Baldvin Jóhannsson, (alt mulig mand)

Mbl.is --10. janúar 2009 | Minningargreinar

Baldvin Jóhannsson fæddist á Tjörnum í Sléttuhlíð í Skagafirði 21. júní 1921.
Hann lést á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 30. desember síðastliðinn.

Hann var sonur Sigríðar Konráðsdóttur, f. 16. nóvember 1900, d. 22. febrúar 2000 og Jóhanns Skúlasonar, f. 25. desember 1866, d. 6. ágúst 1954.
Þau áttu þennan eina son saman og var hann eina barn móður sinnar en átti hálfsystkin, samfeðra og af þeim eru 6 enn á lífi:

 • Sigríður,
 • Ágúst,
 • Lára,
 • Jóhanna,
 • Halldóra og
 • Skúli.
Baldvin Jóhannsson - ókunnur ljósmyndari

Baldvin Jóhannsson - ókunnur ljósmyndari

Baldvin kvæntist 24. febrúar 1945 Anna Hulda Júlíusdóttir og eignuðust þau 6 börn.

Þau eru:

 1. Theodóra Hafdís Baldvisson, f. 1945, búsett í Noregi.
 2. Konráð Karl Baldvinsson, f. 1946, búsettur á Siglufirði, maki Erla Hafdís Ingimarsdóttur.
 3. Júlíus Sævar Baldvinsson, f. 1947 d. 1997, var kvæntur Hafrúnu Víglundsdóttir og voru þau búsett í Garðinum þar sem Hafrún býr enn.
 4. Sigurður Örn Baldvinsson, f. 1948, búsettur á Siglufirði, maki Halldóra Jörgensen.
 5. Ásdís Eva Baldvinsdóttir, f. 1951, búsett á Siglufirði, maki Hörður Þór Hjálmarsson.
 6. María Gíslína Baldvinsdottir, f. 1954, maki Ari Trausti Guðmundsson og eru þau búsett í Reykjavík.

Barnabörnin eru 18 og barnabarnabörnin 28.

Baldvin ólst upp í Sléttuhlíðinni til 4 ára aldurs hjá móðurömmu sinni og afa og flutti þá með þeim til Siglufjarðar en dvaldist þó í Málmey hjá móður sinni á vetrum fram yfir fermingu. Fermingarvorið bjó hann að Bæ á Höfðaströnd, gekk til spurninga í Hofsós og var síðan fermdur að Hofi á Höfðaströnd árið 1935.

Árin eftir fermingu var hann enn í eynni á vetrum en vann hin ýmsu störf á Siglufirði á sumrin, á síldarplönum og á síldarbátum þrjú sumur 1939 til 1941. Meðal þess sem hann vann við í Málmey var að byggja vitann sem enn stendur. Síðar, á Siglufirði, vann hann í Rauðku, síldarbræðslunni og varð ársmaður þar þangað til verksmiðjan var lögð niður. Eftir það voru trésmíðar aðalatvinna hans og kom hann að húsbyggingum á Seyðisfirði, í Garði og þeir voru ófáir bátarnir sem hann smíðaði. Útför Baldvins fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Þó við vissum að endalokin væru nærri var áfallið samt svo mikið. Fyrirfram er einhvernveginn óhugsandi að úr tilverunni geti horfið þeir sem ólu önn fyrir okkur og komu okkur til manns. Pabbi er farinn yfir móðuna miklu en sú hugsun að þar bíði hans móðir og sonur ásamt fleira af góðu fólki, er huggun harmi gegn.

Ósjálfrátt leitar hugurinn til baka og myndirnar streyma fram, myndir af pabba í vinnugallanum, pabba í sparifötum að fara á þorrablót, pabba liggjandi á gólfinu þegar bakið angraði og svo pabba sem huggaði þegar eitthvað bjátaði á. Það er sól og síldarbræla í firðinum og við yngstu systurnar sendar með nestið til hans þegar unnið var sólarhringum saman í bræðslunni. Pabbi að koma heim fyrir jólin eftir að hafa verið langtímum saman í vinnu annars staðar vegna skorts á atvinnu heima.

Pabbi með hamar og sög, pabbi með byssu í annarri og villibráð í hinni. Pabbi að syngja ættjarðarljóð með vinum sínum og þeir allir dálítið glaðir. Pabbi með myndavélina, við krakkarnir uppábúið myndefnið og kannski svolítið leið á að sitja kyrr svona lengi. Svo eru það hin síðari ár þegar hann var kominn á eftirlaun og þegar heilsan fór að bila. Pabbi í hjólhýsinu með mömmu og strákunum. Einhver með veiðistöngina við fjöruborðið og svo pabbi við grillið á eftir. Allir fóru saddir og sælir heim.

Hann Baldi Jó var góður maður sem gott var að leita til, hvort heldur var af nánustu fjölskyldu eða öðrum.

Hann hefur fengið síðasta kallið og hann svaraði því ljúflega eins og hans var vani þegar til hans var leitað. Í þetta sinn kemur hann ekki aftur nema sem minning og mun lifa þannig með okkur áfram.

Við erum óendanlega þakklát fyrir að hafa átt hann að, sendum með honum allt það besta sem við höfum og eigum honum að þakka. Við munum gæta hvert annars þar til að okkur kemur.

Hinsta kveðja til þín, kæri pabbi.

Fyrir hönd nánustu ættingja, Ásdís Eva.
-------------------------------------------------

Elsku Baldi, þá er komið að kveðjustund.

Mín fyrstu kynni af þér voru árið 1970 þegar ég kom í heimsókn til ykkar Önnu. Þá vorum við Júlli ný trúlofuð og yfir okkur ástfangin, hann kynnti mig fyrir ykkur, tilvonandi tengdaforeldrum mínum. Síðan þá hefur þú alltaf átt stóran sess í hjarta mínu. Matarvenjur þínar voru mér mjög framandi, þú saupst eggin hvert af öðru og drakkst rjómann beint úr fernunni af mikilli innlifun og svo var það allur fiskurinn og hákarlastappan sem þú reyndir alltaf að fá mig til að smakka, ég þrjóskaðist alltaf við en sé nú eftir því að hafa ekki smakkað bara til að gleðja þig. Þú sagðir alltaf að ef ég fengist til að smakka þá tæki ég hana fram yfir fínasta konfekt.

Ég á margar góðar minningar frá Bakka þegar við Júlli heimsóttum ykkur á hverju sumri með alla krakkana. Þið genguð úr rúmi fyrir okkur og sváfuð sjálf á gólfinu í kjallaranum svo það færi sem best um okkur, þvílík var gestrisnin, og þú barst í okkur ís og súkkulaði alla daga. Þar sem þú varst var alltaf mikil gleði og kátína. Þú varst alltaf svo ánægður með allt þitt, litla húsið þitt, gamla bílinn þinn og hjólhýsið sem ég held að hafi verið höll í þínu hjarta. Það sem einkenndi þig alla tíð var mikil gleði, skemmtilegar sögur og söngur.

Elsku tengdapabbi, takk fyrir allt og góða ferð. Það gleður mitt hjarta að vita að Júlli minn heittelskaði og þú eruð nú saman í paradís. Guð varðveiti þig. Elsku Anna, það er frábært hvernig þú hefur annast hann Balda og umvafið hana kærleik og hlýju í veikindum hans, reyndar kemur það ekki á óvart því þú varst alltaf hans hægri hönd. Guð hjálpi þér að takast á við söknuðinn og sorgina.

 • Ég bið þig, ó, Drottinn, að dvelja mér hjá,
 • að dýrðina þína ég fái að sjá.
 • Ó, blessa þú, Jesús, öll börnin þín hér,
 • að búa þau fái á himnum hjá þér.

(Björgvin Jörgensson)

Þín tengdadóttir Hafrún Víglundsdóttir.
-------------------------------------------------------

Við fyrstu komu til Siglufjarðar á miðjum vetri fyrir 35 árum tók dökkur og reffilegur, meðalhár maður á móti mér á bryggjunni ásamt elskunni minni. Baldvin hét hann Jóhannsson, kallaður Baldi í Bakka, á sinni Volkswagen-bjöllu, og heilsaði hressilega. Hann varð fljótlega tengdafaðir minn og vinnufélagi við trésmíði og byggingar á staðnum – ég nýgræðingur í sumarvinnu, hann í sínu fasta starfi eftir margs konar síldarvinnu og handverk í þessum mikla útgerðarbæ. Hann vann reyndar víðar um land.

Ekki þótti honum verra að geta sagt mönnum til og kennt þeim handbrögðin. Þeir eru margir verka- og síðar iðnaðarmennirnir sem lærðu af honum og minnast hans nú með hlýju. Eðlislæg smíðaleikni sá til þess að vel gekk og svo var Baldi bæði félagslyndur, skipulagður og ráðdeildarsamur. Hvað honum var meðfætt úr Skagafjarðarættum og hvað að lært, til dæmis úr Málmey þar sem hann sleit barnsskónum, veit ég ekki en að mörgu leyti var hann holdgervingur þeirra fjölmörgu fróðu, dugmiklu, ráðagóðu og handlögnu manna til sjávar og sveita sem svo mörg okkar höfum kynnst, heyrt af eða lesið um.

Og kappsfullur var hann. Þegar hann sótti okkur hjón og kornungt barnabarnið eitt sinn á Sauðárkrók og stórhríð hamlaði för í myrkri í snarbröttum skriðum á Almenningum var ekki snúið við, heldur keðjað og tengdasonurinn fenginn til að ganga á undan bílnum í meira en vafasömu færi.

Smám saman kynntist ég manninum betur og tengdamóðurinni með, Önnu Huldu, mikilli sómakonu sem hafði unnið hörðum höndum eins og Baldi við margvísleg störf í bænum.

Börnin þeirra eru sex talsins og barna- og barnabörnin orðin mörg, svo tugum skiptir. Þeim öllum hafa mamma og pabbi, afi og amma reynst einkar vel. Þessi viðkynning felur í sér margar góðar minningar liðinna ára.

Baldvin var skemmtilegur selskapsmaður. Til dæmis kunni hann mýgrút af sögum, vísum og söngtextum, og var lagviss söngmaður. Hann hafði áhuga á íþróttum og bókum og fylgdist vel með þjóðmálum með hjartað á réttum stað fyrir sitt fólk og sína stétt. Orð fór af honum sem slyngum veiðimanni hvort sem var með veiðistöng á lofti eða net í sjó eða þá með byssuna á höttum eftir öllu ætu. Og ekki var gestrisnin gleymd. Bakki og síðar húsið innar við Hvanneyrarbrautina voru okkur, fjölskyldunni að sunnan, kærkominn staður þar sem var gott að dvelja í Siglufjarðarheimsóknunum.

Þau hjón deildu hjólhýsi með frændum sínum fast við fjöruna við Hraun í Fljótum þar sem sumrin verða hvað fallegust á Norðurlandi. Þegar árin liðu, eftirlaunatíðin tók við og um hægðist voru ferðir þangað eða inn um sveitir, út á land og til Akureyrar eða Reykjavíkur oft á dagskrá og Baldi í essinu sínu. Hann smíðaði líka í tré fram eftir elliárunum – og eins og áður gilti einu hvort var um til dæmis tröppur eða hurðir að ræða eða fíngerða skápa undir smáhluti.

Baldvin Jóhannsson varð 87 ára og bar aldurinn vel fram undir síðustu mánuði. Að leiðarlokum kveð ég hann með söknuði og þökk fyrir allar stundirnar síðan á bryggjunni forðum, við síðuna á Drangi.

Ari Trausti Guðmundsson.
-----------------------------------------------

Elsku Baldi afi. Nú ertu búinn að hitta Júlla afa og Siggu ömmu aftur og hefur örugglega verið mikil gleði hjá ykkur að koma aftur saman. Ég er svo þakklátur fyrir að hafa farið og heimsótt ykkur Önnu ömmu í sumar, ekki bara einu sinni heldur tvisvar. Eftir fyrra skiptið sögðu mér allir að þetta hefði nú líklega verið í síðasta skiptið sem ég sæi þig en það var eitthvað sem ég fann á mér að svo væri nú aldeilis ekki og sú varð raunin.

Við Ásdís fórum aftur á Sigló um verslunarmannahelgina og þegar ég leit inn voruð þið amma bara að horfa á Formúluna en þegar ég kvaddi þig í þetta skiptið var handtak þitt svo innilegt að ég held að þú hafir vitað það sjálfur að þetta væri í síðasta skiptið sem við hittumst, að minnsta kosti í bili, og svo reyndist vera.

Elsku Anna amma, þú lifðir fyrir manninn þinn sem nú er farinn en þitt líf er alls ekki búið, haltu áfram að vera eins og þú ert, alveg yndisleg.

Að lokum sendi ég ykkur ritningargrein sem ég dró úr orðum Guðs eftir að ég heyrði fréttirnar um að hann Baldi afi væri dáinn.

Jesús sagði: „Mínir sauðir heyra raust mína, og ég þekki þá, og þeir fylgja mér. Ég gef þeim eilíft líf, og þeir skulu aldrei að eilífu glatast, og enginn skal slíta þá úr hendi minni.“ (Jóh. 10:27-28.)

Hvíldu í friði, sjáumst síðar.

Skarphéðinn og Ásdís.
-------------------------------------------------

Elsku afi Baldi, þá er komið að kveðjustund. Mig langar að þakka þér allt sem þú hefur verið fyrir mig. Þegar ég var tveggja ára kom ég inn í fjölskylduna þína með mömmu sem hafði þá gifst syni þínum Júlla, sem gekk mér strax í föðurstað, og þú elsku afi leyfðir mér undireins að kalla þig afa og svo núna í seinni tíð hefurðu alltaf tekið vel á móti strákunum mínum og Gumma. Jæja afi minn mig langar að senda þér kvæði, Nú er lag, sem mér finnst passa þér svo óskaplega vel. Takk fyrir allt og allt.

 • Út við sjónarrönd leynist gullin strönd
 • og þar kýs ég oft að dvelja
 • þar er kyrrð og ró út við lygnan sjó
 • og þar á ég lítinn kofa
 • sumardægrin löng ég hlýði á fagran söng
 • sem þar berst mér oft til eyrna
 • allir una við hreina loftslagið
 • engin þörf á því að menga
 • fólk hér kann sér hóf ekkert græðgikóf
 • hér er kappnóg fyrir alla
 • ef þú sérð inná við inná annað svið
 • munt þú heyra sönginn fagra
 • nú er lag
 • kveikjum nýja elda kveikjum þá í dag.

(Þorsteinn Einarsson.)

Elsku amma, við biðjum algóðan Guð að gefa þér styrk og vaka yfir þér.

Kristín, Guðmundur, Júlíus Rúnar og Víglundur.
------------------------------------------------------

Kær vinur er farinn úr okkar jarðvist og þá ákveður maður að þrautum og öðrum þessa heims verkefnum sé lokið og menn séu komir á þann stað þar sem ríkir fegurð, friður og eilíf velsæld.

Hann söng mikið og að mér fannst vel því hann söng með hjartanu, ættjarðar- og ástarlög og fyrir gat komið að hann syngi líka pínulítið tvíræðar. Hann kunni líka mikil kynstur of kveðskap sem hann fór með á góðum stundum, flestar fallegar, sumar tvíræðar allar skemmtilegar.

Margar sögur hef ég heyrt af honum á yngri árum þegar hann þaut af stað ef fréttist af sel eða öðru sem tilheyrði mataraðföngum. Það kom líka galsi í augun ef minnst var á kollusúpu enda stranglega bannað að vita nokkuð um þess konar bragð.

Hann vann þau verk sem til féllu, þótti smiður góður, svona einn þessara þúsundþjalasmiða.

Þegar ég kynntist honum var hann ekki lengur í heilsufarslegu toppformi en mjög áhugasamur um allt mannlegt og lifandi. Þar var maður sem stöðugt var að spekúlera í mat og matargerð og mér skilst að þannig hafi hann alltaf verið. Trúlega ólíkur mönnum á sinni samtíð því þeir hafa flestir verið meira í að bíða eftir að matur væri á borðum og þá jafnvel liggjandi í dívan en að matreiða. Spurningin var t.d. hvort hann næði í lappir í haust, þeir væru hættir að skaffa þær á sláturhúsunum vegna einhverrar sjúkdómahræðslu sem honum þótti tóm della, hvernig yrði með berin? hvort næðist í silung o.s.frv.

Hákarlastappa var búin til inni í Fljótum árlega og var mikill viðburður og mikil vinna lögð í að búa hana til við fjölmenni. Þetta þótti okkar manni mikið sælgæti og reyndar fleirum. Hann gaf okkur Sævari dós, ég gretti mig, en Sævar ekki enda þeir dálítið líkir í mataráhuganum.

Mín kynni af Balda og Önnu eru mér fallegar perlur í minningakistuna. Að koma til þeirra í „dúkkuhúsið“ á Eyrargötunni var dálítið ævintýri, allt svo lítið en svo snyrtilegt og heimilislegt. Myndir um allt af hópnum þeirra á hinum ýmsu tímum ævinnar. Á borðinu smurðar sneiðar og kaffibrauð, svo heimilislegt og notalegt.

Baldi átti afmæli í sumar og við fórum vestur. Það leyndi sér ekki að okkar maður var í slappara lagi, en veðurguðirnir gengu til liðs við okkur öll þá. Og þó að margir væru mættir í litla húsið væsti ekki um neinn og við fengum öll mat og drykk ríkulega og nutum dagsins bæði úti og inni.

Mín síðasta minning af Balda er í þessari heimsókn. Nágranni hafði gefið honum fallegan steinbít og þegar við kvöddum stóð hann við eldhúsbekkinn og var að sneiða í þunnar sneiðar steinbítinn góða, sem átti svo að elda eftir þeirra heiðurshjóna kokkabókum og venjum.

Að leiðarlokum þökkum við Sævar fyrir góðar stundir, hlýja og einlæga vináttu og síðast en alls ekki síst gaman og gleði með þessum aldna heiðursmanni og vini.

Önnu og fjölskyldunni allri sendum við samúðarkveðjur, hann lifði ríkulega og minningarnar eru ljúfar og skemmtilegar.

Ykkar vinkona Sólveig.
----------------------------------------------

Hinsta kveðja

Í huganum ríkir þakklæti. Þakklæti fyrir minningar sem skapast hafa með hlutverki þínu. Minningar um afa, langafa. Minningar sem ylja munu hjörtum okkar í leik og starfi, í gleði og í sorg. Minningar sem áfram munu lifa og varðveitast í litlum hjörtum. Litlum hjörtum næstu kynslóða. Minningar um afa. Minningar um langafa.

Minningar sem við munum skapa í okkar hlutverki vegna þín. Minningar sem ylja munu hjörtum þeirra í leik og starfi í gleði og í sorg. Í mínum huga ríkir þakklæti, þakklæti fyrir minningar um þig afi, langafi.

Elsa Inga og fjölskylda.