Ástríður Sigurrós Guðmundsdóttir

mbl.is  30. september 1999 | Minningargreinar |

Ástríður Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 12. júlí 1900. Hún andaðist á Hrafnistu í Hafnarfirði 18. september 1999.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Guðmundsson, f. 10. maí 1868, d. 15. desember 1919 og Margrét Ólafsdóttir, f. 26. júlí 1870, d. 30. júlí 1959.

Systkini Ástríðar + voru

 1. Helga Guðmundsdóttir, f. 19. júní 1898, d. 26. ágúst 1959;
 2. Guðrún, f. 16. október 1903, d. 19. nóvember 1985;
 3. Ástríður Guðmundsdóttir f. 12. júlí 1900 - d. 18. september 1999
 4. Ágúst Guðmundsson, f. 2. ágúst 1906, d. 14. nóvember 1994;
 5. Ólafur Ágúst Guðmundsson, f. 11. júlí 1908, d. 15. september 1996 og
 6. Gísli Ágúst Guðmundsson, f. 18. október 1910, d. 14. apríl 1982.

Hinn 19. maí 1928 giftist Ástríður Friðriki H. Guðjónssyni, skólastjóra og útgerðarmanni, f. 9. október 1901, d. 28. apríl 1991.

Ástríður Guðmundsdóttir - Ljósm; Kristfinnur

Ástríður Guðmundsdóttir - Ljósm; Kristfinnur

Dætur Ástríðar og Friðriks eru:

 1. Kristín Ásta Friðriksdóttir, f. 26. júlí 1926, eiginmaður Friðrik Hafsteinn Sigurðsson, f. 27. apríl 1929, d. 25. júní 1993.
 2. Gréta Friðriksdóttir, f. 22. ágúst 1929, eiginmaður Sigmar Ólason, f. 12. október 1927. Börn þeirra eru Ásta Magnea, f. 1957, Hreinn, f. 1963 og Óli Nikulás f. 1964.
 3. Steinunn Friðriksdóttir, f. 10. janúar 1934, eiginmaður Jón Árnason, f. 28. september 1928. Börn þeirra eru Friðrik Helgi, f. 1951, Elín Guðrún f. 1953, Árni Frímann, 1955, Ástríður Sigurrós, f. 1961 og Jón Steinar, f. 1963. Ástríðar átti 18 langömmubörn og eitt langa- langömmubarn.

Lengst af bjuggu Ástríður og Friðrik á Siglufirði, en árið 1955 fluttu þau í Garðabæ, síðan til Reykjavíkur árið 1969 og loks á Hrafnistu í Hafnarfirði árið 1982.

Útför Ástríðar fer fram frá Garðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30

Ástríður S. Guðmundsdóttir Það vantaði ekki nema nokkra mánuði uppá að hún Ásta amma hefði lifað heila öld. Ævi hennar hófst við Bræðraborgarstíginn í Reykjavík og þar bjó hún þangað til hún gifti sig 28 ára gömul.

Lífsbaráttan hefur eflaust oft verið hörð á Bræðraborgarstígnum á fyrstu áratugum aldarinnar. Amma sagði mér að hún hefði snemma þurft að taka til hendinni og ætíð var séð til þess að hún sæti ekki iðjulaus. Hún þurfti frá unga aldri að aðstoða við heimilisstörf, sækja vatn í brunn, passa bræður sína og gera annað sem eðlilegt þótti að stúlkur ynnu á heimilum.

Helsta tilbreyting ársins fyrir utan hátíðadaga var þegar heimilisfaðirinn fékk lánaðan hestvagn hjá Duus og fór með barnahópinn sinn í dagsferð uppí Öskjuhlíð til að tína ber. Að loknu barnaskólaprófi fór amma að vinna utan heimilis. Fyrstu árin var hún í vist, en lengst af vann hún við afgreiðslu í versluninni Vísi.

Eftir að amma og afi giftust fluttu þau til Siglufjarðar. Þau tóku mikinn þátt í síldarævintýrinu mikla. Fyrst í stað var afi barnakennari á veturna og í síldarútgerð á sumrin, en fljótlega varð útgerð hans aðalstarf. Amma sá um heimili þeirra og gerði það af miklum myndarskap. Þar var mjög gestkvæmt og mikið um að vera. Oft voru teknar afdrifaríkar ákvarðanir með skömmum fyrirvara. Þá hefur eflaust reynt mikið á útsjónarsemi ömmu og þann eiginleika hennar að reyna að gera gott úr öllu.

Amma var um margt nútímaleg í háttum. Hún vann oft utan heimilis, ekki af fjárhagslegri nauðsyn heldur vegna þess að hún taldi að slíkt væri eðlilegur lífsmáti. Svo stundaði hún líkamsrækt, fór í leikfimi og daglega göngutúra, löngu áður en slíkt komst í tísku.

Kynni okkar ömmu hófust fyrir tæpri hálfri öld þegar ég kom í heiminn í þakherbergi á heimili hennar á Siglufirði. Hlutir æxluðust þannig að ég bjó hjá ömmu og afa fyrstu ár ævi minnar. Þar varð ég aðnjótandi skilyrðislausrar væntumþykju og trausts sem eflaust hefur gert mig að betri manni en ég hefði ella orðið. Ég ólst upp við aðstæður sem setja lífi barna farveg sem ekki verður auðveldlega brugðið útaf.

Þegar ég var sautján ára flutti ég aftur heim til afa og ömmu. Þá þurftum við amma að venjast hvort öðru á ný. Eins og fyrr náðum við ævinlega samkomulagi sem við gátum bæði sætt okkur við. Hún sætti sig við háværa tónlist og annað sem fylgdi ungum mönnum á sjöunda áratugnum og ég sætti mig við að gallabuxurnar mínar voru stífpressaðar hvað sem allri tísku leið.

Nú skilja leiðir. Ég fæ aldrei fullþakkað ömmu allt sem hún gerði fyrir mig og get aðeins heiðrað minningu hennar með því að gera mitt besta til að skila áfram viðmóti hennar til komandi kynslóða.

Friðrik H. Jónsson.
------------------------------

30. september 1999 

Ástríður Guðmundsdóttir

Ástríður Guðmundsdóttir Siglufjörður, bær bernsku minnar og uppvaxtarára og "la grande dame", Ástríður Guðmundsdóttir, sem hér er kvödd ­ tengjast órofaböndum í minningu minni.

Hún var ein af "fínu frúnum " í bænum og á þeim árum voru þær vissulega margar, sumar hétu erlendum nöfnum: Frú Hertervig, frú Schiöth, frú Thorarensen en aðrar voru "son": Bjarnason, Þorsteinsson.

Ég kynntist allvel þessari fallegu og fínlegu konu þegar við yngsta dóttir hennar, Steinunn, urðum vinkonur.

Glæsilegt heimili fjölskyldunnar var opið öllum vinum heimasætanna á bænum og á sumrin bættist hressilega í hópinn en þá komu erlendu síldarspekúlantarnir, margir landsfeður og komumenn sem leið áttu um bæinn á þessum gósenárum. Húsbóndinn, Friðrik Guðjónsson, var umsvifamikill atvinnurekandi og umboðsmaður erlendra síldarkaupmanna og var því langtímum saman í burtu frá heimilinu. Ásta þurfti því oft, engu síður en sjómannskonan, að axla ábyrgð beggja aðilja.

Ég undraðist oft seiglu, verklagni og óvílsemi þessarar smávöxnu konu, sem alist hafði upp í Reykjavík, en bjó nú við ólík kjör hér "við ystu höf".

Systurnar léku allar á píanó og á veturna var endalaust verið að æfa fyrir einhverjar skemmtanir og uppákomur. Ef það var ekki fyrir árshátíð Gagnfræðaskólans ­ þá fyrir eitthvert átthagafélagið, íþróttafélag o.s.frv.

Kunningjarnir fylltu stofurnar og þegar Gréta djassaði "Stormy Weather" bárust hljómarnir langt út á hlað frá uppljómuðu húsinu. Og húsfreyjuna þraut hvorki þolinmæði né kurteisi, þótt hátt léti. Hún var sannur vinur vina dætra sinna og hlúði að gleði og græskulausri skemmtan unga fólksins. "Veröld sem var" jú, víst ryðjast fram æskumyndir við brottför sómakonu, sem átti drjúgan þátt í að skapa þær.

Siglufjörður að sumri ­ Siglufjörður að vetrarlagi, það voru tveir ólíkir heimar. Ásta var jafnvíg á þá báða.

Enn minnist ég notalegra síðkvölda á Gránugötunni, þegar vetur konungur lagðist að með hryssingi, þá sat Ásta undir lampanum og prjónaði um leið og hún leiðbeindi okkur Steinu við jólagjafir, sem við vorum að búa til. Ævinlega enduðu þessar stundir með því að hún bar inn hafrakexið sitt góða, gráfíkjusultuna heimatilbúnu og ískalda mjólk.

Nú er stóra húsið við Gránugötuna horfið sem og nöfin sem undirrituð ólst upp í. Löngu lífi góðrar konu er lokið. Steinu vinkonu minni og öðrum ástvinum votta ég samúð mína.

Jóhanna D. Skaftadóttir.
--------------------------------------

30. september 1999

Ástríður Guðmundsdóttir

Drottinn gerðu hljótt í hjarta mínu helga mig og gef mér friðinn þinn. Sendu mig að vinna að verki þínu, veita hjálp og þerra

Ástríður Guðmundsdóttir

 • Drottinn gerðu hljótt í hjarta mínu
 • helga mig og gef mér friðinn þinn.
 • Sendu mig að vinna að verki þínu,
 • veita hjálp og þerra tár af kinn.
 • Drottinn gerðu hljótt í huga mínum
 • hugsun mín og vilji sé í þér.
 • Gef ég æ af sönnum sigri þínum
 • segi þeim er líða og óttast hér.
 • Gjörðu líf mitt hljótt í þessum heimi,
 • hjálpa mér að lifa einum þér.
 • Auðmýkt veit mér, gef að líf mitt geymi
 • glætu þegar dimmt hjá mönnum er.
 • Drottinn ger mig hljóðan, minnstur maður
 • mun ég ávallt vera í þinni hjörð.
 • Bara ef sleppi ég öllu get ég glaður
 • gjafa þinna notið hér á jörð.

(Ólafur Jóhannesson.)

Þessi sálmur gæti svo auðveldlega verið lífssaga hennar ömmu Ástu í hnotskurn, saga af fallegri, góðri konu sem helgaði líf sitt því að hugsa um velferð fjölskyldunnar og annarra samferðamanna.

Amma var orðin 99 ára þegar hún fékk hina langþráðu hvíld og nú trúi ég að hún sé búin að hitta afa Friðrik og jafnvel sitji þau á móti hvort öðru við borð og leggi kapal í friði og ró eins og þau gerðu svo oft hér á árum áður.

Á þessum tímamótum ryðjast svo margar minningar fram, margar myndir birtast. Amma að ná þreytu og verkjum úr fótunum í sjóðheitu fótabaði, amma að tala við blómin sín, amma að leggja kapal, amma með prakkarasvipinn á andlitinu, hallar undir flatt, réttir lófann til mín og segir "Legg í lófa karls, karls, karl skal ekki sjá" og svo hláturinn hennar, þessi sérstaki, skemmtilegi hlátur.

Hjá ömmu varð einhvern veginn allt að leik, henni tókst að gera hversdagana að hátíðisdögum og aldrei datt manni í hug að óhlýðnast henni. Amma kenndi mér margt skemmtilegt, t.d. að sjá ævintýramyndir í skýjunum og fjöllunum og að það er til fleira hér í heimi en það sem augað sér. Allar þessar minningar úr barnæskunni eru fjársjóður sem ég mun geyma vel og sem ég þakka fyrir að eiga.

Ég vil líka þakka allar skemmtilegu stundirnar hjá ömmu og afa eftir að ég fullorðnaðist og kom til þeirra í sunnudagsheimsóknir með minni eigin fjölskyldu. Þakka góðu ráðleggingarnar, umhyggjuna og síðast en ekki síst það að amma leyfði mér alltaf að vera eins og ég er, hún reyndi aldrei að breyta mér, hjá henni mátti ég bara vera.

 • Leiðirnar skiljast en ljós okkar skín
 • er liðinna daga minnumst.
 • Ég þakka af hjarta og hugsa til þín
 • uns heima hjá Drottni við finnumst.

(Ók. höf.)
Ásta Magnea.