu þegar ég heimsótti heimabæinn minn. Þá voru þau Knútur flutt í nýtt hús hinum megin við götuna. Heimili þeirra var einstaklega fallegt og bar vott um natni og frábæra smekkvísi enda Stella mikil hannyrðakona og kenndi um tíma handavinnu í Gagnfræðaskólanum. Knútur starfaði lengst af hjá Síldarútvegsnefnd, þar sem tungumálakunnátta hans kom sér vel, og sat í mörg kjörtímabil í bæjarstjórn.

Dugnaður og lífsgleði Stellu smitaði út frá sér í öllu sem hún tók sér fyrir hendur hvort sem það var í kennslu, kirkjukórnum eða kvenfélaginu. Hún naut þess að vera innan um fólk, var hafsjór af fróðleik og stálminnug. Þó að líkaminn væri farinn að gefa sig var viljinn og lífskrafturinn óbreyttur. Hún vílaði ekki fyrir sér að fara margar bílferðirnar suður til að hitta börnin sín og barnabörnin, núna síðast um jólin. Ef hún komst ekki með velviljuðum Siglfirðingum þá tók hún bara strætó.

Við fjölskyldan þökkum Stellu frænku samfylgdina og sendum börnum hennar, Fjólu og Óskari, og barnabörnunum innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Stellu frænku.

Ólöf Birna Blöndal.
--------------------------------------------------

Stella frænka mín var órjúfanlegur hluti af bernsku minni. Hún átti heima á efri hæðinni á Hávegi 65 á Siglufirði og foreldrar mínir á neðri hæðinni og var mikill samgangur á milli fjölskyldnanna. Mamma mín og Stella voru systradætur sem ólust upp saman í Hlíðarhúsi á Siglufirði. Foreldrar Stellu áttu Hlíðarhús og það þótti bara sjálfsagt að afi og amma fengju að vera þar líka og ala þar upp dætur sínar tvær. Samvinna og samheldni fjölskyldnanna í Hlíðarhúsi var einstök og aldrei bar skugga á samskipti þeirra.

Eftir að mamma Stellu dó árið 1972 sá hún um pabba sinn, sómamanninn Snorra í Hlíðarhúsi, sem var blindur síðustu 26 ár ævi sinnar. Innileg væntumþykja og gagnkvæm virðing þeirra feðgina var aðdáunarverð. Hlíðarhús var í eigu fjölskyldu Stellu í yfir 100 ár eða þar til hún ánafnaði Síldarminjasafninu húsið til minningar um foreldra sína.

Stella var ein af fáum konum á Siglufirði sem keyrðu bíl á mínum uppvaxtarárum. Fór ég ófáar ferðirnar með henni á Willys-jeppanum bæði til berja og í fjallagrasatínslu. Stella söng í kvennakórnum og kirkjukórnum í áratugi og tók hún mig oft með á kóræfingu á kirkjuloftinu þar sem ég fékk innsýn inn í töfraheim kirkjutónlistar. Stella frænka mín var stórglæsileg kona, eldklár og einstaklega góð við okkur börnin á neðri hæðinni og skynjuðum við væntumþykjuna alla tíð.

Árið 1973 fengu Stella og Knútur tvö fósturbörn, þau Fjólu og Óskar. Það var mikil gæfa þeirra allra. Börnin fengu öruggt skjól, umhyggju og kærleika og líf Stellu og Knúts varð innihalds- og gleðiríkara. Stella var einstaklega dugleg að heimsækja börnin sín eftir að þau fluttu frá Siglufirði.

Hún vílaði ekki fyrir sér á tíræðisaldri að fara með rútunni til Reykjavíkur til að hitta börnin, tengdabörnin og barnabörnin sem veittu henni ómælda gleði.

Hún hringdi í mig skömmu fyrir andlátið til að óska mér til hamingju með afmælið eins og hún gerði ávallt. Hress í rómi sagði hún að það væri orðið lítið eftir af sér líkamlega en minnið væri sem betur fer enn tiltölulega gott.

Stella frænka mín átti langa ævi og var tilbúin að yfirgefa þetta jarðlíf sátt við guð og menn. Þegar ég lít til baka sé ég hvað ég var heppin að hafa allt þetta góða fólk í kringum mig í æsku sem umvafði mann kærleika og hlýju en Stella er síðust af fjölskyldunni í Hlíðarhúsi til að kveðja þessa jarðvist. Ég þakka henni allar ljúfu minningarnar sem hún skilur eftir hjá mér og votta Fjólu, Óskari og fjölskyldum þeirra innilega samúð.

Guðrún Ó. Blöndal.
--------------------------------------------

Það var alltaf bleksterkt kaffið hjá henni Stellu frænku. Á ótal fundum okkar, þegar ég heimsótti minn gamla góða heimabæ, drukkum við kynstrin öll af þessum gæðadrykk. Alltaf spurði Stella: „Er þetta nokkuð of sterkt?!“ Ekki var um neinar kurteisisheimsóknir að ræða til frænku minnar, heldur setið klukkustundum saman og talað um allt milli himins og jarðar, en einkum þó minningar tengdar Hlíðarhúsum og fólkinu sem þar bjó.

Í Hlíðarhúsi bjuggu afi minn og amma, ömmusystir mín – móðir Stellu – og Snorri, pabbi Stellu. Í Syðra-Hlíðarhúsi bjó svo fjölskylda mín á neðri hæðinni, en á efri hæðinni fóstursystir þeirra systra og maður hennar ásamt tveimur börnum. Þau fluttu til Reykjavíkur um miðjan sjötta áratuginn. Þetta fólk ól okkur systkinin upp og veitti okkur alla þá hlýju og öryggi sem hægt er að bjóða barni. Samvinna og samheldni einkenndi líf þessarar stórfjölskyldu, heiðarleiki, auðmýkt, virðing og lítillæti. Það voru forréttindi að fá að alast upp innan um þetta gæðafólk.

Elztu minningar mínar tengdar Stellu eru af kórlofti Siglufjarðarkirkju. Stella söng í kirkjukórnum allt fram á elliár, og tók mig oft með sér, þegar messað var, þegar ég var barn. Fékk ég þá að sitja til hliðar við kórinn, hlusta á sönginn og fylgjast með Kobba sem handsneri sveif sem knúði orgelið, íklæddur svörtum fötum og hvítri skyrtu með slaufu. Þessar stundir voru þrungnar andakt og hátíðleika, og enn þann dag í dag get ég farið með messusöng séra Bjarna Þorsteinssonar. Mér líður alltaf vel í kirkju, og þakka það Stellu frænku og þessum stundum á kórloftinu.

Ég hef líka haldið því fram að hún hafi kennt mér að keyra bíl. Stella var afbragðsbílstjóri og keyrði gjarnan Willys-jeppa pabba síns, einkum eftir að hann varð sjóndapur og seinna blindur. Ég sótti í að fá að sitja í, veitti því nána athygli hvernig hún stjórnaði farartækinu og tel mig hafa lært heilmikið af henni.

Stella fór að eiga erfitt með að keyra bíl fyrir nokkrum árum og flutti þá í dvalarheimilið Skálarhlíð. Fram að því hafði hún búið í húsi sínu sem á táknrænan hátt var staðsett miðja vegu milli Hlíðarhúsanna. Því var ekki dónalegt, þegar ég gisti í mínu gamla bernskuheimili, að geta skotizt yfir til Stellu í kaffi eða þegar hún bauð mér í mat. Minni hennar var með ólíkindum, og enginn hefur frætt mig eins mikið um fjölskyldu mína, húsin tvö og lífsbaráttu fólksins fyrr og síðar.

Og nú er hún farin, blessunin. Mikið er ég þakklátur fyrir allar okkar samverustundir og fyrir að hafa átt hana að. Og mikið á ég eftir að sakna okkar samverustunda og bleksterka kaffisins. Minning hennar mun búa í hjarta mínu ásamt öllu yndislega fólkinu sem hefur átt þar fastan sess frá því ég var kornabarn – fólkinu í Hlíðarhúsum.

Fjólu og Óskari, mökum þeirra og börnum færi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Jósep Ó. Blöndal.
--------------------------------------------

Anna Snorradóttir stóð lengi í fararbroddi fyrir Kvenfélagið Von, þar sem hún starfaði sem formaður, gjaldkeri og var í forsvari fyrir starf flestra nefnda félagsins.

Hún lagði heimili sitt undir stjórnarfundi okkar um langt árabil og bauð upp á veitingar af mikilli rausn, enda var hún mjög gestrisin og ánægjulegt að ræða og skipuleggja næstu skref í starfsemi félagsins svo sem námskeið o.fl. sem félagið stóð fyrir.

Hún hafði umsjón með minningarkortasölu kvenfélagsins ásamt fleirum í mörg ár, er það mjög tímafrekt og bindandi starf sem hún sinnti af mikilli fórnfýsi.

Ég minnist ótal samverufunda okkar þar sem unnið var að bakstri laufabrauðs, undirbúningi að skemmtun eldra fólksins sem kvenfélagið hafði forustu um í mörg ár.

Ég er þakklát fyrir allar okkar góðu stundir sem gott er að minnast og eru mér svo dýrmætar.

Ég veit að við kvenfélagskonur minnumst hennar nú með söknuði en þegar við lítum til baka, þá er okkur kært að sameinast um að þakka henni fyrir þessi störf sem hún sinnti af einstakri alúð.

  • Yfir liðna ævidaga
  • lítum við á kveðjustund.
  • Minningarnar mörgu streyma
  • mildar fram í hljóðri lund.
  • Þú hið besta vildir veita,
  • vaxta allt sem fagurt var,
  • vinna, fórna, vaka, biðja,
  • vinunum til blessunar.
  • Liðnar stundir ljúft við gengum,
  • leiðir hér þá skilja nú,
  • frelsarans í faðmi blíða
  • felum þig í bjartri trú.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Ég þakka þér, Anna mín, allar góðar stundir og samfylgdina og sendi börnum þínum, barnabörnum og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.
----------------------------------------------

Auður Björnsdóttir.

Í dag er kvödd í Siglufjarðarkirkju mæt kona, Anna Snorradóttir. Hún var af þeirri kynslóð landsmanna sem þótti sjálfsagt að leggja sig fram um að vera virkur í samfélagi sínu og leggja mikið af mörkum í hinu unga, fullvalda ríki. Um áratugi lét hún mjög til sín taka í Kvenfélaginu Von við margskonar líknar- og menningarmál í þágu kvenna.

Þar var hún formaður í 18 ár og enn lengur í stjórn og sýndi þar mikinn myndugleika og fórnfýsi. Kvenfélag sjúkrahússins og Systrafélag Siglufjarðarkirkju nutu einnig krafta hennar og í sönglífi staðarins var hún lengi mjög virk, bæði í kirkjukórnum og kór eldri borgara, Vorboðakórnum.

Að hálfu var Anna ættuð frá Siglunesi og hálfu frá Akureyri. Föðurafi hennar, Stefán Ólafsson, og amma, Anna Sigurbjörg Jóhannesdóttir, fluttust bláfátæk til Siglufjarðar frá Akureyri árið 1907 með börn sín tvö, Sigríði Lovísu og Snorra.

Þau höfðu ætlað sér að hefja nýtt líf í Kanada en fyrir vald örlaganna misstu þau af Vesturfaraskipinu. Varð þá bjargarleiðin að róa á árabáti norður á Siglufjörð þar sem næga vinnu var að hafa í síldinni hjá Norðmönnum. Innan fárra ára var fjölskyldan orðin vel bjargálna, hafði unnið sig frá skuldum og keypt sér lítið timburhús til búsetu. Sem dæmi um velgengni þeirra fékk Snorri notið skólagöngu og nam vélfræði bæði heima á Siglufirði og í Reykjavík – auk þess að sigla með norsku síldarskipi til Noregs til þessa sama náms.

Snorri faðir Önnu varð síðar verksmiðjustjóri síldarverksmiðjanna Gránu og Rauðku – afskaplega vel liðinn og virtur borgari Siglufjarðar. Þessa merkilegu fjölskyldusögu sagði Anna okkur, starfsfólki Síldarminjasafnsins, leiddi okkur um hið gamla og fallega æskuheimili sitt að Hlíðarhúsi og miðlaði til okkar skriflegum gögnum með ítarlegum upplýsingum um líf og reynslu fólksins síns.

Þetta leiddi til fyrstu bókaútgáfu Síldarminjasafnsins er Saga úr síldarfirði leit dagsins ljós 2011 – bók sem hefur nýst vel í þágu fræðslu ungdómsins um síldarsöguna og verið safninu til sóma. Þar er fjölskyldusaga Önnu sögð sem dæmisaga um það að sá tími rann upp á Íslandi að fátækt fólk náði að vinna sig frá örbirgð til þokkalegrar velmegunar í eigin landi.

Einstökum og örlátum tengslum Önnu við Síldarminjasafnið gat, að hennar mati, varla lokið á annan veg en þann en hún ánafnaði safninu Hlíðarhús. Hús að stofni frá 1898 og er í hægri viðgerð.

Fyrir hönd Síldarminjasafnsins er Önnu Snorradóttur þakkað fyrir einstaka velvild og vináttu.

Örlygur Kristfinnsson og Anita Elefsen safnstjóri.
--------------------------------------------------------

Kæra vinkona, nú ertu komin í sumarlandið með Knúti þínum sem þú misstir alltof snemma. Sem þú talaðir um af svo mikilli virðingu og þú sagðir alltaf: „Hann Knútur minn.“

Okkar leið lá saman þegar ég gekk í kvenfélagið Von, þú varst þá formaður félagsins og ég stuttu seinna gerð að gjaldkera félagsins.

Þú kenndir mér þá ungri og óreyndri hvernig ég ætti að bera mig að í fundarsköpum og leiðbeindir mér á allan þann hátt sem þurfti og er ég þér mjög þakklát fyrir það. Og alveg frá þessum tíma hefur vinátta okkar aukist jafnt og þétt þó aldursmunurinn væri töluverður á okkur. Kvenfélagið átti hug þinn allan alveg fram á síðustu stundu, alltaf þegar ég kom í heimsókn til þín þá spjölluðum við um hvað væri á döfinni hjá kvenfélaginu.

Mikið sem þú varst búin að vinna í þágu þess, fara ótal ferðir til hinna ýmsu staða og keyrðir alltaf sjálf, en ekki var algengt þá að konur væru með bílpróf, til að fara á fundi hjá Sambandi kvenfélaga, og svo öll vinnan og undirbúningur fyrir laufabrauðsgerð, basara, hinar ýmsu skemmtanir fyrir eldri borgara, og öll samúðarkortin sem þú varst búin að sitja við og vélrita sem voru oft mjög mörg við hverja jarðarför, og aldrei taldir þú eftir þér að vinna í þágu kvenfélagsins. Það er virkilegur sjónasviptir að þér hér í bæjarfélaginu okkar og munum við kvenfélagskonur sakna þín.

Hvíl í friði, kæra vinkona, og hafðu það gott í sumarlandinu með Knúti.

Kæra Fjóla og Óskar, innilegar samúðarkveðjur til ykkar og fjölskyldna.

  • Ég sendi þér kæra kveðju,
  • nú komin er lífsins nótt,
  • þig umvefji blessun og bænir,
  • ég bið að þú sofir rótt.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Pálína Pálsdóttir.
-----------------------------------------

Anna Snorradóttir fæddist á Siglufirði 15. júní 1926. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands í Fjallabyggð 15. maí 2020.

Foreldrar Önnu voru Snorri Stefánsson, f. 1895, d. 1987, og Sigríður Jónsdóttir f. 1889, d. 1972. Anna var einkabarn.

Anna giftist Knúti Jónssyni, f. 1929, d. 1992, 17. október 1953.

Fósturbörn Önnu og Knúts eru:

  1. Hafdís Fjóla Bjarnadóttir, f. 1967, maki Jóhann Þór Ragnarson, f. 1965, dætur þeirra eru a) Anna Þóra, f. 1987, í  sambúð með Davíð Minnar Péturssyni, f. 1983, þeirra dóttir er Fjóla Minney, f. 2017, og b) Sandra Ósk, f. 2000.
  2. Óskar Einarsson, f. 1970, maki María Ben Ólafsdóttir, f. 1974. Þeirra börn eru Anna Metta, f. 2010, og Andri, Már f. 2013. Sonur Óskars af fyrra sambandi er Snorri Már, f. 1998.

Anna ólst upp í Hlíðarhúsi á Siglufirði. Anna lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1947. Hún stundaði nám í Húsmæðraskóla Reykjavíkur frá 1952 til 1953 og sótti ýmis kennaranámskeið á árunum 1971 til 1976. Anna var ritari hjá Sparisjóði Siglufjarðar frá 1947 til 1952, hjá Áfengisvarnarráði Reykjavíkur 1954 til 1957 og nokkur sumur hjá Síldarverksmiðjum Rauðku á Siglufirði. Hún var stundakennari í Gagnfræðaskóla Siglufjarðar á árunum 1961 til 1968.

Anna hafði mikla ánægju af félagsstörfum og var í stjórn kvenfélags Sjúkrahúss Siglufjarðar frá 1961 til 1980 og formaður frá 1977. Hún var í stjórn kvenfélagsins Vonar frá 1974 og formaður frá 1986. Anna var í Barnaheimilisnefnd frá 1972 til 1978 og í Lionessuklúbbi Siglufjarðar frá 1979 og formaður frá 1985. Anna var meðlimur í kirkjukór Siglufjarðar frá 1946 og í stjórn hans í 20 ár og í Kvennakór Siglufjarðar frá stofnun 1968 og formaður frá 1970.

Anna verður jarðsungin frá Siglufjarðarkirkju í dag, 6. júní 2020, klukkan 11.

Stella frænka fæddist snemmsumars 1926 í Hlíðarhúsi, þá hús í útjaðri Siglufjarðar, sunnarlega hátt uppi í hlíðinni. Hún lést nær 94 ára 15. maí 2020 í Skálarhlíð á Siglufirði. Hún var augasteinn foreldra sinna, Snorra Stefánssonar, framkvæmdastjóra Rauðku, og Sigríðar Jónsdóttur húsfreyju.

Í minni minningu var Hlíðarhús öðruvísi veröld en ég sá annars staðar. Þau héldu kindur og hænsni og að koma þar var eins og að stíga inn í ævintýri. Í Hlíðarhúsi var ekki bara borðstofa heldur líka betristofa og allt svo fínt, fágað og framandi. Þarna ólst Stella frænka upp, eina barn foreldra sinna. En hún átti fjölmörg frændsystkini sem áttu heima á Siglufirði og á Siglunesi en sum þeirra dvöldu í Hlíðarhúsi þegar þau sóttu skóla á Siglufirði.

Móðir Stellu var náin systrum sínum og sérlega kært með þeim og þeirra fjölskyldum. Ég man ekki hvenær ég gerði mér grein fyrir því að hún Stella frænka bæri ekki það nafn. Hún var skírð í höfuðið á móðurömmu sinni, Önnu. Hvernig hún fékk þetta gælunafn veit ég ekki en í fjölskyldunni var hún alltaf Stella frænka.

Ein af fyrstu minningum mínum um Stellu frænku var þegar ég sá hana leika í Ævintýri á gönguför með Leikfélagi Siglufjarðar. Hún var svo flott og glæsileg á sviðinu með ljósu lokkana sína og svo söng hún svo vel. Ég, stelpuskottan, var upp með mér af frænku minni. Svo man ég hana keyrandi flotta jeppann hans Snorra.

Það var ekki algengt þá að konur keyrðu bíla. Það var líka töff. Stella var glæsileg kona og ávallt einstaklega falleg til fara. Sannkölluð dama. Hún var í saumaklúbbi með mömmu og frænkunum Grétu Björnsdóttur Blöndal og Önnu Björnsdóttur og fleiri vinkonum. Okkur systkinum mínum þótti voða gaman að því þegar var saumaklúbbur heima að sjá þessar prúðbúnu flottu konur.

Með fullri virðingu fyrir þeim öllum var Stella flottust fannst mér. Hún hafði unun af listum, einkum tónlist og myndlist en líka ljóðlist. Ég komst að því fyrir fáeinum árum þegar ég sagði henni að ég væri að reyna að læra Einræður Starkaðar. Skáldskapur Einars Ben væri engum líkur og byrjaði að þylja:

  • Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
  • sem dropi breytir veig heillar skálar.
  • Þel getur snúist við atorð eitt.
  • Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Þá tók Stella við:

  • Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast
  • við biturt andsvar, gefið án saka.
  • Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
  • sem aldrei verður tekið til baka.

Þarna kom Stella mér á óvart. Hún var orðin níræð og ég hafði ekki vitað um sameiginlega ást okkar á þessum skáldskap. Stella talaði fallega íslensku og var oft afskaplega skemmtilega hnyttin.

Stuttu eftir að ég varð sjötug kom ég til hennar og við vorum að ræða saman og ég segi eitthvað á þá leið að ég skilji þetta bara ekki, mér finnist ég ekkert orðin sjötug, og þá segir Stella: það er nú bara ekkert skrítið, mér finnst ég ekki einu sinni vera orðin níræð.

Hún átti mikið bókasafn. Ein bók var henni mjög kær. Hana höfðu pabbi og systir hans gefið henni þegar hún var veik af berklum. Áritunin var listilega skrautskrifuð:
Til Stellu frá Diddu og Dodda. Henni þótti afskaplega vænt um þá bók.

Hún söng í kirkjukór Siglufjarðar áratugum saman og líka í blönduðum kórum. Stella var félagslynd og var virk í kvenfélagi Slysavarnafélags Íslands, kvenfélaginu Von og formaður þess lengi. Svo verður að geta þess að hún var félagi í Sjálfstæðisfélagi Siglufjarðar alla tíð. Hún lét víða gott af sér leiða, ekki bara með sjálfboðastarfi víða heldur sýndi hún hug sinn til samfélagsins á Siglufirði þegar hún gaf æskuheimili sitt, Hlíðarhús, til Síldarminjasafnsins þar.

Stella frænka veiktist ung af berklum og sú reynsla varð henni þungbær. Það var líka mikið áfall þegar faðir hennar, Snorri, missti sjónina rétt á miðjum aldri. En mesta áfallið í hennar lífi var þegar hún varð ekkja 1992. þás lét Knútur Jónsson maðurinn hennar aðeins 63 ára að aldri. Þau kynntust í Versló og eftir að Knútur lauk háskólanámi árið 1954, sem hann hafði stundað í Noregi, Danmörku, Spáni og Róm, settust þau að á Siglufirði og farnaðist vel.

Stella vann utan heimilisins skrifstofustörf en kenndi líka um skeið handmennt við Gagnfræðaskóla Siglufjarðar. Það varð þeim hjónum mikil gæfa að fá á sitt heimili systkinin Fjólu og Óskar. Talaði Stella oft um það hve mikið gæfuspor það var. Hún elskaði þau eins og þau væru hennar eigin.

Gleðin og hamingjan varð svo ekki minni við að eignast barnabörnin að ég tali nú ekki um að fá langömmubarnið fyrir fáeinum árum. Fjóla og Óskar sýndu mömmu sinni mikinn stuðning, ást og kærleika. Hún kom til þeirra að norðan hver jól og líka þegar börnin fæddust og áttu afmæli og þau voru dugleg að heimsækja hana á Siglufjörð. Hún var afar sæl að sjá fjölskylduna sína dafna.


Stella frænka var einstaklega sjálfstæð kona. Hún hafði líka mikla þörf fyrir að bjarga sér sjálf. Hún var og höfðingi heim að sækja. Stella bjó í húsinu sínu fram á tíræðisaldurinn og keyrði sinn bíl. Fyrir um það bil tveimur árum ákvað hún að nú væri nóg komið, seldi húsið og bílinn og flutti út í Skálarhlíð. Svona gat hún haft þetta vegna stuðnings sinna nánustu, barna sinna og góðra granna.

Stella frænka var sátt við guð og menn og tilbúin að kveðja. Hún var mér fyrirmynd í mörgu og ég er þakklát henni fyrir það og okkar vináttu. Ég á eftir að sakna þess að geta ekki hringt, spjallað og litið til hennar í Skálarhlíð á ferðum mínum norður. Hún var eldklár í kollinum, fylgdist vel með og var nútímaleg þó ræturnar lægju aftur á nítjándu öldina. Ég og fjölskylda mín vottum börnunum hennar og fjölskyldum þeirra samúð við fráfall þessarar góðu konu, móður, ömmu og langömmu. Guð blessi minningu Önnu Snorradóttur.

Árdís Þórðardóttir