Karl Ásmundur Hólm Þorláksson

26. maí 2018 | Minningargreinar 

Ásmundur Þorláksson fæddist á Siglufirði 5. janúar 1935. Hann lést á Dvalarheimilinu Grenilundi, Grenivík, 20. maí 2018.

Foreldrar hans voru hjónin Þorlákur Guðmundsson, f. 22. júlí 1894, d. 5. júní 1994 og Guðrún Jóhannsdóttir, f. 6. júní 1897, d. 5. apríl 1963. Ásmundur var þriðji yngsti í röð ellefu systkina sem eru nú öll látin.

Eftirlifandi eiginkona Ásmundar er Hildigunnur Eyfjörð Jónsdóttir, f. 11. maí 1929, frá Finnastöðum á Látraströnd.

Ásmundur og Hildigunnur eignuðust fjögur börn. Þau eru:

  1. Fanney Sólborg, f. 25. ágúst 1967.
  2. Elísa Jóna, f. 12. nóvember 1968, gift Grétari Jóni Pálmasyni, f. 2. desember 1968. Synir þeirra eru Brynjar Hólm, f. 22. febrúar 1994, og Arnar Pálmi, f. 20. september 1997.
  3. Kristinn Hólm, f. 26. október 1971, kvæntur Ernu Rún Friðfinnsdóttur, f. 15. janúar 1973. Börn þeirra eru Steinar Freyr, f. 21. maí 1994, Berglind Birta, f. 28. desember 1999, Friðfinnur Steindór, f. 10. maí 2003, og Heiðrún Anna, f. 7. febrúar 2012. Fyrir átti Kristinn soninn Fannar Hólm, f. 18. mars 1990. Dætur hans eru Ása Brynja, f. 14. september 2009 og Katrín Rós, f. 27. september 2013.
  4. 4) Kristján Þór, f. 7. júní 1973, kvæntur Hönnu Björgu Margrétardóttur, f. 23. október 1977. Dóttir þeirra er Margrét Fanney Storm, f. 15. nóvember 2016. Fyrir átti Kristján dæturnar Ásdísi Marín, f. 19. mars 2000, og Hildi Ólöfu, f. 7. febrúar 2006.
Ásmundur Þorláksson

Ásmundur Þorláksson

 

Ásmundur eignaðist fjögur börn fyrir hjónaband sitt og Hildigunnar. Þau eru

  1. Jónína Guðrún, f. 19. mars 1961,
  2. Andrés Þór, f. 9. júní 1963,
  3. Guðrún Þórlaug, f. 15. júlí 1964, og
  4. Guðrún Ásdís, f. 7. október 1966.

Ásmundur var lærður húsasmíðameistari og lauk meistaraprófi í því fagi árið 1961. Hann vann við iðn sína stóran hluta ævi sinnar en einnig önnur störf eins og sjómennsku og fiskvinnslu.

Ásmundur og Hildigunnur bjuggu lengst af á Grenivík. Þar byggðu þau sér hús, Birkimel, sem var æskuheimili barnanna. Á seinni árum bjuggu þau um tíma á Akureyri. Þau fluttu aftur til Grenivíkur þar sem þau dvöldu á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Grenilundi.

Útför Ásmundar fer fram frá Grenivíkurkirkju í dag, 26. maí 2018, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku pabbi okkar er fallinn frá og komið að kveðjustund. Dauðinn markar þáttaskil og það er okkur eðlislægt að óttast það sem við þekkjum ekki. Það er sárt til þess að hugsa að samverustundirnar verði ekki fleiri í þeim veruleika sem er okkur sýnilegur. Við viljum trúa því og treysta að við eigum eftir að hittast á ný og erum þakklát fyrir þann tíma sem við áttum með pabba okkar.

Það er margs að minnast og þakka fyrir þegar komið er að kveðjustund. Pabbi reyndist okkur góður og ástríkur faðir. Hann var klettur í tilveru okkar allra sem við höfum alltaf getað leitað til og fengið stuðning frá. Það var alltaf hægt að treysta á hjálpsemi hans, hvort heldur sem verkin voru stór eða smá. Persónuleiki hans var heilsteyptur og einkenndist af einlægni, heiðarleika, samviskusemi, réttsýni og mikilli innri hlýju. Þessir þættir hafa haft mótandi áhrif á okkur systkinin sem einstaklinga og lifa áfram í minningunum.

Pabbi var húsasmíðameistari að mennt og vann við þá iðn stóran hluta ævi sinnar. Hann vann einnig önnur störf, t.d. sjómennsku og fiskvinnslu. Pabbi hafði alltaf vandvirkni, samviskusemi og dugnað að leiðarljósi við störf sín. Sem dæmi um vandvirkni pabba smíðaði hann harðviðarhurð sem útskriftarverkefni árið 1961. Þessi hurð stendur enn og er búin að standa af sér margvíslega veðráttu.

Pabbi byggði sér og fjölskyldu sinni heimili, Birkimel á Grenivík. Við byggingu Birkimels sýndu pabbi og mamma mikinn dugnað og samviskusemi. Þau vildu ekki eyða um efni fram og því bjó fjölskyldan einungis á neðri hæðinni til að byrja með. Síðan varði hann frítíma sínum í að klára efri hæðina. Pabbi var mikill fjölskyldumaður og bar hag fjölskyldu sinnar mjög fyrir brjósti. Hann var meðvitaður um líðan okkar og fylgdist vel með barnabörnum sínum og langafabörnum. Það gladdi hann sérlega mikið að heyra að barnabörnin vildu mennta sig, stunda íþróttir og ferðast. Ef til vill upplifði hann margt í gegnum þau sem hann hefði viljað gera.

Pabbi var vel lesinn og fylgdist alla tíð með fréttum og heimsviðburðum. Hann hafði ákveðnar skoðanir á hinum ýmsu málefnum. Til að mynda fannst honum illa vegið að smábátaútgerðum og stjórnmálaákvarðanir voru honum misvel að skapi.

Pabbi eyddi töluverðum tíma þegar hann bjó á Akureyri síðustu árin í bílskúrnum við að smíða listaverk. Þá ómaði iðulega falleg tónlist fyrir eyrum en hann hafði mikla unun af tónlist. Stórtenórarnir Bocelli, Pavarotti og Domingo voru í miklu uppáhaldi.

Síðustu æviárin dvaldi pabbi á Dvalarheimilinu Grenilundi á Grenivík. Þar nutu þau mamma frábærrar umönnunar sem við erum mjög þakklát fyrir.

Við þökkum pabba fyrir allar dýrmætu stundirnar sem við áttum með honum. Hann elskaði okkur og við elskuðum hann. Sá kærleikur verður varðveittur áfram og haldið á lofti til mömmu og afkomenda þeirra. Hvíldu í friði, elsku pabbi. Hafðu hjartans þakkir fyrir styrka og farsæla handleiðslu alla tíð. Þín verður sárt saknað.

Fanney, Elísa Jóna, Kristinn Hólm, Kristján Þór.
---------------------------------------------------------------

Elsku afi okkar, nú er komið að kveðjustund. Það virðist svo óraunverulegt að þú sért farinn frá okkur. Þú sem varst alltaf til staðar, sama hvort það var í leik eða starfi. Allar minningarnar sem við eigum um þig munum við geyma í hjörtum okkar og hlökkum til að segja börnum okkar sögur af þér í komandi framtíð.

Við munum sakna þess að koma í heimsókn til ykkar ömmu og finna lyktina af nýbökuðum kleinum, hlusta á útvarpið og gæða okkur á brjóstsykrinum sem amma laumaði til okkar og þú stalst í með okkur. Það var alltaf ákveðin ró að koma í heimsókn til ykkar, þú varst alltaf svo yfirvegaður og rólegur. Við munum eftir þér brosandi og það var alltaf stutt í hláturinn.

Þegar við barnabörnin settumst niður til að skrifa þessi orð komumst við að því að flest okkar áttum við eina sterka sameiginlega minningu. Þegar þú sast í hægindastólnum þínum, inni í stofu með okkur, sokkinn í Tinna-teiknimyndirnar sem þér þóttu ekki síðri en okkur. Þær voru ófáar stundirnar sem við áttum með þér yfir þessum teiknimyndum.

Við hófumst því handa við að bera saman bækur okkar og í ljós komu margar skemmtilegar minningar um hann afa okkar. Vorið 2015 þegar Steinar var staddur í Víetnam sá hann málaða mynd af teiknimyndapersónunni Tinna í Saigon. Honum varð þá strax hugsað til afa Ása og ákvað, þrátt fyrir að myndin hafði kostað hálfa milljón í þarlendri mynt, að festa kaup á verkinu.

Það situr fast í minni Brynjars þegar hann gisti hjá afa og ömmu. Í ófá skipti vaknaði hann um miðjar nætur við söng og eftir þónokkur gistikvöld komst hann að því að það var afi sem söng þennan óperusöng upp úr svefni. Fannar man helst eftir heimsóknunum til afa og ömmu í Birkimel sem einkenndust af því að amma var uppi í eldhúsinu að baka eitthvað ljúffengt. Á meðan var afi í bílskúrnum að dunda sér.

Hann var alltaf til í að smíða eitthvað með okkur, alveg sama hvað það var. Óháð því hversu galin hugmyndin var. Honum tókst alltaf með einhverjum ótrúlegum hætti og vandvirkni sinni að töfra fram hin ýmsu listaverk með okkur þar.

Þær voru margar stundirnar sem við áttum með þér, elsku afi. Við minnumst þeirra með hlýhug og varðveitum þær áfram með okkur. Við minnumst þín sem kærleiksríks, yfirvegaðs og einlægs manns sem seint verður gleymt. Hvíldu í friði, elsku afi, minning þín er ljós í lífi okkar.

Þín barnabörn:

Fannar Hólm, Brynjar Hólm, Steinar Freyr, Arnar Pálmi, Berglind Birta, Ásdís Marín, Friðfinnur Steindór, Hildur Ólöf, Heiðrún Anna og Margrét Fanney.