Jón Jóhannsson skipstjóri

Mjölnir - 21. desember 1962 -  MINNINGARORÐ -

Í fyrradag fór fram frá Siglufjarðarkirkju útför Jóns Jóhannssonar skipstjóra, er fórst af slysförum á Akureyri hinn 11. þ. mán. Jón Jóhannsson var fæddur á Brekku í Svarfaðardal 27. júní 1906.

Foreldrar hans voru Jóhann Sveinbjörnsson bóndi þar og kona hans Sesselja Jónsdóttir.

Þegar Jón var 10 ára gamall fluttust foreldrar hans að Sauðanesi í sömu sveit. Þar fékk hann sín fyrstu kynni af sjómennskunni, sem varð ævistarf hans, þegar undan eru skilin fáein ár, sem hann var verkstjóri. Byrjaði hann sem ungur drengur á Sauðanesi að fara á sjó með föður sínum. Er hann var 16 ára gamall, flutti fjölskyldan til Reykjavíkur, og þar hófst sjómennskuferill Jóns fyrir alvöru.

M. a. var hann nokkra vetur á togurum. Þá voru vökulögin ný af nálinni, og bar talsvert á, að þau væru ekki virt, og vinnudeilur og verkföll voru tíð. Þar fékk Jón sín fyrstu kynni af verkalýðshreyfingunni og flokki hennar, Alþýðuflokknum. Jón sagði mér eitt sinn, að togaravertíðirnar á unglingsárum sínum væru þeir verstu dagar, sem hann hefði lifað.

Jón Jóhannsson -  Ljósmynd: Kristfinnur

Jón Jóhannsson - Ljósmynd: Kristfinnur

Hafði hann þá ekki verið fullharðnaður, en vökur og þrældómur slíkur, að hann hefði oftast verið úrvinda af svefnskorti og þrældómi, og hafnarfríin hefði hann og flestir skipsfélagar hans notað til að sofa. Hefði hann þá fengið sig svo saddan af togarasjómennskunni, að þrátt fyrir það að hann vissi, að vinna og aðbúnaður á togurum væri nú gerbreytt frá því sem þá var, mundi hann reyna flest önnur ráð til að vinna fyrir sér áður en hann færi um borð í togára.

Á þessum árum mun hann oftast hafa verið á síld eða við róðra hér fyrir norðan á sumrin. Tuttugu og tveggja ára gamall varð hann fyrst formaður á bát héðan frá Siglufirði, og stundaði oftast sjó héðan eftir það, sem skipstjóri eða stýrimaður á bátum héðan, að undanteknu 10 ára tímabili, sem hann var verkstjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. Var hann farsæll skipstjórnarmaður, drjúgur aflamaður og fór vel með skip og veiðarfæri.

Árið 1929 kvæntist Jón Elín Flóventsdóttir, héðan frá Siglufirði, og lifir hún mann sinn. Eignuðust þau þrjá syni:

  1. Bragi Jónsson, veðurfræðing í Reykjavík,
  2. Jóhann Sverrir Jónsson, tannlæknir, búsettan hér, og
  3. Héðinn Jónsson, háskólastúdent.

Lét Jón sér mjög annt um syni sína og greiddi götu þeirra til náms eins og hagur hans frekast leyfði. Eins og áður segir varð Jón snemma handgenginn verkalýðshreyfingunni og stjórnmálasamtökum hennar. Hörð verkalýðsbarátta og sósíalismi forustumanna Alþýðuflokksins mótuðust honum til æviloka.

Var hann alla ævi eindreginn sósíalisti í skoðunum og skildi flestum betur nauðsyn einingarinnar í baráttu vinnandi fólks fyrir betri lífskjörum.

Var hann jafnan í vinstri armi Alþýðuflokksins, og þegar til orða kom að sameina Alþýðuflokkinn og Kommúnistaflokkinn gerðist hann einnig talsmaður sameiningarinnar í Alþýðuflokknum og naut mikils trausts vinstri manna.

M.a. tókst hann á hendur erindrekstur til að tala máli sameiningarsinna í verkalýðsfélögunum hér norðanlands, og átti sæti í samninganefnd þeirri, sem kjörin var á Alþýðusambandsþingi 1937 til samninga við Kommúnistaflokkinn. Þegar svo Sósíalistaflokkurinn var stofnaður 1938, var hann einn þeirra Alþýðuflokksmanna, sem gerðust stofnfélagar hans.

Nokkrum mánuðum áður hafði Jón verið kjörinn í bæjarstjórn Siglufjarðar sem fulltrúi Alþýðuflokksins á sameiginlegum lista þess flokks og Kommúnistaflokksins, en lagði niður umboð sitt eftir stofnun Sósíalistaflokksins, eftir tilmælum fyrri félaga sinna í Alþýðuflokknum. Lýsir þetta Jóni vel.

Lagalega hafði hann fullan rétt til að fara áfram með umboð sitt sem bæjarfulltrúi, en þótt hann vildi vinna hinum nýja flokki sínum, sem hann hafði lagt mikið á sig til að koma á fót, kaus hann heldur að leggja niður umboð sitt en láta nokkurn mann draga í efa, að hann væri með það á réttum forsendum.

Hann var ákaflega vandur að virðingu sinni og í félagsmálastarfsemi sinni gerði hann sér flestum betur far um að líta hlutlægt á málin. Enda naut hann trausts og virðingar andstæðinga jafnt og samherja í félagsmálum. M. a. var hann fyrsti formaður Þróttar, er verkalýðsfélögin hér voru sameinuð.

Ekki kann ég að rekja félagsmálastörf Jóns nákvæmlega, en hann átti oft sæti í stjórnum verkalýðsfélaganna hér, starfaði mikið í bæjarstjórn og nefndum bæjarstjórnar, einkum fyrr á árum, og í stjórn og fulltrúaráði Sósíalistafélags Siglufjarðar átti hann sæti öll þau ár sem hann var í flokknum eða frá stofnun hans, að undanskildum örfáum árum  sem hann var utan flokka.

Hefur sósíalistafélagið misst einn af sínum beztu mönnum, þar sem Jón var. Jón var harðgreindur maður, hafði gott minni og var fljótur að átta sig á hlutunum, en tók aldrei afstöðu án þess að hugsa málin og athuga þau vandlega fyrst. Æsingar annarra höfðu engin áhrif á hann, en hann gat orðið talsvert heitur stundum, ef honum þótti mikið í húfi.

Ræðumaður var hann ágætur, talaði fagurt mál, og talaði það vel. Rödd hans var björt og þýð og ákaflega blæbjört, og honum varð aldrei orðs vant.  Hefi ég engan mann heyrt flytja betri ræðu en Jón, þegar honum tókst bezt upp, og lélega ræðu hygg ég að hann hafi aldrei flutt.

Jón var fremur dulur í skapi og hlédrægur að eðlisfari. Hann var góður hagyrðingur, en lét lítið á því bera. Einkamálum sínum flíkaði hann aldrei við aðra menn, og sóttist ekki eftir kunningsskap annarra, né heldur vegtyllum af nokkru tagi. Hygg ég, að hann hefði helzt kosið að lifa í kyrrþey og friði við alla.

En þegar um það var að velja að sitja hjá eða leggja út í baráttu vegna málefnis, sem hann taldi gott, þá kaus hann heldur baráttuna. Það taldi hann skyldu sína, og frá skyldum sínum hljópst hann ekki. Ég votta eiginkonu Jóns heitins, sonum þeirra, öldruðum föður hans og öðrum vandamönnum hans innilegustu samúð mína.

Benedikt Sigurðsson.
---------------------------------------------------------------

Banaslys Hinn 11. des. s.l. lézt af slysförum Jón Jóhannsson, skipstjóri, Norðurgötu 13, Siglufirði, 56 ára að aldri. Jón var skipstjóri á m.b. Særúnu frá Siglufirði. Hafði Jón farið með skipi sitt til Akureyrar til viðgerðar og var Særún þar uppi í slipp er slysið varð.

Var Jón á leið upp stiga um borð í Særúnu, en féll þá niður úr stiganum og var örendur er að var komið. Jón stundaði sjómennsku lengst af og var um mörg ár skipstjóri á mótorbátum frá Siglufirði.

Hann lætur eftir sig konu: Elínu Flóventsdóttur og þrjá uppkomna syni.

Jón var greindur og góðviljaður drengskaparmaður, eins og hann á kyn til. Svarfdælingur að ætt, sonur Jóhanns Sveinbjörnssonar, sem lengi var tollþjónn í Siglufirði.