Tengt Siglufirði
Mbl.is 31. janúar 2014 | Minningargreinar
Ásgrímur Stefánsson fæddist á Siglufirði 4. október 1923. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 17. janúar 2014.
Foreldrar hans voru Stefán Grímur Ásgrímsson, f. 26. september 1899, d. 1. desember 1968, og kona hans Jensey
Jörgina Jóhannesdóttir, f. 3. júlí 1893, d. 15. júlí 1958.
Systkini Ásgríms eru
Ásgrímur kvæntist 10. maí 1947 fyrri konu sinni,
Sigurlaugu Kristinsdóttur, f. 20. júlí 1921, d. 3. janúar 1996.
Þau eignuðust einn son, Kristin, f. 6. október 1949, kvæntur Þórdísi Karlsdóttur, f. 22. febrúar
1946, sonur þeirra,
Ómar Þór. Fósturdóttir þeirra frá 6 mánaða aldri, Hekla Gestsdóttir, f. 2. maí 1947, d. 26. júlí 2009, fyrri eiginmaður Skúli Ísleifsson,
f. 10. janúar 1942, d. 9. febrúar 1999. Síðar gift Herði Júlíussyni, f. 18. júní 1936, börn, Sigurlaug Jensey Skúladóttir, Skúli Kristinn Skúlason, Sigurbjörg Helga
Skúladóttir, Ásgrímur Harðarson og Trausti Harðarson. Síðar tóku þau tvo drengi í fóstur, Kristin Gunnarsson, f. 25. september 1959 og Hannes Rútsson, f. 28. júlí
1959. Barnabarnabörnin eru 12 talsins og barnabarnabarnabörnin 2.
Ásgrímur giftist seinni konu sinni, Þóru Guðrúnu Pálsdóttur, f. 21. september 1926, þann 18. desember 1999.
Ásgímur
ólst upp á Siglufirði og Akureyri, stundaði nám í smíðum og varð húsasmíðameistari en um sextugt aflaði hann sér kennararéttinda og kenndi við grunnskóla í
tæp 10 ár.
Árið 1954 fluttu Ásgrímur og Sigurlaug til Hafnarfjarðar þaðan árið 1955 til Stykkishólms til að taka við starfi hvítasunnumanna þar í bæ.
Árið 1959 var Ásgrímur fenginn til að veita umsjón byggingu Fíladelfíukirkjunnar í Reykjavík. Árið 1969 fóru þau til Siglufjarðar. Þar störfuðu þau í Zíon til ársins 1986 að þau fluttu til Akureyrar. Ásgrímur flutti til Keflavíkur árið 1997.
Útför Ásgríms fer fram frá Hvítasunnukirkjunni, Hátúni 2, Reykjavík, í dag, 31. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 14. Jarðsett verður á Akureyri.
Um leið og ég kveð föður minn, Ásgrím, þá vil ég þakka starfsfólki á D-álmu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja fyrir sérstaklega góða umönnun og hlýhug. Pabbi var einstakur að því leyti að hann var mjög trúr sinni sannfæringu. Þegar hann var 15 ára gamall þá upplifði hann það að frelsast. Hann sagði oft frá þessari upplifun sinni.
Hann var þá að vinna í skóverksmiðjunni Iðunni á Akureyri og þá segir hann að hann hafi heyrt sagt við sig að hann yrði að gefast Guði núna. Hann fékk frí úr vinnunni, fór heim og bað til Drottins í tvær klukkustundir, uns hann fann frið Guðs og fullvissu í hjarta sínu. Þennan frið átti hann allt til dauðadags og þegar ég heimsótti hann einn daginn á spítalann, þá var hann einmitt að segja einni af hjúkrunarkonunum að hann tryði á Jesú og þótt hann væri að deyja þá myndi hann lifa. Nú er faðir minn kominn heim til Jesú í dýrðina. Guð blessi minningu þína, kæri pabbi.
Kristinn Ásgrímsson.
--------------------------------------------
Elsku afi minn.
Takk fyrir samfylgdina síðustu 49 ár. Það eru ekki allir svo heppnir að fá að eiga afa, og það besta afa í heimi, fram undir fimmtugt. Ég þá orðin amma og þú langalangafi.
Þegar ég hugsa til baka er margs að minnast,
þú að smíða, föndra, á sjó á trillunni þinni eða brasa eitthvað úti í bílskúr. Siglufjörður var fjörðurinn þinn, þar fæddist
þú og varst alltaf stoltur af því en einnig átti Akureyri stóran part af þér en þangað fluttir þú 8 ára gamall. Margar eru sögurnar frá uppvexti þínum
frá þessum báðum stöðum sem áfram verða sagðar afkomendum þínum.
Það var svo árið 1969 sem þið amma fluttuð á Sigló og settuð svip
á bæinn. Þið tókuð við Zion og byggðuð upp flott safnaðarstarf. Auðvitað fluttum við norður til ykkar og bjuggum þar í nokkur ár. Það var gaman. Ég man hvað
þú varst glaður að fá barnaskarann hennar Heklu til Siglufjarðar og við systkinin heppin að fá að njóta nærveru þinnar þar. Sunnudagsskólinn í Zion var fastur liður
og föndurfundirnir ykkar ömmu einnig.
Ég á margar dýrmætar minningar. Afi, þú upplifðir miklar breytingar á heiminum og varst svo duglegur að fylgjast með nýjungum og tileinka þér þær. Þú notaðir Internetið, heimabanka, varst á facebook, og notaðir gsm-síma fram undir það síðasta. Í gegnum árin hreykti ég mér oft af því að eiga þig sem afa og sagði frá því að þú værir húsasmíðameistari Fíladelfíuhússins að Hátúni 2, að þú hefðir tekið kennararéttindi um sextugt og kennt í grunnskóla í nokkur ár. Einnig var ég stolt af því hvað þú varst unglegur og gafst mikið af þér.
Elsku afi, takk fyrir allt, þín afastelpa
Sigurlaug Jensey Skúladóttir.
----------------------------------------------------
Ásgrímur Stefánsson, húsasmíðameistari, er mér ógleymanlegur persónuleiki. Hann helgaði líf sitt boðun trúarinnar á Jesú Krist. Lengst af var hann á Siglufirði og hélt þar starfi Zíon-safnaðarins uppi um áratuga skeið. Ég efast um að nokkur núlifandi Siglfirðingur þekki ekki nafn Ásgríms. Milli þess sem hann vann að trúboðinu stundaði hann smíðar og undir það síðasta var hann smíðakennari bæði á Siglufirði og Akureyri.
Hann var byggingarmeistari að Fíladelfíu í Hátúni 2 í Reykjavík og eins Hvítasunnukirkjunni að Skarðshlíð 20 á Akureyri. Alltaf var hann boðinn og búinn að leggja fram krafta sína þó svo að tekjurnar hafi ekki allskostar veitt honum hagsæld í þessu jarðneska. En ekki skorti hann fórnfýsi eða gjafmildi til fátækra eða kristniboðsins. Þangað fóru auðæfin öll.
Árið 1974 komu Ási og Lauga, eins og þau voru oftast kölluð, til sumarmóts hvítasunnumanna á Vopnafirði. Þau voru á VW-bjöllu og stóð vegamælirinn á mjög hárri tölu. Ási var ákveðinn í að fara Hellisheiðina eystri, ásamt öðrum. Hún var þá nokkuð hærri og brattari en nú er. Síðan lá leiðin um Austfirði, til baka um Möðrudal og þaðan til Siglufjarðar ef vélin í vagninum dygði. Í Möðrudal gafst vélin upp og spúði miklum svörtum reyk við gauragang og sprengingar. Hann hringdi í mig á Vopnafjörð og spurði hvort ég gæti ekki sótt þau og teymt niður í Vopnafjörð.
Að sjálfsögðu gerði ég það en vegna þurrviðrisins tók ég ferðafélagana í minn bíl svo Ási sæti einn í sínum. Rykið var mikið og það var sama hvernig við reyndum að haga akstri, ávallt sat Ási í mekkinum og reyndi að hreinsa framrúðuna og slá frá vitum sínum því sem sogaðist inní bílinn. Bíllinn var síðan fluttur með Heklunni á Siglufjörð þar sem nýja vélin var sett í vagninn. Nú eru aðeins eftir af þessari sögu ljúfar minningar um góðan mann sem fékk þann sess að sitja í rykinu en una hag sínum vel.
Þetta var mér augljóst varðandi trúarafstöðu þessa manns. Hann gerðist byggingameistari Fíladelfíu í Reykjavík og Hvítasunnukirkjunnar að Skarðshlíð 20 á Akureyri. Þó svo að sementsrykið hafi gjarnan loðað við föt hans og vit þá baðaði hann sig hvorki í frægð eða frama. Það var ekki hans stíll, heldur hitt að vera styðjandi og hjálparhella í öllum kringumstæðum.
Hann þjónaði Hvítasunnusöfnuðinum afar vel bæði í Reykjavík, Stykkishólmi, Siglufirði, Akureyri og síðast í Reykjanesbæ.
Eftir hann liggja störf og orðspor þess góða fagra og fullkomna því þannig var Ási.
Blessuð sé minning góðs og trausts vinar.
Snorri í Betel.
--------------------------------------------
Elsku Ási, nú ert þú kominn þangað sem hugur þinn stefndi alla tíð. Trú þín á Jesú og hið eilífa líf hefur svo sannarlega verið mörgum hvatning, huggun og fyrirmynd. Í mínum huga varstu alltaf gamall enda var ég rétt um þriggja ára þegar við kynntumst en þú um fimmtugt. Ég man alltaf gleðina þína, góðmennsku og tryggð. Það varst þú sem sagðir mér fyrst söguna um Daníel og Rut og kenndir mér sönginn um þau. Sá söngur hefur dvalið með mér allar götur síðan.
Friðurinn sem var yfir þér þegar þú spilaðir á mandólín í Zion, sagðir okkur krökkunum sögur, perlaðir með okkur og fórst með borðbænir yfir bollunum hennar Laugu, var enn sterkari daginn sem við kvöddumst á sjúkrahúsinu í Keflavík.
Þú sagðir mér á sama tíma að þér væri illt í fætinum og að þú færir brátt að kveðja og fara til Jesú og baðst mig um að lesa sálm. Trúr allt til dauða. Eftir að ég las sálm 139 fórst þú með sálm 121. „Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.“ Ég, sem hafði vonast til þess að geta gefið af mér til þín, sat þarna og var enn á ný þiggjandi.
Þú gafst mér svo mikið alla tíð. Þú varst mér oft skjól þegar ég var barn á Sigló, þú gafst mér von og kærleik þegar ég var unglingur. Þegar þú heimsóttir mig á unglingaheimilið og tókst fagnandi á móti mér með Laugu á Akureyri. Heimili ykkar var mér alltaf opið. Trú þín var mér haldreipi á meðan ég hafði hana ekki sjálf. Bænir þínar hafa vakað yfir mér og mínum í fjörutíu ár. Dætur mínar hafa fengið að njóta ávaxtanna en þær fengu einnig að kynnast þér og ég er mikið þakklát fyrir að þær voru með þessa góðu kveðjustund.
Þegar ég hugsa til þín sé ég þig alltaf fyrir mér með mandólín í fanginu, brosandi yfir gleðinni í Jesú. Þannig varstu þegar ég sá þig á samkomu áður en þú fórst á spítalann í hinsta sinn. Elsku Ási á sama tíma og ég gleðst yfir því að þú sért laus undan kvöl og þjáningu, í faðmi þess sem þú elskar, þá samhryggist ég þeim sem sakna þín og sendi mínar innilegu samúðarkveðjur til þeirra. Takk fyrir þig. Takk fyrir allt.
Díana Ósk Óskarsdóttir.
-------------------------------------------------
Ásgrímur Stefánsson er látinn, hefur fullnað skeiðið, skilað sínu dagsverki og er kominn í hvíldina sem Drottinn heitir öllum sem við honum taka.
Sem unglingur á Akureyri tók Ásgrímur þá ákvörðun að fylgja Frelsaranum og stóð við það allt til lokadægurs. Ég kynntist honum sem smástrákur í gegnum Kidda son hans og kom oft á heimili hans og Laugu, konu hans til nærri 50 ára.
Alla tíð, í þessi 55 ár sem leiðir okkar lágu saman, fannst mér mikið til þess koma hvað Ásgrímur gat alltaf gefið mikið af sér. En hann vissi vel að orðum Meistarans var treystandi, að sælla væri að gefa en þiggja.
Það varð mikil breyting á högum Ásgríms og Laugu þegar þau seldu húsið sitt í Reykjavík og fluttu til Siglufjarðar og stóðu fyrir starfi Hvítasunnumanna þar. Á Siglufirði lagði Ásgrímur allt sitt í starfið, byggði upp samkomuhúsið Zion og var þar með samkomur fyrir fólk á öllum aldri. Þá kom sér vel að vera smiður eins og leiðtoginn var. Ég kom eitt sinn með einn af vinnufélögum mínum til Siglufjarðar og kynnti hann fyrir Ásgrími, var áður búinn að segja honum að þar færi Guðsmaður sem mark væri á takandi. Ég skildi við þá í nokkra tíma og þegar ég kom aftur hafði vinnufélagi minn verið kynntur fyrir Frelsaranum og hefur fylgt honum síðan.
Ég kveð mikinn heiðursmann í dag og votta öllum ættingjum og vinum og eftirlifandi konu hans henni Þóru, mína dýpstu samúð. Ég vildi óska þess að Ísland eignaðist marga slíka syni sem Ásgrím Stefánsson, þá værum við í góðum málum.
(R.K.)
Halldór Pálsson.
----------------------------------------------
Í dag kveðjum við Gideonmenn góðan og traustan félaga. Ásgrímur Stefánsson er farinn heim til Drottins eftir langa starfsævi. Hann var Gideonfélagi í áratugi og tók virkan þátt í starfi félagsins og þeir eru ófáir sem tekið hafa við Nýja testamentinu úr hendi hans. Það var sérlega ánægjulegt að fá að fara með honum í grunnskólana á Suðunesjum til að afhenda 10 ára grunnskólabörnum bókina.
Þar geislaði hann þegar hann sagði börnunum frá bókinni góðu og sögu félagins. Ásgrímur var einstaklega þægilegur og ljúfur í samskiptum, hafði góða nærveru og var í okkar augum mikill trúmaður og góð fyrirmynd. Hann gegndi trúnaðarstörfum fyrir Gideondeildina á Suðurnesjum og sinnti þeim af mikilli trúmennsku.
Gott var að koma á heimili þeirra Þóru þegar fundir voru haldnir hjá þeim. Móttökur hlýjar, stundirnar ánægjulegar og veitingar vel útilátnar að fundum loknum. Yfir kaffinu var oft spjallað um líðandi stundu og þá kom í ljós að Ásgrímur fylgdist vel með því sem var í gangi í þjóðfélaginu og kom oft með skemmtileg sjónarhorn á tilveruna. Við vottum eiginkonu hans Þóru G. Pálsdóttur og fjölskyldu þeirra okkar dýpstu samúð við fráfall Ásgríms. Guð blessi minningu Ásgríms Stefánssonar.
F.h. Gídeondeildarinnar Suðurnes,
Leifur A. Ísaksson og Sveinn Valdimarsson.