Jóhannes Kristinn Sigurðsson

Mbl.is 23. September 1998

Jóhannes Sigurðsson fæddist á Hólum í Fljótum 4. júlí 1910. Hann lést 14. september 1998.
Foreldrar hans voru Sigurður Jónsson, f. 19.8. 1883, d. 9.1. 1961, og Björnonýja Hallgrímsdóttir, f. 22.9. 1885, d. 19.10. 1979.

Jóhannes átti sex bræður og eina systur sem öll eru látin, nema Gestur Sigurðsson, f. 18.12.1918, sem býr í Reykjavík.

Jóhannes kvæntist 8. nóvember 1932 Laufey Sigurpálsdóttir, f. 23.12. 1913, dóttur hjónanna Sigurpáls Sigurðssonar og Ingibjargar Jónsdóttur, Steindyrum í Svarfaðardal.

Jóhannes og Laufey hófu búskap í Siglufirði og eignuðust þrettán börn; tólf þeirra komust upp og er eitt þeirra látið, Birna Helga, f. 24.11. 1941, d. 9.2. 1993.

Jóhannes og Laufey slitu síðar samvistir. Jóhannes stundaði verkamannavinnu og smíðar í upphafi starfsævinnar.

Árið 1951 gerðist hann síldarmatsmaður og vann við það á sumrin og haustin, en verkstjóri hjá Hraðfrystistöð Vestmannaeyja frá áramótum til vors. Eftirlitsmaður hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna frá 1959 til starfsloka 1982.

Jóhannes Sigurðsson - ókunnur ljósmyndari

Jóhannes Sigurðsson - ókunnur ljósmyndari

Útför Jóhannesar fer fram frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Það hefur alltaf verið svo sjálfsagt að fara og heilsa upp á tengdapabba þegar ég hef verið í heimsókn á Íslandi. Labbitúrinn að Grund var í mörg ár hluti af því sem ég hlakkaði til og tilhugsunin að hitta Jóhannes að máli, þótt það væri ekki nema stutt stund hverju sinni, var blönduð sorg yfir sjúkdómslegu hans en jafnframt gleði yfir að eiga hann að vini. En nú er af sem áður var.

Jóhannes Sigurðsson varð tæplega níræður og hefði ábyggilega orðið fjörgamall ef hann hefði ekki orðið fyrir því óláni sem svipti hann þeirri lífsorku og athafnasemi, sem einkenndi fyrstu árin eftir að hann með góðri samvisku naut þess að þungu daglaunastriti var lokið.

Tengdafaðir minn var meðalmaður á hæð, þéttvaxinn og ljós yfirlitum. Hann hafði sérstaklega hlýlegt viðmót sem einkenndi augnatillit og yfirbragð allt. Lítillátur og hógvær, fámáll en kýminn og léttur í lundu.

Þetta eru varla samnefnarar allra Fljótamanna, en mér er sagt að það séu einungis höfðingjar sem eiga rætur sínar þangað að rekja, svo og Jóhannes, en hann er frá Hólum í Fljótum. Konu minni, systkinum hennar, og afkomendum, ættingjum og aðstandendum votta ég samúð mína. Ég kveð þig með orðum Bólu Hjálmars:

  • Fæðast og deyja í forlögum
  • frekast lögboð ég veit,
  • elskast og skilja ástvinum
  • aðalsorg mestu leit,
  • verða og hverfa er veröldum
  • vissasta fyrirheit,
  • öðlast og missa er manninum
  • meðfætt á jarðarreit


Ljótur Magnússon.