Anton Jóhannsson

Morgunblaðið - 10. maí 1968 

Anton Jóhannsson: Fæddur; 03-10-1889  Dáinn; 19-03-1968

Anton Jóhannsson. Hann var fæddur að Efri —Skútu og ólst hér upp í firðinum. Hann hafði náð 11 ára aldri þegar hann missti föður sinn. Drukknaði hann í fiskiróðri og eftir það varð Anton að gerast fyrirvinna móður sinnar, svo sem sorglega oft hefir verið títt hér á Íslandi.

Framanaf aldri stundaði hann mest sjómennsku en gerðist síðar fastur starfsmaður Síldarverksmiðja ríkisins og gekk þar til vinnu sinnar fram í andlát.

Á blómaskeiði sínu var Anton hið mesta hraustmenni og kom það kannski gleggst fram þegar hann féll fyrir borð af síldveiðiskipinu „Njáli". Anton var ósyndur en tókst með snarræði sínu að ná taki í kaðalspotta — og varð það til að bjarga lífi hans. Enginn skipsfélaga hans hafði tekið eftir slysinu og leið alllöng stund þar til honum var bjargað.

Anton Jóhannsson

Anton Jóhannsson

Þá vil ég minnast á annað atriði úr lífi hans þar sem það gerðist hlutverk hans að bjarga mannslífi. Lítil stúlka, 6 ára að aldri var að leika sér alein á svokölluðu „Tynesarplani".
Féll hún þá í sjóinn niður um gat á bryggjunni — og var þetta því hættulegra, sem þetta skeði í matmáls tíma og enginn viðstaddur.

Ung stúlka Rannveig Sveinsdóttir Jónssonar frá Steinaflötum (látin 1940) var á heimleið um Suðurgötu heyrði hún óglöggt hljóðin í telpunni en þegar hún komst á slysstað varð það henni þegar ljóst, að hún var ekki einfær um að koma við björgun. í þess stað hvatti hún telpuna til þess að halda sér fastri, en þetta var ekki auðvelt.

Eftir drykklanga stund bar þarna Anton að og var hann einnig á heimleið úr vinnu sinni. Er það skemmst frá að segja, að þeim Rannveigu og Anton tókst að bjarga telpunni og bera hana meðvitundarlausa heim til sín — þar sem hún raknaði við. Það er mikil guðs gjöf, að verða fyrir því láni, að bjarga mannslífum úr slysahættu og við aðstandendur þeirra, sem lífgjafarinnar njóta, stöndum í ævarandi þakkarskuld við guð og menn.

Aage Schiöth