Haraldur Pálsson trésmíðameistari

Morgunblaðið - 30. desember 1983

Minning: Haraldur Pálsson trésmíðameistari Fæddur 7. júlí 1924 Dáinn 18. desember 1983

Þegar góður drengur og besti vinur manns kveður þetta líf skyndilega þá vakna minningar frá liðnum dögum. Og hugurinn reikar norður yfir fjöllin til æskustöðvanna heima í Siglufirði. Fyrstu kynni mín við Harald Pálsson urðu á ísi lögðum tjörnum sem nú eru horfnar en voru norðarlega á Eyrinni.

Þar hópuðust forðum saman krakkar og unglingar á skauta. f þeim hópi var Haraldur, lítill, hnellinn drengur sem réð yfir frábærri leikni á skautum. Hann naut þess líka langt fram eftir aldri að skreppa á skauta. Aðaláhugamál hans var skíðaíþróttin og veitti hún honum marga ánægjustund.

Fjórtán ára að aldri hóf hann kennslu á skíðum norður í Fljótum. Sama vetur vann hann sinn fyrsta sigur í göngu á landsmóti. Upp frá því var hann einn af litríkustu skíðamönnum þessa lands allt til hinstu stundar. Ég sem þessar línur skrifa hef átt Harald Pálsson að vini frá því við vorum börn að aldri.

Haraldur Pálsson - Ljósmynd: Kristfinnur

Haraldur Pálsson - Ljósmynd: Kristfinnur

Sjaldan bar skugga á vináttu okkar þótt við værum ekki alltaf sammála. Hann var ákveðinn í skoðunum og staðfastur en skilningsgóður ef aðrir lögðu gott til. Ég á margar góðar minningar frá skíðaferðum með Haraldi. Við gengum saman drengir fyrstu spor okkar á skíðum. Og þegar hann bað mig að koma með sér á skíði þann örlagaríka sunnudag, 18. desember síðastliðinn, kom mér síst í hug að ég myndi einmitt þá ganga með honum síðustu spor hans á skíðum í þessu lífi.

Við Helga þökkum kærum vini tryggð og sanna vináttu og allar ánægjustundirnar sem við áttum saman. Við biðjum Guð að styrkja og blessa alla ástvini hans.
Einar Ólafsson
----------------------------------------

Skíðaferðinni er lokið. Þeirri för, sem hófst á hvítum snæbreiðum milli siglfirskra fjalla, lauk á heiðbjörtum skammdegisaftni eftir hressandi göngu í Fossvogsdal. —

Með syni sínum og vini þeirra beggja naut Haraldur Pálsson síðustu stundanna í veröld vor manna. Hann var „á snöggu augabragði" kvaddur á brott til annarrar ferðar, þeirrar sem enginn fær undan vikist að fara. Hann hélt af stað á kvöldi sem var fremur siglfirskt en sunnlenskt, — góður skíðasnjór á jörðu, hægur andvari, bjart af tungli. Slíkt umhverfi hæfði Haraldi Pálssyni vel.

Og það er eins og betra sé að kveðja þegar vitað er að lokasviðið í lífsleik hans var ekki ólíkt þeim sem honum höfðu löngum verið kærust. Haraldur Pálsson var Siglfirðingur. Hann fæddist að vísu á Sauðárkróki 7. júlí 1924 en fluttist fjögurra ára með fjölskyldu sinni til Siglufjarðar. Foreldrar hans voru hjónin Guðbjörg Eiríksdóttir og Páll S. Jónsson, trésmíðameistari og lengi byggingafulltrúi og bæjarverkstjóri á Siglufirði, hið ágætasta fólk.

Tvö systkini átti Haraldur og voru bæði yngri en hann, Olgu, sem gift er og búsett í Hafnarfirði, og Sverri, sem lést ungur. Auk þeirra átti hann systur sem dó í frumbernsku. — Haraldur ólst upp með foreldrum sínum og systkinum á Siglufirði. Hann var raunar löngum í sveit á sumrin eins og þá var títt en innan við fermingu hóf hann þó sumarstörf heima og reyndist snemma dugmikill og úrræðagóður.

Hann lauk námi í húsasmíði um tvítugt, setti þá þegar á laggirnar eigið verkstæði ásamt vini sínum, Asgrími Stefánssyni, en fluttist til Reykjavíkur 1951 og átti þar heima síðan. Hann stundaði jafnan trésmíðar og stjórnaði gerð fjölmargra húsa.
Haraldur Pálsson kvæntist í október 1948 Eyrúnu Maríusdóttur úr Reykjavík.

Börn þeirra eru fjögur:

  1. Sverrir Haraldsson, dó ungur;
  2. Eyþór Haraldsson, verkfræðingur í Boston, kvæntur Andreu Gosselin;
  3. Guðbjörg Haraldsdóttir, hjúkrunarfræðingur í Reykjavík, gift Matthíasi Gunnarssyni prentara og eiga þau tvö börn;
  4. Haraldur Haraldsson, hefur löngum starfað með föður sínum að trésmíðum.

Eyrún og Haraldur slitu samvistir fyrir nokkrum árum en vinátta þeirra stóð til hinstu stundar Haralds. Ungur varð Haraldur skíðamaður góður og óvenju fjölhæfur í þeirri íþróttagrein. Hann hélt til Svíþjóðar til náms og þjálfunar skömmu eftir heimsstyrjöldina og fór síðan marga ferðina til útlanda og urðu sumar frægðarfarir.

Haraldur tók þátt í skíðamótum heima og erlendis í tæpa hálfa öld og var tíðum sigursæll enda afreksmaður og náði að verða íslandsmeistari bæði í norrænni tvíkeppni og Alpagreinum. Hann naut skíðaferða og raunar hvers konar útivistar og féll því í valinn á þeim vettvangi sem hann unni. Um árabil var Haraldur skíðakennari víða um land.

Haraldur hafði gaman af að segja fólki til og fjölhæfni hans gerði honum kleift að temja ýmsum nokkra leikni þó að námskeið væru stutt. Haraldur Pálsson var vinur minn frá því ég var barn að aldri og góðvinur konu minnar var hann í rúm 30 ár. Og hann var góður vinur sem við eigum mikla þökk að gjalda. Þó að stundum liði langt milli funda rofnuðu aldrei tengslin við Halla Páls. Og alltaf var jafngaman að hitta hann. Hann var sagnasjór, sagði afar vel frá og naut þess að rekja liðna atburði.

Ævi hans var ekki ætíð dans á rósum en þó var beiskja fjarri honum. Hann var að vísu lítt gefinn fyrir að láta hlut sinn, sat oft við sinn keip meðan sætt var. En mér virtist hann tíðum stunda þrætubókarlistina sem íþrótt en ekki af stærilæti. Æskuheimili Haralds Pálssonar er mér í fersku minni. Þar átti ég ungur marga góða og glaða stund.

Við Sverrir Pálsson heitinn vorum á líku reki, Haraldur nokkru eldri sem fyrr segir. Hann hafði töluverð mannaforráð þegar í æsku því að allmargir voru á líkum aldri og við Sverrir í nágrenninu. Fyrir því liði fór Halli Páls. Aldrei varð þurrð á viðfangsefnum. „Margt eitt kvöld og margan dag" áttum við saman.

Auðvitað voru skíðin aðalatriðið. Hver okkar gömlu vinanna man ekki refaleik þar sem Halli stýrði og skipulagði? Haraldur varð, eins og áður sagði, snemma afreksmaður á skíðum, göngumaður góður og stökkmaður. Og hann varð ásamt Ásgrími Stefánssyni fyrrnefndum einn leiknasti svigmaður Siglfirðinga eftir að þeir tóku að æfa þá grein og kölluðu slalom. —

En hann kunni líka að nota sumrin og kenndi okkur að meta umhverfið og njóta þess.
Nokkur strjál minningabrot festi ég á þetta blað: —

Þreyttir sveinar bera timbur, nagla og smíðatól upp bratta hlíð. Kofi er reistur í botni Hvanneyrarskálar. Það var gott sumar sjö ára snáða. —

Og enn fyrr:
Haraldur og vinur hans, Finnur Jónsson, nú Grímseyingur, fara með okkur Sverri á reiðhjólum sínum upp í Skarðsveg sem þá nær að vísu ekki langt upp fyrir Skarðdal. Á leiðinni niður hitna bremsurnar svo að úr rýkur og við leggjumst á bakkann við Grísará í heitu sólskini og blæjalogni. Það er siglfirsk sumarblíða. —

Og enn sumarkvöld:
Haraldur er úr grasi vaxinn og sendiboði hjá hafnarstjóranum, Guðmundi Hafliðasyni. Hann fer gjarnan á hraðbáti um fjörðinn. Og hvað er meira ævintýri ungum dreng en að þjóta um sléttan sjóinn milli síldarbáta og flutningaskipa frá ýmsum þjóðum? — Slíkur galdramaður var Halli Páls að hann gat gætt umhverfi og athafnir þeim töfrum sem hverfa ekki heldur búa í vitund okkar, eru partur af okkur æ síðan.

Seint gleymi ég skammdegismorgni einum 1946. Ég er nýkominn frá Akureyri heim í jólaleyfi. Síminn hringir. Faðir minn svarar. Ég skynja af raddblæ hans að ótíðindi hafa gerst. Sverrir Pálsson er látinn. Sextán ára er hann í val fallinn, mannsefnið góða orðið harmsefni. Og nú, einmitt þegar „dagurinn flýgur lágt við lönd", hverfur bróðir hans til þeirra landa þar sem engin köld klakahönd stýfir vængi. —

Sverrir Pálsson bar ungur af um íþróttir allar og var, þegar hann lést, einn efnilegasti skíðamaður Siglfirðinga þó að vart væri af barnsaldri. Ég hygg fráfall hans hafi orðið Haraldi reiðarslag þótt hann stæðist höggið án þess að bogna eins og fjölskyldan raunar öll. Síðan átti hann eftir að sjá á bak öðrum Sverri og stóðst þá eldraunina einnig.

Honum var ekki fisjað saman enda átti hann til traustra stofna að telja. Og nú er sá sem styrkastur stóð fallinn. Ástvinum hans öllum vottum við hjónin samúð og biðjum þeim blessunar Guðs. Fyrir sjónum skammsýnna manna er för Haralds Pálssonar Iokið. Hann spennir ekki framar á sig skíðin og hverfur á vit þeirrar fegurðar sem hvít víðernin búa yfir. Hann leggur ekki lengur skíðaslóðir sem aðrir njóta að fara. 

Haraldur kemur ekki oftar þreyttur en glaður úr drengilegum kappleik. Hann hefur haldið á vit hinna albjörtu töfra og þangað fylgja bænir vorar honum.

Ólafur  Haukur Árnason
----------------------------------------------------

Þegar ég frétti af andláti Haraldar E. Pálssonar vinar míns síðla sunnudagsins 18. desember sl. kom mér ekki á óvart að hann skyldi hafa verið á skíðum þennan síðasta dag sem hann lifði, svo stóran þátt átti skíðaíþróttin í lífi hans öllu.

Nú var ein skíðavertíðin enn að hefjast og þótt Haraldur gengi ekki heill til skógar síðustu árin, lét hann það ekki aftra sér frá því að skreppa á skíði þegar tækifæri gafst. Við fráfall þessa þrekmikla íþróttamanns verður manni hugsað til kynna okkar og samskipta, gömlu góðu áranna á Siglufirði og síðan hér sunnanlands. Þrátt fyrir nokkurn aldursmun, sem gætir meira á yngri árum, minnist ég fyrstu skíðaáranna á Siglufirði og leiðsagnar Haraldar.

Foreldrar okkar byggðu húsið Hólaveg 6, tvílyft timburhús, og var Páll faðir Haraldar byggingarmeistarinn, en þar bjuggu fjölskyldur okkar frá árinu 1934. í kjallara þess húss voru skíðin geymd og þar voru málin rædd. A þeim tíma voru góð skíði illfáanleg og skíðaáburður ófáanlegur.

Þá var gott fyrir okkur yngri strákana að þekkja mann eins og Harald sem sigldi til útlanda til skíðaiðkana og var tilbúinn að gefa okkur stroku undir skíðin svona við og við. Já, það fór ekki hjá því að við bræðurnir litum oft löngunaraugum í áburðarskápana þeirra bræðra Haraldar og Sverris. Þessir tímar á Hólaveginum eru ógleymanlegir, þar sem Haraldur var hinn virki leiðtogi á skíðunum, alltaf boðinn og búinn til að leggja þeim yngri lið og leiðbeina þeim.

Haraldur var í fjölda mörg ár einn fremsti skíðamaður landsins og um árabil var hann besti göngumaður Siglfirðinga. Reyndar var Haraldur nær jafnvígur á allar greinar skíðaíþróttarinnar, göngu, stökk og svig, þótt telja verði að gangan hafi verið hans sérgrein. Verður ekki í fljótu bragði komið auga á marga jafningja Haraldar að þessu leyti hér á landi þegar litið er til baka. Hann tók íþrótt sína alvarlega og stundaði hana af kostgæfni.

Við dáðumst að þrautseigju hans og ósérhlífni við æfingar á Siglufirði, við aðstæður sem nú væru taldar vonlausar. Ekki lét Haraldur það nægja að æfa og keppa í íþrótt sinni hér á landi, hann vildi kynnast skíðaiðkun með öðrum þjóðum. Það var veturinn 1946 sem þeir Haraldur og sveitungi hans Jónas Ásgeirsson héldu frá Siglufirði til Svíþjóðar til æfinga og keppni.

Þetta mun hafa verið fyrsta æfinga- og keppnisferð íslenskra skíðamanna til annarra landa, en þau áttu eftir að verða fleiri ferðalögin til útlanda. En smám saman verður íþróttaiðkun að víkja fyrir alvöru lífsins. Haraldur lærði byggingariðn, rak fyrst verkstæði á Siglufirði með Ásgrími Stefánssyni.

Á verkstæðinu í Gránugötunni var oft margt um manninn. Þar voru oft heitar umræður og þangað var gott að leita með brotin skíði. Haraldur kvæntist Eyrúnu Maríusdóttur og eignuðust þau fjögur börn og eru þrjú þeirra á lífi. Þau hjón komu sér upp myndarheimili í Reykjavík sem gott var að heimsækja, en þau hjónin slitu samvistir. Hér sunnanlands stundaði Haraldur aðallega húsasmíði og minnist ég þess tíma með þakklæti er hann vann ásamt sonum sínum sem byggingarmeistari að byggingu íbúðarhúss okkar hjóna.

Haraldur kom mér fyrir sjónir sem fremur einrænn maður, sem fór sínar eigin leiðir, oft ótroðnar slóðir. Hann var rökfastur og vildi ræða öll mál til hlítar. Ekki voru viðmælendur hans alltaf á sama máli og hann, en því tók hann ekki illa, því hann virtist njóta rökræðna um ágreiningsefnin. Hann var heiðarlegur, hreinn og beinn og lét skoðanir sínar óhikað í ljósi.

Við systkinin, foreldrar okkar og fjölskyldur sendum börnum Haraldar, móður, systur og öðrum ástvinum hans innilegar samúðarkveðjur með þakklæti fyrir samverustundirnar.

Ólafur Nilsson
---------------------------------------------

Á Sauðárkróki er Haraldur Pálsson fæddur en þegar hann verður nafntogaður skíðamaður er hann á Siglufirði og því höfum við víst flest talið hann Siglfirðing.

Til fræðslumálaskrifstofunnar var oft beint beiðnum um útvegun á skíðakennurum til skóla. Um langt árabil var leitast við að verða við þessu og þá leitað í hóp góðra skíðamanna og þeirra sem dvalið höfðu í Skíðaskóla Ísfirðinga eða sótt skíðakennaranámskeið innanlands eða erlendis. Stór er sá hópur orðinn, sem sagt hefur skólanemendum til í skíðaíþróttum eða staðið fyrir skíðaferðum og dvöl í skíðaskála.

Aðdáunarvert er hve slys hafa orðið fá innan alls þessa fjölda og kvartanir í garð kennara engar, sem ég man eftir. Hvílíkri hugsun þarf ekki að beita við stjórn og umhyggju stórs hóps lítt harnaðra barna eða unglinga, sem oft finnst þeir allt kunna og geta? í hópi þessara ötulu kennara og stjórnsömu leiðbeinenda var í mörg ár Haraldur E. Pálsson.

Fyrir orð þeirra Helga heitins Sveinssonar eða Jónasar Ásgeirssonar, sem lengi sinntu skólanemendum, bauð Haraldur fram krafta sína. Bauð er of  mikið sagt, því að hann var svo yfirlætislaus um getu sína og færni, er hann í fyrstu ræddi við mig, að hann taldi sig vart nothæfan. Hann tók þó að mig minnir að sér Mývetninga. Er við tókumst í hendur brosti hann sínu hlýja hógværa brosi. Ég hygg að enginn hafi kennt víðar á Íslandi skíðaíþróttir en Haraldur. Oft vill verða í íslenskum umhleypingum, að þegar kallað er eftir skíðakennara er nægur snjór en svo bregður til hláku. Það var sérgáfa Haraldar að finna snjó og koma þar fyrir kennslustöð.

Ég símaði einu sinni til hans á stað þar sem hláka var og spurði hvað hann væri að gera: „Kenna skíðaíþróttir, og skólastjórinn sagði að fundið hefði hann skafl í gili og þar undi hann sér með . nemendur allan daginn. Fáir skíðakennarar hafa verið og þeim fer án efa fækkandi sem geta kennt skíðagöngu, svig og skíðastökk.

Þó að kennari geti kennt þessar þrennar skíðaíþróttir, þá njóta fáir þess orðspors að hafa orðið íslandsmeistarar í þessum greinum og staðið sig vel í keppni í einstakri þeirra eða samanlagt (norræn tvíkeppni eða þríkeppni, t.d. Osló 1952) á erlendum stórmótum. Keppni í skíðaíþróttum hóf Haraldur 10 ára. Göngu unglinga 15 km sigrar hann á Landsmóti 1940. Svigmeistari Íslands og annar í bruni, göngu og norrænni tvíkeppni. Íslandsmeistari í norrænni tvíkeppni 1949 og 1951.

Fyrstur Íslendinga keppir hann ásamt Jónasi Ásgeirssyni og Sigtryggi Stefánssyni á alþjóðamótum erlendum 1946. Þannig má telja frækna sigra Haraldar allt fram til 1966. Nú síðari ár gaf Haraldur eigi kost á sér til skíðakennslu út á land og var hans saknað af mörgum, — en heyra mátti auglýst að hann væri ásamt góðum félögum til aðstoðar á skíðastöðum Reykvíkinga og veitti með þeim tilsögn í skíðaíþróttum — og efndi til skíðagöngu fyrir fjölskyldur og jafnvel til göngu um nokkurn veg.

Haraldur var dulur maður, traustur og gott að hafa hann í hópnum. Hann bjó yfir mikilli reynslu og kunnáttu í helstu skíðaíþróttum og lagði fram mikið kennslustarf, sem markað hefur spor sem skal reynt að þakka með þessum fátæklegu skrifum. Megi íslenskum skíðaiðkendum verða fjölhæfni Haraldar E. Pálssonar fordæmi til aukinnar færni á skíðaslóðum. Aðstandendum vil ég tjá samúð og virðingu íslenskra íþróttamanna á hinum ágæta skíðamanni sem fórnaði sér fyrir góða íþrótt.

Þorsteinn Einarsson
---------------------------------

Haraldur Pálsson setti sterkan svip á allt skíðalíf sunnan heiða í mörg ár. Það er erfitt að átta sig á, að hann muni ekki framar verða með okkur við æfingar eða á skíðamótum. Frá 1970, er Skíðafélag Reykjavíkur var endurskipulagt, var hann kjörinn í stjórn félagsins, og var í henni til dauðadags. Það voru ekki margir dagar yfir veturinn, sem Haraldur steig ekki á skíði. Hann var ótvírætt litríkasti skíðamaður okkar Sunnlendinga.

Yfirstjórn SR hefur síðan 1970 verið með dálítið Siglfirskan blæ, og hefur það verið SR til gleði og gagns. Haraldur var einn af þessum sterku skíðamönnum frá Siglufirði sem fóru til Noregs og Svíþjóðar, og keppti við góðan orðstír. Ennfremur vann Haraldur í skíðaverksmiðju utanlands og var mjög fær um allt sem viðvék viðhaldi á skíðum.

Svigmót og göngumót á vegum SR voru í mörg ár undir umsjá Haraldar, og óneitanlega var gaman að sjá til hans, er hann var að leggja svigbraut í þrönga gilinu við skíðaskálann í Hveradölum. Skíðabrautir hans voru alltaf vel lagðar og keppendum til ánægju. Nú er lífshlaup Haraldar á enda, og við í kringum skíðahreyfinguna þökkum honum samveruna og margar glaðar stundir, einnig viljum við votta börnum, tengdabörnum og barnabörnum okkar dýpstu samúð við fráfall föður, tengdaföður og afa.

Fyrir hönd félaga í Skíðafélagi Reykjavíkur, Ellen Sighvatsson Kveðja frá stjórn Skíðasambands Íslands Nú er borinn til moldar Haraldur Pálsson. Haraldur fæddist 7. júlí 1924 á Sauðárkróki, en fluttist 1928 til Siglufjarðar. Haraldur er öllum skíðamönnum kunnur af áralöngum störfum sínum að skíðamálum, fyrst sem keppandi, en síðan sem kennari og forystumaður.

Haraldur Pálsson var óvenju fjölhæfur skíðamaður, enda var það viðtekin venja, að Siglfirðingar væru jafnliðtækir í hvaða grein skíðaíþróttarinnar sem um var að ræða, ýmist bruni, svigi, stórsvigi, skíðastökki eða skíðagöngu. Hann hóf að keppa á skíðum 1934 og hefur fram á þennan dag ekki látið sig vanta í skíðalöndin, þrátt fyrir sjúkdóm þann, sem að lokum varð honum að aldurtila.

Haraldur var í hópi fyrstu Íslendinganna, sem kepptu á skíðum á erlendri grund, en 1946 keppti hann ásamt þeim Jónasi Ásgeirssyni og Sigtryggi Stefánssyni í Svíþjóð og mun það hafa verið í fyrsta skipti, sem okkar skíðamenn háðu keppni erlendis. Þessi keppnisför vakti mikla athygli í Svíþjóð og keppti Haraldur í svigi, göngu og stökki og var hann til að mynda 8. í stökki í Suderhavn.

Fjölhæfi Haraldar Pálssonar, sem skíðamanns sést best á því, að hann varð íslandsmeistari 1944 og 1948 í svigi og 1949 og 1951 í norrænni tvíkeppni, þá varð hann annar í bruni 1944. Haraldur tók þátt í fjölda móta hér heima og erlendis og var með okkar bestu skíðamönnum um árabil. Það má segja að Haraldur hafi lifað fyrir skíðin, þau áttu hug hans allan. Hvort heldur var að vetri eða sumri var ekkert umræðuefni honum hugleiknara.

Haraldur hafði gaman af að segja frá gömlum skíðaviðburðum og tókst þá oft einkar vel upp. Ég minnist þess enn, þegar hann sagði okkur strákunum frá þátttöku sinni í skíðastökki á Holmenkollen í Osló með þessari líka lifandi og skemmtilegu frásögn. Við sem þekktum Harald munum sakna hans, þegar kemur í skíðalöndin í vetur, og áhuga hans á skíðaíþróttinni. Það má segja, að það hafi verið táknrænt að Haraldur varð bráðkvaddur eftir að hafa verið nýlega kominn af skíðum.

Hann var trúr hugsjón sinni til hinstu stundar. Stjórn Skíðasambands íslands vill þakka Haraldi Pálssyni störf hans í þágu skíðaíþróttarinnar, og óbilandi áhuga hans á henni allt til síðasta dags. Þá sendum við fjölskyldu hans hugheilar samúðarkveðjur.

Skíðasamband Íslands, Hreggviður Jónsson, formaður