Jakob Gunnlaugsson – (Kobbi mall) ?

Jakob Gunnlaugsson – Fæddur 12. ágúst 1888. — Dáinn 7. desember 1962

Þann 7. þ. m. andaðist á Sjúkrahúsi Siglufjarðar Jakob Gunnlaugsson verkamaður, eftir skamma sjúkrahúsvist. Jakob var 74 ára er hann lézt. Meðan heilsa og starfsþrek entist starfaði Jakob heitinn að því ásamt öðrum þeim Siglfirðingum sem nú eru orðnir vel við aldur, að breyta bænum okkar úr útlendri verstöð í innlent bæjarfélag.

Í hópi starfsfélaga var þessi hægláti verkamaður vinsæll og dæmi eru þess, að hann hafi notið sérstakrar vinsemdar vinnufélaga sinna og húsbænda. Þótt Jakob heitinn færi á mis við menntun og skólagöngu, gat hann vel komið fyrir sig orði, og ef með þurfti sagt öðrum til syndanna, en sá eiginleiki nýtur ávallt virðingar verkamanna, og sérstaklega ef sá hinn sami er ekki talinn standa hátt á borgaralega vísu.

Mörg undanfarin ár bjó Jakob í Pálsbænum við Lindargötu og hugsaði um sig sjálfur að öðru leyti en því sem góðir nágrannar litu til með honum. Margar munu þær ferðirnar sem Jakob fór til vinar síns Páls, eftir að hann var kominn á efri ár og sagði honum þá gjarnan frá atburðum dagsins, en Páll þá ekki orðinn fær um að vera mikið úti við. Vænti ég Jakob hafi nú fært vini sínum nokkrar fréttir úr okkar kæra bæjarfélagi.

Jakob heitinn var ekki einn þeirra er kvarta þótt ekki sé hægt að veita sér það sem hugurinn þráir, en hann taldi að bæjarfélaginu bæri nokkur skylda til, að gleyma þeim ekki, er unnið hafa langan vinnudag, en væru nokkurs þurfi hinztu árin, en vart verður því haldið fram að bæjarfélagið sói fé til að gera vistarverur slíkra meðbræðra sem Jakobs heitins ríkmannlegar.

Skoðanalega var Jakob heitinn einlægur verkalýðssinni og heitur andstæðingur yfirgangs og afturhalds, hann fylgdist vel með þeim atburðum, sem bárust utan úr heimi, og gerði sér mörgum írekar grein fyrir þeirri frelsisbaráttu sem þar á sér stað milli alþýðunnar og yfirstéttanna. Engum gat Jakob óskað verra hlutskiptis en vera kominn til Þýzkalands, en gert mun hann hafa sér grein fyrir að þar, í ríki nazismans, hafi mannvonzka lagzt lægst.

Jæja kunningi Jakob, þakka þér fyrir öll árin, sem við höfum þekkzt, það var oft hressandi að hitta þig og þú eyddir ekki ítímanum í málalengingar, og slíkum mönnum lærir maður vissulega margt af að kynnast.

Vinur.
-------------------------------------- 

Smásaga höfð eftir Leo R Ólasyni, saga tengd Kobba mall

Andrés Hafliðason Siglufirði, hann rak um tíma fata og skóverslun. Einhvern tíma hættir hann þó að versla með skófatnað og margir af eldri íbúunum í bænum hafa talið sig vita skýringuna. 

Kona hans Ingibjörg Jónsdóttir, á að hafa verið svo gjafmild að hún hafi rýrt svo lagerinn, að verslunin hafi vart borið sig. 

Ef hún sá illa skóuð börn sem voru frá heimilum þar sem efnin voru ekki mikil, átti hún það til að kalla á þau inn til sín, og þegar þau fóru út frá henni aftur voru þau komin á splunkunýjan skófatnað. 
Andrés mun hafa látið þetta afskiptalítið lengi vel, en einfaldlega gefist upp á rekstrinum að lokum.

Kobbi mall bjó í litlu húsi fyrir neðan kirkjuna og þótti karlinn sjaldnast mjög þrifalegur eða allt of vel til fara. 

Eitt sinn var Andrés Hafliðason sem var einnig meðhjálpari, að gera klárt fyrir messu á aðfangadag. Hann hafði verið í kirkjunni frá því um miðjan dag og kom ekkert heim fyrr en að athöfninni lokinni. 

Skömmu áður en messan hófst, hafði Kobbi átt erindi niður í bæ, Ingibjörg Jónsdóttir kona Andrésar rekist á hann og fundið út að hann átti engin jólaföt sem henni fannst auðvitað alveg ótækt. 

Þegar Andrés var svo kominn heim og allir sestir yfir jólamatinn verður honum að orði: “Hann Kobbi var vel til hafður í dag” og svo var ekki talað meira um það. 

Ingibjörg hafði nefnilega klætt Kobba upp í splunkuný grá jakkaföt með vesti og bindi sem Andrés hafði nýlega keypt, og Kobbi mætt í þeim til kirkju.