Þórarinn Hjálmarsson fv. vatnsveitustjóri

Morgunblaðið - 12. desember 1980

Þórarinn Hjálmarsson — Minningarorð

Fæddur 7. febrúar 1907. Dáinn 2. desember 1980. Þórarinn var fæddur að Húsabaki Suður-Þingeyjarsýslu 7. dag febrúar 1907, sonur hjónanna Kristrúnar Snorradóttur og Hjálmars Kristjánssonar.

Ungur að árum fluttist Þórarinn með foreldrum sínum að Engidal vestan Siglufjarðar en hingað til bæjarins fluttist fjölskyldan árið 1927 og hefur Þórarinn dvalið hér síðan.

Árið 1931 kvæntist Þórarinn Arnfríði Kristinsdóttur og áttu þau einn son,
Ásmund Óskar, (Ásmundur Þórarinsson) sem kvæntur er og búsettur í Garði Gerðum.

Árið 1942 var Þórarinn ráðinn vatnsveitustjóri hér í bæ og gegndi því starfi þar til fyrir fáum árum að hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Okkar kynni urðu fyrst árið 1948 í júnímánuði að ég vann hjá vatnsveitunni við að grafa skurð frá Dælustóðinni á firðinum og upp Skardalsengið, þegar verið var að leggja þá vatnsveitu, sem hefur dugað bænum fram á þennan dag. Frá þessum tíma hafa leiðir okkar Þórarins legið saman, mismikið, í gegnum árin í félagsmálum.

Þórarinn Hjálmarsson

Þórarinn Hjálmarsson

Einn er sá þáttur í lífi Þórarins, sem ekki má gleymast, það er leiklistarstarfsemin. Þau eru ófá hlutverkin sem Þórarinn lék í fyrir Stúkuna Framsókn og Leikfélag Siglufjarðar, áhorfendum til óblandinnar ánægju. Ég tel að leiklistin hafi Þórarni verið í blóð borin, enda tilfinningamaður og túlkaði því þau hlutverk, sem hann tók að sér, af næmni og smekkvísi.

Öll þau ár sem ég þekkti Þórarin var hann virkur félagi í Stúkunni Framsókn, sem starfaði hér af miklum þrótti um mörg ár. Þórarinn missti konu sína árið 1976 eftir langan sjúkdóm. Það vakti athygli þeirra sem til þekktu sú nærgætni og umhyggja sem hann sýndi konu sinni þau ár er hún var sjúklingur. Ekki verður skilist við þessi orð án þess að getið verði um hugðarefni, sem honum var svo hugstætt, kindurnar, þessir ferfætlingar, sem áttu hug hans.

Þórarinn átti kindur öll þau ár er hann var hér þar til á liðnu hausti, að undanteknum tveimur árum, sem sauðlaust var hér í Siglufirði og grennd, vegna sjúkdóms í fénu. Eitt var það í fari Þórarins sem laðaði fólk að honum, það voru frásagnarhæfileikar hans og kímnigáfa, ásamt hagmælsku, en Þórarinn var vel hagmæltur. Það fylgdi Þórarni hressandi andblær og manni leið vel í návist hans.

Ekki var Þórarni kvillasamt um ævina en fyrir um ári síðan bar á þeim sjúkdómi, sem leiddi til skapadægurs hans. Þórarinn hefur verið nú í tæpt ár á sjúkrahúsi í Reykjavík og hér í Siglufirði og hefur sýnt frábæra stillingu og æðruleysi. Þórarinn kvartaði ekki þennan tíma sem hann lá rúmfastur, þvert á móti; maður fór hressari í huga af hans fundi, léttleikinn og glaðværðin voru alltaf yfirsterkari öðrum málefnum.

Ég álít að ég hafi kynnst Þórarni bezt nú á liðnu sumri er ég heimsótti hann að sjúkrabeði. Þann lærdóm sem ég fékk við þessar heimsóknir mun ég geyma mér í minni með þakklátum hug. Þar sá ég hvað er að sýna æðruleysi í raun. Þórarinn fæddist er sól fór hækkandi, með vaxandi birtu og eftir nokkra daga gengur í garð ljóssins hátíð með hækkandi sól. Þannig vil ég minnast hans, enda var ávallt bjart í kringum hann. Útför Þórarins var gerð frá Siglufjarðarkirkju þriðjudaginn 9. des. Aðstandendum öllum sendi ég samúðarkveðjur.

Ég bið Þórarni guðs blessunar í ferðina sem bíður okkar allra.
Bið ég guð að vera hjá vini mínum og vernda á nýjum ævibrautum.


Siglufirði í des. 1980, Ólafur Jóhannsson.
--------------------------------------

Mjölnir - 20. desember 1980

Þórarinn Hjálmarsson Minning

Mánudaginn 2. desember andaðist Þórarinn Hjálmarsson, fyrrum vatnsveitustjóri. Hann var jarðsettur þriðjudaginn 9. sama mánaðar. Þórarinn var einn af þekktari borgurum þessa bæjar. enda starfsmaður Siglufjarðarbæjar um 35 ára skeið. Ég hygg líka að hann hafi verið með vinsælli borgurum bæjarins.

Þórarinn var fæddur á að Húsabakka i Aðaldal 7. febrúar 7. febrúar 1907. Foreldrar hans voru Hjálmar Kristjánsson og Kristrún Snorradóttir. bæði af merkum þingeyskum bændaættum. A Húsabakka ólst hann upp í stórum systkinahópi, þar til hann var 18 ára. Þá fluttist hann með foreldrum sínum og systkinum til Siglufjarðar og bjó fjölskyldan fyrst í Engidal.

Fyrstu ár sín í Siglufirði stundaði hann sjómennsku, en síðan lærði hann á bíl og var með þeim fyrstu á Siglufirði, sem tók bílpróf. Bílkeyslu stundaði hann síðan þar til hann gerðist vatnsveitustjóri bæjarins 1942.

Kona Þórarins var Arnfríður Kristinsdóttir.
Ekki varð þeim barna auðið, en Þórarinn ættleiddi son hennar, Ásmund Þórarinsson, og reyndist honum sem besti faðir. Hjónaband þeirra var einkar gott, og sérstaklega var eftirtektarvert. hve Þórarinn var konu sinni nærgætinn eftir að hún missti heilsuna. Hún er nú látin fyrir nokkrum árum.

Ekki hafði Þórarinn sig mikið í frammi á opinberum vettvangi, en þar sem hann starfaði í félagsskap var hann vel liðtækur og hlífði sér ekki við störfum. Ég kynntist Þórarni fyrst sem félaga í stúkunni Framsókn. Hann var einlægur og áhugasamur bindindismaður og vegna mannkosta sinna var hann þar oft í trúnaðarstörfum, til dæmis lengi æðsti templar og einnig umboðsmaður stórtemplars.

Sú félagsstarfsemi. sem Þórarinn var þó þekktastur fyrir var leikstarfsemi. Hann var mikill áhugamaður um leiklist og starfaði mikið að því á vegum stúkunnar. Að mínu viti hafði hann mikla hæfileika til að bera á því sviði og gerði oft góða hluti á leiksviðinu. Mér var einnig kunnugt um að hann var vel lesinn í bókmenntum, einkum ljóðum og bar gott skyn á ljóð, einkum eldri skálda, og kunni mörg utanbókar og flutti þau vel.

Hann var líka ágætur hagyrðingur. en ekki birti hann þó eftir sig neitt að ráði. nema helst gamanvísur. sem oft voru mjög haglega gerðar. en þó jafnan græskulausar. Þótt Þórarinn leysti með prýði allt vel af hendi. sem hann tók sér fyrir hendur. þá hefði honum þó að líkindum fallið betur annað ævistarf. Hann var fæddur í sveit og dvaldi þar til manndómsára. og líklega hefði bóndastarfið átt best við hann.

Hann átti lengst af nokkrar kindur sér til gamans og kunni vel með þær að fara. Þórarinn var ákaflega prúður og þægilegur í dagfari og gat verið hrókur alls fagnaðar í vinahópi. Hann hafði sínar ákveðnu skoðanir á hverju máli. en hann kunni jafnframt að virða skoðanir annarra og var frábitinn stælum. Banalega hans var nokkuð löng og ströng. Það er því ekki ástæða til að harma. þó að nú sé lokið þjáningum hans. En við vinir hans munum þó alltaf minnast hans með söknuði.

Hlöðver Sigurðsson.
--------------------------------
Einherji - 1980

Góður samferðamaður er kvaddur. Glaður og reifur gekk hann fram. þótt hann vissi sitt endadægur skammt undan. Hann vissi um sigð dauðans. sem yfir honum vofði og þann grimma sjúkdóm. sem varð hans bani. En hugrekkið, karlmennskan og glaðlyndið brást ekki. „Drottinn leikinn setti á svið, sagan borgar gjaldið. Dáðlaust hlutverk daðra ég við, dauðinn fellir tjaldið." Þannig kvað Þórarinn sjálfur um hin óhjákvæmilegu leikslok.

Sókrates líkti dauðanum við svefn. hinn sæta svefn. Og ef svo væri teldist hann mikill ávinningur. Ef dauðinn væri brottför héðan á annan stað og betri, taldi hann það mikið hnoss. En slíkt væri hulið öllum nema guðunum. En hann taldi dauðann vera óhjákvæmilegt ævintýri.

Þegar heilsan er horfin og engin batavon er framundan, er dauðinn vissulega náðargjöf. Það er gott að gata tekið því, sem að höndum ber með hetjulund og kjarki. Þetta er sú leiðin, sem við öll eigum að fara.

Þórarinn Hjálmarsson var fæddur að Húsabakka í Aðaldal. Foreldrar hans voru hjónin Kristrún Snorradóttir frá Geitafelli í Aðaldal og Hjálmar Kristjánsson frá Hömrum í Reykjadal. Ættmenn og áar Þórarins voru flestir hreinræktaðir Þingeyingar, svo langt aftur sem vitað er.

Mikil hagmælska og fróðleiksfýsn voru ríkjandi eiginleikar beggja foreldranna og ættmenna hans. Kristján Jónsson Fjallaskáld og Kristján Hjálmarsson afi Þórarins voru bræðrasynir. Vatnsenda-Rósa var langa-langömmusystir hans. Þessa ættarhæfileika erfði Þórarinn, og hagmælskan og fróðleiksþorstinn hefur vissulega stytt honum marga raunastund og einnig aukið gleði hans og samferðamannanna.

Hann gladdist yfir lífinu og dásemdum þess, og elskaði sína heimahaga og ættarland. Kom þetta fram í ljóðum hans. Ekki verður hér greint frekar frá ættfólki hans né uppvaxtarárum, en fátækt fylgdi stórum fjölskyldum og ávallt hefur þurft mikið þrek til þess að koma stórum barnahóp til manns. Systkinahópurinn var stór. Börnin urðu 13, og 10 þeirra komust til fullorðinsára.

Einnig var sonur Hjálmars fyrir hjónaband alinn upp á þessu stóra æskuheimili Þórarins. Þessi fjölskylda fluttist öll til Siglufjarðar árið 1925. Þá var Siglufjörður gullgrafarabærinn, sem líklegur var til þess að geta orðið fengsæll gæfustaður. Og svo mun þessum systkinahópi hafa reynst hann. Þórarinn stundaði ýmiskonar vinnu hin fyrstu ár sín á Siglufirði, þó aðallega sjómennsku.

Gerðist síðan vörubílstjóri í nokkur ár. Hann var ráðinn vatnsveitustjóri hjá Siglufjarðarkaupstað árið 1942. Hætti þar störfum árið 1973. Hann varalinn upp í sveit og hafði yndi af landbúnaðarstörfum. Hann átti jafnan lítið og gagnsamt sauðfjárbú, sem hann stundaði sem hjástundavinnu, sér til ánægju og búdrýginda. Sérstaklega mun þetta hafa verið honum yndisauki eftir að hann lét af föstum störfum.

Þórarinn kvæntist 21. apríl 1931 Arnfríði Kristinsdóttur, sem fædd var 6. nóv. 1904 í Hauganesi á Árskógsströnd. Hún var hin mesta ágætiskona og samhent manni sínum. Þórarinn og Arnfríður eignuðust engin börn saman, en kjörsonur Þórarins og einkasonur Arnfríðar er Ásmundur Þórarinsson. Naut hann mikils ástríkis hjá kjörföður sínum.
Þórarinn missti konu sína 13. júní 1976 og hafði hún þá verið sjúklingur um 10 ára skeið. Var til þess tekið hve hann reyndist henni góður og umhyggjusamur í hennar löngu og alvarlegu veikindum.

Þórarinn var mikill félagsmálamaður. Hann tók mikinn þátt í leikstarfsemi og störfum Góðtemplara. í samtökum bílstjóra, og í búnaðarfélagi gegndi hann forustuhlutverkum. Fulltrúi Siglfirðinga var hann við kaup á nýjum fjárstofni eftir fjárskiptin árið 1950. Sem góður Þingeyingur var hann í stjórn átthagafélags þeirra á Siglufirði í mörg ár. Og áfram mætti telja. Hann var allsstaðar hinn glaði og góði félagi, sem studdi að framgangi sinna áhugamála.

Er við nú kveðjum Þórarinn. þökkum við fyrir langa og góða samfylgd góðs drengs og eftirminnilegs félaga. Við þökkum glaðar stundir við frásagnir og ljóðagerð. Einnig ber okkur að þakka störf hans í þágu bæjarfélagsins okkar sem hann stundaði af alúð.

  • ..Hér við skiljum  
  • og hittast munum
  • á fegins degi fira
  • drottinn gefi dauðum ró
  • en hinum líkn sem lifa".


Þ. Ragnar Jónasson
------------------------------------