Guðmundur Ágúst Gíslason trúboði

Guðmundur Ágúst Gíslason fæddist í Hvammi í Dýrafirði 29. ágúst árið 1897.
Móðir hans deyr 19. maí 1899 og er honum þá komið í fóstur til móðursystur sinnar í Hnífsdal og eiginmanns hennar.

Þar er hann til 1905, að þau flytjast inn á Ísafjörð. Gústi elst upp þarna vestra, frelsast árið 1910, og gerist sjómaður og er víða um land á bátum og skipum. Hinn 15. september 1923 fer hann siglandi til útlanda í fyrsta sinn, veikist illa og er komið undir læknishendur á Ítalíu og í Skotlandi. Við þessa reynslu eflist trú hans mjög. Eftir tveggja mánaða sjúkrahúslegu fer hann á norskt flutningaskip og siglir m.a. til Argentínu og er eftir það á ýmsum fleyjum, litlum og stærri, ytra.

Hann er í stýrimannaskóla í Noregi, líklega veturinn 1924–1925, og áfram heldur svo flakkið. Hann verður fyrir opinberun, e.t.v. árið 1926, er þá á skútu í útlöndum, og fer eftir það upp til Íslands. Er á Biblíuskóla í Fjellhaug í Noregi vorið 1929 og flytur upp úr því til Siglufjarðar og býr þar að mestu til æviloka.

Sumarið 1949 kaupir hann litla trillu, gefur henni nafnið Sigurvin og fer í útgerð með almættinu og notar andvirði veiðinnar til að styrkja fátæk börn um allan heim til náms, og styðja jafnframt við kristniboð á veraldarvísu.
Sjálfur bjó hann við þröngan kost.

Hann var mikið hraustmenni og þótti góður sjómaður, og notaði iðulega segl ef hægt var.
Á sunnudögum og líka á öðrum dögum, þegar hann ekki komst í róður, prédikaði hann á torginu í miðbænum, bara til að halda sér við, að eigin sögn. Um 1950 er þegar farið að kalla hann Gústa Guðsmann vegna þessa alls.
Svona líða árin.

Guðmundur Ágúst Gíslason - Gústi guðsmaður

Guðmundur Ágúst Gíslason - Gústi guðsmaður

Handskrifaðar ritningargreinar á litla miða, sem hann deildi út á meðal vegfarenda og annarra, tengjast þessu og margt fleira, ekki síst velvilji hans í garð barna og ungmenna, sem með fáum undantekningum var gagnkvæmur, og barátta hans við kommúnismann. Sjálfur kvaðst hann vera Sjálfstæðismaður og vildi meina að Guð hans væri það líka.

Árið 1977 er vélin í bátnum ónýt og farið líka. Upp úr því er Sigurvin tekinn á land og gefinn til varðveislu. Gústi dvelur síðustu æviárin á ellideild sjúkrahúss bæjarins. Hann lést á Siglufirði 12. mars 1985. Um 1990 tóku menn upp þann sið að leggja blóm á leiði hans, um viku á undan Síldarævintýri og Pæjumóti, til að biðja kristniboðann um gott veður, enda orðinn helgur maður í augum margra Siglfirðinga. Í byrjun 21. aldar var þetta enn við lýði.

Báturinn var lagfærður í byrjun 10. áratugar 20. aldar og hefur frá árinu 2004 verið geymdur í einni bygginga Síldarminjasafns Íslands, Bátahúsinu.

URI: Heimild: Sigurður Ægisson +  http://hdl.handle.net/1946/27015 
---------------------------------------------------- 

9. maí 2009 | Menningarblað/Lesbók mbl.is

Gústi guðsmaður - Ágúst Gíslason hét hann, kallaður Gústi og reri á guðs vegum. Allt sitt fé gaf hann þurfandi börnum í Afríku  

Gústi guðsmaður Hann söng sálma á stími út í sortann meðan aðrir bátar börðust í land. — Morgunblaðið/Árni Jörgensen

Hann keypti lítinn bát, frá Siglufirði réri hann út á hið bláa haf, hann keypti lítinn bát, og aflann sem hann dró til kristniboðs hann alltaf gaf Mér þótti það góð lexía í þolinmæði að sjá Gústa guðsmann boða drottins orð á Ráðhústorginu á Siglufirði.

  • Hann keypti lítinn bát,
  • frá Siglufirði réri hann út á hið bláa haf,
  • hann keypti lítinn bát,
  • og aflann sem hann dró til kristniboðs hann alltaf gaf

Mér þótti það góð lexía í þolinmæði að sjá Gústa guðsmann boða drottins orð á Ráðhústorginu á Siglufirði. Sumar eftir sumar – ég í vist hjá afa og ömmu á Sigló – stóð hann þarna í úlpunni, jafnvel í blíðviðri og heitu sumarlogni sem hvergi er meira og betra en einmitt þar, og las vegfarendum guðsorðið. Þetta var sérstakt, því ég man ekki til þess að nokkurn tíma hafi sála stoppað til að hlýða á Gústa, nema ef til vill undrandi ferðamenn, sem voru fáir og strjálir á Siglufirði í þá daga.

Gústi hét Ágúst Gíslason og var merkilegur maður. Hann frelsaðist til kristinnar trúar og hét guði sínum því að róa á hans vegum og láta gott af sér leiða. Hann gerði út bátinn Sigurvin og eins og segir í kvæði Gylfa Ægissonar um hann, þá gaf Gústi allan ágóða af útgerðinni til hjálparstarfs fyrir börn í Afríku. Sjálfur bjó Gústi í gömlum síldarbrakka og eyddi ekki í sjálfan sig.

Gústi guðsmaður söng stundum sálma, og sagan segir að eitt sinn hafi bátur verið á leið í land í ólgusjó og stórhríð, þegar bátsverjar heyrðu sálmasöng utan úr sortanum. Þar var þá Gústi kominn siglandi á blússi á Sigurvin út í óveðrið; hann setti traust sitt á guð. Og þegar Gústi var kominn á elliheimilið fékk hann meiri póst en sjúkrahúsið og elliheimilið samanlagt. Það voru þakkarbréf frá litlu vinum hans og guðs í Afríku.

begga@mbl.is
--------------------------

Dagblaðið: Mánudaginn 9. desember 2019 - Kynning og smákafli úr bókinni „Gústi“ eftir Sigurð Ægisson
Út er komin hjá Bókaútgáfunni Hólum bókin Gústi – alþýðuhetjan, fiskimaðurinn og kristniboðinn, eftir Sigurð Ægisson, guð- og þjóðfræðing. Eins og titillinn ber með sér er þar á ferðinni ævisaga Gústa guðsmanns, sem Gylfi Ægisson gerði ódauðlegan í samnefndu lagi sem kom út sumarið 1985.

Gústi var fæddur í Dýrafirði 29. ágúst árið 1897 og hét fullu nafni Guðmundar Ágúst Gíslason. Hann er að líkindum nafntogaðasti íslenski sjómaður 20. aldar, að öðrum ólöstuðum, eins og segir á bókarkápu, „var orðinn hálfgerð þjóðsagnapersóna meðan hann enn lifði, hvað þá eftir að hann lést. Hann þekkti hafið eins og fingurna á sér, var klár á öllu veðri og notaði segl ef hægt var. Það var sama hversu tryllt náttúruöflin gerðust, alltaf náði þessi járnkarl landi. Og ótti var ekki til í honum. Af því að hann, að eigin sögn, var aldrei einn. Guð var þar líka.

Gústi var kjarnyrtur, bölvaði út í eitt og ragnaði en betra hjarta var ekki til. Hann studdi fátæk börn úti í heimi til náms og gaf til þess nánast allt sem hann aflaði á litlu trillunni sinni, frá 1949 og þar til hún var búin á því, um 30 árum síðar.

Á einum stað í bókinni er eftirfarandi texta að finna:

„Fleyið hans Gústa var ekki stórt en hafið nánast óendanlegt á að líta, þegar út fyrir Siglunesið var komið. Og hann úti í alls kyns veðrum. Því́ mátti litið út af bregða. Þetta vissu menn og höfðu vakandi auga með kristniboðanum, jafnt meðvitað og ómeðvitað, sem var ekki par ánægður með það.

            Skafti Stefánsson á Nöf (f. 1894, d. 1979), útgerðarmaður og síldarsaltandi, og þá jafnframt formaður Björgunarsveitarinnar Stráka, fór einhverju sinni í kolbrjáluðu veðri með nokkrum öðrum á Mjölni EA 537 til leitar, sennilega þegar árið 1949. Þeir voru komnir töluvert út fyrir Neskrók en sjá ekki neitt vegna hríðarkófs. Þeir eru við það að gefast upp og snúa við, þegar einhver hljóð taka að berast þeim til eyrna. Við nánari eftirgrennslan er verið að syngja „Hærra, minn Guð, til þín.“ Þeir stíma á lagið og hitta þar fyrir kristniboðann, sem liggur hinn rólegasti aftur í skut.

            Ári síðar eða tveimur fara menn aftur til leitar, þegar ekkert bólar á karli á leið til hafnar. Þar er til frásagnar Guðni Gestsson (f. 1928). Hann segir:

            Faðir minn hét Gestur Guðjónsson, skipstjóri, og hann átti 47 tonna bát sem hét Grótta EA 364. Einn eftirmiðdag hringir hafnarvörðurinn á Siglufirði og spyr föður minn hvort báturinn sé gangfær og hvort það sé hægt að fara út á sjó. „Já, já.“ Svo að hann segir föður mínum að þeir séu allir komnir að, bátarnir sem hafa róið þennan daginn til fiskjar, nema Gústi guðsmaður. Og hafnarstjórinn spyr pabba hvort að hann myndi vilja fara og athuga um Gústa. Og það var sjálfsagt að gera það.

Og faðir minn bað mig að koma með, Friðfinn Níelsson líka, sem var þá vélstjórinn og meðeigandi hans í þessum bát, og Valda Rögnvalds sem var maður sem var hér á Siglufirði. Og við förum. Það var mjög þungbúið veður, þrjú, fjögur vindstig en skýjað og þoka. Og þegar við erum komnir langleiðina út að Siglunesi, þá heyrum við einhvern …, eins og söng, og það er siglt á hljóðið og þar sjáum við að Gústi guðsmaður er á sínum báti á leiðinni inn fjörðinn og allt virtist vera í góðu lagi hjá honum. En hann söng hástöfum sálma þegar við komum að honum.

Þegar við nálgumst hann meira, þá var siglt þannig að hann var á hléborða við okkur svo að hvorki sjór eða vindur hafði áhrif á hans bát. En þá segir hann við okkur, þegar við erum komnir þarna nálægt honum: „Drengir, hvern andskotans djöfulinn eruð þið að þvæla út á sjó í svona brjáluðu veðri?“ Og það tóku því allir náttúrulega mjög vel og svo var bara báturinn hans, Sigurvin, tekinn í slef og við fórum til baka, til Siglufjarðar.“

Sigurður vann að gerð þessarar sjöundu og nýjustu ritsmíðar sinnar í næstum 20 ár og leitaði víða fanga, skrifaðist m.a. á við fjölda manns erlendis.

Bókin, sem er um 480 blaðsíður að stærð, er byggð á rúmlega 550 heimildum, jafnt munnlegum sem rituðum/prentuðum.
Birt hér með leigi höfundar.

Gylfi Ægisson syngur lag sitt og texta. + Myndir úr bókinni má skoð hér:> https://www.youtube.com/watch?v=eja94THgl9Q 

Og hér er meira um Gústa:> http://www.sk2102.com/437192920

Gústi- Mynd úr bókinni: Gústi guðsmaður. Hann söng sálma á stími út í sortann meðan aðrir bátar börðust í land. — Morgunblaðið/Árni Jörgensen

Gústi- Mynd úr bókinni:

Kápa bókar