Ragnar Jóhannesson skattstjóri

Mjölnir - 20. desember 1980  Minning -  Ragnar Jóhannesson Fæddur 1. júní 1911. dáinn 28. júní 1980 

Hinn 28. júlí s.l. andaðist Ragnar Jóhannesson, skattstjóri Norðurlands vestra, á heimili sínu hér á Siglufirði.

Hann hafði verið heilsuveill um árabil. Ragnar var fæddur í Skagafirði, en fluttist hingað á unglingsárum og átti hér heima eftir það.
Kona hans var Guðrún Rögnvaldsdóttir.
Þau eignuðust tvær dætur,

  1. Hekla Ragnarsdóttir og
  2. Jóhanna Sigríður Ragnarsdóttir, sem báðar eru uppkomnar, önnur búsett á Akureyri, hin í Búðardal.

Ragnar gegndi mörgum trúnaðarstörfum hér í bænum. Hann var forstjóri Kjötbúðar Siglufjarðar í um það bil 25 ár, bæjarfulltrúi í 24 ár, skattstjóri Siglufjarðar í 6 ár og síðan skattstjóri Norðurlands vestra frá 1962.

Þá var hann stjórnarformaður Þormóðs ramma h.f. frá stofnun fyrirtækisins til dauðadags, forseti bæjarstjórnar í mörg ár og sat í bæjaráði og ýmsum nefndum og stjórnum á vegum bæjarins um langt árabil. Ég átti sæti í bæjarstjórninni með Ragnari síðustu 8 árin sem hann var bæjarfulltrúi.

Ragnar Jóhannesson -- Ljósmynd: Kristfinnur

Ragnar Jóhannesson -- Ljósmynd: Kristfinnur

Það sem einkenndi málflutning hans og starf mest á þeim árum var áhugi hans á viðreisn atvinnulífsins í bænum, sem þá var i mestu þrengingum, sem nokkurt bæjarfélag á Íslandi hafði lent í, a. m. k. í marga áratugi. Manninn sjálfan einkenndi fyrst og fremst flasleysi og yfirvegun. Hann leiddi að mestu hjá sér þras og deilur, en einbeitti sér að lausn þeirra málefna, sem fyrir lágu hverju sinni.

Ekki veit ég hvort hann átti sér eða fékkst við nokkur tómstundaáhugamál. Mér er næst að halda, að svo hafi ekki verið. heldur hafi þau skyldustörf, sem hann hafði með höndum á hverjum tíma tekið allan hug hans og starfsorku og að hann hafi notið þess að takast á við þau. Slíkir menn vekja jafnan virðingu þeirra, sem með þeim starfa. hvað sem líður ágreiningi um markmið og málatilbúnað. Ég þakka Ragnari að leiðarlokum þá samfylgd. sem við áttum. Eftirlifandi konu hans, Guðrúnu Rögnvaldsdóttur. dætrum þeirra og öðru vandafólki votta ég samúð mína. 

Benedikt Sigurðsson
------------------------------------------------- 

Einherji - 1980

MINNING RAGNAR JÓHANNESSON SKATTASTJÓRI Fæddur 1. júní 1911. dáinn 28. júní 1980.

Ragnar Jóhannesson, skattstjóri, lést að heimili sínu í Siglufirði 28. júní s.l, 69 ára að aldri.

Síðustu ár gekk Ragnar ekki heill til skógar heilsufarslega, en hann var sú manngerð, sem ekki kann að hlífa sér. Kapp hans og trúnaður við hvert það starf, sem honum var falið, eða hann tók sér fyrir hendur, var óvenju mikið. Hann kunni ekki að liggja á liði sínu, eða hlífa sjálfum sér. Heill og óskiptur gekk Ragnar til allra starfa.

Trúmennska og samviskusemi var honum í blóð borin.
Ragnar fæddist að Glæsibæ í Staðarhreppi Skagafirði 1. júní 1911 sonur hjónanna Jóhannesar Jóhannessonar smiðs og Sæunnar Steinsdóttur.

Árið 1928 fluttist Ragnar til Siglufjarðar og þar átti hann heima síðan.
Í Siglufirði lærði Ragnar röralagnir. Stundaði nám einn vetur í Menntaskólanum á Akureyri. Lauk burtfararprófi úr Samvinnuskólanum 1935.

Árið 1937 var Ragnar ráðinn framkvæmdastjóri Kjötbúðar Siglufjarðar, og því starfi gegndi hann til 1962, en þá var Ragnar skipaður skattstjóri Norðurlandsumdæmis vestra.
Ragnar var skattstjóri Siglufjarðarkaupstaða r 1954—62. Bæjarfulltrúi fyrir Framsóknarmenn í Siglufirði frá 1946—70, eða í 24 ár, og forseti bæjarstjórnar 4 síðustu árin af þeim tíma.

Öll málefni Siglufjarðar lét Ragnar sig miklu skipta, ekki síst atvinnumál, og á seinni hluta bæjarstjórnartíma hans voru atvinnumálin mjög erfið. Síldin hvarf og atvinnuuppbygging Siglufjarðar hrundi til grunna, því hún byggðist svo til öll á síldinni. Ragnar hætti ekki að vinna fyrir Siglufjörð þótt setu hans í bæjarstjórn lyki.

Þegar Þormóður rammi var stofnsettur við endurnýjun atvinnulífs í Siglufirði á árinu 1971, varð Ragnar stjórnarformaður og gegndi því starfi til dauðadags. Það er því ekki ofsagt, að í 34 ár leysti Ragnar af hendi mikið og gott starf fyrir Siglufjörð.

Þegar ég kom til Siglufjarðar 1938, var Ragnar nýlega orðinn forstöðumaður Kjötbúðar Siglufjarðar. Kynni okkar hófust fljótlega, því báðir vorum við Framsóknarmenn og félagshyggjumenn. Allt samvinnustarf var báðum hugleikið. Þetta leiddi til samskipta í ýmsum félagsmálum, sem ljúft er nú að minnast og þakka.

Ragnar kvæntist eftirlifandi konu sinni, Guðrúnu Rögnvaldsdóttur, árið 1935. Hún hefur starfrækt kvenfata- og snyrtivöruverslun í Siglufirði allt frá 1935. Guðrún hefur sýnt í verki dugnað sinn og áhuga fyrir ýmsum málum Siglufjarðar. Má þar nefna slysavarnamál og fleira. Siglfirðingar eiga því þeim Ragnari og Guðrúnu þökk að gjalda fyrir störf þeirra á liðnum árum.

Ragnar og Guðrún eignuðust tvær dætur: Guðrúnu Ingu Heklu, búsetta á Akureyri og Jóhönnu Sigríði búsetta í Búðardal. Störfum Ragnars Jóhannessonar skattstjóra, fyrir Siglufjörð og Siglfirðinga, mun lengi sjá staðar. Slíkt er verðugur bautasteinn góðum dreng.
Jóhann Þorvaldsson
-------------------------------- 

Siglfirðingur - 23. desember 1980

MINNING: RAGNAR JÓHANNESSON SKATTASTJÓRI Fæddur l. júní l911. dáinn 28. júní

Þann 28. júlí s. i. bárust mér þau sorgartíðindi að Ragnar Jóhannesson, skattstjóri, hefði orðið bráðkvaddur að heimili sínu þá um kvöldið. Kynni okkar Ragnars hófust fyrir aðeins 5 árum síðan, og strax við fyrstu kynni fann ég að þar fór traustur og góður drengur. Atvinnulífið í þessum bæ var snar þáttur í lífi Ragnars Jóhannessonar.

Hann gerðist 1938 framkvæmdastjóri fyrir Kjötbúð Siglufjarðar og gerði það að stórfyrirtæki í sinni tíð. Það þarf góðan stjórnanda til að sameina kröfur framleiðenda og kröfur neytenda. Þetta tókst hjá Ragnari í stjórn verslunarinnar, en þar blómgaðist starfsemin bæði í vinnslu og sölu. Nærri má geta að oft hafi verið handagangur í öskjunni, þegar hér lágu hundruð skipa, sem öll þurftu á þjónustu að halda. Árið 1962 var Ragnar settur skattstjóri í Norðurlandsumdæmi vestra.

Samt sem áður var Ragnar í nánum tengslum við atvinnulífið. Hann var í bæjarstjórn og jafnframt í stjórn Útgerðarfélags Siglufjarðar. Við lestur ævisögu Tryggva Ófeigssonar, sér maður, að gaman laust hefur verið að vera í útgerðarstjórn á þeim árum, er hver útgerðin eftir aðra lagði upp laupana, en einna lengst var barist í þessum bæ. Ragnar var forseti bæjarstjórnarfrá 1966 til 1970.

Allir vita hvernig atvinnulífi var þá háttað, síldin horfin og snúa varð vörn í sókn. Að framansögðu er ekki óeðlilegt að Ragnar yrði einn af framvörðunum ef ný sókn í athafnalífi þessa bæjar var hafin.
Það var meira en að segja það, að koma hér upp traustu atvinnulífi. Ragnari var falin forusta í uppbyggingu Þormóðs ramma h.f., sem hér átti að vera öflugt atvinnufyrirtæki. Þetta fyrirtæki var snar þáttur í lífi Ragnars Jóhannessonar síðustu átta árin.
Hann sá togarana koma nýja og tók á þeim erfiðleikum er fyrirtækið hefur átt í frá upphafi, en segja má að á sínum tíma hafi fyrirtækið fengið fjármagn til að standa upp, en ekki til að ganga.

Stærsta draum sinn sá Ragnar ekki rætast, en það var að nýja fiskiðjuverið kæmist í gagnið. Bygging þess var Ragnari mikið hjartans mál. Mér er margt minnisstætt úr samvinnu okkar Ragnars, t. d. fundir með æðstu mönnum þessarar þjóðar, þar sem Ragnar sagði eins og alltaf hug sinn umbúðalaust. Þar fann maður hversu sterkur persónuleiki Ragnar var, fastur fyrir og málefnalegur.

Eins eru mér minnisstæðar ferðir með Ragnar í út í gat, eins og kallað er, til að fylgjast með skipunum koma eða fara. Gætti þá stundum stolts hjá Ragnari, þegar skipin voru að koma hlaðin að landi. Sem skattstjóri var Ragnar sérlega vel liðinn.

Hann var ekki refsiglaður embættismaður, en vildi hafa alla hluti í lagi og treysti mönnum þar til annað kom í ljós. Hann hafði einmitt lokið við að senda frá sér skattframtölin og ganga frá sínum málum er kallið kom.

Ég votta eftirlifandi konu Ragnars, Guðrúnu Rögnvaldsdóttur, dætrum þeirra og fjölskyldu, samúð mína.

Sæmundur B. Árelíusson.