Ágúst Stefánsson Siglufirði

Morgunblaðið - 17. desember 1977

Ágúst Stefánsson -Minning - Fæddur 2. ágúst 1915 Dáinn 8. des. 1977

Í dag verður gerð frá Siglufjarðarkirkju útför Ágústs Stefánssonar frá Grundarkoti í Héðinsfirði, Þormóðsgötu 20 hér i bæ.

Ágúst var fæddur 2. ágúst 1915 að Vatnsenda i Héðinsfirði, elstur barna hjónanna Soffía Sigurðardóttir og Stefán Erlendsson.

Sjö ára dregur það sortans ský fyrir sólu, að móðir Ágústs lézt frá fimm börnum, en það sjötta dó með móður sinni.

Fjórum yngstu börnunum er komið í fóstur, en Ágúst verður eftir hjá fóður sinum, sem þá var fyrir nokkrum árum búinn að byggja upp f Grundarkoti, en við þann bæ voru þeir feðgar ávallt kenndir. Alla stund átti Ágúst heimili með föður sínum á meðan báðir lifðu, en Stefán dó 28. des. 1972, að undanteknum þeim tíma, sem Ágúst var til sjós og aflaði heimilinu tekna.

Ágúst Stefánsson

Ágúst Stefánsson

Fastlega geri ég ráð fyrir því, að móðurmissirinn hafi haft nokkur áhrif á Ágúst, því ekki verður þar metið, hver uppeldisleg áhrif það hefur, leiðsögn góðrar og heilsteyptrar móður, en það marka ég af því, að Ágúst var dulur i skapi og bar tilfinningar sínar ekki á torg, en svo tryggur vinur vina sinna, að þar fékk enginn um þokað.

Ekki kenndi Ágúst sér meins fyrr, en um mitt sl. sumar og 1. ágúst, eða degi fyrir 62 ára afmælið lagðist hann inn á sjúkrahúsið hér, fór síðan 13. ágúst á Borgarsjúkrahúsið í Reykjavík, en þar var gerður á honum uppskurður 16. ágúst, en allt kom fyrir ekki, því ekki náðist fyrir þann sjúkdóm, sem hrjáði hann. 29. okt. sl. fékk Ágúst að koma heim til frændkonu sinnar Maríu Jóhannsdóttur og manns hennar Björns Ólafssonar, að Hólavegi 31, og dvaldist þar, þar til yfir lauk.

Skylt er að geta þess að mágkona hans, frú Þóra Björnsdóttir, létti undir með dóttur sinni til að gera dvölina að Hólavegi 31 sem bærilegasta. Vinátta okkar hefur varað í rösk 25 ár og ekki minnist ég þess að skugga hafi þar á borið, heldur styrkst með árunum, þó sérstaklega nú síðari árin. Mér auðnaðist að heimsækja hann að sjúkrabeði í fimm vikur af tæpum sex, sem hann dvaldi á Hólavegi 31.

Þessar stundir sem ég átti með honum nú síðast eru mér kærastar af okkar samveru. Þá skildi ég bezt hvað við er átt, þegar talað er um karlmennsku. Aldrei kvartað eða mælt æðruorð, en reynt að vera sjálfum sér nógur. Að öðru leyti eru þessar stundir ekki til frásagnar. Vinur minn fæddist i þennan heim, þegar sól er hvað hæst á lofti, en kvaddi hann, þegar dagur er hvað skemmstur, en hátíð ljóssins er i nánd og þar á eftir hin rísandi sól með vaxandi birtu og yl.

Ég trúi því, að Ágúst eigi góða heimkomu, „þar bíða vinir í varpa, því von er á gesti." Ágúst átti kindur allan þann tíma, sem ég þekkti hann og umgekkst þær af umhyggju og nærgætni. Margir munu sakna Ágústar, því ekki stóð á hjálpsemi hans ef á þurfti að halda. Nú þýðir ekki að knýja dyra í Þormóðsgötu 20, því þar er enginn til staðar.

Ég eiginkona mín og börn sendum systkinum Ágústs og vandamönnum öllum samúðarkveðjur. Þá fer ég að ljúka þessum línum, sem gerðar eru af vanefnum, en góðum hug. Margt mætti til taka, svo sem að Ágúst vann erfiðisvinnu allt sitt líf, fyrst til sjós, síðan í losun og lestun og síðast í saltfiskhúsinu hjá Þormóði ramma, eins og hitt, að alltaf kallaði hann Héðinsfjörðinn heima, þegar talið barst að Héðinsfirði, þar var tryggð hans jafn sterk sem í öllu hans lífi.

Guð blessi Ágúst Stefánsson, vin minn, með þökk fyrir allt, þó sérstaklega síðustu vikurnar, sem hann var hér í þessum heimi. Hvíli hann í friði. Siglufirði, 17. des. 1977. 

Ólafur Jóhannsson