Tengt Siglufirði
Mjölnir - 20. desember 1975 MINNINGARORÐ
Anney Ólfjörð Jónsdóttir Fædd 20. júní 1912. — Dáin 28. nóvember 1975.
Anney Jónsdóttir dó að kvöldi 28. nóv. s. 1. í Sjúkrahúsi Siglufjarðar. Hennar baráttu fyrir lífinu
við dauðann var lokið. Andlátsfregn verður stundum reiðarslag nánustu ástvinum og aðstandendum, en nú kom dauðinn sem lausnari frá þraut og þjáningu, ekki óvæntur
eða óvelkominn.
Síðustu vikur og mánuði, þegar ljóst var að hverju stefndi og hún vissi það sjálf, þá reyndi máske meira á hetjulund hennar og staðfestu
'en nokkru sinni fyrr, og þeir sem daglega heimsóttu hana dáðust að kjarki hennar og styrk allt til hinztu stundar.
Eiginmaður hennar, Óskar Garibaldason, studdi hana og styrkti með karlmennsku sinni og æðruleysi, ástúð og umhyggju, svo sem framast hún mátti. Nú sem fyrr stóðu þau saman í baráttunni, þó svo leiðir yrðu að skiljast að lokum.
Þegar komið er að því að kveðja hinztu kveðju einhvern þann, sem maður hefur átt að samferðamanni um lengri eða skemmri leið á lífsins vegi, þá rifjast upp hin fyrstu kynni, hvar þau hófust og með hverjum hætti.
Ég minnist þess nú, er ég kveð félaga og vin minn Anneyju Ólfjörð Jónsdóttur látna, eiginkonu Óskars Garibaldasonar, að undir þeirra þaki átti ég skjól um nokkurn tíma minnar fyrstu veru hér á Siglufirði fyrir röskum 32 árum, át við þeirra borð, — naut þeirra hispurslausu og sjálfsögðu gestrisni. — Þarna, góði minn, njóttu þess sem þér er boðið. —
Engin tilgerð eða sýndarmennska. Þannig kynntist ég þeim, þannig voru þau. Ef ég rifja upp fleira af því, sem mér er minnisstæðast af kynnum við þau hjónin, þá er það helzt, hvað mér þótti Anney sköruleg kona, stór og gerðarleg, myndarleg bæði að ásýnd og til verka. Hún var dugnaðarforkur, ósérhlífin, gekk að hverju starfi .af atorku.
Hún var skapmikil, hörð í skoðunum, hreinskilin og beinskeytt, sagði hverjum þeim sem hún ræddi við, meiningu sína umbúðalaust, oft án þess að hefla orðbragðið, ef henni var heitt í hamsi. Óskar var hægari að gerðum, en fór eigi að síður sínu fram, sem hann ætlaði. Á heimili þeirra fann ég þann byltingaranda, sem mér, ungum sósíalista, nýkomnum úr fámenni smáþorpsins, var framandi, en samt uppörvandi og hvetjandi, og mér fannst ,Anney vera dæmigerð kona úr róttækustu forustusveit verkalýðsins, — minna að nokkru á Sölku Völku.
Þar á heimilinu fór saman hin daglega barátta verkamannsins, að vinna fyrir nauðþurftum, annast heimilisstörfin og umsjá barnanna, sem þá voru þrjú komin, og félagsmálabaráttan, störf í verkalýðsfélögunum og Sósíalistaflokknum. Umræður um taktík og teoríu blönduðust eðlilega og ósjálfrátt saman við dægurmálin, sem voru í brennidepli þá hverju sinni.
Anney tók þátt í bæði faglegum og pólitískum félagsstörfum, henni voru falin margvísleg trúnaðarstörf, m. a. var hún formaður Verkakvennafélagsins Brynju á tímabili. Hún var góðum gáfum gædd, hafði yndi af söng og tónlist, starfaði í ýmsum kórum, kvennakór, blönduðum kórum og Kirkjukór Siglufjarðar. Á þessu sviði áttu þau hjónin líka sameiginleg og brennandi áhugamál, því Óskar er mikill tónlistarunnandi og starfaði einnig í kórum.
Ég tel tvímælalaust. að til heimilis þeirra, Anneyjar og Óskars, megi rekja upphaf að einu grózkumesta og fjölbreytilegasta tónlistartímabili í sögu Siglufjarðar. Anney átti þar að drjúgan hlut. Óskar var einn helzti hvatamaður að stofnun Lúðrasveitar Siglufjarðar, sem síðar leiddi til þess að Tónskóli Siglufjarðar var á fót settur af Sigursveini D. Kristinssyni, tónskáldi.
Á eftir Lúðrasveit og Tónskóla kom svo Söngfélag Siglufjarðar (Blandaður kór) og síðar endurvaktist starf Karlakórsins Vísis, þegar skólastjóri Tónskólans tók við söngstjórn hans, og um líkt leyti varð samstarf um skólahald milli Tónskóla Siglufjarðar og Tónlistarskóla Vísis undir skólastjórn Geirharðs.
Í sambandi við skólastarfið hvíldi mikil fjármálaábyrgð á herðum Óskars og heimili hans varð á margan hátt tengt þessu starfi; þess minnumst við, sem vorum meiri eða minni þátttakendur í því, og þar stóð húsfreyjan ekki að baki bónda sínum.
Í upphafi þessa tónlistarstarfs voru elztu börnin, þau Hörður Óskarsson og Erla Óskarsdóttir, farin að heiman til náms, en bræðurnir fjórir, Hlynur Óskarsson, Hallvarður Óskarsson, Hólmgeir Óskarsson og Sigurður Óskaarsson voru heima og allir nemendur í hljóðfæraleik.
Oft hefur' því látið hátt í eyrum Anneyjar, þegar æfingar þeirra bræðra stóðu yfir, en þetta tónlistarstarf var hennar hjartans mál. Yngsti sonurinn, Sigurður, var eflaust mesta listamannsefni þeirra bræðra, hann nam fiðluleik. Það var því þungur harmur að þeim kveðinn, er hann dó 11 ára að aldri, greindur og geðþekkur drengur, hvers manns hugljúfi.
Hinir bræðurnir iðka enn tónlist, ýmist sem aðalstarf (Hlynur), eða tómstundagaman í lúðrasveit og danshljómsveit.
Anney þótti oft hörkutól til geðs og gerða. Lífsbaráttan sjálf, stéttabaráttan, skilningur hennar á eðli þeirrar baráttu, réttlætiskennd hennar, góðvild og hjálpsemi við þá, sem minna máttu sín og áttu í erfiðleikum, — allt þetta herti hana þegar til átaka kom, og að láta hart mæta hörðu var henni eiginlegra en hitt. Blíðlyndi hennar, kærleik og hjálpsemi, þá eiginleika, sem hún átti í ríkum mæli, þekktu bezt hennar nánustu vinir og þeir, sem urðu aðnjótandi þeirra á einhvern hátt.
Í góðra vina hópi var hún hrókur fagnaðar og naut þess að skemmta sér á mannamótum, því glaðlynd og félagslynd var hún að eðlisfari. Nú, þegar þessi sterka kona er fallin um aldur fram, er vissulega skarð fyrir skildi. Við, sem áttum hana að pólitískum samherja, fengum, oft að heyra sannleikann bitran og sáran af vörum hennar um pólitískan vesaldóm, hægri villur og kratisma. Þar brýndi vægðarlaust maður mann.
Þar ómaði tónn stálsins harða og varð ekki falskur af dignandi málmi. Við fundum réttmæti ádrepunnar, en ekki verður við allt ráðið. Það skiptast á skin og skúrir — hin rauða fylking riðlast stundum, en raðirnar þéttast á ný. I heiminum öllum er barátta háð fyrir frelsi, jafnrétti og bræðralagi manna. Þar ýmist gengur eða rekur, sigur vinnst á einum stað, ósigur goldinn á öðrum, en samt stækka og breiðast yfir jörðina rauðu svæðin, sem tákna sigra sósíalismans yfir kapítalismanum.
Við, sem svo oft vorum brýnd til dáða af þeirri konu, sem nú er kvödd, getum bezt
heiðrað minningu hennar með því að halda áfram að starfa að hugsjónamálum frelsis, jafnréttis og bræðralags, því í þeim felst allt það, sem henni
stóð hug og hjarta næst. Merki skal standa, þótt maðurinn falli. Við hjónin vottum ástvinum hennar öllum okkar innilegustu hluttekningu.
Einar M. Albertsson