Kristinn Ásgrímur Pétursson (Ási)

Mbl.is 3. nóvember 2015 | Minningargrein

Kristinn Ásgrímur Pétursson fæddist 7. maí 1956 á Siglufirði og lést 20. október 2015. Foreldrar hans voru Halldóra María Þorvaldsdóttir, f. 1925, d. 1982, og Pétur Þorsteinsson, f. 1922, d. 1995.
Systir Ásgríms er Eyrún Pétursdóttir, fædd 17. apríl 1952.

Ási nam trésmíði á yngri árum og starfaði hjá Byggingafélaginu Berg um árabil. Síðan lá leið hans á sjóinn og var hann á skipum Þormóðs ramma sem gerð voru út frá Siglufirði. Ási flutti til Reykjavíkur og vann þar í nokkur ár og síðan við uppbyggingu á Kárahnjúkum. Ási var alltaf mikill áhugamaður um ættfræði og knattspyrnu, og þó sér í lagi enska boltann. Einnig voru ljósmyndun og fuglaskoðun mikið áhugamál um tíma og eru þeir ófáir uppstoppaðir fuglarnir sem prýða heimili hans.

Útför Ása fer fram í kyrrþey að eigin ósk.

Eftir fimm ára baráttu við krabbamein er móðurbróðir minn, Kristinn Ásgrímur Pétursson (Ási P), fallinn frá aðeins 59 ára gamall. Ási var góður drengur, en kaus að fara töluvert erfiða leið í gegnum lífið. Skilnaður foreldra hans og móðurmissir höfðu mikil áhrif á allt hans líf. Ási var mikill áhugamaður um ættfræði og var stundum ansi merkilegt hvað hann vissi um menn og málefni svo maður tali nú ekki um afmælisdaga fólks. Hann þurfti ekki neina Íslendingabók til að rekja ættir fólks.

Ásgrímur Pétursson - ókunnur ljósmyndari

Ásgrímur Pétursson - ókunnur ljósmyndari

Meiri líkur voru á því að Íslendingabók þyrfti á hans aðstoð að halda. Og það sem hann vissi um enska boltann var sko ekki á færi allra. Ási var alla tíð mikill einfari, en vinátta hans og Odds Guðmundar (Gudda) var þó mikil og voru þeir mikið saman og fóru víða. Það var Ása mikið áfall þegar Guddi lenti í hörmulegu slysi og varð ekki samur aftur. Og í raun má segja það sama um Ása.

Seinni árin tók hann miklu ástfóstri við líkamsrækt og var hann daglega annað hvort hlaupandi eða hjólandi um allan Siglufjörð á milli þess sem hann skaust í ræktina út í sundlaug. Hann keypti sér myndavél og var með vélina á lofti við hvert tækifæri. Þegar heilsu Ása tók að hraka þá er óhætt að segja að systir hans hafi verið honum ómetanleg sem hún reyndar var um alla tíð.

Á nánast hverjum degi heimsótti hún hann á sjúkrahúsið og sá til þess að honum liði nú sæmilega. Ási kvaddi okkur 20. október sl. á fæðingardegi móður sinnar sem hefði orðið níræð þennan dag. Og fyrir mér er það engin tilviljun. Hvíldu í friði, elsku Ási minn. Við sjáumst síðar.

Þorsteinn Þormóðsson.