Mbl.is - 11. júní 1988 | Minningargrein

Ásmundur Steingrímsson ­  Fæddur 27. júlí 1903 Dáinn 3. júní 1988

Ásmundur fæddist að Skeri í Grýtubakkahreppi, S-Þing., þar sem hann ólst upp. Foreldrar hans voru hjónin Helga Pétursdóttir og Steingrímur Hallgrímsson. Ásmundur var yngstur í hópi fjögurra systkina, þeirra er upp komust, en Þórveig systir hans er nú ein á lífi.

Fyrri kona hans var Marta Baldvinsdóttir frá Höfða og bjuggu þau allmörg ár á Kljáströnd, en síðar á Grenivík, þar sem Ásmundur var símstöðvarstjóri um alllanga hríð. Marta lést á Grenivík.

Seinni kona Ásmundar var Halldóra Bjarnadóttir. Þau giftust 1959 og fluttust til Siglufjarðar, þar sem Ásmundur átti síðan heima til dauðadags, en Halldóru konu sína missti hann 1979.

Ásmundur Steingrímsson

Ásmundur Steingrímsson

Kynni mín af Ásmundi hófust ekki fyrr en seint á æviskeiði hans, eða árið 1982, en þó nógu snemma til að kynnast vel mannkostum hans og þeirri prúðmennsku, sem einkenndi hann. Heimsóknir okkar Margrétar til hans í sex sumur munu jafnan verða mér minnisstæðar fyrir gestrisni hans og ljúfmennsku og ekki síst fyrir líflegar og fróðlegar viðræður, þar sem hann var veitandinn en ég þiggjandinn. Undraðist ég oft stálminni hans á menn og liðna atburði, og svo hitt hve skýra yfirsýn hann hafði yfir allt sem efst var á baugi í þjóðmálunum og heimsmálunum hverju sinni.

Í samræmi við þetta varð ég þess var hve vel hann fylgdist með blöðum, útvarpi og sjónvarpi, og þess utan voru ævisögur merkra manna og þjóðlegur fróðleikur hans mesta yndi til lestrar. Hann kunni vel að segja frá og var frásögnin þá gjarnan krydduð góðlátlegri glettni, enda skopskynið aldrei langt undan í daglegu spjalli.

Ásmundur var tilfinninganæmur maður og minntist oft látinna eiginkvenna sinna með djúpri virðingu og þakklæti. Stundum fannst mér sem hann biði þess með tilhlökkun að hverfa á vit æðri tilveru. Nú hefur honum orðið að ósk sinni, og þess vegna getum við samfagnað honum að ferðalokum.

Við þessi leiðarlok get ég ekki látið hjá líða að minnast á þann þátt sem Þórveig, systir Ásmundar, átti í lífi hans. Til hennar bar hann jafnan óskorað traust og tók marká orðum hennar þegar einhvers þurfti við, enda voru með þeim miklir kærleikar alla tíð, allt frá barnæsku. Við Margrét vottum henni dýpstu samúð við bróðurmissinn, svo og öllum þeim sem nú sakna vinar í stað - ekki síst Einari Hermannssyni og Margréti Jónasdóttur og börnum þeirra, sem reyndust Ásmundi ómetanleg stoð og stytta á umliðnum árum og síðast í banalegunni á Sjúkrahúsi Siglufjarðar.

Ingi K. Jóhansson
--------------------------------------

Ásmundur vann lengi á SR-Lager hjá Eggert Theódósrssyni  (sk)