Ástvaldur Einarsson rafmagnseftirlitsmaður

Morgunblaðið - 06. mars 1976 - Minning: 

 Ástvaldur Einarsson var fæddur á Steinavöllum í Flókadal I Vestur-Fljótum í Skagafirði 5. október 1886. Dáinn: 27. Febrúar 1976

Hann andaðist á Sjúkrahúsi Akraness föstudaginn 27. Febrúar 1976 og verður jarðsunginn frá Akraneskirkju í dag, laugardaginn 6. mars. Foreldrar hans voru Einar Baldvinsson og Anna Jónsdóttir, sem bjuggu þar með stóran barnahóp. Var Ástvaldur eitt af tíu systkinum sem til fullorðins ára komust. Ólst hann upp í foreldrahúsum, en eins og nærri má geta fór hann snemma að vinna utan heimilis og fór ungur til sjós, m.a. á hákarlaskip. Þegar hugur þroskaðist og hönd fékk löngun til að takast á við fjölbreyttari verkefni en hin einangraða sveit bauð upp á lá leið Ástvaldar eins og margra ungra manna til Siglufjarðar.

Vann hann þar við ýmis störf en hjá Ásgeiri Bjarnasyni, fyrrverandi rafveitustjóra í Siglufirði, Iærði hann rafvirkjastörf, sem urðu hans ævistarf. Ásgeiri rak þá raftækjavinnustofu og voru þeir bræður Ástvaldur og Lúther báðir í læri á sama tíma. Sveinspróf tók Ástvaldur 30. jan. 1937 og meistarabréf 23. jan. 1943.

Ástvaldur Einarsson

Ástvaldur Einarsson

Hvað olli því að Ástvaldur lagði fyrir sig þessa iðngrein veit ég ekki, en trúlega hefur hvatt hann til þess mágur hans, Jón Gunnlaugsson, rafstöðvarstjóri,  sem sá einnig um kerfi rafveitunnar. Jón var giftur Sigurjónu Einarsdóttur og áttu þeir bræður athvarf hjá þeim. Ástvaldur rak raftækjavinnustofu í félagi við Jóhann Jóhannesson í allmörg ár eða til ársins 1949, er hann réðst til Rafveitu Siglufjarðar sem eftirlitsmaður raflagna.

Í því starfi var hann fastráðinn til ársins 1968, en rafveitan naut starfskrafta hans fram á s.l. ár, sem fólst m.a. í skýrslugerð og eftirliti með spjaldskrám. Starf hans sem eftirlitsmaður raflagna í Siglufirði á þessu tímabili er um margt mótandi i ágætu samstarfi við Rafmagnseftirlit ríkisins, sem hann var jafnframt trúnaðarmaður fyrir á staðnum.

A þessum árum eru mjög mikil umsvif i Siglufirði bæði er viðkemur síldarsöltun og bræðslu og aukinni útgerð. Reyndi mjög á ákveðna skapgerð Ástvalds til þess að sjá svo um að allur búnaður með raflögnum væri með þeim hætti að ekki stafaði hætta af. Tel ég hiklaust að honum megi mikið þakka að enga eldsvoða er hægt að rekja til íkveikjunnar frá rafmagni, eins og var þó mikil hætta á s.br. að allir síldarbraggar fylltust af fólki og rafmagn notað bæði til upphitunar og eldunar.

Einnig var Skeiðsfossvirkjun stækkuð á þessu tímabili eða 1953, og fylgdi því einnig aukning og stækkun dreifikerfisins í Siglufirði, sem hann tók þátt í að skipuleggja með Ásgeiri Bjarnasyni rafveitustjóra. Mér er einnig kunnugt um að samstarf hans og Tryggva Sigurbjarnasonar fyrrverandi rafveitustjóra var með ágætum. Eftir að ég tók við rekstri Rafveitu Siglufjarðar var Ástvaldur aðeins fastráðinn í tvö ár sökum aldursákvæða, hins vegar beitti ég mér fyrir því að rafveitan gæti notið starfskrafta hans áfram og var svo, þar til á s.l. ári, að hann hætti vegna sjúkleika. Trúverðugri og traustari starfsmanns get ég vart hugsað mér og aldrei brá skugga á samstarf okkar.

Ástvaldur tók nokkurn þátt i félagsmálum og hygg ég að Iðnaðarmannafélag Siglufjarðar hafi verið honum kærast, en hann var í stjórn þess í fjölmörg ár, og bar hann hag þess ávallt mjög fyrir brjósti. Í hans hlut komu störf í Iðnráði Siglufjarðar svo og prófnefndum rafvirkja og kom einnig fram i þeim störfum hans einstaka samviskusemi. Siglfirðingar minnast hans nú með þökk fyrir dygga þjónustu. Ég veit að ég mæli fyrir munn samstarfsmanna hans hjá Rafveitu Siglufjarðar að við kveðjum hann með söknuði. Eftirlifandi konu hans og öðrum ástvinum sendi ég og fjölskylda mín hugheilar samúðarkveðjur.

Sverrir Sveinsson. rafveitustjóri.