Anna Jóhannsdóttir -- 1863

Andlát. Hinn 27. f.m.  1947, lézt á heimili sonar síns, Jóhanns Sveinbjörnssonar tollþjóns, frú Anna Jóhannsdóttir, fædd 30. júlí 1863, 84 ára að aldri. Varð hún bráðkvödd, en var hress og ern allt fram á banadægur. Frú Anna var þrígift.

Fyrsti maður hennar var Sveinbjörn Halldórsson, faðir Jóhanns tollþjóns, sem allir Siglfirðingar kannast við, og Tryggva sendiráðsritara og leikritaskálds -í Kaupmannahöfn.

Síðar giftist hún Sigurði Jóhannssyni bónda  á Selá á Árskógsströnd, og eignuðust þau tvo syni, Tómas og Sveinbjörn, sem báðir eru látnir. —

Þriðji maður hennar var Ólafur Jónsson kennari frá Hallgilsstöðum, er um langt skeið stundaði barnakennslu og sundkennslu víða um Eyjafjarðarsýslu. Varð þeim ekki barna auðið.

Af bræðrum frú Önnu eru þrír á lífi. Eru það þeir Jón Tryggvi á Tjörn, fæddur 1856, Þorleifur á Hóli á Upsaströnd, fæddur 1857 og Hjörleifur áður bóndi á Knappstöðum í Fljótum, en nú búsettur á Dalvík. Er hann 77 ára að aldri.