Rögnvaldur Sveinsson verkstjóri Siglufirði

Íslendingaþættir Tímans - 14. febrúar 1974

Rögnvaldur Sveinsson Fæddur 9. 111:11/ 1908. Dáinn 11. janúar 1974.

Þeir, sem eitthvað þekkja til framleiðslustarfa, vita vel, hver vandi og ábyrgð eru lagðar á herðar þeim, sem fyrir verkum eiga að segja i sambandi við vinnslu sjávarafurða til útflutnings. A engum mun þó slíkt farg hafa hvílt þyngra en þeim, sem verkstjórn höfðu á höndum við síldarsöltun, meðan sá viðsjárverði en mikilvægi atvinnuvegur var og hét og stóð i fyllstum blóma.

Mátti með fullum sanni segja, að til verkstjórnarábyrgðar á þeim vettvangi — eða „bryggjuformennsku" eins og það var lengi framanaf kallað — hafi ekki verið treystandi nema sérstökum úrvalsmönnum, sem i framkvæmd lögðu hvorki meira né minna en sjálfa sig að veði fyrir öruggum gangi verka, bæði hvað snerti vinnuafköst og vörugæði. Mikið var í húfi, afkoma atvinnufyrirtækja og fjölda fólks á sjó og landi.

Rögnvaldur Sveinsson

Rögnvaldur Sveinsson

Sú ábyrgð var þung að bera hverja stund — ósjaldan örþreyttum mönnum, sem alltaf voru fyrstir að verki og síðastir frá, enda entust margir, annars ágætir verkstjórar ekki lengi, sökum þessa mikla álags, sem aðeins fáir menn þekkja til hlítar. Jafnan bárust böndin að verkstjórunum, ef eitthvað fór úrskeiðis, jafnvel i tilvikum þeim alger lega óviðráðanlegum — auk þeirrar miklu starfsábyrgðar, sem var óumdeilanleg. Einn þeirra burðarása íslenzks atvinnulífs, sem hér hefir verið vikið að er nú hniginn 1 valinn — einn þeirra elztu og traustustu — og er þá mikið sagt, en ekki um of.

Rögnvaldur Sveinsson lézt hér á Landspítalanum í Reykjavik föstudaginn 11. jan. s.l. hálfsjötugur að aldri. Með honum er afbragðsmaður genginn, ábyrgur atorkumaður, sem lengi mæddi mikið á. Minningarathöfn um Rögnvald fór fram i Fossvogskapellu föstud. 13. þ.m. en í dag er gerð útför hans frá Siglufjarðarkirkju.

Rögnvaldur Sigurður Sveinsson, eins og hann hét fullu nafni, var fæddur 9. marz 1908, að Fyrir-Barði i Fljótum norður, sonur hjónanna Gunnhildur Sigurðardóttir og Sveinn Sveinsson, sem þá bjuggu þar. Kornungur fluttist hann með foreldrum sinum að Garðshorni á Höfðaströnd, en svo eftir skamma dvöl þar að Skarðdalsseli i Siglufirði 1913 eða 14, og að lokum út i sjálfan kaupstaðinn árið 1924.

Í síldarbænum, Siglufirði, ólst Rögnvaldur því upp að mestu leyti, ásamt 9 systkinum sinum, átti þar heima alla tíð síðan og vildi hvergi annars staðar búa. Átti sá staður jafnan hug hans og hjarta, og vefur hann nú I dag vinarörmum — einn sinna traustustu sona. Þegar innanvið 10 ára aldur, meðan hann enn var i siglfirzku sveitinni, hóf Rögnvaldur störf með móður sinni að þeim atvinnuvegi, sem hann átti eftir að helga nálega alla starfsævi sina.

Gunnhildur Sigurðardóttir var afburða dugmikil kona, eins og bezt sést á því, að hún sem margra barna móðir og forsjá búskaparins heimafyrir, skyldi sækja vinnu úti i kaupstað — alllanga leið — eftir kl. 10 á kvöldin, þegar færi gafst, með soninn sinn. Snemma þótti pilturinn mannvænlegur og vann sig fljótt í álit, enda áhuga- og samvizkusamur með afbrigðum. Bezta vitnið um þetta er það, að hinn kunni athafnamaður og „síldarspekúlant" Ásgeir Pétursson, gerði Rögnvald aðeins tvítugan að bryggjuformanni sinum.

Má ætla, að starf þetta hafi á þeim tíma ekki þótt heiglum hent, en sjálfsagt margir viljað þiggja, ef kost hefðu átt á. Er það skemmst af að segja að Rögnvaldur hélt svo vel velli i þungri önn dagsins hjá Ásgeiri, að hann var hans síldverkunarstjóri alla tíð, unz Ásgeir seldi eignir sinar á Siglufirði — síðustu árin jafnframt til viðbótar íshússtjóri. En þar með er ekki öll sagan sögð.

Það var enginn annar en sjálfur „síldarkóngurinn" Óskar Halldórsson, sá frægi maður, sem keypti eignir Ásgeirs Péturssonar, líklega árið 1950, „og Rögnvald með". Sögðu Siglfirðingarnir, og þeir, sem bezt þekktu til, vissu, að Óskari var mjög í mun að missa ekki af Rögnvaldi, og hefir þetta viðhorf hans vafalaust haft áhrif á ákvörðunina um kaupin.

Allt var þetta Rögnvaldi til verðugs hróss, en þó ekki siður hitt, að þeir Óskar og hann skildu aldrei að skiptum eftir þetta meðan báðir lifðu, og eftir fráfall Óskars vann Rögnvaldur áfram erfingjum hans sem verkstjóri og leiðandi maður. Samvinna þessa fólks mun hafa staðið um 15 ára skeið, með undantekningu í ein 2 sumur, þegar Rögnvaldur stjórnaði síldarsöltun fyrir Harald Böðvarsson. t þessu „Óskarstímabili" er falin „gullöld" síldarsöltunar á Raufarhöfn, þar sem Rögnvaldur var verkstjóri fyrir Óskar fyrstu 8 sumrin samfleytt, en síðar hin árin til viðbótar.

Stundum á vetrum, meðan varð „stund milli stríða" í síldverkuninni, vann Rögnvaldur i Tunnuverksmiðjunni á Siglufirði, því auðvitað var hann góður beykir eins og allir verkstjórar við síldarverkun þurftu þá að vera. Og það er til marks um, hvernig Rögnvaldur stóð sig þarna, að frá árinu 1962 varð hann verkstjóri við tunnugerðina, allt til s.l. sumars, að starfsemin var lögð niður. Síðustu vikurnar á s.l. hausti vann hann svo við hið nýja fyrirtæki þeirra Siglfirðinganna, Húseiningar h/f, sem m.a. yfirtóku húsnæði Tunnuverksmiðjunnar. Var þá lasleiki farinn að sækja á Rögnvald, og „Bleik brugðið", enda reyndist þá skammt að biða lokadægursins.

Þótt hér hafi verið sagt nokkuð frá starfsævi Rögnvaldar Sveinssonar, eru það þó ekki nema útlínur einar, sem eigi að siður tala samt allskýru máli um það óbrigðula traust, er hann ávann sér allt frá æsku til hinztu daga hjá hinum mætustu mönnum. Mun enginn nokkru sinni hafa orðið fyrir vonbrigðum með störf hans, Svo traustur og öruggur var hann til orðs og æðis. Fer ekki hjá því, að nafn Rögnvaldar Sveinssonar verði munað og virt, ef skráð verður síldarframleiðslusaga Íslendinga að nokkru teljandi marki á fyrrihluta og um miðbik þessarar aldar.

Um heiðursmanninn Rögnvald Sveinsson vil ég persónulega til viðbótar segja það, að hann var hinn vænsti maður á allan veg, ágætlega greindur og athugull hlýr i viðmóti við nánari kynni, og sérstaklega traustvekjandi. Hann var hlédrægur maður og fáskiptinn að eðlisfari — gat jafnvel virzt dálitið þurr á manninn við fyrstu kynni. Hann átti þó ekki bágt með að vera „glaður á góðri stund" og fagnaðarhrókur á „góðra vina fundum". Hann hafði yndi af söng, og naut þess að taka lagið með félögum sinum, enda söngvinn og raddmaður góður.

Í einkalífi sinu var Rögnvaldur Sveinsson sá gæfumaður að eignast gott heimili, góða konu og góð börn.

Hinn 26. des. 1936 kvæntist hann Margrét Jóhannsdóttir frá Minni-Brekku i Fljótum, lífsglaðri og bjartsýnni gæðakonu, sem hann elskaði og dáði, og hefði áreiðanlega ekki viljað lifa. Hún reyndist honum hinn bezti lífsförunautur, bjó honum hlýlegt heimili og fylgdi honum til langdvala við störf hans utan Siglufjarðar. Er hæpið, að Rögnvaldur hefði staðið svo lengi undir svo þungri starfsbyrði, ef Möggu hans hefði ekki notið við.
Börn þeirra hjóna eru þessi:

  1. Guðlaug Rögnvaldsdóttir gift Bjarna Ásgeirssyni, stýrimanni, Reykjavik.
  2. Hafdís Rögnvaldsdóttir gift bandarískum manni, Frank Bocchino júdókennara og lögreglum. í liði USA hérlendis, Reykjavik.
  3. Kristinn Rögnvaldsson húsasmiður á Siglufirði, kvæntur Víólu Pálsdóttur.
  4. Jóhanna Rögnvaldsdóttir gift Páli Magnússyni vélstjóra við Búrfellsvirkjun.

Við hjónin bjuggum um tíma í mjög nánu sambýli við þau Margréti og Rögnvald á Siglufirði í húsi þeirra Suðurgötu 51 höfðum m.a. sameiginlegt eldhús o.fl. Aldrei féll minnsta snurða á samvistirnar, en hver dagur leið ljúfur. Eigum við margar góðar og glaðar endurminningar frá þessum árum á Siglufirði.

Þau hjón tóku slíkri tryggð við okkur, að sambandið rofnaði aldrei til fulls öll þessi ár, sem síðan eru liðin, þrátt fyrir margar vikur á milli vina. Fyrir þetta viljum við nú við brottför Rögnvaldar af þessum heimi þakka, um leið og við vottum Möggu okkar einlæga samúð við fráfall góðs eiginmanns — svo og börnum þeirra öllum og nánasta skylduliði. Sjálfum honum mun nú hvíldin góð eftir langan og strangan dag. Mér kæmi ekki á óvart, þó að við hann yrði sagt: Gott, þú góði og trúi þjónn. 
Gakk inn i fögnuð herra þíns. 

Baldvin Þ Kristjánsson